04.12.1957
Sameinað þing: 17. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 259 í D-deild Alþingistíðinda. (2625)

33. mál, afnám áfengisveitinga á kostnað ríkis

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Ég hef flutt hér á þskj. 95 brtt. við þá brtt., sem hv. þm. A-Húnv. hefur flutt á þskj. 88. Breytingartillaga mín er efnislega samhljóða till. hv. þm. A-Húnv., en eðlismunur tillagnanna er sá, að í till. hans er gert ráð fyrir, að upphaflega till. verði niður felld, um bann gegn áfengisveitingum á kostnað ríkis og ríkisstofnana, en ég legg til, að þeirri till. verði haldið óbreyttri eins og hún er, en þessi viðauki við hana gerður.

Ég skal þegar taka það fram, að hér er að nokkru leyti um mismunandi mál að ræða, þó að þau að vísu snerti hvort annað. Í upphaflegu till. er um að ræða sérstaka meginstefnu af hálfu Alþingis og ríkisstj., sem orki til ákveðinna áhrifa á þróun bindindisbaráttunnar í okkar þjóðfélagi. Síðari liðurinn snertir fyrst og fremst útgjaldamál ríkissjóðs og er að efni til í því fólginn að sporna gegn óeðlilegum útgjöldum vegna veizluhalda og skemmtiferða, sem ríkið og ríkisstofnanir standa fyrir. Að þessu leyti er sú hugsun, sem kemur fram í upphaflegu till. og þessum viðbótartillögum, sem við hv. þm. A-Húnv. erum efnislega með samhljóða, nokkuð mismunandi, og ég skal játa, að það mætti segja, að óeðlilegt væri að tengja þetta tvennt saman, og ég skal einnig taka það fram, að ég hefði ekki flutt mína till., ef till. hv. þm. A-Húnv. hefði ekki áður verið fram komin. Hins vegar er mér það ljóst, að einmitt sú hugsun, sem þar kemur fram, að það beri að sporna við óeðlilegum kostnaði við veizluhöld og skemmtiferðir á vegum ríkisins, sú till. hefur hljómgrunn hjá ýmsum, sem jafnvel ekki hefðu viljað styðja hina till. Ég hef því flutt mína till. beinlínis í því skyni, að það væri reynt að samræma hugsunina, sem kemur fram bæði hjá flm. frumtillögunnar og í till. hv. þm. A-Húnv. En ég skal játa, að ég tel fyrir mitt leyti, að upphaflega till., eins og hún er flutt á þskj. 44, sé kjarni málsins og þessi atriði, sem við þm. A-Húnv. bendum á, séu að vísu mikilvæg atriði varðandi sparnað í rekstri ríkisins, en séu nokkuð annars eðlis, en sú meginstefna, sem á að felast í upphaflegu till.

Hv. þm. A-Húnv. hefur skýrt frá því, hvaða ástæður liggi því til grundvallar, að hann flytur sína till. að þessu leyti, og ég get alveg tekið undir þær röksemdir hans, að ég álít, að óhæfileg séu veizluhöld og ýmiss konar kostnaður á því sviði, sem ríki og ríkisstofnanir á undanförnum árum hafa stofnað til. Hv. 1. þm. Eyf, upplýsti hér í ræðu sinni um daginn, að það mundi vera tiltölulega nýtt, að ríkið sem slíkt stæði fyrir veizluhöldum. Ég skal ekki um það segja, en vil á engan hátt rengja það, enda skiptir það ekki meginmáli. Hitt held ég að liggi alveg ljóst fyrir, að þó að það sé allrar virðingar vert að sýna gestrisni og rausn, þá hefur verið gengið lengra í því efni, en við getum leyft okkur, og það er eins og var einhvers staðar bent á, á opinberum vettvangi í sumar, í sambandi við þjóðhöfðingjakomur hingað, sem ekkert er nema gott um að segja, að þá mætti þó lítil þjóð eins og Íslendingar gæta sín í því að verða ekki blátt áfram hlægileg fyrir alls konar dýrindis veizluhöld, sem ljóst væri að jafnfámenn þjóð hefði ekki aðstöðu til þess að standa undir með góðu móti. Gestrisni og höfðingsskapur getur áreiðanlega verkað nánast hlægilega, þegar það er vitað, að þeir, sem að slíkri rausn standa, hafa alls ekki getu til þess að gera það og gera það þá meira til að sýnast. — En nóg um þetta atriði.

