04.12.1957
Sameinað þing: 17. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 276 í D-deild Alþingistíðinda. (2631)

33. mál, afnám áfengisveitinga á kostnað ríkis

Magnús Jónsson:

Herra forseti, Það er nú e.t.v. ekki rétt að vera að lengja þessar umræður, sem má segja að séu orðnar nógu langar, enda þótt ég að vísu telji það ekki á neinn hátt vera að sóa tíma Alþ., þó að rætt sé um áfengismál, því að eins og flestir hv. þm., sem hér hafa talað, hafa tekið fram, þá er hér um að ræða ein stærstu vandamál okkar þjóðar. Ég ætla þó ekki að flytja langa ræðu, en það voru nokkur atriði, sem ég gat ekki stillt mig um annað en drepa á, sumpart til að leiðrétta.

Ég sé enga ástæðu til þess að vera að halda uppi stælum um það frekar, hvað sé kurteislegt og hvað ekki kurteislegt í sambandi við vínveitingar. En ég held þó, að það hljóti að vera hverjum manni ljóst, að það er sitt hvað, hvort haldin er veizla til heiðurs manni, sem er bindindismaður, og þar sé veitt vín, eða þó að hann haldi slíka veizlu fyrir menn, sem hann gerir ráð fyrir að gjarnan vilji neyta víns, og veitir þar vín, Það er að sjálfsögðu mikill eðlismunur.

Það var spurt hér að því, af hverju bindindismenn berðust ekki fyrir banni. Það kann að vera ástæða til að spyrja að því. En þó mun ekki vera nein breyting a.m.k. skilst mér varðandi skoðun templara á því, að það sé þeirra höfuðstefnumál að koma á banni. Aðra bindindismenn kann að greina á um það, hvort rétt sé að innleiða bann eða ekki á þessu stigi málsins. Vitanlega er það sú endanlega leið, sem hlýtur að verða að fara, ef á að útrýma áfenginu úr landinu. En ég fyrir mitt leyti álít, að bann hafi því aðeins tilætlaða þýðingu, að það hafi verið skapað í landinu áður nauðsynlegt almenningsálit gegn drykkjuskap. Og ég efast um og er raunar viss um, að það álit hefur ekki verið skapað í dag, þannig að það verður að vinna að framgangi þessa máls fyrst og fremst á þeim grundvelli að reyna að skapa þetta almenningsálit, og um það hafa ýmis félagasamtök tengzt að reyna einmitt að vinna að málinu á þennan hátt.

Ég vil leyfa mér að mótmæla þeirri kenningu hjá hv, 1. þm. Eyf., að áfengisvarnanefndir hafi farið út fyrir sitt verksvið með því að senda áskoranir til Alþingis um að samþykkja þessa till., vegna þess að nefndirnar eigi ekki að vera húsbændur Alþingis, þar sem þær séu kjörnar eftir lögum frá Alþ. Ég veit ekki til þess, að þessar n. hafi á neinn minnsta hátt reynt til þess að gerast húsbændur Alþ. En að þær megi ekki senda Alþ. skoðanir um sinn vilja, byggðan á þeirri reynslu, sem þær eiga að hafa og hafa í baráttunni gegn áfengisbölinu, það finnst mér næsta fráleit kenning, og það væri miklu nær, að þær brygðust sínu hlutverki, ef þær ekki létu í ljós skoðanir sínar á einmitt því máli, sem þær eru sérstaklega kjörnar til að annast. Og ástæðan til, að þær skora á Alþ. að samþykkja þessa till., er blátt áfram sú, að þær telja, að samþykkt hennar skapi bætt skilyrði til þess að vinna gegn óeðlilegri og skaðvænlegri áfengisnautn á samkomum í þeim héruðum, þar sem þær eru starfandi.

Ég vil nú ekki gera að löngu umtalsefni ræðu míns góða frænda, hv. þm. A-Húnv. (JPálm). En ég verð að segja það þó, að hann hélt áfram í sinni síðari ræðu að valda mér miklum vonbrigðum, því að ég minnist þess nú satt að segja ekki að hafa heyrt ræðu flutta, sem hafi verið jafnandstæð bindindi og þessi ræða, sem hann flutti hér áðan. Og ég efast um, að þessi ágæti þm. hafi athugað það til hlítar, hvaða afleiðingar það mundi hafa í þjóðfélaginu, ef ætti að framfylgja þeim kenningum, sem hann var hér með, þar sem hann blátt áfram hélt því fram, að áfengið væri meðal, það væri nánast guðaveigar, eins og hann vitnaði í eitt ágætt skáld, og að það ætti eiginlega að vera hlutverk menningarstofnana í þjóðfélaginu, ekki að stuðla að því, að menn forðuðust þennan dýrðardrykk, heldur að unglingarnir kynnu með hann að fara, kynnu að meta hann og gerðu sér grein fyrir þá vafalaust um leið, að þessar veigar væru í rauninni upphaf eða a.m.k. aflgjafi ýmissa þeirra stórkostlegustu verka á andlegu sviði, sem fram hefðu komið. Ef ætti að fara að taka upp kenningar í þessu formi, gefur það auga leið, að það í rauninni hlýtur að verða mjög mikilvægt atriði í andlegu uppeldi þeirra manna, sem eiga eitthvað að verða til stórra hluta í þjóðfélaginu, að þeir meðhöndli vín, að vísu á þann skikkanlega hátt, sem hv. þm, talar um, en að það hljóti að verða þeim mjög til trafala á þroskabrautinni, ef þeir ekki neyta áfengis.

Ég held sannast sagna eða vil a.m.k. trúa því, að hv. þm. A-Húnv. hafi ekki til hlítar gert sér grein fyrir, hvaða afleiðingar þessi kenning hljóti að hafa. Hann sagði, að vín væru hin eftirsóttustu gæði, en ekki illt, ef rétt væri með farið. Það er alveg rétt, að fjöldi manna getur farið með vín á þann hátt, að það verði ekki þeim til tjóns. En við skulum gera okkur grein fyrir því, að ég hygg, að enginn maður, sem hefur orðið áfengi að bráð, hafi ætlað sér að verða drykkjumaður fyrir fram, heldur hafi hann ætlað að meðhöndla þessa guðaveig á þann hátt, sem hv. þm. A-Húnv. gat um. En niðurstaðan hefur sorglega oft orðið sú, að þetta hefur gengið lengra, en góðu hófi gegnir. Og ég leyfi mér að fullyrða, að það, sem af er a.m.k., hafi mannkynið og einnig okkar litla þjóð haft stórkostlega meiri bölvun af áfenginu heldur en gott, þannig að það sé ekkert áhorfsmál, að það hljóti að verða stefnan — og vil ég taka undir það með mínum ágæta samþingismanni, hv. 1. þm. Eyf. — að útrýma áfengi úr okkar þjóðfélagi og að um það hljóti öll góð öfl í þjóðfélaginu að sameinast.