17.12.1957
Neðri deild: 42. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 193 í B-deild Alþingistíðinda. (268)

73. mál, kosningar til Alþingis

Frsm. minni hl. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Minn ágæti sessunautur, 6. landsk. þm. (GJóh), sem var að ljúka máli sínu, talaði margt vel og skynsamlega, eins og hans var von og vísa. En ég veit ekki, hvort heldur hann hefur verið villtur og ekki vitað, hvar hann var staddur, eða hvort hann hefur ruglazt á því frv., sem hann var að tala um, því að flest, sem hann sagði, átti alls ekki við það frv., sem hér er til umr. Hann talaði um það, eins og til stæði að friða kjördaginn með þessu frv. og það væri verið með þessu frv. að koma í veg fyrir óhæfilegan kosningaáróður og truflun á friðhelgi kjósendanna. En hæstv, fjmrh. tók einmitt alveg rétt fram í dag það, sem skiptir úrslitamáli í þessu sambandi, en við sjálfstæðismenn höfðum bent á áður, að með þessu frv. á ekki á nokkurn veg að draga úr kosningaáróðri frá því, sem verið hefur, eða hvatningu til manna um að mæta á kjörstað, fyrirgreiðslu eða smölun, svo að orðalag hv. 6. landsk. þm. sé notað. Allt það, sem við getum sagt að óviðfelldið sé og hafi verið í kosninga undirbúningi að þessu leyti, á að haldast, vera leyfilegt eftir sem áður samkv. þessu frv.

Ég benti á það strax við 1. umr. málsins hér í Nd. s.l. laugardag, að ef menn hefðu hug á að draga úr þessu, og ég sagði, að við sjálfstæðismenn værum vissulega til viðtals um það, þá þyrfti að gripa til allt annarra ráða, en í þessu frv. eru ráðgerð, Þvert á móti er það sannað svo glögglega, að ekki verður um deilt, að eftir frv. er meiri hætta, en nokkru sinni áður á því, að ófriður skapist, að menn verði truflaðir, þeir jafnvel, sem búnir eru að kjósa, því að það eina, sem meginákvæði frv. fela í sér, er, að sú leiðbeining, sem kosningasmalar, fyrirgreiðslumenn, hverju nafni sem við viljum nefna þá, áður höfðu um það, hverjir væru búnir að kjósa og hverjir eftir væru að kjósa, er nú úr sögunni. En úr því að starfsemi þeirra á að vera allsendis ótrufluð, og það hefur hæstv. fjmrh. viðurkennt, þá er alveg augljóst og þarf ekki að deila um, að þeir verða aðgangsfrekari en nokkru sinni áður, að meiri hætta skapast á því en fyrr, að þeir jafnvel láti þá ekki í friði, sem búnir eru að kjósa, en hingað til höfðu þó næði, eftir að þeir höfðu gegnt þeirri þjóðfélagslegu skyldu að greiða sitt atkvæði. Ég gæti skilið, að hv. 6. landsk. þm, (GJóh) og aðrir, sem ræða um málið frá svipuðu sjónarmiði og hann, væru með frv., ef einhver ákvæði væru þar til þess að vernda menn fyrir þessum ófriði. En þegar ákvæði frv, sannanlega og óhjákvæmilega og samkvæmt beinni yfirlýsingu hæstv. fjmrh. eiga ekki að hagga rétti manna til þess áróðurs, en eina tryggingin, sem áður var fyrir því, að hann gengi ekki úr hófi fram, er numin burt. Þá er ljóst, að það er rétt, sem segir í nál. minni hl. allshn., að frv. hefur alveg þveröfug áhrif við það, sem góðtrúandi fylgismenn þess, eins og hv. 6. landsk. þm., virðast trúa að í því felist,

