04.12.1957
Sameinað þing: 17. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 272 í D-deild Alþingistíðinda. (2630)

33. mál, afnám áfengisveitinga á kostnað ríkis

Jón Pálmason:

Herra forseti. Það hafa nú verið haldnar hér þrjár ræður, síðan ég talaði áðan, og í máli ræðumanna hafa komið fram nokkur atriði, sem gefa mér tilefni til þess að segja um málið nokkur fleiri orð, en ég hafði áður gert. Ég get verið hv, ræðumönnum þakklátur fyrir það, að þeir hafa tekið heldur vinsamlega í mína brtt. um að leggja áherzlu á það að draga úr kostnaði við skemmtiferðir og veizluhöld, en hv. þm. Barð. taldi, að það væri ekki vel viðeigandi að blanda þessu tvennu saman, sparnaðartali á fé ríkisins og svo menningarmáli, eins og hann kallaði það, eins og till. væri upphaflega flutt. Ég skal koma svolítið nánar að því síðar.

En varðandi mína till. þykir mér það mjög táknrænt fyrir hugarfar hv, þm. yfirleitt varðandi fjárútlát, hvernig þeir snúast við því að draga úr þeim kostnaði, sem á þessu sviði verður að teljast mjög óþarfur. Hv. 2. þm. Eyf. sagði eitthvað á þá leið, að hann undraðist það, að nokkur þingmaður, og átti þá sjálfsagt við mig, léti í ljós, að þingmenn gætu ekki fórnað einni brennvínsveizlu fyrir þetta mál. Hér er nú algerlega snúið við í rauninni mínum orðum, því að ég vék að því, að eins og kunnugt er, væri það alkunnugt, að það væri haldin ein þingveizla á ári, og annaðhvort yrði það að vera ein veizla eða engin, og vel mætti náttúrlega segja, að þennan sið væri hægt að afnema. Og ef það væri á annað borð inn á það farið að sýna einhvern sparnaðarvilja yfirleitt, þá hugsa ég, að margir þingmenn tækju því vel, þó að þeir töpuðu af þeim fagnaði, sem þar er um að ræða, ef það væri almennur vilji fyrir því að draga úr kostnaði. Ég held þess vegna, að það sé ekki hægt að segja, að það sé mér til neins vansa, þó að ég hafi nefnt það, að það yrði annaðhvort að vera ein veizla eða engin á ári á Alþingi. En hvernig er það með hv. stjórnarliða, sem hér hafa talað, og hvernig er það með hv. 2. þm. Eyf., sem hér hefur líka talað? Hv. 1. landsk. og hv. þm. Barð., sem eins og kunnugt er eru í stjórnarliðinu, hafa að sjálfsögðu haft aðstöðu til þess að kynna sér, hvernig stendur á því, að frá hálfu stjórnarinnar er eini tekjuliðurinn á áætlun fjárlaganna, sem er hækkaður, gróði af áfengisnautn árið 1958. Af hverju er þetta? Það virðist ekki vera af því, að þessir menn ætlist til þess, að það sé dregið úr áfengisnautn. Hv. 2. þm. Eyf., sem er í fjvn., hefur líka að sjálfsögðu tækifæri til þess að athuga það, ef á að lækka þennan lið eitthvað, eða hvaða ráðstafanir á að gera til þess, að það sé ekki svona mikill áfengisgróði á komandi ári. En menn átta sig sennilega ekki á því, að það, sem hér er verið að fara fram á með þessari till. um að banna áfengisnautn í opinberum veizlum, hefur engin áhrif á áfengisgróðann, og það er vegna þess, að vínið, sem þar er veitt, er tollfrjálst og álagningarfrjálst yfirleitt. Þó að það væru afnumdar allar áfengisveitingar í opinberum veizlum, hefði það engin áhrif á áfengisgróðann, sem ríkið ætlast til að fá, nema ef vera skyldi til þess að hækka hann, vegna þess að um leið og þetta væri afnumið, yrði það til þess, að í ýmsum þessum veizlum væri drukkið dýrt vín, sem er álagning og tollur á, eins og bæði ég og hv. 1. þm. Eyf. hafa bent á. Auk þess hef ég ekki séð neina till. frá þessum mönnum um það, að þeir vilji neina breytingu á því gera, sem alkunnugt er, að hér eru lögleiddar áfengisveitingar í hverju veitingahúsi og það ýmist daglega eða þá a.m.k. sex daga í hverri viku.

