23.10.1957
Sameinað þing: 5. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 168 í D-deild Alþingistíðinda. (2543)

17. mál, eftirgjöf lána

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég skal á þessu stigi málsins ekki fara neitt verulega út í það, enda tilheyrir það ekki fyrri umr. Ég vil þó benda hæstv. fjvn., sem á að fá málið til meðferðar, á tvö atriði. Ég vil í fyrsta lagi benda henni á að kynna sér reglulega vel afkomu bjargráðasjóðs, sem hér er ætlað að bæta við miklu fé, þegar lánin borgast upp, — fjárhag hans, það, sem honum er ætlað að vinna með sínu fé, og þörfinni á því, að hann geti það. Og ég vildi gjarnan, að það gæti legið fyrir seinna frá nefndinni. Ég vil í öðru lagi benda henni á það, að meðal þeirra manna, sem eiga hér lán, eru bændur, sem eru ágætlega staddir, eiga hús í Reykjavík til að leigja út, — einn man ég eftir að á tvö hús í Rvík til að leigja út, annar hús á Akranesi til að leigja út o.s.frv. Það eru yfirleitt í þessum hóp bændur af allra bezt stæðu bændum landsins, sem hafa fengið þarna lán. Og ég vildi biðja hana að athuga, hverjir eru lántakendur hjá hreppsnefndunum úti um sveitina og hag þeirra, hvers einstaks, áður en hlaupið er í að gefa þau öll eftir. Hitt er annað mál, að það eru margir lántakendur meðal þessara manna, sem þurfa sjálfsagt að fá þau eftir gefin og eiga að fá þau eftir gefin. En það er líka jafnvíst, að það er heill hópur, sem ekkert vit væri í að gefa þau eftir.