07.05.1958
Sameinað þing: 43. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 282 í D-deild Alþingistíðinda. (2642)

33. mál, afnám áfengisveitinga á kostnað ríkis

Alfreð Gíslason:

Herra forseti. Ég er hræddur um, að hv. allshn. hafi ekki gert sér ljóst, hvað fyrir flm. till. vakti, og því langar mig til þess að fara um þetta mál örfáum orðum enn á ný.

Till. um, að ekki skuli veita áfengi á kostnað ríkis og ríkisstofnana, hefur nú legið fyrir hinu háa Alþingi allan nýliðinn vetur. Hv. allshn. hefur á þriðja mánuð haft hana til athugunar og allan þann tíma ekki treyst sér til að veita henni neins konar afgreiðslu. Það er fyrst eftir að níu hv. alþm. hafa krafizt þess skriflega, að till. verði tekin á dagskrá, og hæstv. forseti að líkindum lagt fast að hv. nefnd, að hún mannar sig upp í að skila áliti, ef álit skyldi kalla.

Þótt till. um afnám áfengisveitinga á kostnað ríkisins sé ekki neitt stórmál, er þar þó merku máli hreyft og athyglisverðu. Það er svo sem ekki verið að fara fram á mikið, aðeins það, að ríkið og stofnanir þess standi ekki fyrir áfengisveitingum í veizlum eða á öðrum samkomum. Það örlar ekki á því í till., að neinum skuli íþyngt hið minnsta né réttindi nokkurs manns skuli skert. Það eru hvorki álögur né réttarskerðing, að gestgjafi helli ekki áfengi ofan í gesti sína. Það vakir ekki sérstaklega fyrir með flutningi till. að spara ríkinu útgjöld, og hún er eigi heldur fram borin að neinu gefnu tilefni í sambandi við opinberar veizlur. Tilgangurinn er sá einn, eins og margsinnis var lýst í vetur, að gefa öðrum fagurt fordæmi í umgengninni við áfengi, og þess er vissulega brýn þörf, enda mun enginn maður með ábyrgðartilfinningu neita því.

Það er sannfæring okkar flm., að verði ályktunartill. samþykkt, muni þær samkomur, sem ríkið stendur fyrir og boðar til, reynast öðrum holl fyrirmynd, sem eftir verður tekið og eftir verður breytt. Á þann veg gæti samþykkt þessarar till. orðið hinu stóra áfengisvandamáli þjóðarinnar að miklu liði. Engan hef ég heyrt mótmæla því, að drykkjuskapur sé böl, og allir virðast sammála um, að við það böl eigi íslenzka þjóðin að stríða. Það er einnig viðurkennd staðreynd, að því almennar sem áfengis er neytt, því meira er um ofdrykkjuafbrot, slysfarir, vinnutjón og annað illt, sem siglir í kjölfar drykkjuskapar.

Loks munu flestir á einu máli um, að varðandi áfengisneyzlu almennings sé fátt áhrifaríkara til góðs eða ills, en ríkjandi samkvæmisvenjur. Mjög miklar líkur verður að telja fyrir því, að samþykkt till. okkar þremenninganna og framkvæmd hennar mundi hafa heillavænleg áhrif á samkvæmistízkuna hér, enda er hún flutt í trausti þess. Ef æðstu menn þjóðarinnar láta af þeim ósið að byrla gestum sínum görótta drykki, munu fleiri á eftir koma. Það er á reynslu byggt og ekki sagt út í bláinn, að eftir höfðinu dansa limirnir.

Fyrir þessari skoðun voru gild rök færð hér í vetur, og skal það ekki endurtekið nú. Að vísu komu í umr, fram efasemdir um, að samþykkt till. mundi hafa tilætluð áhrif. Var slegið á þá strengi, að fáir mundu verða til að taka sér æðstu menn þjóðarinnar til fyrirmyndar. Um það má sjálfsagt deila. En hví ekki að láta reynsluna skera úr? Það kostar ekkert og verður aðeins til sóma þeim, sem tilraunina gerir. Ef það sýnir sig, að áhrifavald Alþingis, ríkisstj. og ríkisstofnana er nákvæmlega ekkert á þessu sviði samkvæmissiða og drykkjutízku, þá eru þessir aðilar reynslunni ríkari og geta huggað sig við, að þeir hafi þó lagt sitt fram, góðu máli til stuðnings.

Það var á það minnzt í vetur, að víðs vegar um heim væru ábyrgir menn vaknaðir til meðvitundar um vandamál drykkjuskaparins, og voru nokkur nöfn nefnd í því sambandi. Síðan hefur a.m.k. einn valdamaður bætzt í þann hóp eftir fréttum að dæma, en það er Krustjov, forsætisráðherra Rússlands. Samkv, frásögn Þjóðviljans hefur hann nú fyrir nokkru skorið upp herör gegn áfengisflóðinu þar í landi. Með leyfi hæstv. forseta, vil ég tilfæra fáeinar setningar úr ræðu Krustjovs um þetta efni, og er áðurgreint blað heimildin.

„Við verðum,“ segir hann, „að taka upp harða baráttu gegn vodkaflóðinu. Í þeirri baráttu verða fulltrúar almennings og ríkisvaldsins að taka höndum saman. Hver sá, sem hvetur aðra til drykkjuskapar, vinnur gegn hagsmunum ríkisins og samfélagsins, og hann á að hljóta þá refsingu, sem hann á skilið,“ segir þessi forsætisráðherra. Og loks segir hann: „Sömuleiðis verðum við að berjast af öllum kröftum gegn drykkjutízkunni.“

Í sömu ræðu sakar Krústjov höfunda kvikmynda og leikrita um óhæfilegan vodkaáróður í verkum sínum, og kemur mér í hug í því sambandi sá ósmekklegi brennivínsáróður, sem íslenzka ríkisútvarpið rekur æ ofan í æ og birtist á víxl í formi ljóða, söngs og leikrita, en það er víst önnur saga.