Annars er það eitt atriði, sem kom fram í ræðu hv. 2. þm. Eyf., sem ég sé ástæðu til að víkja nokkuð að. Hann gerði það að aðalatriði til andmæla minni ræðu, að sér fyndist það óviðeigandi, jafnvel mér til vansa, að ég hefði talað um þetta mál, áfengismálið, eins og það væri ekkert vandamál. Út af þessu hlýt ég að segja fáein orð.

Ég talaði ekkert um áfengismál í heild sinni, heldur aðeins þær till., sem hér liggja fyrir, og tók það fram í upphafi minnar ræðu, að ég ætlaði ekki að flytja hér neina bindindisræðu, vegna þess að ég væri viss um, að það hefði engin áhrif til minnkunar eða annars í sambandi við áfengisneyzlu í landinu. En úr því að á mig er skorað, sem óbeinlínis er í þessum orðum, að tala um áfengisvandamálið, þá get ég gjarnan sagt um það nokkur orð, og það er sjálfsagt enginn maður hér innan veggja í neinum vafa um það, að áfengismálið er stórkostlegt vandamál í okkar þjóðfélagi eins og í öllum okkar nágrannalöndum. Og það þarf ekki annað að sjá í því efni en það, að það er gert ráð fyrir því að selja áfengi fyrir á annað hundrað millj. króna. Þetta er stórkostlegt vandamál, þó að ekki væri neitt annað en fjárhagurinn, en það er ýmislegt fleira, sem kemur þar til greina. En þó að þetta sé svo, að þetta sé mikið vandamál, þá mundi þessi till., sem hér liggur fyrir og mest hefur verið rætt um, ekki hafa nein áhrif til þess að útrýma því vandamáli og því síður tal um það, að það sé það, sem mest á ríði, að það megi ekki sjást vín í þeim veizlum, sem það opinbera heldur, en það skuli þó halda veizlur.

Nú er það svo, að það er alveg þýðingarlaus iðja, sem fjöldamargir öfgamenn á þessu sviði hafa, að ætla að telja fólkinu trú um það, að vínföng, það sé eitthvað illt, það sé eitthvað illt og voðalegt, sem beri að útrýma. Því trúir enginn maður. Menn vita það allir, að vín er eitt af eftirsóttustu gæðum lífsins. Hitt vita allir, að það er svo eftirsótt vegna þess, að það eru af því slík áhrif, að mönnum mörgum þykir það eftirsóknarvert. En vegna þess að það er eftirsótt, er meðferðin á því meira vandamál, en á jafnvel nokkru öðru nautnalyfi eða nautnameðali, sem til er. Og það er vandamálið, hvernig á að umgangast gæði lífsins á þessu sviði eins og svo mörgum öðrum. Í því felst sá hinn mikli og stóri vandi, sem áfengið hefur í för með sér. Við getum vitnað í spámenn og skáld og listamenn um það, að þeir hafa sannarlega ekki allir talið vín vera með því vonda í lífinu. Við þurfum ekkert annað, en minna á orðin í einu alkunnasta kvæði okkar ágætasta skálds, Jónasar Hallgrímssonar, þar sem hann segir:

„Meðan þrúgna gullnu tárin glóa

og guðaveigar lífga sálaryl,

þá er það víst, að beztu blómin gróa

í brjóstum, sem að geta fundið til.“

Hvað er það, sem þetta fræga skáld og snillingur segir með þessum orðum? Hann segir það óbeinlínis: Glæsilegustu hugsjónirnar, fegurstu ljóðin, drengilegustu verkin eiga upptök til þess, þegar guðaveigar lífga sálaryl. En vandamálið er ekki þar. Vegna þess að hér er um að ræða eftirsótt nautnameðal, er vandamálið í því að kenna fólkinu að umgangast þennan hlut skynsamlega, þannig að það sé ekki nautnin, sem ræður yfir manninum, heldur sé það maðurinn, sem ræður yfir nautninni.

