04.12.1957
Sameinað þing: 17. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 279 í D-deild Alþingistíðinda. (2633)

33. mál, afnám áfengisveitinga á kostnað ríkis

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Það er aðeins út af því, að hv. þm. Barð. (SE) spurði mig, hvað ég hefði gert til þess að greiða fyrir því, að bann kæmist á hér á landi eða takmarkanir um áfengi, og auðheyranlega vissi hann ekki til þess, að það hefði neitt verið.

Hér á Alþ. hef ég ekki gert mikið til þess, það skal ég játa, en þó vann ég að því sem nefndarmaður í Alþ. og með atkv. mínu, að á árunum rétt fyrir 1930, ég man því miður ekki ártalið nákvæmlega, voru sett þau ströngustu áfengislög, sem hér hafa verið, eftir að áfengi var leyft aftur. Ég samþykkti að sjálfsögðu, eins og flestallir þm., að afnema bannið við sterkum drykkjum, þegar þjóðin var búin að samþykkja það. Hitt er svo annað mál, sem ekki kemur þessu beinlínis við og ekki hans spurningu, en ég get þó aðeins getið þess, að hefði ég haft kosningarrétt árið 1908, því að ég var kominn til vits og ára þá og fylgdist vel með því, sem var að gerast, þá hefði ég samþykkt bannið. En vitanlega gerði ég það ekki sem þingmaður, enda ekki kominn á þing. En því miður, allar vonir um þessi ströngu ákvæði, bæði um bannið og þessi ströngu ákvæði frá áfengislögunum, hvort það var frá 1928 eða öðru ári, brugðust. Þá kom bara bruggið í staðinn, og smyglið jókst.