30.04.1958
Sameinað þing: 42. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 171 í D-deild Alþingistíðinda. (2555)

17. mál, eftirgjöf lána

Frsm. meiri hl. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Þáltill. þessi á þskj. 21 er um það, að Alþingi feli ríkisstj. að gera ráðstafanir til, að gefin verði eftir að fullu lán, sem bændur á Suður- og Suðvesturlandi fengu vegna óþurrkanna þar sumarið 1955, og lán, sem bændur á Austur- og Norðausturlandi fengu vegna harðinda og óþurrka 1949–50. Till. var vísað til fjvn., og meiri hl. n., 6 nm. af níu, hefur skilað áliti og till. um afgreiðslu með rökstuddri dagskrá á þskj. 402.

Meiri hl. telur þáltill. vanhugsaða og að ástæðulausu fram borna, af því að Alþingi hafði fyrir sitt leyti afgreitt efni hennar með heimild til ríkisstj. í 40. lið 22. Gr. fjárlaga 1957 og ríkisstj. notað heimildina. Sú heimild er svo hljóðandi:

Ríkisstj. er heimilt að afhenda með þeim skilyrðum, sem ríkisstj. setur, bjargráðasjóði Íslands til eignar 101/2 millj, kr. skuldabréf, dags. 31. ágúst 1956, vegna óþurrkalána á Suður- og Suðvesturlandi árið 1955 og enn fremur skuldabréf í vörzlu Búnaðarbanka Íslands, upphaflega 3 millj. kr., útgefin 1950 og 1951 vegna harðinda og óþurrka 1949–50 á Austur- og Norðausturlandi.“

Þessa heimild notaði ríkisstj., eins og Alþingi hafði auðvitað til ætlazt. Hún afhenti bjargráðasjóði skuldabréfin til eignar með bréfi, dags. 26. apríl 1957, en ekki 14. Okt. s.l., eins og segir í grg. þáltill.

Ég tel ástæðu til þess að lesa bréf ríkisstj. til þess að kynna þingheimi það, með leyfi hæstv. forseta, — bréfið er svo hljóðandi:

„Reykjavík, 26. apríl 1957.

Hér með skal stjórn bjargráðasjóðs Íslands tjáð, að fjármálaráðuneytið hefur ákveðið samkvæmt heimild í 40. tölulið 22. greinar fjárlaga fyrir árið 1957 að afhenda bjargráðasjóði Íslands til eignar 10.5 millj. kr. skuldabréf, dags. 31. ágúst 1956, vegna óþurrkalána á Suður- og Suðvesturlandi árið 1955, og enn fremur hinn svonefnda fóðurlánasjóð, sem er í vörzlu Búnaðarbanka Íslands, samkv. skuldabréfum upphaflega að upphæð 3 millj. kr., vegna harðinda og óþurrka á Austur- og Norðurlandi 1949–1950. Skuldabréf þessi eru af ráðuneytisins hálfu afhent með þeim skilyrðum, að stjórn bjargráðasjóðs veiti lántakendum, er þess óska, ívilnanir um greiðslu vaxta og afborgana af lánum sínum, svo sem með því að lækka eða fella niður vexti, lengja lánstímann eða gefa lánið eftir að einhverju eða öllu leyti, ef sjóðsstjórnin telur þess þörf að fengnu áliti hlutaðeigandi sveitarstjórnar. Það, sem endurgreiðist af ofanrituðu lánsfé, skal renna til sameignarsjóðs bjargráðasjóðs Íslands sem sérstakt framlag ríkissjóðs til styrktar bjargráðasjóði, til þess að hann verði færari um að rækja það hlutverk sitt að vera til hjálpar, ef hallæri eða önnur óáran af náttúruvöldum verður í sveitum landsins. Þetta tilkynnist hér með.“

Það er óumdeilanlegt, að bréf þetta er gjafabréf með fullum heimildum gert. Gjöfin er gefin með ákveðnum skilyrðum og óafturkallanleg, sé skilyrðum fullnægt. Og ekki er enn nokkur ástæða til þess að ætla, að þeim verði ekki fullnægt. Gjöfin er lánin, sem þáltill. vill að Alþ. það, sem nú situr, feli ríkisstj. að gera ráðstafanir til að verði að fullu eftir gefin, en hvorki Alþ. ríkisstj. hefur lengur ráðstöfunarrétt yfir þeim. Stjórn bjargráðasjóðs, sem er sjálfstæð stofnun, hefur ráðstöfunarréttinn samkv. þeim lögum, er um starfsemi sjóðsins gilda, og þeim ákveðnu skilyrðum, sem ríkisstj. setti í eitt skipti fyrir öll með afhendingarbréfinu fyrir ári.