Hér hefur verið minnzt á menningarmál í þessu sambandi, og það eru engin undur, þó að það sé gert. Á okkar fjárlagafrumvarpi er gert ráð fyrir rúml. 116 millj. kr. til menntamála á næsta ári. Ég gæti trúað, að einstaklingarnir legðu kannske annað eins fram eða eitthvað í þá áttina. Og eitt af því, sem á að vera tilgangurinn með öllu skólahaldi, öllum kostnaði við menningarframkvæmdir, er að kenna fólkinu að umgangast gæði lífsins á þann hátt, að það sé þeim til sæmdar, en ekki vansæmdar, Þess vegna er það, að það er hlutverk foreldra, skóla og kirkjuhöfðingja, ekki að reyna að troða því inn í fólkið, að meðal eins og áfengi sé einhver ægilegur hlutur, sem beri að hata, heldur kenna því að umgangast þessa nautn og allar aðrar þannig, að það hafi vald á þeim, og það sé gert á þann hátt, að það verði þeim ekki til smánar og vanvirðu.

Það er talið, að hér á Norðurlöndum séu menn veikari fyrir ofdrykkju, en víðs vegar annars staðar í heiminum, og það kann rétt að vera. En hluturinn er sá, að það er e.t.v. af því, að hér er kaldara, en annars staðar. En því meiri ástæða er til þess að reyna að vinna þannig að þessum málum, að það sé ekki gert á öfgafullan hátt, sem oftast verkar öfugt við það, sem til er ætlazt, heldur sé það gert þannig, að fólkinu og sérstaklega unglingunum sé sýnt fram á, að það verður að umgangast þessa nautn eins og allar aðrar þannig, að það ráði yfir sér, en nautnin verði ekki herra yfir þeim sjálfum.

Hv. 1. þm. Eyf. vék að því, að það væru nýjar upplýsingar fyrir sig, að hér væru haldnar veizlur á kostnað opinberra stofnana. Ég hefði nú haldið, að svo þrautreyndur og gamall og gáfaður þm. sem hv. 1. Þm. Eyf. er væri búinn að vita þetta fyrir lifandi löngu. Þetta hefur gerzt í fjöldamörg ár. Það eru haldnar veizlur á kostnað opinberra stofnana, ýmist sem þær eða þeirra forstöðumenn sjá sjálfir um ellegar það er þá í umboði ráðherranna. Og ég get m.a. sagt ykkur það, að t.d. stjórnarráðið hefur aldrei fengið eins mikið af tollfrjálsu áfengi til afnota fyrir gesti ríkisstjórnarinnar eins og árið 1956. Og ég býst við, að það sé kannske enn þá meira á yfirstandandi ári, þó að ég viti ekki um það, því að ég hef enga reikninga um það séð. Hins vegar verð ég að segja hv. 1. þm. Eyf. og öðrum hv. þm. það, að það er ekki algild regla, þó að opinberar stofnanir haldi veizlu og láti stofnunina bera kostnaðinn, að þar sé tollfrjálst vín. Hitt er líka til, einstakar stofnanir hafa haldið afmælisveizlu án þess að hafa fengið afslátt af því víni, sem þar er haft til meðferðar.

Nú skal ég ekki hafa þessi orð miklu fleiri. Ég vil ljúka þeim með því að segja, að það er ákaflega mikill misskilningur, ef nokkur maður vill halda því fram í alvöru, að það sé eitthvert úrslitaatriði í sambandi við áfengismál á Íslandi, hvort þessi till. verður samþykkt eða ekki. Því fer ákaflega fjarri. Ég efast um, að hún mundi hafa nokkur áhrif, þó að samþykkt yrði. Það eru allt aðrar ráðstafanir, sem þar þurfa að koma til greina, ef gagn ætti að að verða, og þeir menn, sem eru hér í valdaaðstöðu í okkar þjóðfélagi, hafa það á valdi sínu að athuga það, hvað eigi helzt að gera til þess að koma fólkinu í skilning um það, að því ber að umgangast gæði lífsins á þann hátt, að það sé til sæmdar, en ekki vansæmdar yfirleitt.