30.04.1958
Sameinað þing: 42. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 189 í D-deild Alþingistíðinda. (2560)

17. mál, eftirgjöf lána

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Ég skal byrja á því að svara síðasta ræðumanni, vegna þess að honum hefur verið tíðrætt um þessar 2 millj., sem bjargráðasjóður lagði fram, og hann hefur verið að velta því fyrir sér með skrifum sínum í vetur og hugleiða það, hvernig væri nú hægt að bæta bjargráðasjóði þessar 2 millj. En flm. þessarar till. hafa gert sér grein fyrir því frá upphafi, að bjargráðasjóður á að fá 2 millj. greiddar frá ríkissjóði, og ég segi það, að þegar hv. 1. þm. N-M. styður núverandi hæstv. ríkisstj. og segir ekkert við ráðstöfunum hennar á ríkisins fé, þá ætti honum ekki að blöskra, þótt ríkissjóður greiddi bjargráðasjóði vegna bændastéttarinnar 2 millj, kr. Eða man ekki hv. 1. þm. N-M. ákvörðun hæstv. ríkisstj. t.d. s.l. sumar, þegar ákveðið var um síldarverðið? Stjórn síldarverksmiðja ríkisins kom á fund og reiknaði út, hvað síldarverksmiðjur ríkisins gætu greitt, miðað við útflutningsverð á síld og síldarafurðum, það voru 58 kr., en það tók ekki langan tíma fyrir hæstv. ríkisstj, að ákveða, hvað skyldi greiða? Það var sent skeyti norður. „Greiðið 95 kr. fyrir hvert mál, Ríkissjóður greiðir mismuninn.“ En þarna voru það útgerðarmenn, sem áttu í hlut, en ekki bændur. Það er munurinn. Þegar hv. fyrrv. búnaðarmálastjóri er að velta þessu fyrir sér og sér engin ráð til þess að láta bjargráðasjóð fá 2 millj., en styður eigi að síður ríkisstj., sem gerir ákvörðun eins og þessa og margar fleiri, og þegir við því, þá er ekki von á góðu, ef bændur hafa slíka forustu. Og það er þetta, sem bændur vita núna. Ég hefði gjarnan getað unnt hv. 1. þm. N-M. þess að láta það vera að koma hér upp í ræðustólinn og auglýsa það enn fyrir hv. þingheimi, að honum vex það í augum, að 2 millj. væru greiddar vegna bændanna til bjargráðasjóðs.

Ég þarf ekki að segja meira við þennan hv. þm. um þetta mál, ræða hans gefur ekki tilefni til þess. Það er ekki heldur margt, sem ég þarf að segja við hv. þm. S-Þ. Ég vil ekki metast um það, hvort þörfin fyrir aðstoð hefur verið eitthvað meiri til Austfirðinganna eða Sunnlendinganna, Ég veit, að Austfirðingarnir höfðu þörf fyrir aðstoð, og það var ekki talið eftir, að þeir fengju aðstoðina. En þegar hv. þm. S-Þ. er að gera hér samanburð, þá talar hann af allt of miklum ókunnugleika um þessi mál hvað snertir Suður- og Suðvesturland. Hann talar um, að búin hafi smækkað á Austurlandi vegna harðindanna, og það er alveg rétt. Hann sagði, að innleggið hefði minnkað um helming hvað sauðfjáreignina snerti, — það hefði minnkað um helming, — en hann gleymir því, sem hv. þm, Borgf. tók hér fram áðan, að mæðiveikin hafði herjað um Suður- og Suðvesturland í nærri hálfan annan áratug og fjöldi bænda hér á Suður- og Suðvesturlandi hafði ekki misst helminginn af sínu fé, innlegg bænda af sauðfjárafurðunum hafði ekki minnkað um helming, það hafði fallið niður í núll. Þetta þarf hv. þm. S-Þ. að vita, þegar hann er að tala um þessi mál, úr því að hann vill vera að gera samanburð.

Þá reyndi hv. þm. S-Þ. að gera samanburð á tekjum bænda á Austurlandi og t.d. í Árnessýslu og Rangárvallasýslu. En hann gleymdi alveg að gera samanburð á rekstrarkostnaði, tilkostnaðinum við að afla teknanna. Hann gleymdi því. Hann gleymdi til dæmis að minnast á það, að Árnesingar höfðu keypt eitt árið fóðurbæti fyrir 15 millj. kr., og þegar þannig er til kostað, þá er náttúrlega eðlilegt, að tekjurnar vaxi og verði eitthvað meiri, en þegar kannske litlu er kostað til framleiðslunnar.

Það er alveg vitað mál, að 1955, um haustið, eftir hina miklu óþurrka, stóðu bændur á Suður- og Suðvesturlandi mjög illa að vígi. Þeir höfðu misst fjárstofninn. Niðurskurður hafði farið fram einu ári áður. Þeir stóðu uppi fjárlausir. Þeir reyndu að halda lífinu í kúnum með óeðlilega miklum fóðurbætiskaupum.