Ég tel, eins og ég áðan sagði, að kjarni þess máls, sem hér er um að ræða, sé sá, hvort Alþingi vill marka þá stefnu, að hinir æðstu valdhafar í þjóðfélaginu vilji ganga á undan til þess að sýna þjóðinni með fordæmi sínu, að þeir telji, að hér sé um að ræða svo alvarlegt vandamál, þar sem áfengisbölið er, að þeir vilji fyrir sitt leyti vísa veginn til eftirbreytni á þessu sviði.

Ég ætla ekki að fara að rekja allt það, sem sagt hefur verið til stuðnings þessu máli, ég get undir það tekið í flestum eða öllum atriðum. Við vitum það, og ég held, að það muni varla verða neitt ágreiningsefni, að hér í okkar þjóðfélagi er við að stríða stórkostlegt böl á þessu sviði. Það er nú svo komið, að gert er ráð fyrir, að tóbak og áfengi sé selt árlega í landinu fyrir 200 millj. kr. Þótt að vísu sé mikil álagning á þessar vörur, bendir þetta þó til mikillar neyzlu, og hér er vitanlega um að ræða geysilegan fjáraustur hjá einstaklingum í þjóðfélaginu, þó að segja megi að vísu, að það komi aftur til ýmissa nauðsynlegra þarfa, þar sem meginhluti þessa kemur til ríkisins. En fyrir einstaklingana er þetta þó jafntilfinnanlegt engu að síður og er vísbending um þá óheillavænlegu þróun, sem er í þessum efnum.

Ég held, að varla muni nokkur hv. alþm. vera á þeirri skoðun, að ekki sé nauðsynlegt að gera af opinberri hálfu allt, sem unnt er, til þess að sporna gegn slæmum áhrifum áfengisnautnar í landinu, Það eru til tvær leiðir í þessari baráttu, sem báðar hljóta að fylgjast að. Annars vegar er sú barátta, sem í því felst að fyrirbyggja, að menn lendi í klóm Bakkusar, og hin er sú að halda uppi lækningu og hjálparstarfsemi fyrir þá, sem fallið hafa. Það er auðvitað nauðsynlegt og góðra gjalda vert og virðingarverður sá mikli skilningur og stuðningur, sem aðstoð við drykkjumenn hefur hlotið. En hitt er þó miklu veigameira atriði fyrir þjóðfélagið og einstaklinginn, eins og allir þekkja varðandi sjúkdómana, og drykkjuskapurinn er auðvitað, þegar á visst stig er komið, alvarlegur sjúkdómur, — það er miklu þýðingarmeira atriði, ef hægt er að stemma á að ósi, ef hægt er að koma í veg fyrir, að menn verði drykkjuskapnum að bráð. Og það er með þetta í huga, sem mér skilst að þessi till. sé flutt, að af hálfu opinberra aðila sé lagt lóð á vogarskálina í þessari baráttu. Og nú á seinni árum hefur verið mjög vaxandi skilningur á því meðal þeirra, sem fyrir baráttu gegn áfengisnautn standa, bæði hér í okkar þjóðfélagi og víðar um lönd, að baráttan gegn drykkjuskapnum verði að byrja ofan frá, og þetta stafar af því, að drykkjuskapur og meðferð áfengis er að mjög miklu leyti tízkuatriði.

Það var hér upplýst áðan, sem að vísu mér þykir nú næsta nýstárleg kenning, en vissulega alvarleg kenning, ef hún hefur almennan stuðning, að það sé ekki hægt að halda veizlu nema hafa vín um hönd. Við sjáum augljóslega, að ef þetta er almennur hugsunarháttur, þá er sannarlega ekki glæsilega ástatt um baráttu gegn áfengisnautn, og ég held, að einmitt þessi staðhæfing hv. þm. A-Húnv. sé einhver sterkasta stoðin, sem rennur undir það, að það beri og það sé blátt áfram skylda Alþingis að samþykkja þá till., sem hér liggur fyrir, því að það er þá fullkomlega orðið tímabært, að af hálfu hins opinbera valds í þjóðfélaginu sé reynt að breyta þessum hugsunarhætti.

