04.12.1957
Sameinað þing: 17. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 251 í D-deild Alþingistíðinda. (2623)

33. mál, afnám áfengisveitinga á kostnað ríkis

Flm. (Alfreð Gíslason):

Herra forseti. Hv. þm. A-Húnv. hefur lagt fram brtt. á þskj. 88. Er hún þess efnis, að í stað afnáms áfengisveitinga á kostnað ríkisins komi áskorun á ríkisstj. að gera til þess raunhæfar ráðstafanir að draga úr útgjöldum ríkisins til veizluhalda og skemmtiferða innanlands og utan. Hvers vegna hv. þm. kemur með þetta sem brtt., skal ég ekkert um segja og vil ekki gera honum neinar getsakir. Ég er efnislega ekki á móti því, sem í till. felst, en tel hana engan veginn nálgast till. okkar þremenninganna hvað þýðingu snertir sem almennt velferðarmál. Svipaðar skoðanir virðist flokksbróðir hans, hv. 2. þm. Eyf., hafa, en á þskj. 95 leggur hann til, að þessari brtt, verði skeytt aftan við till. okkar þremenninga. Annars er ekki ólíklegt, að veizluhöldum mundi eitthvað fækka við það eitt, að hætt yrði að veita áfengi á kostnað ríkisins og stofnana þess. Verða ekki veizlurnar fleiri einmitt vegna drykkjuskaparins? Um eitt ríkisfyrirtæki hef ég heyrt sagt, að þar séu áfengisveitingar tíðar. Þetta fyrirtæki hefur hallarekstur og er hæstv. ríkisstj. áhyggjuefni. Sjálf mæðist stofnunin í mörgu og m.a. því að finna nægilega marga tyllidaga til drykkjuhalds. Jafnvel sjálfur aðfangadagur jóla er þar notaður sem tilefni til að veita starfsfólkinu áfengi með leiðum afleiðingum fyrir sum heimilin á mesta hátíðarkvöldi ársins. (Gripið fram í: Hvaða ríkisstofnun er þetta?) Þvílíkar stofnanir eru því miður fleiri en ein hér og hafa lengi verið, og þar fær ungt starfsfólk uppeldi sitt í drykkjuskap, hafi það ekki fengið það áður. Ef hætt yrði að veita áfengi á kostnað stofnananna, mundi tyllidögum, tækifærunum til drykkjuhalds, án efa fækka til stórra muna.

Í fyrri ræðu sinni hér um daginn minntist hv. 1. þm. Eyf. á íslenzku sendiráðin. Hann virtist kvíða því, að sendiherrarnir kynnu því illa að mega ekki veita áfengi á kostnað ríkisins í gestaboðum sínum. Það má vel vera, að kvíði hans sé ekki ástæðulaus. Ég skal fúslega játa, að ég hafði sendiráðin ekki í huga, þegar ég mælti fyrir till. um afnám áfengisveitinga á kostnað ríkisins, og ég held, að þau geri ekki mikið til eða frá í þessu efni. Þeirra fordæmi, illt eða gott, mun ekki hafa nein teljandi áhrif á drykkjuvenjur hér heima á Fróni. Hitt er annað mál, hvort sendiráðin settu nokkuð ofan, þótt ríkið hætti að sjá þeim fyrir brennivínspeningum. Við megum gjarnan hafa það í huga, þegar rætt er um áfengi og sendiráð, að sums staðar a.m.k. er ofdrykkja talin atvinnusjúkdómur í stétt sendiráðsmanna, líkt og er um stéttir ölgerðarmanna, veitingaþjóna og sölumanna. Ef óhollar siðvenjur þvinga starfsmenn sendiráða til drykkjuskapar, þá ætti nokkurt aðhald ofan frá einungis að verða þeim til góðs.

Þá kemur það og til álita, hvort sendiráðin mundu ekki leysa hlutverk sín enn betur af hendi, ef áfengisneyzla minnkaði þar, og er ég persónulega ekki í miklum vafa um það. Nýlega sætti ein af erlendu sendisveitunum hér í Rvík harðri gagnrýni í heimalandi sínu. Var starfsmönnum hennar borinn á brýn taumlaus drykkjuskapur, sem vart mun hafa verið talinn auka á starfshæfnina þar. Í sumum löndum heims liggja erlend sendiráð undir því ámæli að spilla þar drykkjuvenjum með smekklausum veitingum áfengis í tíma og ótíma. Ég er ókunnugur íslenzkum sendiráðum, einnig af afspurn, en vel gæti ég unnt þeim þess að verða öðrum til fyrirmyndar í þessu efni. Annars held ég, að þau séu ekki stórt atriði í þessu máli. Með till. okkar þremenninganna er stefnt að sköpun fordæmis, er orðið gæti til heilla þeim, sem á Íslandi búa.

