05.02.1958
Sameinað þing: 25. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 289 í D-deild Alþingistíðinda. (2656)

50. mál, brúar- og vegagerð

Flm. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér ásamt hv. þingmönnum Þing. og hv, 2. þm. Rang, að flytja till. til þál. um að fela ríkisstj. að láta gera kostnaðaráætlun um brúargerð á Tungnaá hjá Búðarhálsi. Einnig verði gerð áætlun um kostnað við að gera bílfæra yfir sumarmánuðina leiðina frá Galtalæk í Landsveit um Holtamannaafrétt og Sprengisand að Mýri í Bárðardal.

Fyrir nokkrum árum flutti ég ásamt þáv. hv. þm. S-Þ., Jónasi Jónssyni, till. um, að rannsókn yrði gerð á því, hvort mögulegt væri að gera þessa leið færa yfir sumarmánuðina. Þessari till. var vel tekið, og þótt ekki hafi farið fram formleg rannsókn á þessu, hafa ýmsir kunnugir menn eigi að síður rannsakað þetta, og hefur komið í ljós, að þetta er vel tiltækilegt, og þeir, sem kunnugastir eru, telja, að langir kaflar á leiðinni séu þannig, að það þurfi ekkert fyrir þá að gera, til þess að þeir verði bílfærir.

Þetta er og öllum ljóst, sem farið hafa þessa leið. Það eru víða stór flæmi, þar sem eru harðir og sléttir sandar og sjálfgerðir vegir. Það er þess vegna enginn vafi á því, að það er mögulegt að gera þetta. En vegna hins mikla áhuga, sem ríkir í þessum málum, bæði sunnanlands og norðan, þótti okkur flm. sjálfsagt að stíga nú fyrsta sporið í áttina til þess, að hafizt verði handa í þessu máli, þ.e. að láta gera kostnaðaráætlun um það, hvað mikinn kostnað það hefði í för með sér að láta þennan draum rætast, að fara á bifreiðum á milli landsfjórðunga þessa stuttu, en skemmtilegu leið. Við teljum, að með því að kostnaðaráætlun liggi fyrir, verði naumast langt að bíða, þangað til í það verði ráðizt að lagfæra leiðina. Það er að vísu einn farartálmi á þessari leið, sem verður dálítið kostnaðarsamt að yfirstíga, en það er Tungnaá. Hana verður að brúa hjá Búðarhálsi. Eftir að till. okkar Jónasar Jónssonar var flutt hér í hv. Alþingi, var þetta brúarstæði mælt, og það kom í ljós, að það þurfti nákvæmlega jafnlanga brú þar eins og gömlu Þjórsárbrúna. Kom því ýmsum til hugar, að það mætti flytja gömlu Þjórsárbrúna og nota hana á þessum stað, þar sem ekki þyrfti að búast við, að þungavöruflutningar færu um brúna á Tungnaá. Hefur það mál verið athugað rækilega, og verkfræðingar vegagerðar ríkisins hafa sagt sitt álit um þetta. Þeir telja, að það muni alls ekki svara kostnaði að rífa gömlu Þjórsárbrúna í því skyni að flytja hana á Tungnaá, til þess sé þessi brú of gömul og allt efni í henni svo slitið, að það geti á engan hátt svarað kostnaði. Meira að segja er talið vafamál, að það svari yfirleitt kostnaði að rífa brúna, enda er það ógert enn. Sýnist þó vera, að það sé talsverður efniviður af járni og stáli, sem mætti nota til þess að smíða úr ýmsa gagnlega hluti, en það er nú annað mál.

Það er öruggt, að gamla Þjórsárbrúin dugir ekki, og það borgar sig ekki að nota hana. Það verður þess vegna að byggja nýja brú, og það verður aðalkostnaðarliðurinn. Það þarf að vísu brú á Fjórðungakvísl, en hún er ekki mikið vatnsfall, og brúargerð þar mun ekki kosta mikla fjárhæð.

Eins og ég gat um áðan, er allmikill áhugi bæði sunnanlands og norðan um það að gera þessa leið færa bifreiðum yfir sumarið. Sýslunefndir Rangárvallasýslu og Suður-Þingeyjarsýslu hafa samþykkt áskorun til Alþingis um að hefjast handa í þessu máli, og það er enginn vafi á því, að ef þetta verður framkvæmt, þá verður það til þess að gera miklu styttri leiðina milli landsfjórðunga. Þetta verður ákaflega skemmtileg ferðamannaleið og verður að því leyti til ánægju og menningarauka, auk þess sem það færir landsfjórðungana saman.

Ég tel ekki ástæðu til að fjölyrða meira um þetta mál. Ég vil leggja til, að umr, verði frestað og till. vísað til hv. allshn.