Þáltill. er því fram borin eftir dúk og disk og eins og út í hött, eins og nú er komið. Minni hlutinn segir að vísu, að Alþ, geti breytt bjargráðasjóðslögunum og þannig tekið aftur gjöf sína. Þetta er nokkuð langsótt úrræði og þarf allmikið til — hugsa ég — að það þyki eðlilegt, að Alþ. fari þannig í gegnum sjálft sig af tilefni, sem ekki er fullkomin þörf.

Fjvn. sendi stjórn bjargráðasjóðs tillöguna til umsagnar fyrir nýár og fékk svör. Vil ég lesa — með leyfi hæstv. forseta — kafla úr svörum stjórnar sjóðsins, en þau eru dagsett 13. des. s.l.:

„Stjórn bjargráðasjóðs Íslands lítur svo á, að afhending skuldabréfa þessara til bjargráðasjóðs hafi verið í alla staði lögmæt af hálfu ríkisstj. og að fé þetta sé nú óumdeilanlega eign bjargráðasjóðs Íslands.

Stjórn sjóðsins lítur svo á, að enginn hafi riftunarrétt á þessum gerðum ríkisstj. né geti tekið sér ráðstöfunarrétt á umræddu fé, enda er nokkur hluti óþurrkalánanna frá 1955 til 1956 ýmist eigið fé bjargráðasjóðs eða annað lánsfé, sem sjóðnum ber að standa skil á samkv. samningum við aðrar lánsstofnanir.

Í byrjun júlímánaðar 1957 skrifaði stjórn bjargráðasjóðs öllum þeim hreppsnefndum á Austur- og Norðausturlandi, sem lán höfðu fengið vegna harðindanna 1949–1950, og skýrði þeim frá afhendingu lánanna til bjargráðasjóðs, en sveitarfélögin voru þar beinir lántakendur, og óskaði eftir tillögum hreppsnefndanna um meðferð lána þessara í framtíðinni. Beðið var um svör fyrir 1. sept. s.l. Svör hafa nú borizt frá mörgum hreppanna á þessu svæði. Sveitarstjórnirnar, sem svarað hafa, óska flestar eftir nokkurri eftirgjöf, bæði á vöxtum og höfuðstól. Telja sumar þeirra rétt að gefa lánin að öllu eftir svo og alla vexti, sem áfallnir eru, en aðrar vilja greiða allt að 60% heildarlánsupphæðarinnar, en að vextir falli niður.

Af svörum, sem borizt hafa frá 36 sveitarstjórnum á nefndu harðindasvæði, vilja 18 sveitarstjórnir greiða lánin að hálfu leyti eða meira, en 18 sveitarstjórnir vilja fá þau gefin eftir. Nokkrar sveitarstjórnir eiga enn eftir að svara bréfi bjargráðasjóðs.

Af þessu er ljóst, að gera má ráð fyrir, að verulegur hluti þeirra lána, sem veitt voru til Austur- og Norðausturlandsins 1949 og 1950, endurgreiðist. En þess verður að gæta um þessi lán, að í þessum héruðum var að kalla samfleytt hallæri í 3 ár, og í kjölfar þess fylgdi svo fjárpest, sem mjög felldi bústofn manna í ýmsum þessum byggðarlögum. En þrátt fyrir þetta er nú þegar u.þ.b. sjötti hluti lána þessara greiddur og greiðsluvilji víða fyrir hendi á verulegum hluta þess, sem eftir er.

Hvað snertir óþurrkalánin á Suður- og Suðvesturlandi 1955 skal það tekið fram, að stjórn bjargráðasjóðs hefur undirbúið að senda nú í desembermánuði út innheimtukröfur til þeirra einstaklinga, sem lánin fengu, og mun hún taka fullt tillit til breytinga á lánakjörum, niðurfellingu vaxta eða eftirgjöf lána að einhverju eða öllu leyti hjá þeim, sem erfiðar eiga aðstæður, ef um það verður sótt og sveitarstjórnir mæla með því, enda rök færð fyrir, að þessa sé þörf.