Hv. 1. þm. Eyf. virtist þeirrar skoðunar, að drykkjuskapur væri ekkert vandamál í löndum Múhameðstrúarmanna, svo væri spámanni þeirra fyrir að þakka. Þarna er ég hræddur um að honum skjátlist. Í löndum Múhameðstrúarmanna er þvert á móti undan því kvartað, að áfengisneyzla fari þar stórum vaxandi og hafi svo verið einkum síðan á árum síðustu styrjaldar. Helzta orsök aukins drykkjuskapar á þeim slóðum er nú talin illt fordæmi, er vestrænar herstöðvar þar og sendiráð hafa skapað.

Þá virtist sami hv. alþm. mjög uggandi um, að samþykkt till. kæmi að tilætluðum notum. Benti hann á, að gestir í veizlum Alþingis og ríkisstj. gætu sjálfir keypt sér þar áfengi, þar eð þessar veizlur væru oftast haldnar á stöðum, sem hefðu leyfi til áfengisveitinga. Er þetta ekki fullmikil kvíðasemi? Slík hegðun gesta væri vægast sagt lítil kurteisi í garð gestgjafans. Hugsanlegt er þó, að einhverjir kynnu að grípa til þess úrræðis í mótmælaskyni og þá helzt þeir, sem langt væru leiddir á braut drykkjuskaparins, en slíkum veizluspjöllum mundi vafalaust fljótt linna, enda líklegt, að þeir sömu menn hlytu litla virðingu af. En hvað sem slíkum heilabrotum líður, þá er það eitt til umræðu nú, hvort æðstu stofnanir ríkisins eiga að veita gestum sínum þá ólyfjan, sem áfengið óneitanlega er, eða hvort þær eigi ekki að gera það. Hvað gestirnir gera sjálfir, er annað mál og mundi þá sýna sig síðar.

Fyrri ræða þessa hv. alþm. einkenndist hvorki af áræði né stórhug, þar bar mest á víli og úrtölum, en þeir eiginleikar munu ekki sigurstranglegir í viðureigninni við Bakkus. Tillagan um afnám áfengisveitinga á kostnað ríkis og ríkisstofnana mun mæta mótstöðu, jafnvel harðri mótstöðu. Þegar sú mótstaða verður yfirunnin, og það verður hún einhvern tíma, þá mun koma í ljós, að allar úrtölurnar voru ástæðulausar. Enginn mun líða við framkvæmd afnámsins, en margir njóta góðs af. Íslenzk stjórnarvöld munu innanlands og utan hljóta þökk fyrir og virðingu, en engra ámæli, utan þá nokkurra drykkfelldra einstaklinga.

Einhverjir munu leggja á það áherzlu, að erlendir gestir kunni að fyrtast, ef þeir fái ekki í staupinu í opinberum veizlum hér. Ekki er það óhugsandi, að til séu þeir menn, sem það mundu gera. Hinir verða þó langt um fleiri, sem ekki láta slíkt á sig fá og yrðu jafnvel hrifnir af, er þeir heyrðu, í hvaða tilefni slíkt væri gert. Fagurt fordæmi mælist ekki illa fyrir, þegar til lengdar lætur. Því miður hafa móttökur erlendra gesta stundum um of einkennzt af fordild og flottræfilshætti, sem sérstaklega hefur komið í ljós í hóflausum áfengisaustri. Slíkar móttökur auka ekki veg þjóðarinnar, heldur hið gagnstæða og ættu að afnemast sem fyrst. Hingað komu nýlega tveir konungar í heimsókn. Báðir eru bindindismenn. Þeim voru haldnar margar veizlur og veglegar og í flestum þeirra veitt áfengi, ekki af rausn, heldur ofrausn. Tæpast var það fyrir þá gert eða drottningarnar að veita áfengi. Nei, sá grunur er þrásækinn, að slíkar drykkjur sé aðallega hafðar til að geðjast sjálfum gestgjöfunum og þeirra föruneyti, enda mest þreyttar af þeim, gestunum stundum til lítillar ánægju.

