04.12.1957
Sameinað þing: 17. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 254 í D-deild Alþingistíðinda. (2624)

33. mál, afnám áfengisveitinga á kostnað ríkis

Jón Pálmason:

Herra forseti. Um þá till., sem hér liggur fyrir á þskj. 44, hafa nú verið haldnar miklar ræður og margt komið fram í því sambandi, en vegna þess, hvernig þetta mál liggur fyrir, þykir mér ástæða til að bæta þar við nokkrum orðum. Ég ætla samt ekki að fara að halda hér neina bindindisræðu. Það er af því, að ég er sannfærður um, að það mundi engin áhrif hafa á vínneyzluna í landinu. Ég er líka sannfærður um, að það mundi lítil áhrif hafa til eða frá í því sambandi, hvort þessi till., sem hér liggur fyrir, verður samþykkt eða samþykkt ekki. Þess vegna hef ég leyft mér að bera fram brtt. við þessa þáltill., og er hana að finna á þskj. 88. Hún er flutt í þeim tilgangi að færa þetta mál út á eðlilegri og raunhæfari grundvöll, en hin upphaflega till. fer fram á, með því að leggja til, að Alþ. geri ráðstafanir til þess að draga til mikilla muna úr þeim gífurlega kostnaði, sem á ári hverju er varið af opinberri hálfu til veizluhalda og skemmtiferða, bæði af hálfu stjórnarvalda og stofnana ríkisins og þeirra stofnana, sem ríkið styrkir og heldur uppi.

Ég skal nú geta þess, að ég er svo heppinn, eins og margir ykkar hv. þingmenn vita, að ég er oftast í góðu skapi. En því er ekki að leyna, að það verkar heldur illa á mitt skap, þegar ég er að yfirfara reikninga ríkisstofnananna og starfsgreina ríkisins og sé, hve gríðarlegur kostnaður hefur orðið við skemmtiferðalög og veizluhöld, ferðalög utanlands og innan. Það, sem á því sviði er þó allra dýrast og ekki kemur beint þessum till. við, er bifreiðakostnaðurinn. Nú er það þó svo, að ég hef á þessu sviði ekki séð það eða nema lítið af því, sem dýrast er, og það eru reikningar frá tímabili núverandi hæstv. ríkisstjórnar, en almennt er talið, að hún sé mesta veizlustjórn, sem nokkurn tíma hefur starfað í okkar þjóðfélagi. Ég lít svo á, að það sé, eins og sakir standa, mjög auðvelt, eðlilegt og sjálfsagt að draga stórkostlega úr þessum kostnaði, og það verður gert bezt með því að setja um það fastar reglur og fækka veizluhöldum til mikilla muna frá því, sem er og verið hefur. Kostnaður við veizluhöldin fer að segja má árlega vaxandi að öllu öðru leyti heldur en vínföngum, vegna þess að eftir því sem ég veit bezt, þá hefur innkaupsverð á víni ekki hækkað neitt sem heitir nú mjög lengi, og í opinberum veizlum er ekki drukkið, annað en tollfrjálst og álagningarfrjálst vín.

Ég hef nú ekki haft beint aðstöðu til að segja um það, eða get ekki sagt um það, hvað margar veizlur alls séu haldnar svona hér um bil á ári. En ef við segðum t.d., að veizlurnar væru 200, sem ég tel ekki mjög fjarri lagi, þá held ég, að það væri ákaflega auðvelt að fækka þeim um helming og jafnvel miklu meira, því að það, sem mest er að í þessu efni, er það, að það eru haldnar veizlur, án þess að til þess sé nokkurt verulegt tilefni, að almenningur telur.

Varðandi skemmtiferðir er náttúrlega öllum mönnum í þessu landi frjálst að fara í skemmtiferðir. En það er siður, sem ég felli mig illa við og sumar stofnanir ríkisins hafa lengi haft, að láta stofnunina sjálfa bera kostnað af einni skemmtiferð starfsfólksins á ári. Þetta er m.a. siður, sem ég tel alveg að skaðlausu og á réttmætan hátt eigi að leggja gersamlega niður. Ég hef gert um þetta stundum athugasemdir, en það hefur ekki breytzt, þar sem slíkt er um að ræða. Þá eru það afmælisveizlur, sem sumar stofnanir hafa haldið, og alldýrar. Ef þær eiga 10 ára afmæli, 25 ára afmæli o.s.frv., þá eru stundum haldnar dýrar veizlur á kostnað stofnunarinnar, og það tel ég með öllu óþarft.

Þetta er atriði, sem eins og nú standa sakir er ástæða til fyrir Alþingi að taka til athugunar, og einkum og sérstaklega ef farið er inn á það, sem ekki hefur nú borið neitt á enn, að spara útgjöld frá því, sem verið hefur, og sérstaklega ónauðsynleg útgjöld. Hitt gengur miklu meira áfram á þá leiðina, að öll útgjöld hækka og alveg eins þau, sem ekki eru nauðsynleg.

