07.05.1958
Sameinað þing: 43. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 202 í D-deild Alþingistíðinda. (2567)

17. mál, eftirgjöf lána

Sigurður Ó. Ólafsson:

Herra forseti. Mér fannst það nú hálfóviðfelldið af hv. 1. þm, N-M., að hann kemur hér upp í ræðustólinn og heldur hér mikla ræðu í þeim sama anda sem hann hefur alltaf talað, þegar hann hefur minnzt á þetta mál og skrifað um það, hann kemur hingað og heldur þessa miklu ræðu, þegar hann veit, að hv. 1. þm. Rang. hefur eytt sínum ræðutíma öllum og getur þess vegna engu svarað, því að eins og kunnugt er, þá er þetta framhald, síðari umr. málsins, og þegar umr. lýkur nú um þetta mál, verður ekki eftir nema atkvgr.

Þetta verð ég að víta hjá hv. þm. Mér finnst það vera vítavert að gera þetta, vegna þess að hann talaði þannig og í þeim tón, að full þörf var fyrir hv. 1. þm. Rang. að taka ræðu hans í gegn og svara henni rækilega. Ég sé ekki mikla ástæðu til þess að fara langt út í það, sem hann talaði hér um. Það er alveg sama, sami andi og sömu orð og sama meining, sem hann hefur alltaf haft um þetta, bæði þegar hann fór að skrifa um þetta í blöðin, strax þegar þessi till. kom fram, og eins hér í umr. á Alþingi. Hann hefur ekki viljað gefa eftir lánin og fært fram ýmsar fáránlegar ástæður fyrir því áliti sínu, sem of langt er að fara út í. Hann er að tala um t.d., svo að ég minnist aðeins á það, hvað búfénaði hafi fækkað mikið, eða réttara sagt, hvað honum hefur fækkað lítið á Suðurlandi eftir óþurrkasumarið 1955 eða það haust. En hv. þm. ætti að vera það kunnugt, að bændur gerðu allt, sem þeir gátu, gerðu allt, sem í þeirra valdi stóð, til að fækka fénaðinum sem allra minnst. Þeir kostuðu til aukafóðurbætiskaupa, sem þeir gáfu með þessum ónýtu heyjum, sem þeir öfluðu. Þeir eyddu milljónum króna í það að kaupa fóðurbæti fram yfir það, sem venja var, til þess að geta haldið lífi í skepnunum, þrátt fyrir það, þótt þeir vissu fyrir fram, að þær gæfu ekki arð. Það var eingöngu til þess að halda lífinu í þeim, og þess vegna er það, að skepnunum fækkar ekki meira en þetta, niður í 84%, eins og hv. þm. tók fram. En svo er það öll ræða hans, sem snýst um það að skýra fyrir hv. þingmönnum, hvað bændur á Suðurlandi séu vel stæðir og þeir þurfi sízt að fá eftir gefin þessi óþurrkalán, sem hér um ræðir.

Þetta er nú ekki í fyrsta sinn, sem hann talar um það, og meira að segja fyrst, þegar hann talaði hér í þessu máli, við fyrri umr., drap hann strax á það, að þessi lán ætti ekki að gefa eftir að neinu leyti, vegna þess að meða] þessara manna, sem lánin hefðu fengið, væru auðugir menn, t.d. sumir ættu þrjú og kannske fleiri hús í Rvík o. s. frv. En þetta hefur allt saman verið hrakið fyrir hv. þm. í seinni umr. um þetta mál. Það hefur verið sýnt fram á, að þeir mörgu, sem þurfa á eftirgjöf lánanna að halda vegna fjárhagsörðugleika, eiga ekki að gjalda þess, þó að nokkrir, aðeins fáir menn, hafi fengið lánin, sem geti borgað þau.

