30.10.1957
Sameinað þing: 7. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 328 í D-deild Alþingistíðinda. (2678)

21. mál, vegagerð

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að gera brtt. við þessa till., sem hér er til umr. og væntanlega fer til allshn., og vil ég aðeins segja um hana örfá orð.

Ég skal fyrst geta þess, að meginefni þess, sem ég er með, má segja að sé að nokkru leyti það sama og er hjá flutningsmönnum að till. á þskj. 27. Ég legg það bara ljósara fyrir, en mér finnst þeir gera, hvað það er, sem ég vil fá að vita. Ég var í morgun að byrja á því að fara yfir skýrslurnar og athuga, hvað margir bæir ættu eftir að komast í vegasamband í hverri einstakri sýslu og væru tvo km eða lengra frá vegi. Ég var ekki kominn langt, þegar ég fór hingað ofan eftir, en ég var búinn að sjá nóg til þess, sem ég reyndar vissi áður, að þeir eru ekki nema sárafáir í sumum sýslunum, en margir tugir í öðrum sýslum.

Nú er náttúrlega aðstaða og þörf manna fyrir vegi ákaflega misjöfn eftir því, hvernig búskapur er rekinn á jörðunum. Það er allt önnur þörf fyrir þá menn að fá vegi, sem þurfa daglega að koma frá sér vörum, ekki bara vegna síns búskapar, heldur vegna þarfa annarra manna á að fá þær vörur, heldur en hinna, sem ekki framleiða aðrar vörur en þær, sem þeir senda frá sér vor og haust. Þess vegna er vegaþörfin misjöfn.

Þetta vil ég láta koma fram í þeim upplýsingum, sem gefnar verða, og þær koma fram af sjálfu sér, ef skýrslurnar koma í því formi, sem ég hef sett hér fram og hugsa mér að þær komi í.

Þegar slíkt yfirlit liggur fyrir yfir landið í heild, og það á að geta gert það tiltölulega fljótt, — það er ekki neitt óskaplegt verk að fara yfir þetta, — þá vil ég láta Alþ. og ríkisvaldið taka ákvörðun um, hvaða vegi nýja eigi að leggja í þeim héruðum, sem aftur úr eru orðin, til þess að þau eftir sinni þörf standi jafnfætis hinum, sem fengið hafa vegaþörf sinni betur fullnægt. Það er nú sagt til dæmis, að það sé ekki ástæða til að byggja fleiri en svona tvær, þrjár brýr á smáár, sem eru kannske ófærar tvo og þrjá daga á ári, meðan aðrir menn eru látnir sundríða, þurfi þeir út af heimilunum. Svo misjöfn er aðstaða núna í landinu. Þegar Alþ. hefur tekið þá ákvörðun, vil ég enn fremur láta athuga gaumgæfilega, að vegirnir séu flokkaðir þannig niður, að þeir vegir, sem eru óumdeilanlega fyrir alþjóð, tengja saman fjarlægar byggðir og fjarlæg héruð og fjöldi manns fer um daglega, séu að öllu leyti kostaðir af ríkinu og þeir séu gerðir það góðir, að viðhald þeirra véla og verkfæra, sem um þá eiga að fara, verði sem allra ódýrast, meðan hinir vegirnir, sem minni þýðingu hafa fyrir heildina og færri fara um, séu hafðir í öðrum flokki, kannske tveimur, þremur, fjórum, — ég skal ekki segja um það, — það sé athugað. En þetta vil ég ekki láta gera fyrr en búið er að koma sér saman um, hvað eigi að gera í héruðum, sem eftir hafa orðið, til þess að koma þeim jafnfætis hinum fyrst, áður en flokkunin kemur. En þegar það er búið, þá er að láta dreifa viðhaldinu, sumt annast ríkið eitt, sumt annast ríki og sýsla, annað kannske ríki að einhverju leyti eða hreppur, því að það eru komnar í þjóðvegatölu núna heimreiðir heim á einstaka bæi, bara svolítill spotti frá þjóðveginum og heim á viðkomandi bæ, sem liggur svolítið frá honum, meðan aðrir hafa enga vegi færa um allan hreppinn.

Enn fremur hef ég í minni till. — og það má heita, að það sé viðbót við tillögu flutningsmanna — að láta athuga, hvort ekki sé rétt að nota meira, en gert hefur verið, og það gildir þá ekki bara um vegi og brýr, samgönguleiðirnar, sem hér er um að ræða, heldur líka um ýmis önnur mannvirki, að bjóða þau út í akkorði. Við verðum að minnast þess, að þegar fyrst var farið að leggja hér vegi og brýr og hafnir o.s.frv., höfðum við lítið af verkfræðingum, og þá voru engin fyrirtæki til í landinu, sem voru fær um að taka að sér á eðlilegan hátt í akkorði viðkomandi framkvæmdir, eins og t.d. byggingu brúa. Nú eru orðin mörg fyrirtæki í landinu, sem eru fær um þetta, og þau geta keppt um þetta. Og mín reynsla er sú, — hún er lítil, en hún er samt svolítil, — að það hafa verið byggðar, að vísu fyrir ríkisfé, en ekki af ríkisins mönnum, heldur hafa verið faldar smiðum, sem ekki hafa venjulega unnið hjá ríkinu og eru óvanir vinnu hjá ríkinu, með verkamönnum, sem þeir hafa aflað sér sjálfir og líka eru óvanir að vinna hjá ríkinu, nokkrar brýr, ég gæti nefnt fjórar, sem hafa orðið miklu ódýrari, en þær voru áætlaðar hjá vegamálastjóra. Þetta bendir mér í þá átt, að ef farið sé inn á ákvæðisvinnu við þetta, muni það fást gert fljótar og ódýrar, en það er oft hjá ríkinu. Og þó að þessi till. sé bara um samgönguleiðir, vegi og brýr, og ekki nefnt nema það tvennt, þá hygg ég, að það ætti að taka það til athugunar líka við fleira, hafnargerðir og ýmsar byggingar o.s.frv. Og þá náttúrlega má heldur ekki ríkið koma á eftir og borga uppbætur, ef mennirnir þykjast hafa farið illa út úr akkorðunum, eins og hefur verið gert einstaka sinnum a.m.k., þegar slík leið hefur verið reynd undanfarið.

Þessi till. fer náttúrlega til nefndarinnar líka, en ég vildi bara fylgja henni úr hlaði með þessum orðum og biðja n. að athuga, hvort hún vill ekki helzt taka hana upp eða a.m.k. breyta till., eins og hún liggur fyrir á þskj. 27, svo að komi greinilegar fram en þar er, hvaða upplýsinga og hvernig menn vilja fá málið í hendur aftur frá nefndarinnar hálfu.