Hv. 6. landsk, þm. talaði um það, að því fari fjarri, það væri óskiljanlegt, að við sjálfstæðismenn teldum, að þessu frv. væri sérstaklega stefnt gegn Sjálfstfl. En hvað liggur fyrir um þetta? Hæstv. fjmrh. hrópaði það upp yfir sig, að vísu í miklu hugarins ójafnvægi, s.l. laugardag, að það væri jafngott, þó að kosningaapparat Sjálfstfl., eins og hann orðaði það, gæti ekki starfað með sama hætti og áður. Hæstv. ráðh. var þá ekki einu sinni að reyna að draga dul á það, heldur hældi sér af því, að þessu máli væri sérstaklega beint gegn Sjálfstfl. Ég veit ekki, hvort hv. 6. landsk. þm. var við hér á laugardaginn. Mig minnir, að hann hafi verið hér. Ég þori ekki að ábyrgjast það. En ef til vill hefur verið um hann svipað og hv, þm. N-Þ. (GíslG) upplýsti, að hann hlustaði ekki á rök, hv. þm. N-Þ. hældi sér af því. Það getur verið, að hv. 6. landsk. þm. hlusti ekki á fjmrh., og mér finnst það miklu meiri vorkunn, að hann hlusti ekki á fjmrh., jafnvel þó að hann sé viðstaddur, heldur en fyrir hv. frsm. n., þm. N-Þ., sem lýsir því yfir, að hann vilji ekki hlusta á rök í málinu. En hv. þm. N-Þ. var að segja þetta sama, að frv. væri alls ekki beint gegn Sjálfstfl. og ég hefði sérstaklega talið, að stytting kjördagsins væri beint gegn Sjálfstfl., en því færi fjarri, að þetta gæti staðizt. Hv. þm. N-Þ. lýsti því ekki aðeins yfir, að hann hlustaði ekki á þau rök, sem honum féllu ekki, heldur sagðist hann líka hafa mjög lítið fylgzt með meðferð málsins í Ed. Það er auðsætt, vegna þess að hæstv. fjmrh. lýsti því berum orðum yfir í Ed., að ákvæðið um styttingu kjördagsins mundi einungis verka á Reykjavík og hefði yfirleitt ekki áhrif annars staðar. Þetta lét hv. þm. N-Þ. eins og sér væri með öllu ókunnugt, þó að frá þessu hafi verið skýrt í blöðum og alls ekki farið leynt innan þingsins, að þarna hafi hæstv. fjmrh. talað af sér, svipað og hann gerði hér s.l. laugardag, opinberaði of augljóslega, hvað vakir fyrir þessum hv. stuðningsmönnum frv., þ.e. að níðast á stærsta kjördæminu og þar með á þeim flokki, sem þar hefur mest fylgi og mest fyrirgreiðslustarf þar að annast. Og hv. þm. N-Þ. þarf ekki að láta svo sem hann skilji ekki, að fyrirgreiðslustarf sé mun erfiðara í jafnstóru kjördæmi og Reykjavík, þar sem á hvern kosningastað koma nú að meðaltali milli 6 og 7 þúsund kjósendur, eða ámóta margir og kjósendur eru flestir í einu kjördæmi utan Reykjavíkur, — hv. þm. N-Þ. þarf ekki að ætla, að fyrirgreiðslustarf sé ekki ólíkt erfiðara á slíkum stað eins og Reykjavík heldur en í Norður-Þingeyjarsýslu, þar sem ég hygg að kjósendur alls séu ef til vill, — ja, kannske kringum 1.200 eða eitthvað um það bil, en kjördeildir eitthvað milli 5 og 10, ég hef ekki tölurnar nákvæmlega, en það er ljóst, hvílíkur meginmunur er hér á. Og í svo litlu kjördæmi sem Norður-Þingeyjarsýslu er það ósköp eðlilegt, að þar hafi ekki verið talið nauðsynlegt fyrr, en þá alveg nýlega, og jafnvel vakið bros manna, ef það þurfti að hafa menn inni á kjörstað til þess að skrifa niður þá, sem komu, vegna þess að flokkarnir vissu þetta ákaflega vel án allrar niðurskriftar. Hv. þm, A-Húnv. (JPálm) hefur sagt hér frá því, hvernig flokkarnir víðs vegar úti um land koma sér saman um það að sjá kjósendum í kjördeildunum fyrir flutningi á kjörstað. Getur nokkrum komið til hugar, að slík fyrirgreiðsla eigi sér stað án þess, að það liggi í augum uppi, hverjir það eru, sem mæta á kjörstaðnum, og hverjir ekki?