En úr því að ég stóð nú upp og aðallega af því tilefni, að hv, 1. þm. N-M. fór að halda hér ræðu, sem hann hefði átt að vera búinn að halda áður, til þess að hv. 1. þm. Rang. hefði átt kost á að svara honum, þá vil ég fara nokkrum fleiri orðum um þetta mál. Það er nú ef til vill óþarfi fyrir mig að fara langt út í það, vegna þess að hv. frsm. minni hl. fjvn. og hv. 1. þm. Rang. hafa gert þessu máli það góð skil, að ég þyrfti ekki miklu við það að bæta. En ég sem sagt ætla nú að segja samt nokkur orð um þetta, og það er þá fyrst, sem maður þarf að spyrja sjálfan sig að: Var nokkur þörf á því í byrjun að veita bændum þessa aðstoð, sem hér um ræðir, haustið 1955? Til þess að geta svarað þeirri spurningu, verður maður að líta á sögu málsins og hvernig það gekk til þetta sumar og þetta haust. Þegar kom fram á sumarið eða fram undir haustið og sýnt var, hvernig færi með heyskap eftir þennan mikla rosa, sem gekk, þá fóru bændur heima í héruðunum að halda fundi og ráða ráðum sínum um það, hvernig þeir ættu að bjarga sér út úr þeim ógöngum, sem blöstu við. Ég hygg, að það hafi verið í flestum eða öllum hreppum hér á Suðurlandi, að slíkir fundir væru haldnir og ályktanir gerðar um þessi mál, og alls staðar kom það fram á þessum fundum, að óhjákvæmilegt væri, að ríkisvaldið hlypi eitthvað undir bagga til þess að forða þeim vandræðum, sem við blöstu.

Um haustið tók Stéttarsamband bænda þetta mál að sér og gerði um það ályktanir, sem það fylgdi svo eftir ásamt stjórn Búnaðarfélags Íslands við ríkisstj., og till. Stéttarsambandsins og stjórnar Búnaðarfélags Íslands fóru fram á það í höfuðdráttum, að aðstoðin, sem veitt yrði, yrði veitt sem styrkur, en ekki sem lán. Það er rétt að leggja áherzlu á það, að þetta var byrjun málsins, að aðstoðin yrði veitt sem styrkur, en ekki sem lán. Það voru gerðar ákveðnar till. í þessu máli til ríkisstj., og m.a. var bent á það, að æskileg leið væri, að aðstoðin yrði fólgin í því, að bændum yrði hjálpað með fóðurbætiskaup, að nokkru leyti með styrk og öðru leyti með lánum. En eins og kunnugt er, fór það svo, að það var farið út á lánagrundvöllinn, en ekki farið eftir því, sem sambandið og stjórn Búnaðarfélags Íslands höfðu stungið upp á.

En þá er næsta spurningin þetta: Kom þessi hjálp bændanna að fullum notum og fullu gagni? Það er einnig spurning, sem vert er að velta fyrir sér, og þetta er það, sem hér er um deilt.

Um þáltill. þá, sem við hv. 1. þm. Rang. flytjum, hefur fjvn. ekki orðið sammála um afgreiðslu á, en í till. leggjum við til, eins og kunnugt er, að lánin séu öll eftir gefin. Meiri hl. n., þ.e.a.s. allt stjórnarliðið, hefur lagt til, að málinu yrði vísað frá með rökstuddri dagskrá, en minni hl., sjálfstæðismenn í nefndinni, leggur til, að till. sé samþykkt, og hefur gefið út ýtarlegt nál. með þessu áliti sínu, Álit stjórnarliðsins er því það, eftir því sem fram kemur í þeirra nál., að bændum á óþurrkasvæðunum sé næg hjálp veitt með lánveitingunni og bændunum sé vorkunnarlaust að greiða lánin. En sjálfstæðismenn líta svo á, að því aðeins komi þessi lánsaðstoð að fullum notum, að lánin séu ekki innheimt, heldur gefin eftir að fullu.

Það eru sem sagt þessi tvö álit, sem hér liggja fyrir, og í þessu sambandi þykir mér rétt að víkja nokkrum orðum frekar að nál. meiri hl. Það er sagt, að þáltill. okkar um lánaeftirgjöfina sé vanhugsuð, og frsm, meiri hl. fjvn., hv. þm. S-Þ., lagði áherzlu á þetta í ræðu sinni og byggði það álit sitt á því, að fé það, sem hér ræðir um, sé orðið eign bjargráðasjóðs og ríkissjóði og Alþingi því óviðkomandi.

