20.03.1958
Neðri deild: 66. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 320 í D-deild Alþingistíðinda. (2669)

143. mál, verslunarviðskipti við herlið Bandaríkjanna

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. Miðað við yfirlýsingar hæstv. ríkisstj., þegar hún tók við, væri eðlilegt, að nú væri komið að því að ráðstafa eignum hins erlenda varnarliðs, sem hér dvaldi þá, og það væri mjög skiljanlegt, að mönnum þætti mjög undir því komið, að rétt væri farið með svo stórkostlegar eignir. En nú er liðið liðlega eitt og hálft ár, frá því að hæstv. ríkisstj. tók við völdum, og mundi því nokkurn veginn standast á endum, að ef hún hefði fylgt eftir því loforði sínu að láta varnarliðið hverfa úr landi, þá væri að því komið eða það ef til vill þegar í stað horfið.

En það er kunnugra en frá því þurfi að segja, að þessu er ekki að heilsa. Málinu er allt öðruvísi varið. Við erum nú ekki að ræða um ráðstöfun eigna varnarliðsins vegna þess, að það sé komið að því að hverfa úr landi eða þegar horfið, heldur samkvæmt því, sem hæstv. utanrrh. upplýsti hér áðan, er ein höfuðástæðan til þeirrar eignayfirfærslu, sem hér hefur átt sér stað og mestum ágreiningi hlýtur að valda, sú, að ákveðið er, að nýjar framkvæmdir á vegum varnarliðsins séu í þann veginn að hefjast, — nýjar framkvæmdir, sem eiga þá að hefjast í þann mund, sem liðið ætti að vera horfið á braut, hefði stjórnin staðið við þær skuldbindingar, sem hún gaf, þegar hún var mynduð.

Af þessari einföldu staðreynd sjá menn nokkuð, hvernig á málum hefur verið haldið af hálfu hæstv. ríkisstj. og hver heilindi séu í hennar hug í miklu af þeim umr., sem um þetta mál hafa orðið. Að öðru leyti skal ég ekki ræða um dvöl varnarliðsins hér, heldur einungis vekja athygli á þessari mjög eftirtakanlegu staðreynd.

En af ummælum hæstv. utanrrh, var það ljóst, sem raunar var kunnugt áður, þeim er hið sanna vildu vita, að hér er um að ræða tvö gersamlega ólík atriði. Ráðherrann dró það mjög glögglega fram í sinni ræðu. Annars vegar er um að ræða þær eignir, sem Sameinaðir verktakar hafa flutt út af Keflavíkurflugvelli og þeir höfðu sjálfir ýmist keypt á frjálsum innlendum markaði eða sjálfir flutt inn til landsins, en ekki á neinn veg eða með neinu móti keypt af hinu erlenda varnarliði eða af þeim aðilum, sem í þess skjóli dveljast hér í landinu. Það er því, eins og hæstv. ráðh. sagði, mjög eðlilegt og raunar óhjákvæmilegt, að úr því að starfsemi þess átti að leggjast niður, þessa fyrirtækis, Sameinaðra verktaka, yrði þeim leyft að flytja þessar vörur út af Keflavíkurflugvelli undir lögmætu eftirliti og að sjálfsögðu að því áskildu, að þeir greiddu tolla, ef þeir höfðu ekki áður verið greiddir. Það er því ekkert við þessi viðskipti að athuga á neinn veg, nema því aðeins að þessir aðilar hafi flutt út einhverjar aðrar vörur en þær, sem þannig eru til komnar, og aðrar vörur, en leyfi hæstv. utanrrh. tekur til. Hann segir nú, að það sé í athugun, — og það er vel og ekki nema eðlilegt, að það sé athugað, eftir að þau blaðaskrif hafa átt sér stað, sem hér hefur verið vitnað til. Enn hefur mér vitanlega ekki verið bent á neitt dæmi þess, að slík misbeiting hafi átt sér stað, en úr því sem komið er, þá er eðlilegt, að athugunin fari fram, og er ég hæstv, utanrrh. þakklátur fyrir að láta ganga til fulls úr skugga um þetta.

