17.12.1957
Neðri deild: 42. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 181 í B-deild Alþingistíðinda. (266)

73. mál, kosningar til Alþingis

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Það hafa nú orðið allmiklar umr. um þetta frv., enda hafa þær leitt í Ed. sérstaklega til nokkurra breytinga og ekki svo fárra á frv., og viðbótarbrtt. liggja fyrir hér í Nd.

Mér heyrðist það helzt á hæstv. fjmrh. áðan, að honum fyndist vindurinn vera mikið farinn úr sjálfstæðismönnum í þeirra ræðum nú við 3. umr. þessa máls. Sjálfur viðhafði hæstv. fjmrh. það orðbragð hér, að það væri ekki nein glóra í því, sem þm. segðu, þm. væru eins og skrípi, og það væri ekkert annað en slúður, sem þeir væru að fara með. Ef hæstv. fjmrh, heldur, að það sé eða menn áliti, að það sé eitthvað meiri vindur í þm. eða hæstv. ráðh., sem haga orðum sínum þannig, þá er ég ákaflega hræddur um, að honum séu ekki allir sammála um það atriði.

Ég held, að það hafi komið fram í umr. þm. og reyndar frá báðum hliðum, að í sjálfu sér væri ekki svo mikið stórmál nm að ræða hér, þ.e.a.s. ef miðað væri eingöngu við það frv., sem um er að ræða, efni þess eitt út af fyrir sig, eins og það segir til um. Og þetta má sjálfsagt til sanns vegar færa. En ef menn ætla að gera sér grein fyrir viðhorfi þessa máls í heild, þá verður auðvitað allt annað uppi á teningnum, og menn mega þá ekki láta sér yfirsjást að hugleiða, hvað á bak við slíka löggjöf liggur, og þann aðdraganda, sem löggjöfin á.

Það er haft eftir nú, ég held, að það hafi verið hv. þm. N-Þ. (GíslG), að 1. þm. Reykv. (BBen) hafi eiginlega viðurkennt, að það væri ekkert atriði út af fyrir síg, hvort kjörfundi ætti að vera lokið kl. 11 eða 12. Það er ekkert merkilegt, þó að slíkt sjónarmið komi fram hjá hv, 1. þm. Reykv., og sérstaklega, ef menn hafa það í huga, sem hvergi hefur komið fram í þessum umr., hvað hefur átt sér stað mikil kosning t.d. í Reykjavík eftir miðnætti. Þeir, sem taka sér fram um það að betrumbæta skipan þessara mála, hafa engin gögn lagt fram undir meðferð málsins um næturkosningarnar, ekki annað en sögusagnir um, að það sé óeðlilegt að heimsækja fólk að næturlagi, en eru hins vegar þess eðlis, að frv., þó að það verði samþ., dregur engan veginn úr möguleikum slíkra næturheimsókna, nema síður sé, eins og réttilega hefur verið bent á.

En í hverju felst þetta næturgölt, sem talað hefur verið um? Aðstæður eru þannig hér, að yfirkjörstjórnin hér í Reykjavík hefur alltaf gefið upp á kjördaginn, hve margir væru búnir að kjósa á tilteknum tíma dags, oft með stuttu millibili. Um þetta liggja þess vegna alveg fyrir upplýsingar frá yfirkjörstjórninni, hvað mikil kosning hefur átt sér stað á tilteknum tíma á deginum og einnig hversu mikil kosning hefur þá átt sér stað eftir kl. 11 og eftir kl. 12.

