30.10.1957
Sameinað þing: 7. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 332 í D-deild Alþingistíðinda. (2680)

21. mál, vegagerð

Flm. (Sigurður Bjarnason):

Herra forseti. Ég þakka þeim tveimur hv. þm., sem hér hafa talað, fyrir góðar undirtektir undir þá till., sem ég hef leyft mér að flytja hér ásamt hv. 2. þm. Eyf. (MJ) og hv. þm. Ísaf. (KJJ). Mér virtist þó sem nokkurs misskilnings gætti hjá hv. 1. þm. Eyf, í hans ræðu. Hann lýsti mjög eindregnu fylgi sínu við fyrri hluta till., en hann er, með leyfi hæstv. forseta, á þessa leið: „Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að láta gera í samráði við vegamálastjóra samræmda framkvæmdaáætlun um vegagerð.“ Þetta er fyrri hluti till., sem hv. 1. þm, Eyf. lýsir fylgi sínu við. Síðari hlutinn er hins vegar þannig, með leyfi hæstv. forseta: „til þess að koma þeim landshlutum og héruðum sem fyrst í akvegasamband, sem enn þá eru ýmist veglaus eða án sambands við meginakvegakerfi landsins.“ Þessu lýsir hv. 1. þm. Eyf. sig mjög mótfallinn í tillögunni og telur það spilla henni mjög.

Ég verð að segja það, að ég skil ekki þann hugsanagang hjá mínum ágæta vini, hv. 1. þm. Eyf., sem í þessum orðum hans felst. Það er sjálfsagt að gera áætlun, samræmda áætlun, um framkvæmdir í vegagerð í landinu, en það má ómögulega hafa þann tilgang að koma því fólki í vegasamband, sem enn þá er án þess. Það getur vel verið, að aðrir hv. þm. skilji þetta. Ég skil það ekki.

Auðvitað stendur hvergi í þessu niðurlagi till., að það megi ekki bæta aðra vegi, sem búið er að leggja í landinu, fyrir annað fólk, sem þegar hefur fengið vegi. Vitanlega kemur okkur flm. þessarar till. ekki annað til hugar, en vinna beri áfram að því að bæta vegi almennt í landinu. Það, sem fyrst og fremst vakir fyrir okkur með till. okkar, og það skildi hv. 1. þm. N-M. einnig greinilega, er, að það fólk, sem enn þá er veglaust og án akvegasambands, fái á sem skemmstum tíma bætt úr sínum vandræðum. Ég fæ ekki séð þá villu vegar sem í þessari kenningu felst og hv. 1. þm. Eyf. bæði nú við umr. um þetta mál og í hv. Ed. er að vara menn við.

Það undrar mig líka stórlega að heyra þennan reynda og ágæta þm., sem svo lengi hefur átt í baráttu fyrir vegaumbótum í sínu héraði, halda því fram hér, að sumum héruðum á Íslandi henti betur að hafa samgöngur á sjó og að til séu þau héruð í þessu landi, sem helzt eigi eingöngu að hafa samgöngur á sjó, en ekki á landi. Ég vildi bara spyrja hv. 1. þm. Eyf.: Hvað á hann við með svona sleggjudómum og fullyrðingum? Hvaða héruð eru það á Íslandi, önnur en þá eyjar, sem hentar betur að hafa fyrst og fremst samgöngur á sjó, en ekki á landi? Ég veit ekki betur en t.d. okkar héruð, hérað hv. 1. Þm. Eyf. og mitt hérað, Eyjafjarðarsýsla og Norður-Ísafjarðarsýsla, hafi lengstum haft flóabát og allmiklu fé varið af ríkisfé til þess að halda ferðum hans uppi. Höfum við ekki báðir, hann og ég, verið að berjast fyrir því að fá vegi um sem mestan hluta okkar héraðs þrátt fyrir það? Og hafa ekki þarfir fólksins, landbúnaðarins og sjávarútvegsins, kallað jafnhliða á samgöngur á landi? Ég veit ekki betur. Ég veit meira, og hann veit meira um þetta. Hann veit það, að samgangnaleysið á landi hefur staðið í vegi fyrir margvíslegum nauðsynlegum framkvæmdum, ekki sízt í ræktunarmálum. Samgöngur á sjó hafa kannske hrokkið til þess fyrr á árum, þó að þær geri það varla lengur, að flytja afurðir bænda á markað. En þær hafa ekki nægt til þess, að það væri hægt að búa fólkinu þau skilyrði, sem krafizt er almennt í dag, hvort heldur er við atvinnurekstur til lands eða sjávar. Og ef hv. þm. veit það ekki, sem mér virtist einna helzt líta út fyrir, þá get ég sagt honum það, að ég kalla það heilan landshluta, bæði Vestur-Ísafjarðarsýslu og meginhluta Norður-Ísafjarðarsýslu, sem eru gersamlega án sambands við akvegakerfi landsins. Það er ekkert vegasamband við Vestur- Ísafjarðarsýslu og aðeins við hluta af Norður- Ísafjarðarsýslu við megin akvegakerfi landsins. Og þessum sýslum hefur staðið það stórkostlega fyrir þrifum, ekki sízt Norður-Ísafjarðarsýslu, að vegur er ekki kominn nema að nokkru leyti um sveitahreppa sýslunnar. Ég veit, að fyrrverandi búnaðarmálastjóri, hv. 1. þm. N-M., sem þekkir búnaðarframkvæmdir á hverjum einasta bæ og hefur skrifað um það greinargóðar yfirlitsgreinar í sitt blað, þekkir þetta. Og það kemur fram í stærð túnanna í þessum byggðarlögum, sem þannig er ástatt um, að það hefur ekki verið fært einu sinni með vélar um suma þessara hreppa.