Það er engum efa bundið, að það, sem er tíðkað á opinberum stöðum, hefur að sjálfsögðu mikil áhrif úti um allt þjóðfélagið. Það getur vel verið, að þingmenn og ráðherrar séu ekki taldir fyrirmynd um alla hluti. En það er þó engum efa bundið, að þeir hættir, sem tíðkaðir eru í opinberum veizluhöldum, orka áreiðanlega mikið í þá átt að skapa með þjóðinni tilfinningu fyrir því, hvað þyki fínt og hvað ekki. Og því miður í mörgum tilfellum einmitt stafa vínveitingar af því, að það þykir fínt. Vín er ekki eingöngu veitt af því, að alla menn langi til að drekka og það sé af drykkjulöngun, heldur einmitt af þessu, að það þykir fínt að hafa vín í veizlum, og vafalaust, að sú kenning eigi dýpri rætur, en í huga þm. A-Húnv. eins, að það sé í rauninni ekki veizla nema haft sé vín.

Mig undraði það dálítið í rauninni, þegar ég hlýddi á ræðu míns góða vinar, þm. A-Húnv., hvernig hann ræddi um þessi mál, því að mér fannst sannast sagna ekki koma fram í ræðu hans skilningur á því, að hér væri um mikið böl að ræða. Ef það er svo, að við viðurkennum, að það sé um böl að ræða í þjóðfélaginu í þessum efnum, og ef það er svo, að það séu einhverjar líkur til, að samþykkt þessarar till. og fordæmi hinna æðstu valdamanna í þjóðfélaginu geti haft góð áhrif, þá lít ég svo á, að það sé í rauninni ósæmandi að gefa það í skyn, að hv. alþingismenn vilji ekki einu sinni leggja á sig þá kvöð eða geti ekki hugsað sér að leggja á sig þá kvöð að fórna einni brennivínsveizlu á ári. Ég held, að með því sé virðing og sómi hv. þingmanna ekki aukinn, og ég vil ekki leyfa mér að álíta, að slíkt geti komið fyrir, að þingmenn hugsi á þennan hátt, og ekki einu sinni hv. þm. A-Húnv., þó að hann léti nú þessi orð falla hér áðan, því að það væri sannarlega alvörumál í jafnveigamiklu vandamáli og hér er um að ræða, ef þingmenn gætu ekki hugsað sér að taka á sig svo litla fórn sem þessa, ef það mætti verða til þess að setja einhverjar skorður við þeim geigvænlega drykkjuskap og afleiðingum hans, sem við er að stríða í okkar þjóðfélagi. Og það atriði, að þingmenn, ef þeim væri boðið í áfengislausa þingveizlu, þá mundu þeir alls ekki una við annað, en kaupa brennivín og fara að drekka það í veizlu, sem þeim er boðið til, — ja, ég er nú í stórum vafa um, að nokkrum hv. þm. dytti það í hug, því að slíkt er náttúrlega hrein móðgun við gestgjafann, hæstv. forseta Sþ., og aðra slíka ágæta menn, ef það er ekki talið sæmandi og viðunandi, sem þeir bera á borð fyrir gesti. Það er svona álíka og að koma með vasapela í hús, þar sem ekki er veitt vín, til að krydda það, sem þar er veitt, og til þess að skapa sennilega þá veizlustemningu, sem hv. þm. telur að ekki geti verið til staðar af öðrum ástæðum.

Ég lít alls ekki svo á þessa till., og ég geri ekki ráð fyrir, að það hafi vakað fyrir hv. flutningsmönnum, að hér væri um að ræða einhverja ráðstöfun til að forða þingmönnum frá drykkjuskap. Ég held það sé síður, en svo. Það hefur ekki komið fram, og ég segi fyrir mitt leyti, að ég get vei staðfest það, sem hv. þm. A-Húnv. sagði, að það er ekki hægt að segja, að hér meðal þingmanna sé neinn ósæmandi drykkjuskapur. Það er síður en svo. Ætlunin með till. er heldur ekki að vera nein bindindisbarátta eða sjálfsbjargarviðleitni fyrir hv. þingmenn, heldur allt önnur, eins og bent hefur verið á.