Væri nú óeðlilegt, að hæstv. ríkisstj., sem tekur sér fram um að breyta slíku atriði löggjafar og heldur því fram: Það er óhæfilegt, að kjörfundur standi lengur en til kl. 11 eða í hæsta lagi til miðnættis, — að hún hefði kynnt sér og fært rök fyrir sínu máli og þeim upplýsingum, sem fyrir liggja, að hér yrði að stemma á að ósi, vegna þess, hvað væri komið langt út í ógöngur í þessu sambandi? Ég held, að það sé sáralítið brot af kjósendum Reykjavíkur, sem í undanförnum kosningum hefur kosið eftir kl. 12. Ég hef ekkert hirt um að taka upp þessar tölur, því að það var fyrst og fremst og hlaut að vera auðvitað skylda, annarra en okkar. En mér er kunnugt um það bæði fyrr og síðar af afskiptum af kosningum hérna, hversu til þess að gera, lítill hluti kjósendanna greiðir atkvæði, eftir þann tíma. Ef þetta hefur komið fram í umr., hefur það farið fram hjá mér, en slíkt atriði eins og þetta hlaut náttúrlega að vera eitt af því, sem ástæða var til að upplýsa, af því að það var ósköp auðvelt að upplýsa það.

En kannske að það eigi að taka upp þann hátt núna að banna yfirkjörstjórninni að gefa nokkrar yfirlýsingar um það, hve mikill hluti kjósendanna sé búinn að greiða atkvæði á tilteknum tíma. Aldrei hefur það verið talið óeðlilegt, og aldrei hefur maður heyrt neinar umkvartanir um það. Og langsamlega fæst af því, sem fram er sett í þessari löggjöf, hefur sætt nokkurri almennri eða opinberri gagnrýni og aldrei komið gagnrýni fram á því hér í þinginu áður, jafnvel þó að breytingar á kosningalöggjöf hafi verið ræddar. Og hvað kemur þá til?

Eftir að núverandi hæstv. ríkisstj. var mynduð á s.l. ári, var mikið talað um það af ýmsum stuðningsflokkum hennar, ekki sízt hér í Reykjavík, og þeim, sem viðriðnir voru stjórn bæjarmálefna, að nú skyldi Gutti fá að setja ofan í bæjarstjórnarkosningunum næstu, þ.e.a.s. nú væri kominn tíminn og tækifærið til þess, að Sjálfstfl. hlyti ekki lengur hreinan meiri hl. í bæjarstjórn Reykjavíkur. Í fyrstu lýsti þetta sér í boðun þess, að nú skyldu allir íhaldsandstæðingar, þ.e.a.s. stuðningsmenn hæstv. ríkisstj., standa saman á einum lista. Og eins og kunnugt er var hafin tilraun til þess að hefja slíka allsherjarsamvinnu á milli þessara aðila. Þetta voru fyrstu viðbrögðin, sem hinir vinstri stjórnarsinnar í fyrstu vímu sinni töldu að mundu verðu nægjanleg til þess að leggja Sjálfstfl. að velli í höfuðstað landsins eða hrinda meirihlutaaðstöðu hans þar. Það gerðist í senn, að samninganefndirnar, sem áttu að semja allsherjarlistann, samvinnulistann á milli vinstri sinnanna í Reykjavík, komu sér ekki saman og minni hl. í bæjarstjórn Reykjavíkur varð æ minni og brotin fleiri, en áður höfðu verið. Það hefur sem sagt á þessu kjörtímabili verið að eiga sér stað sú þróun, að það er að stækka alltaf tala minnihlutaflokkanna, um leið og hver minni hluti, þar af leiðandi, eðlilega minnkar, og þannig hefur þetta átt sér stað, einmitt sú þróun haldið áfram, jafnvel eftir að þessi núverandi vinstri ríkisstj. var mynduð og áform voru uppi um það að reyna að hafa sameiginlegt framboð á milli íhaldsandstæðinga, eins og það hefur verið orðað.

Það næsta, sem heyrðist í þessu, þegar það var orðið augljóst, að ekkert samkomulag mundi verða um einn allsherjarlista, því að bæði væri ekkert samkomulag milli samkomulagsnefndanna, sem skipaðar höfðu verið milli flokkanna, og ekki heldur mundi það vera hjá stuðningsflokkum þessara íhaldsandstæðinga, — þá voru næstu viðbrögðin þau, að þeir skyldu þó a.m.k. nota aðstöðu sína með löggjafarvaldinu til þess að innleiða reglurnar um kosningabandalög. Það átti ekki að vera út af fyrir sig eins ýkja hættulegt að standa þó ekki nánar saman, en menn gera í slíkum kosningabandalögum, eins og þau hafa verið orðuð.

