30.10.1957
Sameinað þing: 7. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 163 í D-deild Alþingistíðinda. (2535)

23. mál, framlag til lækkunar á vöruverði

Flm. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Fá eða engin mál eru nú meira rædd hér á landi né hafa verið heldur, en hin svokölluðu efnahagsmál og sá vandi, sem að steðjar í þeim. Hvaða úrræði sem menn telja þar vænlegust eða hverjar orsakir sem menn telja vera að þeim örðugleikum, sem við er að etja, þá er það víst og að því er ég hygg óumdeilanlegt, að við þennan vanda verður ekki ráðið, nema skilningur alls almennings á bæði orsökum og úrræðum sé fyrir hendi. Ég veit ekki um neitt málefni, sem síður stoði að löggjafinn einn, Alþ. og ríkisstj., taki ákvarðanir um, ef þær styðjast ekki við glöggan skilning alls almennings á nauðsyn þeirra aðgerða, sem hverju sinni eru ákveðnar. Án slíks skilnings kann að vísu að vera hægt að gera ýmiss konar bráðabirgðaráðstafanir, en ef þær eiga ekki þegar í stað að reynast haldlitlar, verða þær að hafa stoð í öflugu almenningsáliti.

Almenningsálitið getur auðvitað byggzt á ýmsu. Það hefur hingað til um of mótazt af misskilningi á eðli þess vanda, sem við er að glíma. Menn hafa um of talið, að kauphækkanir án tillits til getu atvinnuveganna til þess að inna þær af hendi hlytu að verða þeim kjarabót. Eins hafa menn talið, að vísitala á grunnkaup væri einhliða til hags fyrir launþega án tillits til þess, hvort atvinnuvegirnir væru þess umkomnir að greiða þær kauphækkanir, sem af vísitöluhækkuninni leiðir. Þá lítur út nú svo, að verulegur hluti ráðamanna í þessum efnum haldi, að allur vandi í þessum efnum sé leystur, ef einungis tekst að halda vísitölunni niðri, án tillits til þess, hvort verðlagið í landinu almennt er í raun og veru stöðugt eða ekki. En að sjálfsögðu er það hið raunverulega verðlag, sem úr öllu sker, en ekki hitt, hvort tekst að dylja það, sem orðið hefur með rangreikningi vísitölunnar um sinn eða fyrir fullt og allt. Sú aðferð, beinn rangreikningur hennar, hlýtur áður en yfir lýkur, að hefna sín og magna þann vanda, sem að lokum verður að leysa.

Einn þátturinn í því að halda vísitölunni niðri, þótt ekki sé hægt að segja, að sú aðferð hljóti ætíð að leiða til þess, að vísitalan sjálf sé röng, er það að borga hana niður eða vissar vörur niður með fjárgreiðslum úr ríkissjóði til þess á þann veg að koma í veg fyrir hækkun vísitölunnar. Að takmörkuðu leyti og a.m.k. um sinn er nú orðið viðurkennt af öllum, að þessi aðferð geti átt rétt á sér. En þó að hún eigi rétt á sér með þeim fyrirvörum, sem ég áður gat um, þá getur hún jafnframt beinlínis orðið til ills, ef hún dylur allan almenning hins sanna um orsakasamhengið og þess, hver vandi í raun og veru er á ferðum. Þó að vísitölunni sé á þennan veg haldið niðri og vöruverð í búðum hækki ekki, verður engu að síður að borga verð vörunnar af einhverjum. Og eins og nú háttar til hér á landi og raunar ætíð hefur gert, þá er þar ekki um neinn annan aðila að ræða, en allan almenning, að áður en yfir lýkur, verður hann að inna þessar greiðslur af höndum.

Til þess að meta, hvort þessi aðferð eigi rétt á sér í hverju einstöku tilfelli eða ekki, verður því að vera ljóst fyrir þeim, sem ákvarðanir taka í þessum efnum, og að lokum er það allur almenningur, sem úrslitaákvörðunina tekur, til hvers það fé, sem til niðurgreiðslnanna er varið, í raun og veru rennur, hvaða áhrif það í raun og veru hefur á vöruverðið í landinu. Ef menn átta sig ekki á þessu, eru þeir að dylja fyrir sjálfum sér með þessum niðurgreiðslum þann vanda, sem þeir verða að leysa og komast ekki hjá því að leysa, hvernig sem þeir að öðru leyti vilja fara að. Nauðsyn á glöggri skilagrein í þessu verður þeim mun auðsærri sem niðurgreiðslurnar verða meiri liður í því að halda vísitölunni niðri, þeim mun meira fé, sem menn verða að inna af höndum til þess að halda vísitölunni niðri, en borga þó á annan veg úr eigin vasa.

