19.03.1958
Sameinað þing: 35. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 292 í D-deild Alþingistíðinda. (2660)

50. mál, brúar- og vegagerð

Jón Kjartansson:

Herra forseti. Ég hafði ekki aðstöðu til að mæla fyrir brtt. minni á þskj. 211, þegar aðaltill. var rædd hér á Alþ. á dögunum. Ég vil því, með leyfi hæstv. forseta, segja nokkur orð um till. nú.

Ég flutti mína brtt. ekki með það fyrir augum fyrst og fremst að opna þarna leið fyrir skemmtiferðafólk að sumarlagi. Þó er það svo, að Fjallabaksleið er án efa einhver fegursta leiðin í óbyggðum þessa lands. Tignin og fegurðin á þessari leið er öllum ógleymanleg, sem hana hafa farið. Fyrir mér vakti annað með flutningi minnar till:, það að freista þess að fá þarna eins konar öryggisleið fyrir sveitirnar austan Mýrdalssands. Með öryggisleið meina ég það, að ef Katla skyldi gjósa, sem — ef að vanda lætur — gæti orðið hvenær sem er, þá mundi leiðin sunnan jökla yfir Mýrdalssand lokast og það vafalaust um lengri tíma. Ef þetta skeði að sumarlagi, mætti komast með þungaflutning Fjallabaksleið, ef hún yrði lagfærð nokkuð.

Fjallabaksleið er nú fær tveggja drifa bílum að sumarlagi, að vísu ekki bilum með þungu hlassi. En kunnugir telja, að með tiltölulega lítilli lagfæringu á nokkrum stöðum megi fá leiðina vel færa fyrir alla bíla. Tvær ár eru á leiðinni, sem þyrfti að brúa. Það er Námskvísl við Laugar og Ófæra á Skaftártunguafrétti. Aðrar brýr er þarna ekki um að ræða, svo að teljandi sé.

Það verður ekki séð á nál, á þskj. 320 eða fskj. I, að vegamálastjóri hafi fengið mína till. til umsagnar. Hann minnist ekkert á hana í sinni umsögn, heldur ræðir eingöngu um aðaltillöguna á þskj, 82. Hv. n. getur væntanlega upplýst það, hvort láðst hafi hjá henni að óska umsagnar vegamálastjóra um mína till. En hvað sem um þetta er, ætti þetta ekki að saka. N. segir berum orðum í áliti sínu, að hún mæli með minni till. Og í trausti þess, að hæstv. ríkisstj. láti framkvæma þessa athugun á þessari leið, gera kostnaðaráætlun um að gera bílfæra leiðina að Fjallabaki, þá get ég eftir atvikum sætt mig við það, að þessu máli verði vísað til ríkisstj., eins og hv. n, hefur gert till. um.