En jafnvel hugmyndin um kosningabandalag milli íhaldsandstæðinganna var mörgum þeirra svo ógeðfelld, að þeir töldu, að það væri á sinn hátt einnig mjög líkleg leið til þess að styrkja aðstöðu sjálfstæðismanna við bæjarstjórnarkosningarnar og líklegri, en að veikja hana.

Þegar svo öllu var lokið, voninni um að sameinast nú allir í einingu andans og bandi friðarins á einum sameiginlegum lista, og þegar hugmyndirnar um kosningabandalög voru einnig farnar út um þúfur, þá var þó a.m.k. eftir ein góð leið, sem sumir þessara flokka voru alls ekki neitt óvanir í, og það var að reyna að haga kosningalöggjöfinni og nota sitt vald til þess á Alþingi þannig, að menn stæðu ekki jafnt að vígi í baráttunni.

Nú hefur því verið haldið fram og er m.a. af hv. frsm. meiri hl. allshn. hér í Nd., að þetta frv., sem hér liggur fyrir, nái til allra jafnt, til allra flokka, — og hvar stendur í þessu frv., að ákvæði þess taki ekki til allra flokka? Auðvitað er þetta rétt hjá hv. þm. N-Þ., að það stendur hvergi í frv., að það eigi að taka til ákveðins flokks öðrum fremur. En annaðhvort er hv. þm. ótrúlega óglöggskyggn á aðstæður þessara mála eða hann vill ekki viðurkenna það, að aðstaðan er svo gerólík í kosningum á Íslandi, að einmitt löggjöf eða frv. eins og hér er um að ræða er allt öðruvísi og verður allt öðruvísi í framkvæmd fyrst og fremst, eins og hefur verið margtekið fram, í dreifbýlinu, heldur en í þéttbýlinu. Og frv. að lögum, sem hefur þann tilgang að girða fyrir möguleika manna, eftir því sem verða má, því að það skilst mér að sé tilgangurinn að girða fyrir möguleika stjórnmálaflokka til að fylgjast með, hverjir hafa kosið, — ákvæði slíks frv. verða og eru allt öðruvísi í framkvæmd í smáum og litlum kjördæmum, eins og víðast hvar háttar til hér á Íslandi nema í Reykjavík og stærstu kaupstöðunum og kjördæmunum.

Hv. þm. A-Húnv. (JPálm) var t.d. að lýsa kosningafyrirkomulaginu í Austur-Húnavatnssýslu, og þar er það samkomulag á milli flokkanna, að þeir leggi í sameiginlegan herkostnað, sem hefur þann tilgang, að enginn þurfi að missa af því að kjósa, af því að hann hafi ekki aðstöðu sambærilega við aðra til þess að koma á kjörstað. M.ö.o.: það eru notaðar bifreiðar sameiginlega af flokkunum til þess að keyra alla, eftir því sem verða má, sem ekki eru hindraðir af veikindum eða fjarvistum, eða gefa þeim öllum kost á því að fara á kjörstað. Og þegar nú þannig háttar til, sjá menn þá ekki í hendi sér, hversu öruggt það er, að hægt er að vita um hvern einasta mann í slíku kjördæmi, í viðkomandi kjördeildum og kjörsvæðum, hvort hann sé búinn að kjósa eða ekki kjósa, án þess að þurfa til þess að hafa menn eða umboðsmenn lista inni á kjörstöðunum sjálfum til þess að merkja þar við kjörskrár eða aðrar skrár, sem menn kunna að hafa meðferðis?