Svo kemur hv. þm. V-Húnv. (SkG) og segir: Hverjum kemur það við, hverjir mæta á kjörstað eða ekki? Í frv. upphaflega er látið sem það eigi að gera sérstakar ráðstafanir til þess að tryggja það, að komið verði í veg fyrir, að kannað verði eftir á, hverjir hafi kosið og hverjir hafi látið það vera. Það á að gera sérstakar ráðstafanir til þess að fela kjörskrárnar á milli kosninga eða eftir hverjar kosningar, til þess að þetta vitnist ekki. Ég hygg, að samkvæmt hagskýrslum sé upplýst, að í kjördæmi þm. V-Húnv. hafi síðast kosið 742 menn samtals, að hrepparnir í þessu kjördæmi séu samtals 7. Vel má vera, að kjördeildirnar séu mun fleiri, en vist er það, að þessir 742 kjósendur hafa skipzt niður á 7 kjördeildir, þ.e.a.s. liðlega 100 manns á hverja kjördeild. Dettur nú nokkrum manni í hug, að maður eins og Skúli Guðmundsson, frambjóðandi til margra ára í Vestur-Húnavatnssýslu, reikningsglöggur maður, sífellt krotandi tölur og brjótandi um þær sinn stóra heila, muni ekki hafa um það nokkra hugmynd eftir hverjar kosningar, t.d. síðustu, jafnvel þó að það hafi ekki verið skráð af hans umboðsmönnum inni í hverri einustu kjördeild, hvaða Vestur-Húnvetningar létu vera að koma á kjörstað? Svo kemur þessi hv. þm., sem er ímynd kaupfélagakúgunarinnar í landinu og þeirrar sérstöku aðstöðu, sem kaupfélögin hafa, og segir: Ja, hverjum kemur það við, hverjir neyta atkvæðisréttar síns eða ekki? — Ja, hræsnin, hún birtist í mörgum myndum, líka stundum í mannlegum myndum, jafnvel úr Vestur-Húnavatnssýslu.