Fjárveitingar til þess að halda vísitölu niðri á þennan veg hafa nú tíðkazt alllengi, nokkuð meira en tíu ár. Þær hafa tíðkazt ein 10 –15 ár a.m.k. Þær fóru smáhækkandi frá seinni stríðsárunum fram til þess, að gengislækkunin var gerð 1950. En þá komust þær um tveggja ára bil niður í 25 millj. kr., hækkuðu siðan á árinu 1952 upp í nær 37 millj., voru á fjárlögum 1954 t.d. tæpar 46 millj., á fjárlögum fyrir 1955 voru þær rúmar 49 millj., og á fjárlögum fyrir 1956 voru þessar greiðslur komnar upp í 57 millj. Á fjárlögum aftur fyrir þetta ár eru þær 125 millj. og hafa því á rúmlega einu ári nú hækkað verulega frá því, sem áður var, meira en tvöfaldazt, þannig að á þessu eina ári hafa þær hækkað um sem svarar 66 millj. kr.

Samkv. því, sem hingað til hefur verið talið, að hvert vísitölustig svaraði til þess, að borga þyrfti úr ríkissjóði að meðaltali 6 millj. kr., mundi þetta samsvara því, að frá því, sem áður var, hafi í tíð núverandi hæstv. ríkisstj. á þennan veg verið greidd niður 11 vísitölustig. Það hefur sézt, að því er haldið fram, að hæstv. núv. ríkisstj. hafi ekki borgað raunverulega niður nema eitt stig. Það virðist vera fengið með því að tileinka fyrri stj. 6 stig af því, sem núv. ríkisstj. hefur tekið ákvörðun um að borga niður. Vitanlega er það núverandi hæstv. stjórn, sem þá ákvörðun hefur tekið. En hvað sem því líður, þá er þarna engu að síður eftir að gera grein fyrir 30 millj. kr., og er þá kostnaður við niðurgreiðsluna orðinn miklu meiri, en hingað til hefur verið talið, ef það kostar nú orðið 30 millj. kr. hjá hæstv. núv. ríkisstj. að borga niður eitt stig. Hér skýtur því mjög skökku við og er glöggt dæmi þess, hversu óheppilegt er, að ákvarðanir um þessi efni skuli vera teknar á bak við tjöldin, ef svo má segja, og án þess að nokkur fullnægjandi grg. liggi fyrir.

Það er því fyllilega tímabært, sem hér er farið fram á, að Alþ, skori á ríkisstj, að birta nú þegar skýrslu um framlag ríkissjóðs til lækkunar á vöruverði og sé þar sundurliðað, hversu hátt framlag er greitt til verðlækkunar á hverri vöru um sig, og gerð grein fyrir, hver áhrif það mundi hafa, ef greiðslum þessum væri hætt. Enn fremur er lagt til, að Alþ. álykti að skora á ríkisstj. að birta héðan í frá jafnskjótt allar ákvarðanir hennar um breytingar á þessu framlagi. Ef þessi till. verður samþykkt, sem ég vona, á að vera miklu hægara bæði fyrir alþm. og allan almenning að átta sig á því, hvort þær stórkostlegu niðurgreiðslur, sem nú eru tíðkanlegar og að því er manni skilst ákvarðaðar fyrir framtíðina, séu í raun og veru til góðs eða ekki.

Ég skal svo ekki fjölyrða um þetta mál, en það er áhorfsmál, hvort vísa eigi því til hv. allshn. eða fjvn. Ég tel, að þar sem ætla má, að hv. fjvn. sé bezt að sér í þessum efnum, hverju fé hefur verið varið í þessu skyni og til hverrar ætlunar, þá sé líklegast, að till. fái sannsýnilega meðferð í hv, fjvn., og legg því til, að umr, sé frestað og málinu vísað til hv. fjvn.