Þetta hlýtur þeim, sem sömdu þetta frv., að hafa verið fullkomlega ljóst, og þess vegna er það eðlilegt, að mönnum finnist, að það sé töluvert alvarlegt atriði, þegar gerð er tilraun til að setja reglur um kosningar á landinu, sem engan veginn í framkvæmdinni geta verið þær sömu í einu kjördæmi sem öðru.

Nei, það hefur verið látið í veðri vaka af ýmsum stuðningsmönnum hæstv, ríkisstj. um þetta frv., að það væri ósköp augljóst, hvað það þýddi og hvað það meinti. Það var ekkert skafið af því í Þjóðviljanum fyrir nokkrum dögum. Þá var það beinlínis sagt berum orðum, að þetta mundi koma niður á, — ég held, að þeir hafi orðað það: kosningavél Sjálfstfl., þá væntanlega öðrum flokkum fremur. Sömu orð, nákvæmlega sömu orð að efni til, hefur hæstv. fjmrh, viðhaft hér í gærkvöld og endurtekið hér í dag, að það mundi ekki skaði skeður, þó að væri dregið úr áhrifum af kosningaapparati Sjálfstfl.

Nú segi ég: Það gerir ekkert til, þó að aðstaðan sé heft, til þess að áhrifin af kosningaapparati einhvers flokks séu ekki söm og hefur verið. En frumskilyrðið til þess að fara hér ekki út í öfgar er, að þetta eigi við alla eins, og þetta á ekki við alla eins. Og fyrst og fremst er það sök Framsfl. að hafa forgöngu um setningu slíkrar löggjafar, þegar það er vitað og hver einasti þingmaður verður að játa, að í langsamlega flestum stöðum, þar sem flokkurinn hefur mest áhrif sín úti um landið, getur hann eftir sem áður, haft alla þá sömu aðstöðu og áhrif til þess að vita, hvort kjósandi er búinn að kjósa eða ekki.

Mér dettur nú ekki í hug að halda, að þessi atriði séu ekki alveg ljós jafnglöggskyggnum manni og hv. þm, N-Þ. er, þó að hann hafi eytt töluverðum tíma af ræðu sinni til þess að halda því fram, að frv. fæli ekki í sér neitt misrétti á milli flokkanna og kæmi alls staðar út eins, í dreifbýli og þéttbýli. Ég held, að það sé fullkomlega ljóst.

Hv. þm. A-Húnv., Jón á Akri, hefur flutt hér brtt. um, að það skuli vera tveir kjördagar að vetri. Ja, mig undrar ekki, að slík till. komi fram, og í raun og veru má það merkilegt heita, hversu lengi það hefur viðgengizt, að bæjarstjórnarkosningar eru á vetrardegi, svo að segja í svartasta skammdeginu hér á. Íslandi, og það á sama tíma sem það hefur margsinnis endurtekið sig, að ef kosningar hafa farið fram í sveitum landsins, bara á haustdegi eða vordegi, þá hefur verið talið sjálfsagt, að það væri gert ráð fyrir því, að þarna mætti kjósa tvo og jafnvel fleiri daga.