Varðandi þessa till. um að banna, að það opinbera kosti vínveitingar í veizlum, þá er það að segja, að skv. málflutningi flm., sem hér hafa haldið miklar ræður, finnst mér vera talsverð mótsetning í þeirra málflutningi. Þeir gera ráð fyrir því allir, að það sé sjálfsagt, að það séu veizlur, það séu veizluhöld á kostnað þess opinbera. En þeir vilja banna, að þar séu þau veizluföng, sem eðlilegast er að ríkið leggi til, það ríki, sem okrar á áfengi meira en nokkurs staðar annars staðar þekkist. Ég tel, að það sé miklu nær sanni að fækka veizlum og að þær séu þá með svipuðum hætti og gerist hjá einstaklingunum og yfirleitt annars staðar, en það sé ekki farið inn á þá braut, að það megi ekki eiga sér þar stað þær veitingar, sem almennt eru taldar í veizlum.

Við skulum hugsa okkur, að það er hægt að bjóða mönnum, fleiri eða færri, kaffi á veitingahúsi eða mat, en það eru ekki nærri allir menn, sem mundu kalla það veizlur. Það er algengt, að einstaklingar og félög bjóða þeim aðilum, sem koma og eru á ferðalagi, kaffi eða mat inni á veitingahúsi, en almennt eru það ekki kallaðar veizlur. Til þess að eitt samkvæmi geti kallazt því nafni að vera veizla, þá er almennt talið, að þar beri að hafa einhvern hressandi drykk.

Nú er það svo, eins og hv. 1. þm, Eyf. (BSt) tók hér fram um daginn og enginn getur hrakið, að þó að samþykkt væri þessi till., sem hér liggur fyrir, þá þýðir það alls ekki, að opinberar veizlur væru vínlausar, vegna þess að á öllum okkar veitingahúsum er opinber vínsala, og þeir, sem kallaðir eru til veizluhalds, þurfa ekki annað en fara í næsta herbergi til þess að fá þar vín eins og þá lystir. En það er bara sá munurinn, að það vín, sem þannig er keypt, er mörgum sinnum dýrara en það, sem ríkið og þess stofnanir geta lagt fram með innkaupsverði, eins og verið hefur á undanförnum árum.

Ég hef nú veitt því athygli, að á því fjárlagafrumvarpi, sem liggur hér fyrir þessu þingi og miðast við árið 1958, er það ekki nema aðeins einn ]iður í tekjuáætlun ríkisins, sem hefur verið hækkaður frá því, sem var á síðustu fjárlögum, og þessi eini liður er áætlaður hagnaður af Áfengisverzlun ríkisins. Hann er hækkaður frá síðustu fjárlögum úr 85 millj. upp í 90 millj. Það þýðir, að hæstv. ríkisstj., sem leggur þetta frv, fram, gerir ráð fyrir því, að það verði töluvert meiri hagnaðarvon af áfengisverzluninni næsta ár, en hefur verið að undanförnu.

Nú er það vitað, að ríkið eitt hefur rétt til þess að kaupa og selja vín, að undanteknu því, að veitingahúsin hafa veitingaleyfi, og á víni er okrað svo stórkostlega, að ég hygg, að það þekkist ekki nein sambærileg dæmi um víða veröld. Það mun láta nærri, að álagningin í tollum og verzlunarálagning á vínföngum í Áfengisverzlun ríkisins sé frá 800 —1300%, sem segir það, að það, sem kostar ríkið 100 kr., kostar einstaklingana 900–1400 kr. eftir því, hvaða víntegundir er um að ræða. Hér er þess vegna ekki neitt líku saman að jafna. Þegar um það er að ræða, að víns er neytt, eins og daglega er, eftir því sem við vitum bezt, á hverju veitingahúsi t.d. hér í Reykjavík, þá er ekki sama, hvort þess er neytt og það keypt af einstaklingunum ellegar það er einhver opinber stofnun eða ríkisstj., sem leggur það fram.

Ég verð nú að taka það fram, vegna þess að hér er ár eftir ár oft verið að tala um vínföng og vínveitingar og margt fólk úti á landinu tekur það svo, að það sé einhver óskapa drykkjuskapur á Alþingi eða meðal þingmanna, — ég verð að taka það fram, að þetta er herfilegur misskilningur, því að það hefur gerbreytzt mjög stórkostlega á því tímabili, sem ég hef verið á Alþingi, sem er 24 ár. Fyrstu árin, sem ég var hér, var það daglegur viðburður, að menn sáust undir áhrifum áfengis á þingfundum. Nú kemur það aldrei fyrir í fjöldamörg ár, kemur aldrei fyrir, og yfirleitt er það svo, að mjög mörg siðustu árin hefur vínneyzla meðal þingmanna farið stórkostlega mikið minnkandi.