Svo er það nú út af fyrir sig reginfirra af hv. þm. A-Húnv. og hv. 1. þm. Eyf. að halda því fram, ef opinber veizla er haldin á vínveitingastað, að það sé í rauninni ekki hægt, vegna þess að þar sé hægt að fá keypt vín. Auðvitað er slíkt ekki gert, það er ekki selt vín á vínveitingastöðum, ef veizlur eru þar haldnar, sem ekki er óskað eftir að sé vín í, þannig að þetta er auðvitað algerlega út í bláinn og engin rök í þessu máli.

Við getum vafalaust haft mismunandi skoðanir um það, hversu mikil áhrif þessi till. muni hafa. Það er endalaust hægt að della um það, hvað sé líklegast til þess að orka í jákvæða átt í þessu mikla vandamáli. Það hafa margar leiðir verið reyndar í því efni og með misjöfnum árangri. En ég held þó, að hér sé fyllilega um leið að ræða, sem sé vert að reyna, því að mín skoðun er sú, að hér sé um svo alvarlegt vandamál að ræða, að það sé ekki verjandi að láta óreynda neina þá leið, sem gæti orðið til þess að draga úr og minnka það böl, sem hér er við að stríða. Og það markar mína afstöðu til þeirrar till., sem hér er um að ræða.

Það hefur líka, þrátt fyrir vínveitingar af opinberri hálfu, verið almennur skilningur fyrir því, að það væri þó ekki sæmandi að hafa vín um hönd í öllum tilfellum. Og það eftirtektarverðasta er, að einmitt á mestu hátíðisdögum þjóðarinnar er þetta ekki talið viðeigandi, og vil ég þar nefna dag eins og 17. júní. Ef vínið væri einkennandi á þann hátt, að það væri óumflýjanlegur veizlukostur, til þess að menn gætu gert sér glaðan dag, hví í ósköpunum ætti það þá ekki eins að gilda þennan dag, stærsta hátíðisdag þjóðarinnar? Nei, einmitt þennan dag eru allir á því máli, bæði þeir, sem víns neyta, og aðrir, að það sé sómi þjóðarinnar, sem við liggi, að menn drekki ekki frá sér ráð og rænu þennan eina dag ársins. Og það byggist vitanlega á því, að menn hafa þarna skilning á því, að það fari ekki vel saman að halda göfugar og veglegar minningarhátíðir og neyta áfengis.

Það hefur verið gert hér lítið úr áskorunum, ég skal fúslega taka undir það, að það er ekki ætíð mikið upp úr þeim að leggja, en þó er það vitanlega jafnfjarstætt að telja slíkar áskoranir einskis virði. Það hafa borizt hér til Alþingis nú áskoranir frá ýmsum félagssamtökum þessa lands og flestöllum stærstu æskulýðs- og menningarsamtökum, sem hér starfa, jafnframt frá áfengisvarnanefndum víðs vegar um landið, en þær n. eru starfandi í hverjum hreppi og yfirleitt í þær valdir ýmsir helztu framámenn í hverju sveitarfélagi, andlegir eða veraldlegir leiðtogar. Ég vil því ekki halda, að það sé ekkert leggjandi upp úr áliti þessara manna um þýðingu þeirrar till., sem hér liggur fyrir. En ég álít þó ekki, að þetta þurfi að vera afgerandi um afstöðu eins né neins til þessa máls. Þingmönnum er áreiðanlega treystandi til að gera upp sinn hug um það sjálfir, hvað þeir telja farsælt í þessum efnum, og þeim ber að velja þá stefnu og taka þá afstöðu til till., sem þeir telja líklegasta til að stuðla til góðs fyrir þjóðfélagið, jafnvel þó að það kosti þingmenn sjálfa einhverja smávægilega fórn.

Það hefur verið töluvert á það bent í þessum umræðum og virðist í rauninni vera aðalröksemdin gegn þessari till., að við getum ekki talizt hlutgengir í samskiptum við aðrar þjóðir nema veita vín.