Sjálfur er ég þeirrar skoðunar, að ef menn á annað borð hefðu haft hér áhuga og vilja fyrir því að leiðrétta nokkur atriði, sem eru veigamikil í kosningalöggjöfinni og varða framkvæmd kosningarinnar, sem þetta frv. er talið að taki einkum til, þá hefði það orðið eitt af fyrstu atriðunum að breyta til um kjördagana, þ.e.a.s. flytja kjördag í kaupstöðum og stærri þorpum af vetrardeginum og annaðhvort þá á vorið, sem ég fyrir mitt leyti teldi að væri eðlilegra, í apríl eða maí-mánuði, um þau mánaðamót, eða e.t.v. um mánaðamót ágúst og september eða eitthvað því um líkt, m.ö.o. á þeim tíma árs, þegar mestar líkur væru til þess, að hinn almenni kjósandi ætti auðveldast með að neyta kosningarréttar síns. Og þegar menn eru að tala um það, að kosning standi sums staðar annars staðar yfir skemur, jafnvel heldur en hér á vetrardegi, þá er nú sannleikurinn sá, að í fyrsta lagi er það almennt svo, eins og ég sagði áðan, að kjördagurinn er hér í skammdeginu, og það er stuttur dagur, og auk þess höfum við séð það æ ofan í æ, þótt ég minnist ekki, að það hafi komið fyrir svoleiðis, að skaði væri skeður, þá kjördaga, sem kosið hefur verið undanfarið, ef við miðum bara við hér í Reykjavík, en ég hef sjálfur fylgzt með því, að á milli bæjarstjórnarkosninga hafa verið þeir dagar, og ég á þá við síðasta sunnudaginn í janúar, sem fjórða hvert ár er kosið hér til bæjarstjórnar, sem gersamlega hefði verið útilokað að framkvæma bæjarstjórnarkosningar á öðruvísi en þannig, að kosningin væri á engan hátt lýðræðisleg, heldur aðeins skrípamynd af lýðræðinu, því að það var þá alveg undir hælinn lagt á slíkum degi og í slíkum veðrum, hvað mikill eða lítill hluti kjósendanna hafði aðstöðu til þess að neyta kosningarréttar síns.

Ég undirstrika þetta nú vegna þess, eins og ég sagði áðan, að ef menn eru hér að flytja mál sitt til þess að leiðrétta atriði, sem varða framkvæmd kosningalöggjafar, þá skiptir það sáralitlu máli, hvort menn mega bera merki í hnappagatinu. Hitt er aðalatriðið, að hinn almenni kjósandi geti haft sæmilega vissu fyrir því og sæmilegt öryggi um það og a.m.k. flokkarnir hafi forgöngu um að keppa að því að skapa honum öryggi til þess að geta neytt kosningarréttar síns á kjördegi.

Ég þykist alveg vita það, að fyrir hv. þm. A-Húnv. vaki það, að hann vilji heldur flytja till. sína um, að kjördagar skuli vera tveir, en flytja kjördaginn fram á vor eða til hausts, úr því að það hefur ekki verið reynt eða þreifað fyrir sér um samkomulag um það atriði áður. Og tel ég það t.d. of seint fram komið nú að breyta beinlínis kjördeginum, ekki aðeins í Reykjavík, heldur í kaupstöðunum og annars staðar, þar sem nú á að kjósa. Þess vegna finnst mér ósköp eðlilegt, að hann flytji sína till. í þessu formi, þó að ég, eins og ég sagði áðan, sjálfur sé þeirrar skoðunar, að fyrst og fremst ætti að flytja kjördaginn og ekki hafa hann í janúarmánuði í slíkum kosningum.

Enn er það svo, að töluvert margt er óljóst í þessu frv. og kannske þá ekki óljósara, en áður var. En nú hefur á þessum fundi eða við þessa umr. málsins verið lagt til að breyta enn 6. gr., að í staðinn fyrir „næstu húsum og aðliggjandi götum“ verði talað um næsta nágrenni, þar sem menn mega ekki hafa með höndum áróður eða reyna að hafa áhrif á atkvgr., hvort heldur er með ræðuhöldum, prentuðum eða skriflegum ávörpum og auglýsingum, eins og þetta var áður í kosningalöggjöfinni, né heldur með því að bera eða hafa uppi flokksmerki, merki lista eða önnur slík auðkenni á sjálfum kjörstaðnum, þ.e.a.s. í kjörfundastofu, kjörklefa eða annars staðar í eða á þeim húsakynnum, þar sem kosning fer fram, svo og í næsta nágrenni, eins og nú er lagt til, í staðinn fyrir: næstu húsum og aðliggjandi götum.