Þetta atriði í nál. og hjá hv. frsm. hefur verið rækilega hrakið af hv. þm. Borgf. og hv. 1. þm. Rang., en hv. 1. þm. N–M. kom enn inn á þetta atriði hér áðan í ræðu sinni. Ég ætla ekki að fara frekar út í það. En mætti þá ekki aftur benda á það, að þessi þáltill. var líka flutt 1956? Hún var líka flutt 1956. Þá var ekki búið að afhenda bjargráðasjóði skuldabréfin. Og þá var þessi ástæða ekki fyrir hendi, ástæða, sem nú er eingöngu lögð til grundvallar því, að till. sé vanhugsuð, og m.a. lögð til grundvallar því, að till. eigi að vísa frá. Þá var þessi ástæða ekki fyrir hendi. En hvernig var málið þá afgreitt? Þá er það afgreitt einfaldlega á þann hátt, að með heimildarákvæði í fjárlögum er ríkisstj. heimilað að afhenda bjargráðasjóði skuldabréfin til eignar og innheimtu. Og þar með er till. okkar úr sögunni, m.ö.o.: hún er drepin á þennan hátt.

Þetta sýnir ekkert annað en það, að frá upphafi hafa framsóknarmenn ekki viljað gefa eftir lánin og ekki ætlað sér að gera það. En það væri bara skemmtilegra fyrir þá að viðurkenna þetta hreinlega, heldur en vera að koma með ýmsar aðrar tylliástæður fyrir því, eins og nú er gert í nál. hv. meiri hl. fjvn., tylliástæður fyrir því, að sjálfsagt sé að fella till. eða vísa henni frá.

Þetta stendur þá svona. En hafa bændur þá nokkra þörf fyrir að fá lánin eftir gefin? Þá virðist það vera næst að leggja þá spurningu fyrir sig.

Við heyrðum nú álit hv. 1. þm. N-M., enda var það kunnugt áður. Hann álítur, að bændur þurfi ekki á eftirgjöf að halda eða þá a.m.k. ekki nema að svo litlu leyti, að það sé ekki umtalsvert. Og meiri hl. hv. fjvn. lítur einnig svo á, að bændur þurfi ekki að fá lánin eftir gefin vegna fjárhagsástæðna. Í nál. meiri hl. segir t.d.: „Að áliti meiri hl. fjvn. hefur þannig á eðlilegan hátt verið vel fyrir því séð, að umrædd lán verði engum fjötur um fót.“ Og enn segir: „Benda má á, að sú var skoðun yfirgnæfandi meiri hluta fulltrúa bændastéttarinnar á nýlega afstöðnu búnaðarþingi.“

Já, það er nú svo. Ekki skal efazt um réttdæmi og víðsýni búnaðarþingsfulltrúanna, en sú niðurstaða meiri hluta þeirrar virðulegu samkomu í þessu máli sýnir, að þeim góðu mönnum geta verið mislagðar hendur um afgreiðslu mála, svo að ekki sé meira sagt. En þetta er þá álitið, sem þarna liggur fyrir: Enginn eða sem enginn af öllum bændum á þessu svæði, sem óþurrkalánin fengu, er þannig fjárhagslega settur nú, að hann hafi nokkra þörf fyrir að fá þessi lán eftir gefin. Þetta er álit meiri hlutans. En hvað segja nú bændur sjálfir um þetta? Nokkrir bændur hafa skrifað í blöð, þar sem þeir hafa tekið málið til meðferðar, og það, sem þeir hafa haft til málanna að leggja, virðist ekki vera alveg nákvæmlega það sama og það, sem hv. 1. þm. N-M. hefur skrifað um málið. Nei, þeir hafa sýnt fram á það, að full þörf sé á því að gefa þessi lán eftir. Einn segir til dæmis: „Mig uggir, að þeir verði helzt til margir, sem erfitt eigi með að valda byrðunum, sem sumarið batt þeim í kjarnfóður- og heykaupum.“ Þetta segir einn bóndi á Vesturlandi, en á óþurrkasvæðinu samt.

Þá er einnig bent á það, að margir bændur eigi ómögulegt með að borga þessi lán nema með nýjum lántökum. Ef farið er hérna fram á lestrarsal, þá er hægt að lesa það í bréfi, sem þar liggur og er undirskrifað af fjölda bænda úr Rangárvallasýslu.