Nei, sannleikurinn er sá, eins og ég vakti athygli á við 1. umr. þessa frv., að það er vitanlega mikil hætta á vissri kúgun, óleyfilegum áhrifum í ýmsum kjördæmum landsins, hinum litlu kjördæmum, þar sem fjárhagsvald allt er sameinað í höndum lítils hóps manna, þar sem ekki aðeins verzlunin er í höndum þessara manna, heldur jafnvel öll flutningatækin. Þessir menn hafa í sínum höndum reikningshald yfir fjárhag hvers einasta kjósanda í kjördæminu. Þeir hafa með höndum flutningatækin, sem mennirnir þurfa að hafa til þess að komast að og frá kjörstað, og hvernig þessir menn vilja beita því valdi, urðum við þm. áheyrandi á síðasta Alþingi, þegar hæstv. fjmrh. stóð hér í vandræðum með að verja gerðir sínar í sambandi við misnotkun á leyfisveitingum um flutningatæki til Vestur-Skaftfellinga. Þá beitti hæstv. fjmrh. valdi sínu sem ráðh. til þess að hindra mikinn hluta ábúenda þess byggðarlags í því að nota þau flutningatæki, sem þeir sjálfir óska, og síðan hefur verið hafður uppi eltingarleikur við suma þeirra til þess að koma í veg fyrir, að þeir gætu jafnvel neytt þeirra ráða, sem hingað til höfðu verið talin lögleg í þeim efnum. Svo mjög er lagt kapp á það af þessum mönnum að hafa ráð kjósendanna í þessum kjördæmum að öllu leyti í hendi sér. Og þegar hæstv. fjmrh. leyfir sér hér á Alþingi Íslendinga í áheyrn þingheims, svo að segja í áheyrn alþjóðar, að hrópa það fram í ræðu manns eins og 1. þm. Rang., að það borgi sig ekki fyrir hann að halda fram sjálfstæðri skoðun, að það borgi sig ekki fyrir hann að tala á Alþingi, ja, hvernig halda menn þá, að menn, sem eru mótaðir í anda hæstv. fjmrh., tali úti um byggðir landsins við þá, sem eiga þó minna undir sér en 1. þm. Rang., og þegar engir heyra til þeirra, og þar sem slík fjárhagsaðstaða hefur verið sköpuð eins og framsóknarmenn hafa af öllum lífs og sálar kröftum unnið að því að koma á í kjördæmi eins og Vestur-Skaftafellssýslu, þar sem þeir hófu upp fjandskap og níðskrif, þegar bændur bundust samtökum um að mynda verzlunarfélag, sem væri óháð þeim samtökum, sem Framsfl. hefur mest misnotað sér til framdráttar? Svo leyfa þessir menn, eins og hv. þm. V-Húnv., sér að koma og segja: Hverjum kemur það við að fylgjast með því, hvort kjósendur koma á kjörstað eða ekki? — þegar hvert einasta mannsbarn í landinu velt, að maður eins og hv. þm, V-Húnv. gæti ekki, þó að hann vildi, vegna greindar sinnar og sérstakra gáfna, komizt hjá því að hafa það óhagganlega í minni sínu, þó að hann ætlaði ekki á nokkurn hátt að misnota það, hverjir hafa kosið í hans litla kjördæmi og hverjir hafa sérstaklega látið það vera.

Það er einmitt þessi gersamlega fyrirlitning á þeim raunverulegu staðreyndum, að það er hægt að setja hvaða reglur sem er, hversu strangar sem þær líta út á pappírnum, til þess að koma í veg fyrir, að svo líti út, sem framsóknarmennirnir hafi þessa vitneskju í þeim kjördæmum, þar sem þeir beita sínum kosningaaðferðum hatramlegast. Þetta getur litið vel út á pappírnum, en allir vita, að mennirnir komast ekki hjá því, þó að þeir vildu, að hafa þessa vitneskju. En hér í Reykjavík er þetta óhjákvæmilegur þáttur í fyrirgreiðslu á kjördegi, að hafa þá niðurritun, sem átt hefur sér stað, ef hægt á að vera að forðast ófrið og óhæfilegt ónæði á kjördaginn. Hér í Reykjavík er ekki hægt að beita sams konar brögðum og vitað er að framsóknarmenn í skjóli atvinnuvalds síns, fjármálavalds, valds yfir farartækjum, valds yfir ríkissjóðnum nota víðs vegar um landið. Í 40 þúsund manna kjördæmi er tómt mál að viðhafa þvílíkar aðfarir sem hæstv. fjmrh, leyfði sér að bera okkur sjálfstæðismönnum á brýn hér í umr. s.l. laugardag, — þær sömu aðferðir, sem flokksvald Framsfl. byggist á. En það er vegna þess, að þessir menn þola aldrei jafnan leik, það er vegna þess, að þeir þurfa alltaf að hafa rangt við, þeir þurfa alltaf að skapa sér sérstöðu, það er vegna þess, að þeir vita, að þeirra vald í landinu hvílir einungis á því, að þeir njóti forréttinda, það er vegna þess, að þeir feta sig ætíð lengra og lengra upp á forréttindastönginni, sem þetta frv. er fram borið. En eins og ég sagði í dag, mælirinn kann að verða of fullur, og þessir menn njóta nú þegar of mikilla sérréttinda til þess, að það kunni lukku að stýra að setja löggjöf, sem sérstaklega á að níðast á Reykvíkingum. Þess vegna munu þeir, áður en varir finna, að þeir hafa sjaldan stigið meira misstig, en þegar þeir nú, á næstu dögum fyrir jól, knýja sína fylgismenn til þess að samþykkja þetta frv. og neyða jafnvel jafn saklausan mann og hv, 6. landsk. þm. til að koma hér og tala, með leyfi hæstv. forseta, eins og álfur út úr hól, til þess að sýna, að það sé þó ekki einungis Framsfl., sem beitir sér fyrir þessu máli, heldur eigi hann einnig stuðningsmenn því til fylgis, meðal þess flokks, sem hefur friðað kjördaginn svo rösklega, að bannað er nema fyrir einn frambjóðanda að bjóða sig fram, en þar sem líka kosningadagurinn er gerður að sannri hátíð, þar sem kjósendum er smalað með lúðraþyt og söng, til þess að fara á kjörstað og kjósa þann, sem flokksstjórnin hefur útvalið, menn á borð við Beria heitinn, Stalín sáluga og aðra dánumenn þess flokks.