Það hefur verið innt eftir því, og ég leyfi mér að inna eftir því enn: Hver er skilningur hv. meiri hl. allshn. á þessu ákvæði hér: „í næsta nágrenni“? Og þá er langeðlilegast að taka alveg tiltekin dæmi. Meinar hv. meiri hl. og þá kannske í fyrsta lagi hæstv. ráðh., sem flytur þessa brtt., fjmrh., að miðað við kjörstað í Miðbæjarbarnaskólanum sé Iðnó í næsta nágrenni, þar sem vitað er, að Alþfl. hefur haft sína kosningaskrifstofu, og þar megi ekki hafa uppi nein merki eða annað slíkt, eins og hér er um að tala? Meinar hann t.d., ef til þess kæmi, að Framsfl. hefði sína kosningabækistöð í íshúsinu umtalaða, fyrir sunnan Fríkirkjuna, að það sé í næsta nágrenni? Og meina þessir sömu menn, að félagsheimili kommúnista hinum megin við Tjörnina sé þá í þessum skilningi í næsta nágrenni?

Mín skoðun er sú, að atriði eins og þetta beri að skilja á frjálslyndan hátt, enda hefur það verið gert fram til þessa, og þess vegna hafa ekki árekstrar af þessu orðið. En þegar er búið að breyta þessu ákvæði í löggjöfinni í annarri deild í þinginu og aftur er lagt til að breyta því í hinni deildinni, þá er auðvitað nauðsynlegt, að þeir, sem standa að lagabreytingunni, geri sér í raun og veru grein fyrir því, sem hér er um að ræða, og hvað þeir meina.

Ég sagði, að ég teldi eðlilegt að skýra þetta ákvæði — og það hefur alltaf verið mín skoðun — eins og önnur ákvæði í sambandi við framkvæmd kosningalaganna af hæfilegu frjálslyndi, og þegar við nú ekki megum hafa merki á húsum, ekki merki á bílum og ekki merki á mönnum, ja, hvað segja menn þá um að setja merki í loftið, og hvar verður í því sambandi kallað næsta nágrenni kjörstaðarins? Ég hef sjálfur verið á kjördegi, þar sem gat að líta í loftinu skrifað með tækni nútímans, hvaða kjósendur væru nú líklegast að kjósa, og einnig bent á það, að menn ættu að krossa fyrst og fremst við lista þessa tiltekins flokks, alveg á nákvæmlega sama hátt og hér hefur verið áður. Það hefur verið sett á bílana merki flokksins eða flokkanna. Menn hafa borið í barmi sér merki síns flokks. Eins og ég sagði áðan, þegar menn ekki mega bera þetta, ekki hafa þetta á bílunum, ekki á húsum í tiltekinni fjarlægð, þá getur vel verið og mér þætti ekkert undarlegt, þó að menn færu þá að velja sér loftrýmið til þess að framkvæma slíka merkingu á, ef menn teldu hana verulega mikils virði í sambandi við framkvæmd á kosningunum.

Það er m.ö.o. alveg greinilegt, enda hefur það komið ótvírætt fram við meðferð þessa máls, að það er erfitt að setja markalínurnar í slíkum málum. Það er erfitt, og þeir, sem hafa staðið að flutningi þessa máls, hafa þurft að hrekjast úr einni víglínunni frá annarri. Þegar frv. kemur fram, má ekki segja neinum, þá er það refsivert að segja mönnum, að maður hafi kosið. Það er hætt við það núna. Nú er verið að reyna að koma sér niður á, hvað menn meini með „næsta nágrenni“ o.s.frv, Og ýmsar fleiri breyt, hafa verið á frv. gerðar, og ég út af fyrir sig harma þær ekki, eins og hv. þm. N-Þ. var að víkja hér að, að menn væru eiginlega helzt að tala um það, sem ekki væri í frv. lengur. En sannleikurinn er sá, að það eru ákaflega veigamikil atriði, sem ekki eru í frv. lengur, og þannig er það alltaf með setningu löggjafar og frv., að það eru kannske ekkert veigaminni atriði, sem annaðhvort er gengið fram hjá að setja inn í löggjöfina eða fellt er úr löggjöfinni á hverjum tíma. Hér hefur engin tilraun verið gerð til þess að ná þeim megintilgangi, sem sagt er að stefnt sé að, að menn alls staðar á landinu, kjósendur hvar sem er á landinu eigi að vera friðaðir á kjördaginn, eins og það er orðað, vegna þess að það er vitað, þrátt fyrir ákvæði þessa frv., eins og þau eru, og miðað við þá framkvæmd, sem menn geta gert sér í hugarlund, að á flestöllum stöðum nema í höfuðstaðnum og stærstu kaupstöðunum verður eftir sem áður hægt að vita upp á hár, hverjir hafa kosið, hvort menn hafa kosið eða ekki. Og það vekur auðvitað grunsemdir og hefur vakið eðlilegar getgátur í garð Framsfl., sem hefur forgöngu um flutning þessa máls, alveg sér í lagi vegna þess, að hann sækir sitt fylgi einmitt öðrum flokkum fremur á þessa staði í landinu.