Allt annars eðlis er svo um þær vörur, sem hitt fyrirtækið, Aðalverktakar, hefur flutt út af vellinum og ágreiningur hefur orðið um. Þar er ekki um að ræða vörur, sem þetta fyrirtæki hafi sjálft flutt inn til landsins, heldur eingöngu vörur, sem það eftir skýrslu hæstv. ráðh. annaðhvort hefur keypt af erlendum verktaka, sem hér hefur dvalið í skjóli hins bandaríska varnarliðs, eða e.t.v. að einhverju leyti af verkfræðingadeild varnarliðsins, að því er mér skildist.

Hæstv. ráðh. telur, að það sé engin skylda, hvorki fyrir verkfræðingadeildina né þessa erlendu verktaka, sem hér hafa dvalið í skjóli varnarliðsins, að gefa íslenzka ríkinu kost á því að kaupa eignir af sér. Um það má vafalaust deila, a.m.k. varðandi verkfræðingadeildina, sem ég fæ ekki betur séð, en sé beinn hluti af sjálfu varnarliðinu. En látum það vera. Segjum sem svo, að þessi skylda sé ekki fyrir höndum. Þá er a.m.k. ljóst og að því er mér virtist óumdeilt af orðum hæstv. utanrrh., að þeir geta þó ekki selt íslenzkum aðila eða afhent þessar eignir, nema leyfi rn. komi til. Og ef það leyfi hefur verið gefið til Aðalverktaka að yfirtaka eignirnar, er að sjálfsögðu ekkert við þá ráðstöfun út af fyrir sig að athuga, enda hefur sú ráðstöfun áreiðanlega verið samþykkt af rn. með það fyrir augum, að ekkert af þessum eignum yrði flutt eða selt út af Keflavíkurflugvelli eða öðrum þeim athafnasvæðum, sem varnarliðið hefur hér. En jafnvel þó að undan hefði fallizt að setja slíkan fyrirvara inn í samþykki ráðuneytisins, skipti það ekki máli, því að þetta var óheimilt að gera undir öllum kringumstæðum, nema samþykki ráðuneytisins kæmi til, svo að rn. hlaut að hafa þetta í hendi sér. Og ég vil halda því fram, að alveg án tillits til þess, hvort skylda var af hálfu hinna erlendu aðila að láta þessar eignir í hendur sölunefndar varnarliðseigna eða ekki, þá var það hið eina eðlilega af hálfu hinna íslenzku stjórnarvalda, þegar til þeirra var leitað um flutning varanna burt af þeim athafnasvæðum, þar sem þeim var ætlað að vera, að setja slíkt skilyrði, að varan væri seld fyrir milligöngu þeirrar íslenzku stofnunar, sem ríkið hefur sett upp til að annast þetta, til að hafa hönd í bagga með því, að þær eignir, sem fluttar eru inn á vegum varnarliðsins og þeirra aðila, sem hér dveljast í þess skjóli, yrðu ekki til þess, að neinir íslenzkir aðilar gætu tekið af þeim óeðlilegan gróða, heldur kæmi gróðinn alþjóð að gagni fyrir milligöngu sölunefndar varnarliðseigna.

Ég tel, að ef á að áfellast hæstv. utanrrh. fyrir nokkuð í þessu sambandi, sé það það atriði að hafa ekki þegar í stað sagt við Aðalverktaka: Vörurnar má flytja burt, úr því að þið hafið alls ekkert við þær að gera, en þið hafið tekið við þeim með þeim hætti, að hið eina eðlilega er, að salan fari fram fyrir milligöngu sölunefndar varnarliðseigna og ríkið taki við gróðanum, ef einhver verður. — Hæstv. utanrrh. virtist og gera sér þessa grein, en hafði þann fyrirvara á eða afsökun, að hér væri um mjög óverulegar upphæðir að ræða, og víst má segja, að þar kunni að vera nokkur afsökun, þó að hitt hefði verið hreinlegra, að halda sér við þá einu eðlilegu reglu, sem í þessu efni hefur staðið til frá upphafi að fylgt væri; enda kom það í ljós, og á það vil ég leggja áherzlu, að skjótlega varð ágreiningur um, hvort og hvers eðlis þetta leyfi væri, sem hæstv. ráðh. hafði gefið, og það er alveg greinilegt, að hæstv. ráðh. hefur talið, að þessi aðili hafi farið lengra, en góðu hófi gegndi og ætlað að skilja leyfisveitinguna á annan veg en hæstv. ráðh. ætlaðist til.