Hv. þm. N-Þ. sagði, að sér félli ekki að öllu leyti eða líkaði ekki, hvernig ég hefði talað í þessu máli. Ég hef aldrei búizt við því, að honum mundi líka það, og ég veit það, að honum hefur sízt af öllu líkað, að ég vakti athygli þingheims á því, að í nál., sem sá greindi og glöggi maður hefur sjálfur skrifað, gægist sektarmeðvitundin alveg ósjálfrátt upp, að þeir þora ekki, þeir góðu menn, að minnast á aðalatriði frv., það, sem langsamlega mestu máli skiptir, það, sem fyrst og fremst skapar misréttið með þessu frv. Það má vel vera, að hv. þm. N-Þ, hafi ekki sjálfur gert sér grein fyrir þessu, fyrr en athygli hans var vakin á því, vegna þess að hann hafi verið að dylja sig þess, hversu honum, þótt framsóknarmaður sé, er málið í raun og veru óljúft. En svo var hv. þm, að tala um það og breiddi sig mikið út yfir, að það væri engin nýjung, að lagafrv. væri breytt, það væri eiginlega gert með hér um bil öll frv. á Alþingi. Ja, vissu fleiri, en þögðu þó. En það var vissulega ekki meiningin að breyta miklu í þessu frv. hér í hv. Nd. Í allshn. vakti ég athygli á því, að 6. gr. frv, væri, hvað sem öðru liði, óframbærileg í því formi, sem hún var, og var það bókað, að þetta þyrfti að leiðrétta, jafnvel þó að menn vildu samþykkja frv. að öðru leyti, sem ég vildi ekki gera. Mínir ágætu meðnm. neituðu þessu alls ekki, en þeir bara kinkuðu kolli og horfðu til himins og sögðu, að það yrði að skaffa lögfræðingum og dómstólum eitthvað að gera. En það var þegar hæstv. fjmrh. áttaði sig á því, að ákvæðin, eins og væru, gætu verið óþægileg fyrir íshúsið, þá var ekki lengi verið að taka upp breytinguna og þá varð að gleyma því að skaffa lögfræðingunum og dómstólunum nægilegt starf, vegna þess að íshúsið og þess hagsmunir, máttu ekki vera fyrir borð bornir. Þarna kemur, eins og ég sagði í ræðu minni fyrr í dag, alveg ótvírætt í ljós, hvað það er í raun og veru, sem vakir fyrir þessum mönnum, þ.e. að setja löggjöf, sem mismuni flokkunum og kjördæmunum, alveg eins og hæstv. fjmrh. sagði í Ed., að stytting kjördagsins bitnaði fyrst og fremst eða eingöngu á Reykvíkingum, og hrópaði upp hér í Nd., að það væri kosningaapparat Sjálfstfl., sem ætti að setja úr skorðum með þessari löggjöf.