Það er ósköp skiljanlegt, að hv. þm. hafa hver á fætur öðrum úr stjórnarandstöðunni talið, að ef einlægur vilji hefði verið fyrir hendi til að bæta framkvæmd kosningalöggjafarinnar, væri sá eðlilegi háttur í því sambandi, að mþn., sem kosin er af þinginu, fjallaði um slíkt mál, eða þá að flokkarnir freistuðu þess að hafa samráð um það sín á milli. Mér er alveg ljóst, að það er ekki hægt að ætlast til þess, að flokkar hafi samráð um breytingu á kosningalögum og kjördæmaskipun, þar sem beinlínis er verið að deila um kannske valdskiptingu og aðstöðu í þjóðfélaginu. En það er eðlilegt, að flokkar reyni í lengstu lög að hafa samráð sín á milli um þær leikreglur, sem þeim er ætlað að starfa eftir á kjördegi og í sambandi við framkvæmd kosninga. Þetta held ég líka að flokkarnir hér á landi hafi í æ ríkari mæli gert á undanförnum árum, alveg án þess að til hafi þurft að koma, þvingun löggjafarvaldsins,

Ég vék áðan að því, hvernig hv. þm. A-Húnv. lýsti framkvæmd kosninganna í Austur-Húnavatnssýslu, hvernig flokkarnir hefðu haft samráð sín á milli og sett sér reglur. Ég man ósköp vel eftir því, þegar ég var framkvæmdastjóri Sjálfstfl., hvernig flokkarnir höfðu samráð sín á milli um það að skapa sér reglur um það, fastar leikreglur, hvernig þeir skyldu haga sínum útvarpsauglýsingum fyrir kosningar. Og svona hefur þetta verið á fjölmörgum sviðum, að samvinna hefur skapazt á milli flokkanna, að sjálfsögðu grundvölluð á því eðlilega sjónarmiði, að um framkvæmd kosningalöggjafar, hvað snertir fyrirkomulag og háttalag á kjördegi, er það mjög veigamikið og verulegt atriði, að samstaða og samkomulag geti verið á milli flokka. Og það vekur líka mjög skiljanlega alveg sérstakar grunsemdir út af fyrir sig, þegar tiltekinn stjórnarmeirihluti á Alþingi án nokkurs samráðs við stjórnarandstöðuna tekur sig fram um breytingar á kosningalöggjöfinni örfáum vikum fyrir kjördag. Ég tel það mjög óheppilega og illa valinn tíma að hleypa af stokkunum slíku máli.

Flutningsmenn þessa máls þurfa þess vegna ekki að furða sig á því, þó að sjálfstæðismenn hafi haft margt og mikið að athuga við þetta frv., og eins og ég sagði áðan, ekki aðeins þau ákvæði, sem í frv. eru, heldur einnig það, sem á bak við flutning málsins býr. Það er ekki hægt að verjast því, þegar við í raun og veru aldrei af hálfu margra þeirra manna, sem nú hafa talað skeleggast í þessu máli af stjórnarliðinu, höfum heyrt nokkra gagnrýni á þeim málum eða atriðum, sem hér er um að ræða, en þurfum nú allt í einu að hlusta á það, hvað þessir menn telja mikið við liggja, að þeir fái að leiðrétta kosningalöggjöfina, svo að réttlætið fái að njóta sín í þessum málum. En af hverju hafa þeir alltaf þagað um þetta óréttlæti og misfellur í kosningalöggjöfinni?

