13.11.1957
Sameinað þing: 13. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 231 í D-deild Alþingistíðinda. (2616)

33. mál, afnám áfengisveitinga á kostnað ríkis

Pétur Ottesen:

Herra forseti. Víð höfum nú hlustað hér um stund á tvær ræður, aðra flutta af 1. flm. þessarar þáltill., þar sem hann gerði glögga grein fyrir tilgangi þeim, sem ætlazt er til að mætti ná með samþykkt og framkvæmd þessarar þáltill., og hef ég ekki neinu við það að bæta. Hann gerði þar mjög glögga grein fyrir því, að till. er flutt af fullkominni einlægni af hálfu okkar flm. En hitt getum við að sjálfsögðu ekki ráðið við, þó að til séu menn, sem vilji gera þann tilgang okkar að fíflskaparmálum og það á þeim veglega stað, sjálfu Alþingi. Ég skal svo ekki frekar orðlengja um ræðu hv. 1. flm. Hann hefur gert þar vel og rækilega grein fyrir till. okkar.

Hitt finnst mér sem meðflm. að þessari till., að ekki verði hjá komizt að minnast nokkrum orðum á þá ræðu, sem hv. 1. þm. Eyf. flutti hér. Hv. 1. þm. Eyf. er, svo sem kunnugt er, forseti hv. Ed. Alþingis. Mér virtist hann í ýmsum atriðum fara töluvert öðruvísi að á þessu heimili, þ.e. í sameinuðu Alþingi, heldur en hann gerir eða ætlast til, að aðrir geri á sínu heimili, því sem hann á að stjórna, í hv. efri deild. Hér fer hann að tala um í sambandi við þetta mál gersamlega óskylda hluti, svo sem Ingólfsstyttu, afsteypu af styttu Ingólfs Arnarsonar, sem reist hefur verið hér á Arnarhóli og komið hefur til orða með og komnar eru fram tillögur um að vel sæmdi íslenzku þjóðinni að reist yrði á heimili fyrsta landnámsmannsins, heimili hans í Rivedal í Noregi. Hvað kemur þetta þessu máli við? Ég veit, að ef nokkur hefði leyft sér að fara að blanda svona óskyldu máli í umræður í Ed., þá hefði hæstv. forseti þar gripið til klukkunnar og þaggað niður í slíkum manni, sem þannig vildi ganga á snið við þingsköpin. En eins og kunnugt er, þá er það skylda forseta að sjá um, að ekki sé blandað alveg óskyldum málum inn í umræðurnar, málum, sem ekkert koma við því umræðuefni, sem til umræðu er. Ég tala nú ekki um, ef farið hefði verið að ræða í sambandi við svona mál, eins og þetta, eða raunar hvaða mál sem væri, nema þá helzt ef það hefðu verið trúmálalegar umræður, trúarskoðun Múhameðstrúarmanna, siðalögmáli Kóransins og því um líku. Og ég er hræddur um, að hv. 1. þm. Eyf., forseta Ed., hefði þótt það nokkuð ]angt sótt að leita fanga í þessu máli í þeim fjarlægu löndum, þar sem menn haga trúarbrögðum sínum samkvæmt kenningu Kóransins. Það er engu líkara en að hv. 1. þm. Eyf. hafi verið gripinn einhverri óskapa tilhneigingu til þess að láta ljós sitt skína og þá einkum á þá lund, að gera þessa tillögu hlægilega. Hann hefði átt, áður en hann hóf slíkan leik, að gera sér grein fyrir, í hvaða aðstöðu hann hefur verið settur hér á Alþingi með því að fela honum forsetastörf í hv. Ed., og gæta hér nokkuð hófs í þeim efnum, því að hann má ekki vænta þess, að það séu gerðar aðrar og miklu lægri kröfur í sameinuðu Alþingi um það, að fylgt sé þingsköpum, en í hv. Ed.

