06.12.1957
Sameinað þing: 17. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 272 í D-deild Alþingistíðinda. (2628)

33. mál, afnám áfengisveitinga á kostnað ríkis

Forseti (EmJ):

Hv. 1. þm. Eyf. lét liggja orð að því í sinni ræðu, að ég hefði sýnt hv, þm. Borgf. nokkra ónærgætni með því að taka málið á dagskrá að honum fjarverandi. Út af þessu vil ég aðeins segja það, að hv. 1. flm. málsins var nú hér viðstaddur. Ég hafði auk þess samráð við annan af flm. málsins um það, hvort taka bæri málið á dagskrá, og taldi hann, að það væri rétt að gera það, enda búið að vera svo lengi á dagskrá og nauðsynlegt að koma því til nefndar, að ég taldi ekki unnt þess vegna að biða með það. Hv. þm. Borgf. gerði líka svo ýtarlega grein fyrir sínu máli á tveim fundum nú að undanförnu, að ég ætla, að hans sjónarmið hafi komið greinilega fram. Það eina, sem segja mætti til þess að réttlæta frestun, er það, að hv. 1. þm. Eyf. hafi ekki tækifæri til að svara hv. þm. Borgf. eins og hann mundi hafa kosið að honum fjarverandi, og er ég honum sammála um það. En það gefst væntanlega tækifæri til þess að gera það síðar, því að málið kemur væntanlega fyrir á ný, þó að það verði nú afgreitt til nefndar.

Ég vil aðeins taka það fram, að ég tók málið á dagskrá eftir að hafa haft samráð við einn flm. og eftir að ég sá, að 1. flm. málsins var hér viðstaddur.