Eins og kunnugt er, hafa verið góðæri á Suður- og Suðvesturlandi síðan 1956, og þar sem ætla má, að lán þessi hafi komið bændum á þessu svæði að góðum notum, þegar þau voru veitt, t.d. komið í veg fyrir, að þeir þyrftu að skerða bústofn sinn, telur stjórn bjargráðasjóðs ekki ástæðu til eftirgjafar af lánunum, nema þar sem svo stendur á, að einhver sérstök önnur óhöpp hafi komið fyrir og fjárhagsástæður manna því versnað af þeim sökum eða öðrum, og mun sjóðsstjórnin þá veita nauðsynlegar ívilnanir, svo sem að framan segir.“

Þetta er aðalatriðið úr umsögn stjórnar bjargráðasjóðs. Ekki er vafi á því, að svör þessi bera það með sér, að stjórn bjargráðasjóðs ætlar að fylgja fyrirmælum ríkisstj. um að ganga ekki nærri lántakendum í innheimtu lánanna og fara þar eftir efnum og ástæðum.

Ég sé nú samt í áliti mínni hl., að þar örlar á því, að minni hl. hafi fundizt framkoma bjargráðasjóðsstjórnar fremur kuldaleg, þegar hún sendi út tilkynningar, og þess vegna þykir mér ástæða til þess að lesa hér upp kafla úr því dreifibréfi, sem hún sendi sveitarstjórnunum:

„Svo sem getið er á bakhlið hvers reiknings, sem sendur er einstaklingum, er þeim einstaklingum, er þess óska, heimilt að sækja til sjóðsstjórnarinnar um ívilnanir eða eftirgjafir um greiðslu vaxta og afborgana af lánum sínum, svo sem með því að lækka eða fella niður vexti, lengja lánstímann eða gefa lánið eftir að einhverju eða öllu leyti, ef sjóðsstjórn telur þess þörf að fengnu áliti hlutaðeigandi sveitarstjórnar.

Framkvæmd á þessu hugsar stjórn bjargráðasjóðs með þeim hætti, að þeir lántakendur, sem telja sig þurfa slíkra ívilnana eða eftirgjafa, sæki um það bréflega beint til sjóðsins og skýri ástæður sínar. Stjórnin mun svo afla sér nauðsynlegra upplýsinga um viðkomandi lántakanda og að því athuguðu leita umsagnar oddvita eða hreppsnefndar um þá tillögu, sem gerð verður í hverju einstöku tilfelli til breytinga á lánum eða lánskjörum.“

Ekki verður séð af þessu bréfi, að geyst sé að farið við innheimtuna, heldur þvert á móti í fullu samræmi við bréf ríkisstj. og í raun og veru með alveg óvenjulegum hætti að því er snertir venjulegar kröfur, þar sem boðið er upp á ívilnanir.

Meiri hluti fjvn. lítur svo á, að með því að afhenda skuldabréfin bjargráðasjóði til eignar og umsýslu hafi einmitt verið vel séð fyrir þessum málum og þannig að unnið enn, að fullt samræmi er þar í um alla nægætni. Skynsamleg og réttlát linun og eftirgjöf á lánum gat varla orðið eðlilegar og betur tryggð, en í höndum þeirrar stofnunar, sem er til þess ætluð að hjálpa, þegar harðindi ber að höndum, og firra hallæri. Samráð við sveitarstjórnir, svo sem fyrir er mælt í afhendingarbréfinu, veitir öryggi um, að greiðslugeta verði metin af kunnugleika og ekki meiri, en hún er, — ég segi: ekki meiri en hún er.

Ég sé í áliti minni hl., að hann vorkennir sveitarstjórnunum að komast í þá aðstöðu að þurfa að gera upp á milli manna, þegar um þessar eftirgjafir verður að ræða. Ég get satt að segja ekki vorkennt sveitarstjórnum þetta verkefni. Ég hygg, að þeir menn, sem hafa það yfirleitt á hendi að jafna niður útsvörum, krefjast gjalda af mönnum og gera það hiklaust, kveinki sér ekkert undan því að meta til eftirgjafar hjá sínum sveitungum skuldir sem þessar.