Þetta var um Rússland. En hvernig er þá viðhorfið í Bandaríkjunum? „Vandamál ofdrykkjunnar í nýju ljósi“ heitir athyglisverð grein, sem Morgunblaðið flutti 9. marz í vetur. Hennar upphaf er á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Áfengisvandamálið er jafnan mjög umrætt í Bandaríkjunum, enda talið, að þau gangi næst Frakklandi um áfengisneyzlu. Eru nú uppi sterkar raddir þar í landi um, að taka verði þetta vandamál nýjum og fullkomlega vísindalegum tökum. Er það algengt um þessar mundir, að stofnaðar séu við sálfræðideildir háskólans sérstakar deildir, sem taki áfengismálin til meðferðar. Nýir sérfræðingar koma fram, sem telja, að hægt sé með nýjum aðferðum að draga úr drykkjuskap.“

Nokkru síðar í þessari grein Morgunblaðsins segir svo:

„En þeir,“ það eru sérfræðingarnir, „benda á þá staðreynd, að með breyttum viðhorfum hópsins, félagsskaparins til áfengisneyzlu megi ráða nokkra bót á bölinu. Það þarf að skapa nýtt andrúmsloft, ný viðhorf til áfengisneyzlu í samkvæmum.“

Þannig er skoðunin sú sama austan hafs og vestan: Það verður að berjast gegn drykkjutízkunni, skapa ný viðhorf til áfengisneyzlu í samkvæmum. Það er einmitt þetta, sem vakir fyrir flm. till. um afnám áfengisveitinga á kostnað ríkisins, að sköpuð verði heilbrigðari viðhorf til áfengisneyzlu á mannfundum, en þar verða einhverjir að ríða á vaðið, og fer þá vel á, að það geri æðstu menn þjóðarinnar, enda líklegast, að þeirra frumkvæði beri drýgstan ávöxt.

Fólkið í landinu virðist almennt hafa næmari skilning á vanda drykkjuskaparins en hv. allshn. Hvaðanæva að af landinu hafa hinu háa Alþingi borizt áskoranir um að samþykkja till. um, að ríkið kosti ekki áfengisveitingar. Yfir 60 áfengisvarnanefndir hafa sent slíka áskorun. Samkv. lögum skulu áfengisvarnanefndir vera ráðgefandi um öll bindindis- og áfengismál fyrir sveitarstjórnir, lögreglustjóra, áfengisvarnaráðunaut, ríkisstj. og aðra þá aðila, sem komið geta til greina í þessu sambandi. Þetta eru opinberar nefndir, trúnaðarmenn ríkisins, og einróma álit þeirra ber ekki að hunza. Auk yfir 60 áfengisvarnanefnda hafa mörg félög áfengisvarnanefnda stórra byggðarlaga sent áskorun um, að till. verði samþykkt. Æðsti trúnaðarmaður ríkisstj. í áfengisvörnum, áfengisvarnaráðunautur, hefur sent sams konar áskorun, að ég ekki nefni mörg fjölmenn félög, sem hið sama hafa gert. Til hvers eru lög um áfengisvarnir, ef virða á að vettugi álit þeirra hundraða manna, sem settir eru til að vinna að þeim vörnum?

Meiri hl. hv. allshn, kveðst þeirrar skoðunar, að óeðlilegt sé og óviðeigandi að binda svo hendur ríkisstj. sem till. gerir ráð fyrir. Mikil er nærgætnin í garð ríkisstj. Hér virðist um svo mikið tilfinningamál að ræða, að jafnvel pólitísk flokksbönd falla af mönnum. Í slíku máli má ekki binda hendur ríkisstj. Það er af og frá, hvað sem velferð þjóðarinnar líður. Þótt hið háa Alþingi gegni því sem meginhlutverki að binda hendur ríkisstjórna með setningu laga og fyrirmæla, þá má slíkt ekki ganga út yfir áfengisveitingar á kostnað ríkisins. Það er hvorki eðlilegt né viðeigandi að dómi hv. nefndarmeirihluta. Það virðist skoðun hv, nefndar, að afnám áfengisveitinga á kostnað ríkisins komi ekki til greina, meðan frjálst sé að velja og veita áfengi í landinu. Nú er sala og veiting áfengis engan veginn frjáls í þessu landi, heldur þvert á móti mjög takmörkuð og bundin ákveðnum lagafyrirmælum. Auk þess fæ ég ekki séð, að neitt órofa samband sé á milli sölu og veitinga áfengis annars vegar og þess hins vegar, sem í till. okkar þremenninganna felst. Leyfð sala og leyfðar veitingar áfengis leggja ekki neinum gestgjafa skyldu á herðar að veita áfengi í samkvæmum sínum, og gildir það sama um ríkisstj. sem aðra.

Hv. nefnd segir það óeðlilegt og óviðeigandi að binda hendur ríkisstj. í þessu máli, en lætur þess ekki getið, hvort viðeigandi sé að hunza samhljóða áskoranir allra starfandi áfengisvarnanefnda í landinu. Hún segir heldur ekkert um, hvort eðlilegt sé, að Alþingi og ríkisstj. reyni að skapa heilbrigt fordæmi í því skyni, að úr dragi ómenningu drykkjuskaparins í landinu. Meginatriði málsins og þungamiðju þess sniðgengur hún í áliti sínu á þskj. 449. Vandræðaskapurinn uppmálaður skín út úr álitsgerðinni, enda von til þess eftir málstaðnum.