Fyrir utan það, sem hefur verið skrifað í blöð af bændanna hálfu, hafa fjöldamörg bréf borizt frá hreppsfélögum, sveitarfélögum og einstökum bændum til bjargráðasjóðs um það, að lánin verði gefin eftir. Ég veit ekki, hvað þessi bréf eru mörg, sem sjóðnum hafa borizt, en ég tók svo eftir, að hv. þm. S-Þ., frsm. meiri hl. fjvn., hafi sagt hér í ræðu síðast, þegar þetta mál var hér til umræðu, að 18 sveitarfélög hefðu skrifað bjargráðasjóði og óskað eftir fullri uppgjöf, 18 sveitarfélög hefðu skrifað bjargráðasjóði og óskað eftir að fá gefin lánin eftir að hálfu. Ég skrifaði þetta upp eftir hv. frsm., og ég hygg, að ég hafi tekið rétt eftir því.

Þá liggja hér á lestrarsal frammi undirskriftir nálega hundrað bænda, sem rökstyðja þá ósk sína að fá lánin eftir gefin.

Þetta eru raddir bændanna sjálfra. Og það er ekki hægt að segja annað, en þessar raddir stangist nokkuð á við þá fullyrðingu meiri hluta fjvn., að vel sé nú séð fyrir því, að lánin verði engum bónda fjötur um fót. Það virðist stangast nokkuð á við þessa fullyrðingu.

Við flm. þessarar þáltill., sem hér liggur fyrir, höfum viljað taka tillit til óska þessara bænda, sem hér eiga hlut að máli, og látum okkur engu skipta, þó að því sé kastað fram, að þetta sé sýndartillaga, það hafi aldrei verið neitt meint með henni, hún hefði aldrei átt að sjá dagsins ljós, eins og fram kom hjá hv. 1. þm. N-M. áðan. Og sömuleiðis látum við okkur það engu skipta, þó að hv, þm. S-Þ. hafi sagt í framsöguræðu sinni fyrir nál. meiri hl. fjvn., að með þessu væri verið að burðast við að mata þá stétt, sem ekki vildi taka við, eins og hv. þm. komst svo smekklega að orði.

Hv. frsm, meiri hl. lagði áherzlu á það í ræðu sinni, að nú væri séð fyrir endann á erfiðleikum þeim, sem af óþurrkunum leiddi, undanfarin tvö ár hefðu verið góðæri og bændum því vorkunnarlaust að greiða lánin. En þessa fullyrðingu sína gerir hv. frsm. að engu með því, sem hann skýrði frá og ég minntist hér á áðan, skýrir frá öllum beiðnum bændanna sjálfra um eftirgjöf á lánunum. Það sýnir bara, að erfiðleikarnir eru ekki úr sögunni. Erfiðleikarnir hjá þessum bændum, þ.e.a.s. greiðsluerfiðleikarnir, byrja vitanlega fyrst, þegar þeir eiga að fara að borga lánin. Það var þægilegt að taka við lánunum, og þau björguðu, um leið og þeir notuðu peningana til þess að halda við sínum bústofni með auknum fóðurbætiskaupum og öðru slíku. En þegar þeir eiga að fara að borga þetta aftur, þá byrja erfiðleikarnir. Það verður að athuga það, að þó að bændur séu ríkir á Suðurlandsundirlendinu, eins og hv. 1. þm. N-M. heldur mikið fram, þá hafa þeir ekki ráð á miklu lausu fé til ráðstöfunar. Ég hélt, að hv. þm. ætti nú að vera það kunnugt. Þetta fé, sem þeir fengu lánað haustið 1955, hafa þeir ekki handbært núna til þess að greiða lánin. Vitanlega er þetta fé fast í rekstri hjá viðkomandi bændum. Það er komið í aukinn bústofn, og það hefur farið í hallarekstur, sem varð á búunum og orsakaðist af óþurrkunum miklu sumarið 1955 og ekki einungis það sumar í tapaðri vinnu, þegar fólk gekk dögum og vikum saman atvinnulaust um hásláttinn vegna tíðarfarsins, heldur í minnkuðum afurðum allt árið 1956 og bústofnsskerðingu, því þó að bústofninn færi ekki niður meira en í 84%, eins og hv. 1. þm. N-M. sagði hér áðan, þá hefur kostað nokkra peninga að kaupa þessi 16% aftur. Nei, erfiðleikarnir eru núna hjá mönnum með að greiða lánin, og það er ekki nokkur vafi á því, að það er rétt, sem fram hefur komið, að fjöldi bænda verður nú, ef hann á að greiða þessi lán, að taka ný lán til þess að gera það. Ég segi: fjöldinn. Það eru vitanlega undantekningar með þetta eins og margt annað.