Hugmynd sú, sem kemur fram í till. um að gefa öll lánin eftir að fullu, er allöfgakennd, og það sem verra er, hún mundi leiða til ranglætis og misréttis milli manna, af því að lánunum var úthlutað á grundvelli lánveitinga, en ekki á grundvelli styrkja.

Þetta er svo auðskilið mál og hefur svo mikið verið rætt um það í blaðagreinum, að ég sé enga ástæðu til þess að fara frekar út í það.

Ólíklegt er, að þeir, sem geta endurgreitt lánin, sjái eftir því að gera það, og ekki sízt þegar endurgreidda féð verður — eins og ákveðið hefur verið — tryggingarfé fyrir sveitirnar í framtíðinni,. þegar harðindi ber að höndum.

Minni hl. fjvn. reynir að byggja afstöðu sína á yfirlýsingum frá Stéttarsambandi bænda 5. sept. 1955 og bréfum stjórnar Búnaðarfélags Íslands og Stéttarsambands bænda 20. s.m. En að hafa þessi bréf nú fyrir undirstöðu er að byggja á sandi, þegar þess er gætt, að það, sem þessir aðilar segja, er sagt meðan enn rigndi og enn var ekki séð, hvort næðist allt það hey, sem þó að lokum náðist sumarið 1955. Menn voru eðlilega bölsýnir. Það var engin vissa fyrir því þá, að fram úr rættist, eins og varð. Þvert á móti var mjög mikil ástæða til að halda, að veturinn, sem í hönd fór, gæti orðið harður og harðindunum mundi ekki slota, eins og þeim gerði. En raunin hefur orðið — sem betur fer — sú, að síðan þetta ár hafa verið að telja má samfelld góðæri sumar og vetur í þessum landshluta. Miklu réttara, en að byggja á óskum og yfir. lýsingum þessara félagssamtaka, meðan harðindin stóðu yfir og enn — rigndi, eins og ég sagði áðan, er að byggja afstöðu sína á því, sem Búnaðarfélag Íslands segir nú, þegar komið er út úr harðærinu og hægt er að meta staðreyndirnar rólega og séð fyrir endann á afleiðingunum.

Fjvn. leitaði líka álits Búnaðarfélags Íslands um þáltill., og stjórn Búnaðarfélagsins lagði till. fyrir búnaðarþing til umsagnar. Búnaðarþing ræddi málið ýtarlega og samþ. nálega samhljóða ályktun til afgreiðslu, og fylgdi rækileg grg. Búnaðarfélagið sendi fjvn. ályktun búnaðarþings sem sitt svar, og svo hljóðandi bréf fylgdi frá búnaðarmálastjóra:

„Reykjavík, 27. marz 1958.

Með bréfi, dags. 26. nóv, f. á., hefur fjvn. sent Búnaðarfélagi Íslands til umsagnar tillögu til þingsályktunar um eftirgjöf lána. Stjórn Búnaðarfélags Íslands ákvað að leggja tillöguna fyrir búnaðarþing, er kvatt var til fundar 20. febr. í vetur. Búnaðarþing tók tillöguna um eftirgjöf lána síðan til meðferðar og samþykkti hjálagða ályktun ásamt greinargerð.

Ályktun búnaðarþings var samþykkt með 20:2 atkv.

Þetta tilkynnist hv. fjvn. Alþingis hér með.

Virðingarfyllst,

Steingrímur Steinþórsson.“

Ályktun búnaðarþings er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Búnaðarþing lítur svo á, að mál þetta hafi fengið þá afgreiðslu hjá Alþingi og ríkisstjórn með afhendingu lánanna til bjargráðasjóðs, að bændur geti vel við unað.

Vill búnaðarþing treysta því, að stjórn bjargráðasjóðs, að fengnum ábendingum hreppsnefnda, meti réttilega ástæður bænda til greiðslu á lánum og hún taki til athugunar, hvort ekki væri rétt að gefa eftir vexti og lengja lánstímann t.d. í 10 ár og gefa lánin eftir að einhverju eða öllu leyti þeim bændum, sem erfiðastar ástæður eiga við að búa.“

Og þessari ályktun fylgdi svo hljóðandi grg. frá nefnd:

