16.12.1957
Neðri deild: 41. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 159 í B-deild Alþingistíðinda. (256)

73. mál, kosningar til Alþingis

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. Eins og fram kom í dag í stuttri ræðu, sem ég hélt þá, var ég enn að semja nál. um þetta mál. Það er nú nýlega farið í prent. og ég sé ekki ástæðu til þess að fjölyrða meira um málið á þessu stigi. Ég vil vegna fyrirspurnar, sem hæstv. forseti beindi til mín, taka fram, að það er rétt, að í þessu nál. berum við, ég og meðnefndarmaður minn, hv. 2. þm. Reykv., fram till. til rökstuddrar dagskrár. En eins og sakir standa, kemur mér alveg í einn stað niður, hvort hún verður borin upp við 2. umr. eða 3. Ég hafði reiknað með því, að úr því sem komið væri, yrði nál. ekki til umr. efnislega eða þau sjónarmið, sem þar eru sett fram, fyrr en við 3. umr., og aðalumr. af hálfu okkar sjálfstæðismanna, auk hinnar mjög ágætu og skörpu ræðu hv. þm.

A-Húnv., mundi þá fara fram við 3. umr. Um þetta spjölluðum við forseti lítils háttar í dag.

Mér er það ljóst, að þetta er eitt af þeim málum, sem á að knýja fram. Við höfum enga löngun til þess að halda uppi málþófi eða þvargi um þetta mál umfram það, sem atvik standa til. Þegar okkar nál. liggur fyrir, teljum við eðlilegt að ræða málið fyrst og fremst af okkar hálfu og höfum nægan tíma til þess við 3. umr. og vonum þá einnig, að við verðum ekki beittir harðræði, svo að við getum fengið með eðlilegu móti að koma okkar sjónarmiðum að.