Mig minnir, að það hafi verið árið 1956, sem talið var að bændur hafi keypt fóðurbæti fyrir 70 millj. kr. alls á Íslandi, þar af keyptu Rangæingar, Árnesingar, Gullbringu- og Kjósarsýsla og Borgfirðingar miklu meira, en helminginn af öllum þessum fóðurbæti. Og það var ekki vegna þess, að heyin væru mjög lítil að vöxtum. Þess vegna gildir samanburður hv. þm. S-Þ. ekki neitt í því, þegar hann er að tala um, hvað heyskapurinn hafi fallið niður um mörg prósent. Það er ekki allt fengið með því, þó að heyin séu dálítið mikil að vöxtum, ef þau eru ónýt til fóðurs, og það var það, sem heyin voru eftir sumarið 1955, og það var ekki unnt að halda stofninum við nema kaupa óeðlilega mikinn fóðurbæti, eins og gert var, kosta óeðlilega miklu til, stofna til skulda, sem menn nú búa að á þessum svæðum, þrátt fyrir það að góðæri hafi verið síðan. Sumarið 1956 og sumarið 1957 voru góð sumur, sem betur fór. En eigi að síður hafa menn ekki náð sér upp, þrátt fyrir það.

Það er þetta, sem ég tel ástæðu til að mínna hv. þm. S-Þ, á, að hann, þegar hann er að gera samanburð, gleymir að taka með í reikninginn í það dæmi, sem hann er að reikna, þá gleymir hann að taka það með, sem verður að hafa, til þess að útkoman sé rétt. Það má ekki sleppa stórum atriðum úr, t.d. eins og með heyöflunina, að heyin voru ónýt og ekki hægt að fóðra á þeim nema með aðkeyptum fóðurbæti. Það má ekki gleyma því, að á Suðurlandi höfðu menn misst féð úr mæðiveiki og stóðu uppi fjárlausir, að þeir höfðu misst allar tekjur af sauðfé og innlegg, þegar hann með réttu segir, að Austfirðingarnir hafi misst helming af sinni sauðfjáreign vegna harðinda. Og eins og ég sagði áðan, þá skal það fúslega viðurkennt, að Austfirðingar voru vel að því komnir að fá aðstoð eftir það harðæri, sem þar gekk yfir. En ég hygg, að þegar þessi mál eru athuguð öfgalaust og af sanngirni, þá styrkist menn í þeirri vissu, að það átti að fylgjast að, að þegar ákveðið var að gefa eftir meiri hlutann af Austfjarðalánunum, þá átti einnig að gefa hitt eftir líka til þess að gera ekki upp á milli bænda eftir því, hvar þeir búa, þar sem það verður að viðurkennast, að þessir bændur, bæði á Suðurog Suðvesturlandi og á Austurlandi, höfðu fengið óvenjulegan skell vegna árferðisins. Sem betur fer kemur slíkt sjaldan fyrir, og við skulum vona, að það verði langt þangað til slíkt árferði kemur aftur.

Hv. þm. S-Þ. var að tala um, að það væru fimm bændur í stóreignaskatti, sem hefðu fengið þessi lán. Ég skal viðurkenna, að ég er því ekki kunnugur, hvort þetta er rétt. Það verður þó að ætla, að hv. þm. fari hér með satt mál, úr því að hann nefnir tölur. Ég vil alls ekki ætla honum það, að hann sé að skrökva þessu. En ég vil þá í því sambandi benda á, að það er talið, að útgerðarmennirnir, sem alltaf eru að fá styrk vegna síns atvinnuvegar, greiði 30 millj, í stóreignaskatt. Og það hefur enginn maður talað um, að þeir ættu að fá mínni styrk á fiskinn heldur en hinir, sem engan stóreignaskatt greiða. Ég verð nú að segja það, að þar sem hér mun vera um að ræða, að ég ætla, á þriðja þús. bændur, sem munu hafa fengið þessi óþurrkalán, þá er það nokkur mælikvarði á efnahag þessarar stéttar, að það skuli ekki finnast nema fimm menn í þessum hópi, sem fá stóreignaskatt, eftir að fasteignamatið hefur verið margfaldað svo mjög sem það var gert til þess að koma eignunum upp í milljón. Ég verð að segja, að það er dálítið hart, ef allir hinir eiga að gjalda þess, að það finnast fimm menn í þessum hópi, sem eiga að greiða einhvern stóreignaskatt. Það hefði verið velgerningur, ef hv. þm. S-Þ. hefði getað nefnt tölur, hvað þeir eiga að greiða mikið. Mér finnst það alveg fráleitt, að bændastéttin í heild eigi að gjalda þess, þótt það finnist fimm menn, sem hafa aðaltekjur af öðru en búskap, sem eiga að greiða stóreignaskatt, eftir að þessi margföldun hefur farið fram á eignunum. Það hefði verið eðlilegra, úr því að þessi hv. þm. vissi um þetta og úr því að þetta er ásteytingarsteinn í hans augum, að hann hefði flutt brtt. við þessa till. og sagt: Þó skulu þeir, sem eiga svo og svo miklar eignir, ekki njóta eftirgjafarinnar. — Það hefði verið skoðun, og það hefði verið stefna, sem hefði verið hægt að ræða við hv. þm. um, og þá hefði hann komið í veg fyrir það, að fjöldinn ætti að gjalda þess, þótt þessir menn greiði stóreignaskatt úr hópi bændanna.

Ég tel svo ekki ástæðu til að segja meira um þetta. Mér sýnist, að málin hafi skýrzt við þessar umræður og að menn ættu nú yfirleitt að vera sannfærðari um, að það er skylt að bæta fyrir það, sem gert var á síðasta þingi, og láta nú réttlæti koma í stað óréttlætis, en það verður gert með því að fella hina rökstuddu dagskrá, sem meiri hl, fjvn. hefur flutt, og samþykkja till. okkar, eins og minni hl. fjvn. leggur til.