Hæstv. fjmrh. er auðvitað svo greindur maður, að hann skilur ósköp vel, hvers eðlis þetta frv. er. Þess vegna gægist það fram hjá honum, þegar hann hefur ekki þeim mun betur hemil á sinni tungu. Þá mælir hún það, sem satt er, þó að það sé auðsjáanlega mjög á móti hans eigin vilja og óskum hans flokksmanna. En hæstv. fjmrh. gat þó beint tungunni að öðru verkefni og lét hana fara að tala um það og leggja á það ríka áherzlu, að vitanlega væri hægt jafnt í Reykjavík eins og annars staðar, að hafa áróður í sambandi við kosningar, hvetja menn til kjörfundarsóknar þrátt fyrir þessi lög, og lét eins og ég hefði verið að kvarta undan því, að þennan möguleika ætti að skerða. Ég sagði, að þennan möguleika ætti ekki að skerða og ef menn teldu ástæðu til þess að draga úr þessu, og það taldi ég vera mjög til athugunar, þá þyrfti allt aðra löggjöf en þá, sem hér er ráðgerð.

Það, sem hæstv. fjmrh. reyndi að sneiða hjá í sinni ræðu, vegna þess að hann skilur ósköp vel, að það er óþægilegast fyrir hans málstað, er það sama og undirvitundin réð væntanlega hjá hv. 1. þm. N-Þ., þegar hann í nál. minntist ekki á bannið við það að láta — (Gripið fram í.) Hvað var hv. þm. að segja? (Gripíð fram í.) Já, það er einmitt það. Það er sjálfsagt að leiðrétta það, sem rangt er með farið, mér er það ætíð ljúft, bæði í þessu tilfelli sem öðru, og vildi, að hv. framsóknarmönnum væri það jafnkærkomið tækifæri, enda mundu þeir þá vafalaust falla frá þessu frv. og biðja alþjóð afsökunar á því, að það er borið fram.

Það er eftirtektarvert, að hv. þm. N-Þ. segir, að það sé því miður, að ekki séu tveir þingmenn fyrir þetta kjördæmi, en eins og ég sagði áðan, munu kjósendurnir vera kringum 1.200, og það sýnir nokkurn veginn réttlætistilfinningu þessa ágæta þingmanns að harma það, að þetta litla kjördæmi skuli ekki fá tvo þm. Ég vil og vona, að kjósendur N-Þ. haldi sínum fulla rétti, og mun aldrei verða með því að skerða þeirra rétt. En meðan ekki verður þar meiri fólksfjölgun en enn er, væri það fullkomið óréttlæti að fjölga þingmönnum þar. En sem sagt, þm. N-Þ, og hæstv. fjmrh, eru báðir sammála um það að leiða umræðurnar frá því, sem er meginatriði málsins, að það er ekki verið að draga úr kosningasmölun, ef menn svo vilja segja, hvatningu til þess að mæta á kjörfundi, heldur verið að hindra, að það megi fylgjast með, hverjir hafa kosið, og sú hindrun kemur einungis til þess að ná til þéttbýlustu staðanna, fyrst og fremst til Rvíkur og síðan í minni mæli til annarra þéttbýlustu kjördæmanna. Með þessu verður skapað raunverulegt ójafnrétti. Með þessu er verið að skapa Framsfl. forréttindi umfram aðra. Það er í samræmi við þeirra stefnu, en það er í óþökk þjóðarinnar í heild, og þess vegna mega þessir þingmenn vita, að þjóðin og mikill meiri hluti hennar mun litla þökk gjalda þeim fyrir þau rangindi, sem hér á að hafa í frammi.