Í tilefni síðari ræðu hv. 1. þm. Eyf, langar mig að taka fram nokkur atriði. Ég sagði í framsöguræðu, að í okkar litla þjóðfélagi, ekki í Reykjavík einni, væru að staðaldri 2–3 þúsundir manna, sem neyttu áfengis sér til óbóta heilsufarslega og efnalega. Þessi tala er að vísu ekki nákvæm. Í heilsuverndarstöð Reykjavíkur starfar áfengisvarnadeild, þar sem drykkjumönnum, sem þangað leita, er veitt læknismeðferð. Þessi deild telur skjólstæðinga sína í ár vera um 1.000, og eru þeir nálega allir Reykvikingar. Hér við bætist fjöldi drykkjumanna, sem leitað hefur annað um hjálp, t.d. til AA-samtakanna, Bláa bandsins og til einstakra lækna, auk þeirra mörgu sem ekki fást til að leita sér neinnar hjálpar. Fjöldi drykkjumanna í Reykjavík er þannig af kunnugum lágt áætlaður um 2.000 manns. Þar við bætist svo tala drykkjumanna utan Reykjavíkur. Sumir, sem eru kunnugir þessum málum, álíta þó, að nær sanni mundi vera að telja ofdrykkjumenn á Íslandi nálægt 4 þúsundum eða aðeins undir þeirri tölu. Mundi það samsvara rúmum tveim af hundraði allrar þjóðarinnar, eða 1.5 af hundraði, ef minni varlegu áætlun væri fylgt.

Hv. þm. varpaði þeirri spurningu fram, hvað drykkjusjúklingur væri. Sérfróðir læknar hafa vissulega mælikvarða á það. Með tímanum markar áfengið sín spor, og koma þá fram viss sjúkleg einkenni líkamslegs og geðræns eðlis. Þau leiðir læknisskoðun í ljós. Um það efni skal ég ekki fjölyrða hér. Það er önnur hlið til á því máli, nefnilega sú félagslega, og um hana geta allir dæmt. Ef maður að eigin áliti eða þeirra, sem vel þekkja til, drekkur sér til stórtjóns í félagslegu tilliti, efnalega, atvinnulega eða hann á annan hátt spillir einkalífi sínu og heimiii með áfengisneyzlu sinni og ef hann þrátt fyrir vitundina um þetta getur ekki unnið bug á drykkjufýsn sinni, þá er hann drykkjusjúkur. Hitt er svo vitað mál, að vafatilfelli geta verið mörg, því að mörkin á milli hófdrykkju og ofdrykkju eru langt frá því að vera skörp.

Íslendingar drekka árlega sem svarar 11/2 lítra af hreinum vínanda á mann. Þetta er ekki ýkja mikið, borið saman við ýmsar aðrar þjóðir. Almenningur hér neytir ekki daglega léttra vína, eins og víða tíðkast, og áfengt öl er sama og ekkert drukkið hér. Þetta gerir gæfumuninn okkur í vil. Samt sem áður er neytt hér á landi um 230 þús. lítra af hreinum vínanda á ári. Hverjir drekka þetta? Það er ekki öll þjóðin, því að hér eru margir bindindissamir. Ofdrykkjumennirnir neyta ekki verulegs hluta af þessu mikla magni, þeir komast ekki yfir það. Meginið af þessu áfengi mun drekka allstór hópur karla og kvenna, sem eru tíðir gestir á dansleikjum, í veizlum og öðrum samkvæmum. Það er samkvæmisfólkið, sem drekkur hættulega mikið. Úr veizlusölunum liggur brautin út á galeiðu drykkjusýkinnar. Það er í þessu efni, sem skórinn kreppir að hjá okkur nú, og að því eigum við að beina athyglinni. Það er Íslendingum til lofs, að þeir eru meðal þeirra þjóða, sem gera sér ljósasta grein fyrir áfengisvandamálum sínum. Sumar þjóðir státa af því, að þær hafi engin áfengisvandamál, en það eru einmitt þjóðirnar, sem gefa þeim málum minnstan gaum, en eru þó verst á vegi staddar. Þannig var um Frakka þar til fyrir fáum árum. Á þá var bent sem fyrirmynd í umgengni við Bakkus. En það kom annað hljóð í strokkinn, þegar rannsóknarnefnd frá Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni fór að athuga ástandið í Frakklandi, og er það nú frægt orðið. Jafnvel hjá börnum í stórum stíl fundust einkenni ofdrykkju.

Við höfum okkar áfengisvandamál og eigum að snúa okkur að lausn þeirra af manndómi, en ekki svæfa samvizkuna með því, að ýmsar aðrar þjóðir séu þó enn verr á vegi staddar. Víða erlendis mun verða tekið eftir því og það tekið til fyrirmyndar, ef okkar litla þjóð stígur djarfmannlegt spor í þá átt að draga úr drykkjuskapnum. Það eigum við að gera nú, ekki með setningu pappírslaga, heldur með því að gefa fordæmi, þar sem þess er brýnust þörf.