12.02.1958
Sameinað þing: 26. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 279 í D-deild Alþingistíðinda. (2636)

33. mál, afnám áfengisveitinga á kostnað ríkis

Jón Pálmason:

Herra forseti. Það er nú nokkuð langt síðan þetta mál var til umr., og mundi vera kominn tími til þess, að þessi till. kæmist til n., enda mundi hún vera komin þangað fyrir löngu, ef hv. flm hefðu ekki haldið hér uppi umr. um hana. Ég tók nokkurn þátt í þessum umr. síðast og aðallega vegna þess, að ég hafði flutt brtt. á þskj. 88, ef ég man rétt, um að færa þessa till. út á raunhæfara svið. En nú hef ég ekki nema athugasemdina og kvaddi mér hljóðs aðallega til þess að mótmæla tveimur atriðum í ræðu hv. þm. Barð., sem var einn af flm, þessa máls.

Hann hélt þeirri fjarstæðu fram, að ég hefði talið, að vínföng væru eftirsóknarverðari lífsgæði, en allt annað. Auðvitað sagði ég ekkert slíkt, en tók það fram, sem allir vita að er rétt, að vínföng eru meðal þeirra gæða lífsins, sem sótzt er eftir meðal margra, og þess vegna eru áfengismál vandamál í hverju þjóðfélagi eða víða um heim.

Annað, sem hv. þm. Barð. vildi mótmæla, var það, að ég minntist á, að ég teldi mikla nauðsyn á því, að þeir, sem hefðu með uppeldismál að gera, skólakennarar og prestar, ynnu að því að sýna fólkinu fram á nauðsyn þess að hafa hófsemi í sínu lífi. Þetta taldi hv. þm. Barð. miklar öfgar, að láta sér detta í hug að nefna presta í því sambandi, vegna þess að þeir gerðu aldrei neitt. Ég vil nú fyrir hönd prestastéttarinnar mótmæla slíku vantrausti, því að þeir prestar, sem ég hef haft mest kynni af, hafa verið hinir mestu hófsmenn og á margan hátt unnið að því að bæta siðferði í okkar landi.

Að öðru leyti skal ég ekki neitt fjölyrða um þessa till. Eins og ég sagði áðan, þá er til þess kominn tími, að hún komist til n., sem hefur dregizt vegna þess, sem ég hef áður getið um.