17.12.1957
Neðri deild: 42. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 166 í B-deild Alþingistíðinda. (261)

73. mál, kosningar til Alþingis

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Ég ætla ekki að fara að munnhöggvast hér við hv. 1. þm. Reykv. (BBen), en aðeins segja örfá orð út af þessari dæmalausu ræðu, sem hv. þm. flutti.

Fyrst vil ég endurtaka, að í öllu því moldviðri, sem hv. 1. þm. Reykv. og aðrir sjálfstæðismenn hafa þeytt upp um þetta frv., og öllu því, sem þeir hafa sagt um það, hefur ekki verið nein glóra nema því, að þeir bentu á, að það væri mjög óákveðið, hvað væri átt við með orðunum „í aðliggjandi götum“. Þetta eina atriði, sem þeir gátu gagnrýnt með rökum, verður nú væntanlega leiðrétt og sú brtt. samþ., sem ég hef lagt fram. Þá verður þessu fyrir komið á sama hátt og í gildandi lögum.

Ekki er að heyra á hv. 1. þm. Reykv., að hann gleðjist mjög mikið yfir því, að þessi mikla barátta hans hefur borið þennan árangur, að það hefur verið tekið til greina það eina af því, sem hann hélt fram, sem nokkur vitglóra var í. Ekki var að minnsta kosti svo að heyra á því, sem hann sagði hér áðan.

Hann segir, — og það var aðalatriðið í ræðu hans áðan og það, sem ég vildi leyfa mér að benda hv. þingmönnum á, — hann segir, að í þessu frv. felist valdníðsla. Og hv. þm. belgdi sig út, þegar hann sagði: valdníðsla, og önnur álíka smekkleg orð hafði hann um þetta frv. Og atriðið, sem hann færir til, hvað er það? Það er, að það sé ekki leyfilegt að sitja inni í kjörstofunum og skrifa niður nöfn þeirra, sem kjósa. Þetta kallar hv. þm. óeðlilega valdbeitingu og valdníðslu, að þetta skuli vera bannað. Þetta er allt og sumt, sem hann hefur til þess að benda á, og þær hömlur, sem hann vildi nefna í sambandi við þessi ummæli.

Hv. þm. gerir sig blátt áfram að skrípi með þessum málflutningi.

Síðan setti hv. þm. á langa ræðu og var að fjargviðrast um, hvílíkt óskaplegt misrétti hér væri á ferðinni, það væri hægt að fylgjast með og það væri hægt að greiða fyrir mönnum að notfæra sér kosningarrétt sinn og hvetja þá til þess úti um land, en það væri ómögulegt í Reykjavík, vegna þess að Reykvíkingar væru svo margir.

Auðvitað er þetta ekkert annað en slúður. Auðvitað vitum við, að Sjálfstfl. t.d. hefur yfir mörg hundruð trúnaðarmönnum að ráða, sem hann getur látið minna Reykvíkinga á að kjósa, þó að þeir sitji ekki inni í kjörstofunum til þess að skrifa það niður, hverjir kjósa, hverjir hafa mætt til þess að kjósa. Þetta veit hv. þm. auðvitað ofboð vel. Það er ekkert meiri vandi að koma á framfæri hvatningu til manna í þéttbýli um að kjósa og áminna þá um að kjósa, heldur en í strjálbýli. Það vottar ekki fyrir rökum í öðru eins og þessu, enda vitum við, að í fjölbýli eins og í Reykjavík er bæjunum skipt niður á vegum flokks eins og Sjálfstfl. í mörg hundruð hverfi og mörg hundruð trúnaðarmenn, sem eiga að hvetja menn til þess að neyta kosningarréttar síns. Það eru engar hömlur á þetta lagðar, eins og löggjöfin verður eftir þessa breytingu. Það eitt er bannað, að menn sitji inni 1 sjálfum kjörstofunum til þess að skrifa þar niður, hverjir hafa orðið við þessari hvatningu. Það er þetta, sem þessi hv. þm, leyfir sér að kalla valdníðslu og annað þar fram eftir götunum, Það er það eina.

En hvers vegna eru yfirmenn Sjálfstfl. svona ofsalega reiðir út af þessu? Það er vegna þess, að þeir vilja eiga þátt í því að reyna að neyða þá menn til þess að fara á kjörfund, sem ekki vilja fara þangað eða kæra sig um að fara þangað. Þeir geta komið hvatningu um það, að menn fari, til hvers einasta manns, ekkert síður í fjölbýli, en í strjálbýli. En það mætti kannske segja, að það yrði erfiðara að vera alveg viss um, hvort allir hafi orðið við þeirri hvatningu.

En eins og ég sagði hér um daginn: Hvað ætli það geri til, þó að flokksvél sjálfstæðismanna í Reykjavík og annars staðar eða flokksvélar yfirleitt væru ekki alveg vissar um það, hvort menn hefðu farið eftir þeirri hvatningu eða ekki? Hvern mundi það skemma, þó að það væri ekki hægt að vera alveg viss um það?

Nei, vitanlegt er, að sjálfstæðismenn ætluðu sér að fá almenning til þess að snúast gegn þessu frv. Þeir höfðu svo mikið við, þetta var svo hátíðlegt, svo stórkostlegt, sem var að gerast, að þeir boðuðu til alveg sérstaks fundar í Reykjavík. Það mátti ekki minna vera en það, að öll þrjú sjálfstæðisfélögin í Reykjavík stóðu að þessum mikla fundi, og hann átti að vera til þess að koma af stað andúðaröldu í Reykjavík og um allt land gegn þessu ofboðslega frv.

En hvað kom í ljós? Það kom bara í ljós, að almenningur er yfirleitt alveg með þessu frv., og það eru ekki nema nokkrir æsingamenn í Sjálfstfl., sem raunverulega beita sér á móti því. Þegar leita átti til almennings, var hann allt annarrar skoðunar, en þessir æsingamenn í forustuliði Sjálfstfl, og áleit, að ákvæði frv. væru alveg eðlileg. Og það er þess vegna, sem sjálfstæðismenn hér á Alþ. eru síðan eins og belgir, sem hefur verið stungið á. Það er úr þeim allur þróttur til andmæla gegn þessu frv., þó að hv. 1. þm, Reykv. væri áðan að reyna að belgja sig hér upp út af því, að með þessu væri verið að framkvæma valdníðslu og annað þess konar. Það var auðheyrt á því, hvernig hv. þm, flutti þetta, að hann meinti ekkert af þessu. Þetta var það, sem kallað er innantóm orð, enda má náttúrlega fyrr vera, fyrr rota en dauðrota, að kalla það valdníðslu að banna það eitt, að menn sitji inni í kjördeildunum til þess að skrifa niður, hverjir mæta til þess að kjósa.

Og allt tal hv. 1. þm. Reykv. um misrétti í þessu fellur um sjálft sig, vegna þess að það er alveg jafnauðvelt, raunar miklu auðveldara fyrir menn í þéttbýlinu að koma hvatningu áleiðis til allra um það að neyta kosningarréttar síns, — jafnvel er miklu léttara fyrir fulltrúa flokkanna að hafa persónulegt samband við alla, sem þeir telja til nokkurs skapaðs hlutar að ræða við á kosningadaginn, í þéttbýlinu en á dreifbýlinu, — miklu léttara.