Hv. 1. þm. Eyf. varpaði hér fram spurningu: Er þetta hægt, Matthías? Þessi spurning er nú raunar ekkert frumleg, því að þar fer þm. í annarra slóð. En augljóst er, hvert hv. þm. Eyf. stefnir með þessu ávarpi til Matthíasar, hann vill styrkja aðstöðu sína gegn samþykkt þessarar till. með því að láta þessa ímynduðu persónu bera með sér vitni um það, að af því að hér sé ríkiseinkasala á áfengi, þá sé ekki hægt að banna eða takmarka vínveitingar í veizlum, sem haldnar eru á vegum þess opinbera. Þetta er, eins og allir sjá, þvílík fjarstæða, að það tekur engu tali. Hv. 1. þm. Eyf. fær engan Matthías til þess að taka undir þetta með sér. Vínveitingar í opinberum veizlum eru gróðrarstía spillingar, og af þeim stafar mikil þjóðfélagsleg hætta, einkum og sér í lagi af því fordæmi, sem einstaklingar og félagssamtök telja sig hafa í því að fara eins að, feta hér í fótspor opinberra aðila í þessu efni. Hér er um að ræða hættulegt fordæmi. Þess vegna á að taka fyrir þennan ósóma. Þeir einir mundu hneykslast á þessari ráðstöfun, sem hvorki sjá né skilja þá hættu og spillingu, sem af þessum vínveitingum stafar. Og ræða hv. 1. þm. Eyf. sýnir, að hann er í flokki þessara ráðvilltu manna. Ég er ákaflega hræddur um, að Eyfirðingum þyki hér ærin breyting orðin á hugsunarhætti 1. þm. Eyf, frá því, sem var, er hann var í fararbroddi fyrir því, að ungmennafélagsskapurinn í því héraði tæki bindindisheit á stefnuskrá sina sem nauðsynlegt ráð til þess, að sá eldmóður, sem einkenndi þennan félagsskap á þeim árum, nyti sín sem bezt í því umbótastarfi, er félögin tóku sér fyrir hendur. Það er ekki að efa, að hin skelegga barátta, sem hv. 1. þm. Eyf. tók upp sem ungur maður fyrir því að útiloka alla áfengisneyzlu í ungmennafélögunum, aflaði honum vinsælda, sem hann hefur lengi búið að. Ég hef heyrt sagt, að hv. 1. þm. Eyf. hafi til þess að setja enn þjóðlegri blæ á þennan félagsskap tekið það upp að ganga í fornmannabúningi. Og ég efast ekki um, að það hafi þá sópað að honum við boðun bindindisins og aðra vasklega framgöngu í umbóta- og þrifnaðarmálum þjóðar vorrar. En því sárari hefðu Eyfirðingum orðið vonbrigðin, ef þeir hefðu hlustað á ræðu þá, sem hann var nú að ljúka við að halda, svo mjög sem hann þar afneitaði sínum fyrri manni. En í þeirri ræðu gekk, eins og ég hef fyrr bent á, hv. þm. alveg í berhögg við þá viðleitni til þess að draga úr drykkjuskaparóreglunni, sem í tillögu okkar þremenninganna felst. Og þetta skeður þrátt fyrir það, þótt bent hafi verið á með óyggjandi rökum, hver hætta er hér á ferð, þar sem meðal annars 2–3 þús. manns í landinu hefur gersamlega ofurselt heilbrigði sína og lífshamingju á altari áfengisnautnarinnar. Minna mætti nú gagn gera til þess að vekja menn til alvarlegra hugleiðinga í þessu máli. Þessi hugarfarsbreyting hv. 1. þm, Eyf. er hryggilegt tímanna tákn, sem sýnir óstöðugleikann í fari mannanna, ekki síður, en í veðráttunni, þar sem erfitt er að ráða í að morgni, hvernig viðra muni að kveldi.