En viðvíkjandi bjargráðasjóði vil ég taka fram, að það er auðvitað sjálfsagt að styðja að aukningu hans sem mest. Að því er sjálfsagt að vinna. Ég vil geta þess t.d. í því sambandi, að á nýafstöðnum fulltrúafundi Sambands íslenzkra sveitarfélaga var einmitt til umræðu að styrkja bjargráðasjóð og breyta lögum hans, auka tekjur hans á einhvern hátt og gera hann öflugan, svo að sjóðurinn gæti orðið eitthvað meira, en hjálp í viðlögum, ef sérstök hallæri ber að höndum og annað slíkt. Hann gæti orðið svo öflugur, að hann gæti orðið til dæmis lánastofnun sveitarfélaga. Sveitarfélögin eru oft í vandræðum með rekstrarfé hluta úr ári, þegar ekki innheimtast gjöld nema á vissum tíma árs. Ef bjargráðasjóður gæti verið það öflugur, að hann gæti orðið þarna nokkurs konar lánastofnun fyrir sveitarfélögin með bráðabirgðalánum á þeim tíma árs, sem sveitarfélög eiga erfiðast með greiðslur vegna rekstrarfjárskorts, þá væri bjargráðasjóður starfandi og lifandi stofnun. En þessi aðferð með að auka bjargráðasjóð, sem hér hefur verið höfð, er ekki til þess að lyfta þessari stofnun upp. Honum verður ekki bjargað með því að gera hann að óvinsælum rukkara, gera honum að kvöð til þess að eignast þetta fé að rukka það inn frá bændum, hjá þeim aðilum, sem fengu þessi lán og stóðu þá í þeirri meiningu, að þau yrðu ekki innheimt, heldur væri hér um styrk að ræða, en ekki lán. Þessi innheimta hlýtur alltaf að verða erfið og óvinsæl, og slíka skyldu, að innheimta þessi lán, á ekki að leggja á stofnun eins og bjargráðasjóð. Slík gjöf til sjóðsins getur orðið hefndargjöf, í staðinn fyrir að hún styrki sjóðinn. Það á að auka bjargráðasjóð með beinum tillögum frá ríkissjóði og sveitarfélögum, eins og nú er gert, en auka þessi tillög til þess, að bjargráðasjóður geti orðið lifandi og starfandi stofnun.

Þegar farið er að tala um þessi mál, þá er það margt, sem þörf væri að ræða, en ég hef aðeins stiklað hér á stóru. En ég held, að engum sanngjörnum manni blandist hugur um það, að eftir þær umræður, sem hér hafa farið fram, verði niðurstöðurnar þær, í fyrsta lagi, að knýjandi þörf hafi verið á að hlaupa undir bagga með bændum á óþurrkasvæðunum haustið 1955 til að koma í veg fyrir þær geigvænlegu afleiðingar, sem við blöstu vegna hins sérstæða og óvenjulega ástands, sem skapaðist vegna óþurrkanna miklu um sumarið. Og í öðru lagi kemur í ljós, að Stéttarsamband bænda og stjórn Búnaðarfélags Íslands lögðu til, að aðstoðin til bænda á sínum tíma væri veitt sem styrkur að langmestu eða öllu leyti. Mikill meiri hluti þeirra bænda, sem lánin fengu, hefur nú óskað eftir að fá þau eftir gefin og fært rök að því, að þeim er það fjárhagsleg nauðsyn, enda fordæmi fyrir eftirgjöf hliðstæðra lána. Í þriðja lagi virðist vera niðurstaðan, að sú röksemd meiri hl. fjvn., að með því að neita að gefa lánin eftir, sé á eðlilegan hátt og vel fyrir því séð, að umrædd lán verði engum lántakanda fjötur um fót, er rökleysa, sem ekki fær staðizt þrátt fyrir ákvæðin um eftirgjöf til þeirra, sem verst eru stæðir. Í fjórða lagi: Allt hnígur að því, að sú eina rétta og eðlilega afgreiðsla þessa máls sé sú að samþykkja þáltill. okkar hv. 1. þm. Rang. á þskj, 21, eins og minni hl. fjvn. leggur til.