27.11.1957
Sameinað þing: 15. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 235 í D-deild Alþingistíðinda. (2620)

33. mál, afnám áfengisveitinga á kostnað ríkis

Pétur Ottesen [frh.]:

Herra forseti. Það er nú orðið nokkuð umliðið, síðan frestað var umræðu um þetta mál, og þá stóð svo á, að ég hafði ekki lokið ræðu minni, þegar komið var að fundarslitum þess dags. Ég vil hér því taka upp þráðinn, þar sem ég var staddur og var að svara hv. 1. þm. Eyf., sem hafði gert allhvatvíslega tilraun til þess að hnekkja þessari till. Það voru sem sé aðallega tvær ástæður, sem hann byggði andstöðu sína á, annars vegar, að það bæri ekki að leggja niður vínveitingar í opinberum veizlum hér á landi, og þó alveg sérstaklega væri utanríkisþjónustu Íslendinga í voða stefnt, ef ekki yrði haft vín með höndum í þeim veizlum, sem sendiherrar vorir halda utanlands, þar sem þeir eru að vinna að vorum málum. Ég hafði viðvíkjandi fyrra atriðinu bent á það, að aldrei hefðu veizluhöld betur úr hendi farið , en í tíð Tryggva Þórhallssonar, þegar hann var forsrh. hér og hafði ekkert vín í veizlum.

Ég hafði enn fremur bent á, að það væri algerlega í andstöðu við ýmsar aðrar aðgerðir í þessum málum af hálfu þess opinbera, að vín væri veitt í opinberum veizlum. Það eru sem sé í áfengislöggjöfinni ýmsar skorður við því reistar og þá að sjálfsögðu líka í framkvæmd þessa máls, að opinberir aðilar eða þeir, sem koma fram fyrir hönd ríkisins, gerðu ekkert til þess að ýta undir drykkjuskap í landinu. Af þessum ástæðum er það, að það hefur oft komið fyrir, að áfengisútsölunum hefur verið lokað, þegar svo hefur staðið á, að það gæti stafað af því órói eða annað, sem miður fer í sambúð borgaranna, að vínið flyti þá. Í öðru lagi er bannað í lögum að auglýsa áfengið. Þetta og margt fleira af þessu tagi bendir fullkomlega til og talar skýru máli um, að það þyki varhugavert að láta opinbera aðila standa þannig að þessum málum, að það geti leitt til aukins drykkjuskapar í landinu. Tillaga okkar er í fyllsta samræmi við þessa stefnu.

Þessi hugsun kom einnig upp hjá ríkisstj. vorri eða hæstv. forsrh. vorum á síðasta þjóðhátíðardegi vorum, 17. júní. Þá hélt hann veizlu, sem ekkert vín var veitt í, og var það í fullu samræmi við það, sem löggjöf og allur almenningur ætlast til að ríkisstj. vor standi að slíkum málum.

Sem sagt allar ráðstafanir lúta að því, að af opinberri hálfu sé ekkert gert til að ýta undir vínnautnina og að vínveitingar í opinberum veizlum brjóta því alveg gersamlega, eins og ég hef bent á og rökstutt hér, í bága við það, að svo skuli að farið, því að það er vitað, að með slíkum vínveitingum er verið af opinberri hálfu að örva og ýta undir drykkjuhneigð þeirra manna, sem þess eiga kost að sækja þessar veizlur, og meira að segja þetta verk getur verkað og verkar langt út fyrir þessi gestaboð. Og þetta skeður með tvennum hætti: Í fyrsta lagi með því að leiða þessa menn að drykkjuborði og það veikir að sjálfsögðu og sljóvgar mótstöðumátt þessara manna gegn vínnautnarástríðunni, sem eins og kunnugt er leitar mjög á allar gáttir í þessu þjóðfélagi. Þarna er beinlínis með þessu verið að leiða menn í gildru, í drykkjuskapargildruna, sem oft hefur þær afleiðingar, að menn í slíkum veizlum sem öðrum drekka frá sér vitið og alla blessun.