Hæstv. ráðh. hélt því raunar fram áðan, að hann hefði stöðvað þessar framkvæmdir, flutning varanna út af Keflavíkurflugvelli, og fyrirskipað athugun vegna blaðaskrifa, sem af þessu urðu, — hann skaut því inn í ummæli hv. 3. þm. Reykv., eins og þingheimur heyrði hér áðan. En hér kemur í ljós, að skýzt, þótt skýr sé, að hæstv. ráðh. misminnir hér það, sem gerzt hefur. Í Alþýðublaðinu hinn 23. febr. er birt yfirlýsing frá utanrrn. um þetta mál, og í henni segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Eftir að Íslenzkir aðalverktakar s/f höfðu hafið flutninga á umræddum vörum út af Keflavíkurflugvelli, taldi sölunefnd varnarliðseigna, að farið væri inn á verksvið nefndarinnar, þar sem um fleiri vörur væri að ræða en þær, sem talizt gætu vöruafgangar.

Ráðuneytið gerði þegar hinn 19. þ.m. ráðstafanir til þess að stöðva flutningana, og er málið í athugun.“

Hér kemur í ljós, að það er alls ekki vegna blaðaskrifanna, heldur vegna íhlutunar sölunefndar varnarliðseigna, sem hæstv. ráðh. fyrirskipar stöðvun á flutningi varanna, vegna þess vitanlega, að eftir þeim gögnum, sem honum þá berast í hendur, er framkvæmdin önnur, en hann í upphafi hafði ætlazt til. Hæstv. ráðh. mun og einnig sjá við athugun, að blaðaskrifin um málið hófust eftir þann 19. og eftir það, að hæstv. utanrrh. var farinn úr landi. Út af fyrir sig er ekkert við því að segja, þó að hæstv. utanrrh. misminni um þetta, hann hefur í mörgu að standa og alla getur okkur misminnt. En svona liggur málið fyrir, og er rétt, að það sé alveg ótvírætt. Sem sagt, höfuðatriði málsins er það, að annars vegar eru vöruflutningar Sameinaðra verktaka af Keflavíkurflugvelli, ráðstafanir, sem eru gerðar, eftir því sem fram er komið, með fullu samþykki hæstv, utanrrh., og hann hefur fært að því skýr og óhnekkjanleg rök, að það hefði verið fullkomið ranglæti af hans hálfu og fjarstæða, ef hann hefði neitað að láta þær framkvæmdir verða. Hins vegar eru svo framkvæmdir eða vöruflutningar Aðalverktaka, sem eru þess eðlis, að opinber aðili, sölunefnd varnarliðseigna, telur sig tilknúða að snúa sér til utanrrh., og utanrrh, eftir þeim gögnum stöðvar sjálfur, áður en blaðaskrif hefjast, samkvæmt því, sem í þessari tilkynningu utanrrn, segir, áframhald þeirra viðskipta.

Ég tel, eins og ég segi, að það hafi verið hæpið af hæstv. ráðh. að veita þetta leyfi til Aðalverktaka með þeim hætti, sem hann gerði. Ég tel það afsökun, þó að hún sé ekki fullgild, að hann hafi talið, að þarna hafi verið um lítið að ræða. Ég tel það enn þá meiri afsökun fyrir hæstv. ráðh., að þegar hann fær gögn um, að þarna hafi verið gengið lengra en hann taldi góðu hófi gegna, þá stöðvaði hann sjálfur án íhlutunar blaða eða opinberrar gagnrýni framkvæmd, sem hann taldi misbeitingu á sínu leyfi. Fyrir þá framkvæmd á hann lof skilið, en ekki last, og það er með öllu ástæðulaust fyrir hann að vera að skjóta sér undan því frumkvæði og dug, sem hann í því sýndi.

Hitt er svo annað mál, að mér er ekki grunlaust, að hann vilji nú eftir á gera minna úr öllum þessum viðskiptum, en efni standa til, og auðvitað er ekkert auðveldara fyrir þann, sem hefur verið stöðvaður í verknaðinum, heldur en að láta svo sem viðskiptin hafi ekki átt að verða öllu meiri, en þegar er búið að framkvæma. Það er ósköp eðlilegt, að sú aðferð sé viðhöfð, en hún segir ekkert um það, hversu stórfelldar ráðagerðirnar voru í fyrstu.