„Nefndin telur, að með samþykkt 22. gr. fjárlaga fyrir árið 1957, þar sem ríkisstjórninni er heimilað að afhenda bjargráðasjóði umrædd lán til eignar og innheimtu, og með því að ríkisstjórnin framkvæmdi þessa afhendingu, þá sé þetta fé orðið eign bjargráðasjóðs. Telur nefndin, að þessu fé hefði ekki á neinn hátt getað verið betur varið, en einmitt þannig að afhenda það bjargráðasjóði, til þess að hann sé fær um í framtiðinni að sinna því hlutverki, sem honum er ætlað, sem sé að hlaupa undir bagga með þjóðfélagsþegnunum með lánum og á annan hátt, ef náttúruhamfarir eða aðrar slíkar ástæður dynja yfir framleiðendur í einstökum héruðum landsins eða landinu öllu. Þessum lánum mun í upphafi hafa verið skipt að öllu leyti eftir tillögum tveggja stjórnskipaðra manna til sýslufélaga og sveitarfélaga, en sveitarstjórnir sáu um skiptinguna innan sveitarfélaganna. Sveitarstjórnir munu hafa skipt þessu fé á ýmsan veg. Sums staðar munu fjárhagsástæður og fleira hafa verið látnar nokkru ráða, en annars staðar að miklu eða öllu leyti farið eftir stærð búanna. Voru allmörg dæmi þess, að einstakir bændur sóttu ekki um lán og fengu því ekkert af þessu fé. Þar sem lánunum var þannig skipt eftir bústærð, hefur niðurstaðan orðið í sumum tilfellum sú, að ríkustu og bezt stæðu bændurnir hafa fengið stærstu upphæðirnar. Þetta m.a. gerir það að verkum, að ómögulegt virðist að gefa lánin eftir að fullu og öllu sem hallærisstyrk.

Þá telur n., að samanburður á aðstæðum bænda á Austurlandi og bænda á Suður- og Suðvesturlandi sé í þessum lánamálum mjög ólíkur. Á Austurlandi var óslitið hallæristíðarfar í 2–3 ár á árunum 1949–1951, og þar að auki herjaði á sama tíma bústofn bænda skæð fjárpest, garnaveikin. Var því full þörf á að rétta þeim efnahagslega aðstoð til að standast þá margföldu erfiðleika, er að þeim steðjuðu um langan tíma, sem og var gert með þeirri eftirgjöf, sem þeir hafa þegar fengið á nokkrum hluta hallærislánanna. Á Suður- og Suðvesturlandi var aðeins um eitt óþurrkasumar að ræða.

Þá vill n. vara við þeirri stefnu, sem mjög skýtur upp kollinum í þjóðfélaginu, að það verði viðtekin venja að gefa eftir til atvinnuveganna fé, sem þeir hafa fengið að láni til að komast yfir óvenjulega erfiðleika. Getur bændum sem öðrum komið slíkt í koll, auk þess sem það veikir siðferðisvitund manna í fjármálum.“

Ályktun búnaðarþings og grg. hennar er bændastéttinni til sóma. Þar sýnir sig sá manndómur, sem lætur ekki till., sem er tilboð um féstyrk, skekkja skoðanir sínar og metnað. Ályktunin getur verið mörgum til fyrirmyndar í okkar styrkjasjúka þjóðfélagi, og hún er mjög skýr leiðsögn fyrir Alþingi um, hvernig því beri að afgreiða þetta mál, af því að í ályktuninni tala fulltrúar þeirra manna, sem málið kemur mest við.

Ég sé eigi ástæðu til þess að hafa lengri framsögu fyrir till., sem meiri hl. flytur, en hún er í fullu samræmi við það, sem ég hef þegar sagt og lesið, rökstudd dagskrá á þessa leið:

„Með því að till. þessi fjallar um efni, sem Alþingi afgreiddi fyrir sitt leyti með heimild til ríkisstj. í 40. tölulið 22. gr. fjárlaga 1957, og ríkisstj. notaði þá heimild, eins og til var ætlazt, svo að skuldabréf óþurrka- og harðindalánanna eru nú eign bjargráðasjóðs Íslands, en ekki ríkissjóðs, og þar sem Alþingi treystir stjórn bjargráðasjóðs til þess að sýna lántakedunum fyllstu nærgætni, svo sem fyrir hana var lagt í bréfi ríkisstj., dags. 26. apríl 1957, þá telur Alþingi ekki koma til greina að samþykkja till. og tekur fyrir næsta mál á dagskrá.“