Í öðru lagi er með þessum opinberu vínveitingum stofnað til fordæmis, staðið fyrir að efla og þróa drykkjutízku, sem þjóð vorri er mjög hættuleg, því að enn er í gildi spakmælið, að hvað höfðingjarnir hafast að, hinir ætla sér leyfist það, — og það verkar enn sterkar, en að þeim leyfist það, það er tekið beinlínis sem uppörvun til sín að sigla í þetta kjölfar. Og þessar opinberu vínveitingar í veizlum hafa skapað þann hugsunarhátt, þann hræðilega hugsunarhátt allvíða, að það sé beinlínis kotungsháttur að halda svo veizlur, að þar sé ekki vín á borðum, og við vitum, að það er veikur þáttur í eðli Íslendinga, að ef víninu er haldið að mönnum, þá vill nautn þess oft vera með allóhóflegum hætti. Það er þess vegna mjög hættulegt vegna fordæmisins um þessa drykkjutízku, að þeir menn, sem falið er að skipa mestu valda- og virðingar- og trúnaðarstöður í þjóðfélaginu, haldi uppi slíku fordæmi. Þetta er hættan, og þetta er kjarni málsins að því er þessa þáltill. snertir, sem hér liggur fyrir, eins og hv. 1. flm. þessarar till. gerði mjög rækilega grein fyrir og brýndi fyrir þingheimi, þegar hann innleiddi hér umræður um till. Og það er gott dæmi um þetta. Hvaða svör fékk hann, þegar hann flutti um það tillögu í bæjarstjórn Reykjavíkur, að það skyldi verða hætt við vínveitingar í opinberum veizlum? Jú, svarið kom, og það var á þá lund, að úr því að ríkisstj. Íslands og valdhafar þar gerðu þetta, þá væri ekki óeðlilegt, að þeir, sem ráða bæjarmálunum, færu einnig eins að. Það er þess vegna beinlínis firra og undur, að fyrir skuli finnast á Alþingi menn, sem ekki sjá og skilja eða vilja ekki sjá og skilja, — og það er sízt betra, — að hér er verið með þessum vínveitingum í opinberum veizlum að leika hættulegan leik, beinlínis hættulegan leik.

Drykkjuskaparóreglan í landi voru er mjög mikil og vaxandi þjóðfélagsvandamál, sem verður að fara að taka miklu fastari tökum en gert hefur verið hingað til, ef við eigum ekki að sigla í þau vandræði, sem við sjáum ekki út úr, hvernig við losnum aftur úr. Þessum málum er nú þannig komið með okkar þjóð. Og það er æskan, vaxtarbroddur þjóðfélagsins, sem þarna er ofurseldur þessari hættu í svo ríkum mæli, að það ætti engum manni að sjást yfir þá hættu, sem vofir yfir okkur í þessu efni. Það eru mörg þjóðfélagsvandamálin, sem að okkur steðja eins og öðrum, og þau eru mörg af þeim mjög vandleyst, því er sízt að neita. En þennan þátt í okkar vanda, að leggja niður vínveitingar í opinberum veizlum og slá þannig á þessa hættulegu drykkjutízku, það er okkur mjög auðvelt að gera. Það er ekkert nema vilja- og skilningsleysi á eðli og kjarna málsins, ef slíkt er ekki gert. Leiðin til þess, að þetta skuli gert, er sú, sem við þremenningarnir, sem að þessari till. stöndum, höfum lagt hér til, að Alþingi í eitt skipti fyrir öll taki af skarið um þetta mál og leggi fyrir valdhafa vora að leggja algerlega niður þennan ósið. Og það er ekki til nein frambærileg afsökun fyrir því að vilja ekki gera þetta, ekki nein.

En það er harla margt einkennilegt, sem fyrir ber nú á þessum dögum, það verður maður að segja. En ég verð þó að segja það, að það er þó fátt undarlegra, en að þeim selshaus fordóma skuli skjóta upp hér á Alþingi nú á þessum upplýsingarinnar tímum, að ekki sé hægt fyrir Íslendinga að halda uppi utanríkisþjónustu sinni með öðrum hætti, en þeim að láta þar allt fljóta í brennivíni. En þetta hefur nú skeð, og þetta var það, sem skeði í ræðu hv. 1. þm. Eyf. Hann taldi þetta vera og sló fram í því sambandi spurningu, sem margir kannast við.

