14.03.1958
Neðri deild: 66. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 323 í D-deild Alþingistíðinda. (2670)

143. mál, verslunarviðskipti við herlið Bandaríkjanna

Utanrrh. (Guðmundur Í. Guðmundsson):

Herra forseti. Í frumræðu minni gerði ég svo ýtarlega grein fyrir þessu máli, að ég tel mig ekki þurfa að fara nákvæmlega út í það aftur. Mér þykir þó rétt að svara ýmsum atriðum, sem komið hafa fram í ræðum þeirra hv. tveggja þm., sem talað hafa síðan.

Hv. 3. þm. Reykv. (EOI) heldur því fram, að ég hafi gefið í skyn, að ég hefði stöðvað útflutning varnings af Keflavíkurflugvelli og sölu hans á innlendum markaði vegna þess, að ég hefði álitið, að misnotað hafi verið það leyfi til útflutningsins, sem ég gaf á sínum tíma. Þetta er rangt. Þegar Aðalverktakar voru að flytja út af vellinum umræddan varning, sneri sölunefnd varnarliðseigna sér til mín til þess að ræða um þetta mál, og taldi n., að hér gæti verið hættulegt fordæmi á ferðinni, sem hún óskaði eftir að yrði athugað betur. Ég skýrði n, þá frá því, hverjir málavextir væru og að ekkert fordæmi væri verið að skapa í sambandi við þennan útflutning á neinn hátt. Hins vegar þótti mér rétt, að gefnu tilefni frá n. og vegna þess að ég var á förum úr landi, að láta málið hvíla, á meðan ég væri í burtu, og gerði ég þess vegna ráðstafanir til þess, að ekkert væri gert í frekari útflutningi eða ráðstöfunum á því, sem þegar hafði verið flutt út, á meðan ég væri fjarverandi.

Þegar ég kom heim aftur, gerði ég ráðstafanir til þess að láta fara fram athugun á því, hvort það leyfi, sem rn, hafði gefið út, hefði verið misnotað eða ekki.

Ég vil taka það skýrt fram, að þó að ég hafi látið þessa athugun fara fram, bæði að því er varðar Sameinaða verktaka og Aðalverktaka, þá hef ég ekki gert það vegna þess, að fyrir liggi neitt, sem bendi til þess, að þessir tveir aðilar hafi misnotað það leyfi, sem þeir fengu.

Þá gat 1. Þm. Reykv. þess, að um Sameinaða verktaka og Aðalverktaka gegndi tvennu mjög ólíku máli. Sameinaðir verktakar hafi sjálfir flutt inn með leyfum til landsins eða keypt á innlendum markaði allt það, sem þeir fengu að flytja út af Keflavíkurflugvelli, en Aðalverktakar hafi ekki keypt á innlendum markaði eða flutt inn sjálfir neitt af því, sem þeir fengu að flytja út af vellinum. Hér er ekki rétt með farið. Það er að vísu staðreynd, að Sameinaðir verktakar fluttu sjálfir inn eða keyptu á innlendum markaði allt, sem þeir fluttu út. Hins vegar er ekki rétt að fullyrða, að Aðalverktakar hafi ekki sjálfir flutt inn neitt af því, sem þeir fengu leyfi til að flytja út. Þeir hafa sjálfir flutt inn, eins og ég gat um í minni frumræðu, verðmæti til framkvæmda á vellinum fyrir talsvert yfir 40 millj. kr. á þeim tíma, sem þeir hafa starfað þar, auk þess sem þeir hafa tekið við efni frá verkfræðingadeild varnarliðsins til framkvæmdanna fyrir um 30 millj. kr. á þessum tíma. Þeir efnisafgangar, sem þarna er um að ræða, eru að einhverju leyti frá þeirra eigin innflutningi og að einhverju leyti frá því, sem þeir hafa orðið að taka við. Hygg ég, að sjálft byggingarefnið sé að langmestu leyti þeirra eigin innflutningur. Þau önnur verðmæti, sem Aðalverktakar fluttu út, höfðu þeir orðið að kaupa af erlenda verkfræðingafirmanu vegna aðgerða utanrrn., án þess þó að hafa þeirra þörf nema að takmörkuðu leyti.