Ég held nú í sannleika sagt, að það mundi verða vel metið víða um heim, ef einhver þjóð hefði kjark til að rísa upp gegn hinu siðspillandi sukki í sambandi við „diplómatíið“. Ég hef ekki fyrir mér óviturri mann í þessum efnum, en fyrrv. forsrh. Breta, Anthony Eden, sem einu sinni, skömmu áður en hann lét af völdum, lét einmitt orð falla um það, hversu óþolandi væri orðinn þessi sífelldi drykkjuskapur í opinberum veizlum og í sambandi við samskipti milli þjóða, í sambandi við ráðstefnur og sendiráðsveizlur og annað þess konar, þetta væri blátt áfram orðin hreinasta plága. Og ég held næstum því óhætt sé að segja, að það þurfi töluvert sterk bein til þess að þola þær kvaðir, sem á menn eru lagðar í þessu sambandi í utanríkisþjónustunni. Ég er ekki með þessum orðum mínum að bera drykkjuskaparorð á einn eða neinn í utanríkisþjónustu Íslands, en ég held, að hér sé um að ræða töluvert mikið vandamál, og ég býst við, að það mundi frekar vekja jákvæða athygli á Íslandi, ef Íslendingar hefðu kjark til að móta nýja stefnu í þessum efnum. Ég efast ekkert um það, að fyrst í stað yrði það illa liðið af ýmsum þeim, sem ekki geta hugsað sér að fara á mannamót nema drekka. Það verður að taka við þeim óþægindum. Og það er mest til vansa fyrir þá, sem eru haldnir þessum kvilla. En ég þori hiklaust að fullyrða, að þetta mundi verða okkur frekar til álitsauka, en álitshnekkis meðal erlendra þjóða, ef þessi tilhögun væri upp tekin af okkar sendiráðum og í sambandi við veizlur, sem við höldum sendimönnum, sem hingað koma.

Það er oft talað um aðrar þjóðir og vitnað til þess, hvað þar gerist. Það er vissulega gott að taka það til fyrirmyndar, sem er gott í fari annarra þjóða. En við skulum líka varast að apa um of eftir öðrum þjóðum, ef þar er eitthvað tíðkað, sem við að okkar áliti teljum að sé ekki farsælt. Þá eigum við hiklaust að hafa manndóm og kjark til þess að taka upp þá siði, sem við teljum skynsamlegri í þeim efnum.

Ég held ég þurfi ekki margt fleira að segja um þetta mál á þessu stigi. Ég legg aðeins höfuðáherzlu á það, að hér er um að ræða að leita vilja Alþingis um það, hvort Alþingi og ríkisstj. vilji leggja þar sitt lóð á vogarskálina til þess að reyna að skapa heilbrigt almenningsálit í áfengismálum okkar þjóðar. Það er held ég viðurkennt af öllum, að aðalvandamálið í sambandi við baráttu gegn áfengisbölinu er spillt almenningsálit. Það er drykkjutízkan, og menn þora ekki að rísa upp gegn þeirri tízku. Leiðsögnin til þess að skapa tízku í þessum efnum er tvímælalaust í höndum hinna æðstu valdamanna þjóðfélagsins. Ef þeir ganga á undan í þessu efni, verður allt hægara um vik að reyna að orka í þessa átt í samkvæmislífi þjóðarinnar almennt. En meðan hægt er að benda á, að víni sé ausið í stríðum straumum og sú veizla sé naumast eða ekki haldin af opinberri hálfu, að þar sé ekki fljótandi vín, þá er erfitt að sannfæra borgara þjóðfélagsins um, að það sé til tjóns og spillingar að hafa slíkt um hönd.

Ég er í engum efa um, að það er mikið fylgzt með afstöðu Alþingis í þessu máli, og ég vildi mega vona, að hv. þingmenn íhuguðu það vandlega, áður en þeir snúast gegn þeirri till., sem hér liggur fyrir, hversu alvarlegan vanda er hér við að stríða og hvort hér hvíli ekki nokkur skylda á löggjafarvaldi þjóðarinnar og ríkisstjórn að reyna að orka til góðs í þessu efni.