Nú hefur það að vísu verið regla um langan tíma, að þingið héldi eina veizlu á ári, sem kölluð er þingveizla, og má segja, að það sé kannske óþarfi að halda nokkra veizlu. En þetta hefur nú verið venja, og annaðhvort verður það að vera ein veizla eða engin á ári hverju. Ef þessi till., sem hér liggur fyrir, væri samþykkt, um það, að bannað væri að veita vín, þá mundi það eiga að ske eins í þingveizlunni og öðrum veizlum. Og af því að ég þekki nú hæstv. forseta Sþ. að því að vera gestrisinn mann, þá held ég, að honum félli það ekkert vel að þurfa að gefa út auglýsingu, sem væri eitthvað á þá leið, — ja, þingmönnum og þeirra konum er boðin veizla á Hótel Borg, en hv. þingmenn verða að kaupa vínföngin sjálfir. Og þá yrði það ekkert annað en það, að það er mörgum tugum sinnum dýrara vínið, en það þarf að vera eftir þeim reglum, sem verið hafa og eru.

Svipurinn, sem yfir þessum málum yrði, ef þessi till., sem hér liggur fyrir, verður samþykkt, — Alþingi gengur væntanlega frá fjárlögum, hvort það verður fyrir nýár eða eftir nýár, þar sem stendur: 90 millj, áætlaðar í gróða af áfengissölu. Það hefur enginn komið með till. um að afnema vínveitingaleyfi veitingahúsanna. Það hefur enginn orðað það, ekki flm. þessarar till., að það skuli ekki vera veizlur. Þeir hafa meira að segja ekkert orðað það, að það skuli fækka veizlum, það sé sjálfsagt að hafa veizlur. Það má bara ekki hafa þar þau veizluföng, sem eðlilegast er að það ríki leggi fram, sem okrar meira á áfengi, en nokkurri annarri vöru. En það, sem hægt er að gera og er auðvelt að gera og Alþ. ætti að gera, er það, eins og mín till, fer fram á, að fækka veizlum mjög stórkostlega frá því, sem er, að afnema það, að ríkisstj. sjálf og stofnanir ríkisins kosti skemmtiferðir fyrir sitt starfsfólk eða einstaklinga, afnema þær afmælisveizlur, sem verið hafa o.s.frv. Á þennan hátt er hægt að draga stórkostlega úr þeim kostnaði, sem á þessu sviði hefur verið lagður fram. Við getum náttúrlega líka talað um að banna allar veizlur. Það væri hægt að tala um það í alvöru. Hitt er varla hægt að tala um í alvöru, sem hér er farið fram á, að það sé sjálfsagt að halda opinberar veizlur, en þar megi ekki vera neitt vín. Það er varla hægt að tala um það, nema því aðeins að það verði þá gerðar ráðstafanir í okkar þjóðfélagi, sem ríkinu kemur við og ég hef hér minnzt á.

Ég skal nú ekki fara um þetta miklu fleiri orðum, en ég reikna með því, að þessi till. ásamt brtt., sem henni fylgja, fari til nefndar. Mér hefði fundizt eðlilegast, að þetta hefði farið til fjvn., því að það í raun og veru heyrir undir hana, og hæstv. forseti hefur það að sjálfsögðu á sínu valdi að nokkru leyti, í hvaða nefnd þetta fer. Ég ætla nú enga till. samt um það að gera. En í hvaða n. sem þetta fer, þá vildi ég mega óska eftir því, að sú hv. n. rannsakaði það sem allra ýtarlegast, hvað mundi fara mikið fé alls hjá ríkinu og öllum þess stofnunum og starfsgreinum á einu ári, t.d. frá því um þetta leyti í fyrra, — hvað mundi fara mikið fé í það alls, ef það er lagt saman, hvað hafa verið á þessu tímabili haldnar margar veizlur og hvaða líkur liggja fyrir því, að það sé hægt að skaðlausu og án þess að skerða nokkuð sinn gestrisnisanda hægt að draga úr veizluhöldunum o.s.frv., en að það sé ekki gert í þessum málum neitt annað en það að ákveða, að það má ekki í neinum veizlum, sem ríkið stendur að, drekka tollfrjálst vín, þar verður að drekka miklu dýrara vín, því að það er í raun og veru engin önnur áhrif, sem að öllu öðru óbreyttu yrðu af þessari till., sem hér liggur fyrir á þskj. 44, ef hún yrði samþykkt eins og hún er og ekkert annað.

Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta mál. En ég veit, að af þessum orðum, sem ég hef hér sagt, skilja hv. þingmenn, að það eru án alls efa miklir möguleikar á því að draga úr töluvert gífurlegum kostnaði, sem ríki og þess stofnanir leggja fram árlega í þessu skyni.