10.12.1957
Sameinað þing: 17. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 278 í D-deild Alþingistíðinda. (2632)

33. mál, afnám áfengisveitinga á kostnað ríkis

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Það voru aðeins örfá orð út af því, sem hér hefur komið fram síðast.

Hv. 1. þm. Eyf. (BSt) sagði eitthvað á þá leið, að ég teldi till. þýðingarlitla. Ég sagði, að ég teldi till. ekki svo stórstiga sem æskilegt væri, af því að það er svo erfitt að stíga stór spor í þessum málum hér á hæstv. Alþingi. Hún getur haft þó nokkra þýðingu, þó að við hefðum viljað flytja mál, sem hefði miklu stærri þýðingu, en við vissum að var vonlaust að koma fram, og þá viljum við heldur koma fram máli, sem nær skemmra, heldur en koma engu fram.

Hann sagði, að það hefði ekki verið talað hér á móti till. í sjálfu sér. Það er nokkuð til í þessu, en þó herti hann upp hugann núna og sagði, að till. væri hégómi. En með tilliti til þess, sem hann er áður búinn að segja, að hæstv. Alþ. þurfi að leggja áherzlu á uppeidismálin og að það verði að finna allar leiðir til þess að forða æskunni frá óhollum áhrifum, hvað hefur hann og skoðanabræður hans þá gert hingað til, til þess að ná þessu marki, sem þeir telja nauðsynlegt að ná? Hann er sjálfur búinn að sitja bráðum 42 þing. Hann segir, að aðalatriðið eða þýðingarmesta atriðið sé að koma hér á banni. Hvað hefur hann þá flutt margar till. hér á hæstv. Alþ, til að koma á banni? (BBen: Eigum við von á till. frá honum um það?) Ég veit ekki, hvort við eigum von á henni, en hún kemur nokkuð seint, jafnvel þó að hún kæmi nú.

Nei, ég held, að hv. þm. viti það sjálfur, að till. er ekki þýðingarlaus. Hún getur haft verulega þýðingu, og af því er hún flutt.

Ég skal vera fáorður í garð hv, þm. A-Húnv. (JPálm), vegna þess að það ómak hefur verið tekið af mér. Hann sagði, að áfengismálin væru stórkostleg vandamál, en jafnframt sagði hann, að vínið væri eftirsóttustu gæði lífsins. Og hvað vildi hann svo gera? Ekki neitt. Hann sagði, að það væri aðallega hlutverk foreldra, skóla og kirkjuhöfðingja að sinna þessu máli. Það er rétt, vafalaust gera foreldrar það, sem þeir geta, í þessu. En ef foreldrum tekst það ekki nema að litlu leyti, þá hvað? Vissulega gera skólarnir líka mikið í þessum málum. En skólarnir hafa mjög takmörkuð áhrif á unglinga. Þeir eru skamman tíma undir forsjá skólanna. Of ef þeim tekst ekki að ná þeim árangri, sem æskilegur væri, hvað þá? Hann nefndi kirkjuhöfðingja. Ég veit ekki, hvort hann á eingöngu við biskupa eða presta líka. Ég verð að segja það eins og það er, ég hef ekki orðið var við, að kirkjan hafi beitt sér sérstaklega í þessum málum. En það má sama segja um þá, kirkjuhöfðingjana, ef þeir ekki ná þeim árangri, sem æskilegur er, hvað þá? Hvað var gert gegn berklaveikinni, áður en reist voru hælin á Vífilsstöðum og Kristnesi? Við höfðum lækna þá. Átti þá að segja við sjúklingana: Þið hafið lækna? Þarf þá ekki að gera meira? Hvað var gert í slysförum áður en Slysavarnafélag Íslands var stofnað? Áttum við að segja við sjómenn og aðra: Þið hafið björgunarbáta á skipunum? Átti þá ekki að stofna Slysavarnafélag Íslands? Jú, ég veit, að hv. þm. sér, að þegar þessir aðilar megna ekki að gera það, sem þeir þurfa að gera, þá verða aðrir að koma til. Og ef á að skjóta öllum áhyggjum sínum upp á þessa aðila, hvað er þá hlutverk Alþingis? Koma því þessi mál ekkert við?