Heildarupphæðin á öllu því verðmæti, sem Aðalverktakar hafa flutt út, bæði því, sem þeir fluttu sjálfir til landsins, og hinu, sem þeir tóku við frá öðrum, nemur ekki meira en röskum 200 þús. kr. Það er allt og sumt, sem þarna er um að ræða, þannig að hér er vissulega verið að gera úlfalda úr mýflugunni.

Þá gat hv. 3. þm. Reykv. þess, að honum væri ókunnugt um, að Sameinaðir verktakar hefðu verið leystir upp, og hann spurði, hvort þeir væru ekki lifandi nú, eins og þeir hefðu verið allan tímann.

Þessu fer víðs fjarri. Sameinaðir verktakar voru stofnaðir til þess sem undirverktaki að hafa einkaleyfi á öllum framkvæmdum á Keflavíkurflugvelli. Í dag er þetta einkaleyfi þeirra sem undirverktaka fallið niður, og Sameinaðir verktakar fá í sínar hendur sem slíkir engar framkvæmdir. Sameinaðir verktakar í sinni upphaflegu mynd hafa verið leystir upp og starfa ekki lengur sem slíkir.

Þegar skipulagsbreytingin fór fram 1957, áttu Sameinaðir verktakar helminginn í Aðalverktökum. Um þá eign Sameinaðra verktaka hefur verið myndað samnefnt hlutafélag, sem þeir, sem voru meðlimir í Sameinuðum verktökum áður, eru eigendur að. Verkframkvæmdir á Keflavíkurflugvelli hafa Sameinaðir verktakar ekki lengur.

Þá hefur alveg sérstaklega verið um það rætt, að rétt hafi verið að halda þannig á málinu, að sölunefnd varnarliðseigna hefðu verið afhent þau verðmæti, sem Sameinaðir verktakar og Aðalverktakar fengu að fara með út af Keflavíkurflugvelli.

Ég gat um það áðan, að ég hafði ekkert vald til þess að skylda þessa aðila til að afhenda sölunefnd varnarliðseigna þessi verðmæti. Til þess hafði ég ekkert vald. Hins vegar gat ég bannað þeim að fara með þessi verðmæti út af vellinum og látið þá velja um, hvort þeir vildu þá láta verðmætin liggja þarna kyrr eða ekki.

Með tilliti til þess, að verið var að leggja Sameinaða verktaka niður sem undirverktakafélag, fannst mér ekki rétt að meina þeim að fara út af vellinum með þau verðmæti, sem þeir sjálfir höfðu keypt á innlendum markaði eða flutt inn með leyfum og borgað fullt verð fyrir, ef þeir greiddu í ríkissjóð fullkomlega þau aðflutningsgjöld, sem þeim bar samkvæmt mati dómkvaddra manna.

Nákvæmlega á sama hátt þótti mér ekki rétt, eins og á stóð, að því er Aðalverktaka varðar, að varna þeim að flytja út það afgangsefni, sem þeir sjálfir höfðu keypt fullu verði, ýmist flutt inn eða frá öðrum, og borgað fullu verði, ef þeir borguðu af því fullkomin aðflutningsgjöld.

Ég vil benda þeim hv. þm., sem gert hafa aths. út af þessu, á, að hér hefur nokkuð verið á það minnzt, hverjar tekjur ríkissjóður hefur haft af þeim verðmætum, sem sölunefnd varnarliðseigna hefur fengið til meðferðar á undanförnum árum eða síðan hún tók til starfa, og hafa í sambandi við það verið nefndar ýmsar tölur.

Tollurinn af því, sem Sameinaðir verktakar fóru með út af vellinum, nam 392 þús. kr. Tollurinn af því, sem Aðalverktakar fóru með út af vellinum, nam 200 þús. kr.

Ég er sannfærður um, að með því að láta Sameinaða verktaka og Aðalverktaka greiða að fullu aðflutningsgjöld af þeim verðmætum, sem þeir fluttu út af flugvellinum, eftir mati, hafi ríkissjóður ekki haft minna upp úr þessum viðskiptum, en fengizt hefði með því, að sölunefndin hefði haft þarna milligöngu.

Ég held, að það sé ekki fleira, sem ég hef ástæðu til að taka fram.