Þegar fundi var frestað síðast, var ég kominn að því að svara þessum þætti í ræðu hv. 1. þm. Eyf. Hann lagði svo mikla áherzlu á þetta, hv. 1, þm, Eyf., og þóttist með þeim málflutningi sínum leggja svo þungt lóð á metaskálarnar, að það væri ekki hægt að rétta vogina. Þótt það sé nú slagorð, firrur og fjarstæða að halda þessu fram, þá ætla ég nú samt að fara nokkrum orðum um þennan þátt í ræðu hv. 1. þm. Eyf. og biðja hv. þingmenn að athuga það, hvernig háttað er utanríkisþjónustu þjóðanna yfirleitt og hver er grundvöllurinn undir þeirri starfsemi. Hann er sá, að sendiherra hverrar þjóðar hefur sérréttindi í því landi, sem hann dvelur í. Heimili hans er heimili þess ríkis, sem hann á heima í og hann starfar fyrir. Þetta heimili á að vera háð siðum og þjóðháttum þess lands, sem sendiherrann er frá. Þetta er til þess gert, að viðkomandi þjóð geti sýnt það og varðveitt þar þjóðareinkenni sín og þjóðarhætti. Það þykir að sjálfsögðu eðlilegt, að slík lýsing á háttum þess lands, sem sendiherrann starfi fyrir, komi fram í öllum háttum á þessu heimili og þá vitanlega ekki siður í sambandi við veizluhöld þar eða annan mannfagnað. Það er þess vegna alveg gersamlega gripið úr lausu lofti og ótrúlega langt sótt sú hugsun, að slíkt mundi verða illa tekið upp hjá forráðamönnum þeirrar þjóðar, þar sem sendiherrann dvelur, þótt hann héldi uppi háttum síns heimalands. Það mundu allir aðilar, sem við skiptum við úti um heiminn, taka það sem sjálfsagðan hlut, að áfengir drykkir væru ekki veittir í slíkum veizlum, úr því að sá háttur væri á hafður í heimalandi sendiherrans. Þetta mundi enginn, ekki einn einasti af þeim viðskiptamönnum, sem við þurfum að hafa samneyti við og semja við, taka illa upp fyrir hinni íslenzku þjóð. Það mundi þvert á móti vekja traust og virðingu úti um allan heim, þar sem við höldum uppi slíkri starfsemi, að þessi háttur væri á hafður á Íslandi. Það þekkja fleiri en við, til afleiðinga drykkjuskaparins og hver þörf er á því, að þar sé spornað í móti. Það er síður en svo, að slíkt mundi á nokkurn hátt verða tekið illa upp. Og ég býst við, að þetta mundi verða verulega sterkur þáttur í því að létta störf og göngu þeirra manna, sem við sendum út í heiminn til þess að starfa fyrir okkur, efla viðskipti vor og vekja traust á þjóðinni.

Það er þess vegna í rauninni ekki hægt að grípa niður á ólíklegri stað af þeim, sem ætla sér að reyna að vekja upp drauga í sambandi við þessa tillögu til þess að hræða menn með frá því að samþykkja hana, heldur en að leggja svona mikla áherzlu á þetta atriði.

Hv. 1. þm. Eyf. nefndi hér nafn eins erlends manns í sambandi við þessar umr., sem mundi taka það illa upp fyrir Íslendingum, ef það yrði ekki veitt vín í þeim veizlum, sem hann væri boðaður í. Þetta er mikill ráðamaður, — hann nefndi nafnið á honum, — mikill ráðamaður í stóru viðskiptalandi Íslendinga, sem Íslendingar á því sviði þurfa að eiga mikil og góð viðskipti við. Ég held, að hann hafi helzt haldið, að þau viðskipti mundu öll hrynja til grunna, ef hætt væri að veita vín í þeim veizlum, sem þessi maður mundi sækja.

Ég vil benda á það í þessu sambandi, að það gengu sagnir um það, að ekki alls fyrir löngu var forsrh. Norðmanna staddur í þessu landi og á fundum með þessum manni. Forsrh. Norðmanna bragðar ekki vín frekar en ég og ýmsir aðrir góðir menn. Og hvað haldið þið, að þessi mikli ráðamaður í Rússlandi hafi gert, þessi maður, sem hv. 1. þm. Eyf. var hræddur um að mundi taka illa upp fyrir okkur, ef það væri tekinn af honum dropinn? Hvað haldið þið, að hann hafi gert? Hann skálaði í sódavatni við Gerhardsen, forsætisráðherra Norðmanna. Ætli hann mundi siður skála í sódavatni við sendimenn íslenzku stjórnarinnar? Ég hugsa ekki. Annars vil ég segja það, að ég vil vara hv. 1. þm. Eyf. við að vera að koma nokkru drykkjuskaparóregluorði á þennan mann hér á Alþingi. Ég bara beinlínis tek upp hanzkann fyrir hann.

Ég vildi nú hafa gert grein fyrir því, að þessar ástæður, sem hv. 1. þm. Eyf. hefur borið fram gegn þessari till. okkar, eru alveg gersamlega einskis virði. Ég vildi hafa með þessum orðum mínum fært rök fyrir því, að þetta er þannig, bæði hvað snertir okkar starf og líf hér heima í þessu landi og þau störf, sem okkar menn þurfa að rækja annars staðar, að öllu þessu væri miklu betur borgið og fyrir séð með því að hafa þann hátt á, sem við þremenningarnir leggjum til í okkar till.