Nei, þetta eru sömu mennirnir, sumir hverjir, sem höguðu sinni framkvæmd í síðustu alþingiskosningum þannig, að stærsti stjórnarflokkurinn í dag, kommúnistaflokkurinn, gaf bæði Framsfl. og Alþfl. þann vitnisburð, að framkoma þeirra í alþingiskosningunum, meðferð þeirra á kosningalöggjöfinni þá, væri meiri glæpur en það, þó að menn brytust inn í hús að næturlagi til þess að stela. Þessi orð standa óhögguð og ýmis fleiri, sem ekki var þó síður kveðið að, um það, hvaða dóm stærsti stjórnarflokkurinn í dag felldi um framkomu Framsfl. og Alþfl. í sambandi við síðustu alþingiskosningar. Og þessir menn, sem hafa þessa fortíð að baki sér, — ja, menn þarf ekki að furða það, þó að það sé ekki tekið eins og góð og gild vara, að fyrir þeim vaki, ekkert annað en réttlæti í þessu máli. Þeir þurfa ekki að furða sig á því, og þeir þurfa allra sízt að furða sig á því, að því verði varlega trúað hér í Reykjavík, í höfuðstað landsins. Og það má auðvitað kommúnistaflokkurinn líka vita, að jafnskeleggur og hann var að fordæma kosningasvik og pretti Hræðslubandalagsins við síðustu alþingiskosningar, þá minnast kjósendur þess einnig, hversu gersamlega þessi flokkur át ofan í sig öll stóru orðin í þessu máli, þegar ekki var um að ræða að fullnægja réttlætinu lengur, heldur að næla sér í ráðherrastóla.

Þetta er að lokum atriði, sem þeir flokkar, sem nú standa að þessari löggjöf, geta aldrei komizt hjá, að menn trúa varlega tilgangi þeirra til þess að betrumbæta og endurbæta kosningalöggjöfina. Þeir sömdu um það, þegar mynduð var núverandi hæstv. ríkisstj., að þeir ætluðu að bæta kosningalöggjöfina, manni skildist kjördæmaskipunina. Hvar er það réttlætismál? Hversu langt er því komið? Var þá talað um þessa breytingu til þess að fullnægja réttlætinu? Er einhver af hv. þm., sem hefur gerzt talsmaður þessa máls, sem getur með sanni upplýst okkur um það, að þetta hafi verið atriðið, sem þá hafi verið talað um til þess að endurbæta í kosningalöggjöfinni? Ég hugsa, að alveg óhætt sé að fullyrða það, að engum hafi þá verið í huga þessi atriði, engum einasta af þessum postulum réttlætisins, sem nú vilja kalla sig í þessu máli.

Að lokum vil ég svo segja það, að um þetta mál eins og önnur verður það auðvitað kjósandinn, sem fellir þyngstu dómana, og þótt bæði kjósendum hér í Reykjavík og á ýmsum öðrum stöðum á landinu sé gert örðugra um vik að kjósa nú en ella væri og lagðar á þá þungar og óeðlilegar hömlur, þá er mér mjög nærri að ætla, að þeir kjósendur muni ekki láta það verða til þess að draga úr kjörsókn á kjördegi í væntanlegum bæjarstjórnar- og sveitarstjórnarkosningum, á engan hátt. En hitt er ég sannfærður um, að þegar kjördagurinn er liðinn, getur engum dulizt, að þeir, sem ætluðu þá að friða kjördaginn, munu gera sér fyllilega ljóst, að þeim hafi herfilega missézt.