Ég vil enn víkja með nokkrum orðum að þeirri meinloku hv. 1. þm. Eyf., sem hann vill kalla Matthías til vitnis um, að nauðsyn beri til að veita vín í opinberum veizlum, af því að ríkið standi að áfengisverzlun í landinu. Hér er um að ræða mjög róttækan misskilning og útúrsnúning á heilbrigðri hugsun. Þótt hér sé einkasala á áfengi, eru engar skyldur lagðar á herðar nokkurs manns um kaup á þessum vínum og heldur engin fyrirmæli um það, að menn drekki þau eða veiti öðrum. Öll ákvæði í lögum og reglugerðum þessu viðkomandi miða í einstökum atriðum að takmörkun á vínnautninni.

Og það er fleira, sem hér kemur til greina og stefnir í sömu átt og ákvæði þau, sem í till. okkar þremenninganna felast.

Það er eigi ósjaldan gripið til þess ráðs að loka áfengisbúðum ríkisins og stundum fleiri daga í röð. Þetta er vitanlega skynsamleg og sjálfsögð ráðstöfun, þegar sérstaklega stendur á. Slíkum ráðstöfunum hefur ekki verið mótmælt, heldur hefur almannarómur viðurkennt, að rétt hafi verið að farið. Þessu verður að sjálfsögðu framfylgt, þegar svo ber undir, þangað til sú hamingjustund rennur upp, að áfengið verður gert útlægt úr landinu. Þá er það alkunnugt, að á þeim árum, sem Tryggvi Þórhallsson var forsætisráðherra, tók hann fyrir allar vínveitingar í þeim veizlum, sem hann hélt, hvort sem þær voru haldnar í opinberum veizlum eða á heimili hans. Mæltist þetta mjög vel fyrir, ekki einasta hjá innlendum mönnum, er sátu veizlur hjá honum, heldur og hjá þeim stóra hópi útlendinga, er land vort sóttu heim. Reyndi oft á þetta í stjórnartíð Tryggva Þórhallssonar, en þó mest á alþingishátíðinni. Þá sóttu land þetta heim fleiri tignargestir, en áður hafði þekkzt, og sátu þeir allir boð hjá forsætisráðherra, og eigi varð annars vart, en þeim þætti þessir veizluhættir til fyrirmyndar og landi og þjóð til sóma og álitsauka. Innanlands naut Tryggvi Þórhallsson mikilla vinsælda fyrir það að setja þennan svip á íslenzka gestrisni.

Hv. 1. þm. Eyf. ætti ekki að vera að bæta gráu ofan á svart með því að draga dár að því, hvernig Tryggvi Þórhallsson hagaði veizluhöldum í forsætisráðherratíð sinni. Ráðabreytni hans í þessu efni var mjög til fyrirmyndar og góð og örugg meðmæli með samþykkt þessarar tillögu.

Samþykkt þessarar tillögu, að koma opinberum veizlum yfir á þann grundvöll, sem þar er markaður, er nauðsynjamál og þjóð vorri til mikils gagns og sóma. Gildir hér einu, hvort um er að ræða samskipti vor hér innanlands eða viðskipti vor við fulltrúa erlendra þjóða. Þeir kunna ekki síður en vér sjálfir reglusemi og hóf í hverjum hlut. Er það okkur áreiðanlega miklu gagnlegra til þess að vekja traust og álit þjóðar vorrar á erlendum vettvangi, en að vér í utanríkisstarfsemi vorri látum við hvert tækifæri vínið fljóta um borð og bekki. (Forseti: Ég vildi leyfa mér að spyrja hv. þingmann, hvort hann hugsi sér að tala mjög miklu lengur.) Já, en ég get gjarnan frestað ræðu minni, þótt ég sé hér raunar í miðjum klíðum, en ég tek þá upp þráðinn síðar. (Forseti: Þá er ég neyddur til að fresta fundi.) — [Frh.]