En það er tvennt enn, sem ég ætla að minnast hér á. Það er í fyrsta ]agi það, að hv. 1. þm. Eyf. ber hér fram till. um það, — ég veit, að hæstv. forseta eða þeim, sem nú situr í þeim stóli, þykir það undarlegt eins og mér, að slík till. skuli hafa komið fram; það var annar forseti, sem skipaði þá stólinn, og hún var sú að vísa þessu máli til utanrmn. Ja, það er von, að forseta þyki þetta einkennilegt fyrirbrigði. Er ég fyrr í ræðu minni fór nokkrum orðum um það, að e.t.v. hefði hv. 1. þm. Eyf. nokkuð skriflað á sköturoðinu um þinglega hætti í fyrri hluta sinnar ræðu, hafði ég þó ekkert í því sambandi minnzt á þessa till. hans, en till. eins og þessi er að sjálfsögðu slík fjarstæða, að ég hygg, að aldrei hafi verið borin fram á Alþ. jafnvanhugsuð og fráleit till. um það, hvernig skipa beri gangi mála. Ég minnist þess ekki að minnsta kosti. Það er alkunnugt, að slík mál sem þessi, þegar þau eru rædd í deildum, þá er þeim vísað til allshn. Og í Sþ. er auðvitað ekkert eðlilegra og sjálfsagðara, en að slík till. fari til allshn. sameinaðs þings og hljóti þar meðferð. Og það er það, sem hv. 1. flm. þessarar þáltill. hefur líka af mjög eðlilegum ástæðum lagt til. Það er eiginlega ekki hægt að líta á þessa tillögu öðruvísi, en að með henni sé verið að gera gys að hefðbundinni venju um meðferð mála hér á Alþingi. Og ég verð að segja, að það situr illa á einum af forsetum Alþingis að bera fram slíka tillögu.

Þessi þáltill. okkar þremenninganna hefur vakið mikla athygli úti um allt land, meiri athygli en við höfum átt að venjast nú um nokkurt skeið á sviði þessara mála. Og þetta stafar af því, að fólkið gerir sér nú úti um allar byggðir landsins fullkomlega grein fyrir því, hvar íslenzka þjóðin er á vegi stödd nú í þessum áfengismálum. Það gerir sér líka fulla grein fyrir því, að það sé hættulegur hlutur að halda að fólkinu í landinu þeirri drykkjutízku, sem vínveitingar í opinberum veizlum hafa beinlínis forustuna í, og ég hef áður gert hér grein fyrir því. Alþingi hefur borizt fjöldinn allur af áskorunum í þessum efnum. Ég hef hér langan lista, og ég býst nú við því satt að segja, að forseti Ed., hv, 1. þm. Eyf., hafi lesið þennan lista upp í sinni d., jafnóðum og þessar áskoranir hafa verið að berast, svo sem venja er til á Alþingi. En hluturinn er sá að, að þeim félagssamtökum, sem sent hafa Alþingi áskoranir um að samþykkja þessa till., standa tugþúsundir manna úti um allar byggðir þessa lands. Ég ætla ekki að fara að lesa þennan lista upp eða lengja málið með því, (BSts Það væri gott að heyra hann.) Þess er ekki þörf, því að hv. 1. þm. Eyf. er búinn að lesa upp úr forsetastóli þetta allt saman í Ed. Ég skal samt t.d. benda honum á það, til þess að gera honum svolitla úrlausn, að áfengisvarnanefndirnar allar í Eyjafjarðarsýslu skora á Alþingi að samþykkja þessa till. Ja, ef hv. þm. er einhver fróun í þessu, þá er mér það kærkomið að benda honum á þetta. Það er í miklu fleiri sýslufélögum, sem áfengisvarnanefndirnar hafa sameinað sig, - ég held, að það sé í einum 5 eða 6 sýslufélögum, — og sent sameiginlega áskoranir um þetta efni. Og af því að hv. þm. A-Húnv. brosir nú svo blítt til mín úr sæti sínu, þá vil ég benda honum líka á það, að áfengisvarnanefndirnar í Austur-Húnavatnssýslu hafa allar sent slíka áskorun. Og veit ég það, að hv. þm. á eftir, að kjósendur hans snúi sér til hans og óski stuðnings hans í þessu efni, svo miklir málafylgjumenn eru Austur-Húnvetningar vissulega.

Ég skal svo ekki fara fleiri orðum um þessar áskoranir, en þær eru margar, og þar fylgir hugur máli, svo sem líka þörf er á.

Við vitum náttúrlega ekkert um það, flm. þessarar till., hvaða afdrif hún fær hér á Alþingi. Við göngum að sjálfsögðu út frá því, að hún verði samþykkt, en við vitum það ekki. En það er alveg víst, að samtakamáttur þessara manna, sem að áskorununum standa, er ekki fallinn, og málinu verður fylgt eftir af þeirra hálfu. Það er áreiðanlegur hlutur.

Hér eru komnar fram nokkrar brtt., en ég ætla nú ekki að fara að ræða þær að þessu sinni, enda á það ekki við fyrr, en við síðari umr. málsins.

Þá vil ég að lokum, með leyfi hæstv. forseta, lesa hér upp nokkur ummæli úr einn dagblaðanna, Tímanum, flokksblaði hv. 1. þm, Eyf., sem blaðið hefur tekið upp úr ávarpi, sem landssambandið gegn áfengisbölinu hefur sent Alþingi í þessu sambandi. Og ritstjóri Tímans býr til myndarlega fyrirsögn fyrir þessu ávarpi, sem hljóðar svo, líka með leyfi hæstv. forseta:

„Brýn nauðsyn, að Íslendingar spyrni fótum við siðspillandi drykkjutízku“, — og ég vona, að það fari ekki fram hjá neinum, við hvað hér er átt.

Í þessu ávarpi stendur meða] annars: „Það er knýjandi nauðsyn, að allir góðir Íslendingar, hvort sem þeir eru skráðir meðlimir einna eða annarra félagssamtaka eður eigi, spyrni fótum við þeirri siðspillandi og eyðandi drykkjutízku, sem nú ríkir um borg og byggð. Gæti þess allir, er að félagsmálum vinna, hvort sem félag þeirra er aðili að landssambandinu gegn áfengisböli eða eigi að efna ekki til þeirra mannfunda, hvorki í félagsheimllum, skólum né annars staðar, þar sem áfengið flóir ljóst og leynt og verður gildra mörgum æskumanni, er þar tælist inn á braut ofdrykkjunnar.“

Þetta er, eins og allir sjá, þörf og góð hugvekja. Þeir halda áfram:

„Gæti þess allir heimilisfeður og mæður að efna ekki til þeirra samkvæma, þar sem drykkjutízkan ræður samkvæmisháttum og sá þykist fremstur gestgjafi, er ber fyrir gesti sína mesta og sterkasta áfenga drykki. Útrýmið áfenginu úr samkomum yðar, hvort heldur er á heimilum eða mannamótum. Eflið það almenningsálit, að það sé engum manni sæmandi að stofna til drykkjugilda, hvorki í smærri né stærri stíl. Krefjizt þess af leiðandi mönnum í stjórn ríkis og bæjarfélaga, að þeir gangi á undan með góðu fordæmi og leggi niður allar veitingar áfengis í opinberum samkvæmum. Alþjóð manna til sjávar og sveita skal láta á sannast, að Íslendingar eru vakandi þjóð, sem vill vita fótum sínum forráð, ekki sóa fjármunum sínum í skaðlegar nautnir og tildur, og veita þannig forustumönnum sínum það aðhald, að þeir hljóta að sýna þeim, sem undir þá eru gefnir, gott eftirdæmi í þessum efnum.“

Þeir ljúka svo þessu ávarpi sínu með þessum orðum:

„Landssambandið gegn áfengisbölinu heitir því á alla góða Íslendinga og þó einkum þá, sem standa innan einhverra þeirra félagssamtaka, er gerzt hafa aðilar að sambandinu, að spyrna nú við fótum, gerast sjálfir virkir þátttakendur í baráttunni gegn áfengisbölinu með því að hafna sjálfir nautn áfengra drykkja, og jafnvel þótt þeir treysti sér ekki til þess að stíga sjálfir það spor, að forðast að verða með fordæmi sínu eða athöfnum valdir að því, að aðrir og þá sérstaklega hinir ungu leiðist til drykkjuskapar. Leggið hver og einn yðar skerf til þess, að þjóð vor megi í sannleika verða algáð þjóð.“

Þetta er mjög íhugunarvert ávarp og samið og flutt af miklum sannfæringarinnar krafti fyrir því, að hér þurfi að stemma á að ósi.

Ég skal svo ekki að þessu sinni fara fleiri orðum um þetta mál, en vænti þess og tek undir það með hv. 1. flm. þessarar þáltill., að hún fái góða og greiða afgreiðslu hér á Alþ. og að við eigum eftir að sjá, að framkvæmd á grundvelli hennar eigi eftir að verða þjóð okkar til mikils gagns og varnaðar í þessum málum, þangað til sá tími rennur upp, að við getum hrint gersamlega þessum bölvaldi frá okkur, áfenginu.