Nei, það þýðir ekkert að halda því fram í dag, að samgöngur á sjó nægi einstökum byggðarlögum, nema þá fyrir eyjar, sem ekki er hægt að leggja til vegi eða brýr. Það dugir fyrir Grímsey, af því að það er ekki hægt annað.

Ég vildi skjóta því til hv. 1. þm. Eyf., að hann tali við fólk í Norður-Múlasýslu og Suður-Múlasýslu, í Skaftafellssýslu, í Norður-Ísafjarðarsýslu, í Vestur-Ísafjarðarsýslu og spyrji um, hvort það megi ekki bjóða því samgöngur á sjó og bara hætta við vegagerðir. Það er hægt að slá svona firrum fram hér á hv. Alþingi, að vísu ekki án þess að þeim sé mótmælt, en það er ekki hægt að segja þetta við fólkið sjálft. Það veit betur.

Jú, hv. 1. þm. Eyf. átti eitt úrræði, sem tíðkaðist hér fyrr á árum, ef fólkið vantaði vegi. Það var að grípa til þegnskylduvinnu. Fólkið í sveitunum tók sig til, ef það fékk ekki fé úr ríkissjóði, og lagði veginn sjálft án þess að fá nokkurt fé fyrir það. Mér finnst þetta sýna mikinn dugnað og framtak hjá því fólki, sem þetta hefur gert. En ég spyr nú minn ágæta vin, hv. 1. þm. Eyf.: Hvaða fólki á Íslandi ætlar hann í dag að bjóða þetta, ef það vantar veg, að taka sér þá skóflu og haka í hönd og hefja vegagerðina sjálft í þegnskylduvinnu? Ég segi aftur: Það er hægt að segja þetta hér innan þessara veggja, að vísu ekki án þess að því sé mótmælt, en það er ekki hægt að segja þetta við fólkið, sem býr við vegleysið og fólksfæðina og vandræðin, sem leiðir af strjálbýlinu og samgangnaleysinu úti í sveitunum.

Ég hef ekkert á móti því, að þessari till. verði breytt og inn í hana tekin fleiri atriði, m.a. ýmislegt það, sem bent er á í brtt. hv. 1. þm, N-M, Það situr sízt á mér og okkur flm. þessarar till. að vera á móti því, að fyllstu upplýsinga sé aflað um þau mál, sem hér er um að ræða. En ég vildi beina því til hv. n., að hún haldi þó þessari till. innan hóflegra takmarka, þannig að hún verði framkvæmanleg. Aðalatriðið í þessu máli er auðvitað ekki að safna skýrslum, heldur að marka ákveðna og skynsamlega stefnu í þessum málum og þá stefnu, sem ég vænti að allir hv. þm., a.m.k. úr sveitakjördæmum, séu sammála um, að stefna beri að því, að þau héruð, sem enn eru veglaus, fái vegi sem fyrst og sérstakar ráðstafanir verði gerðar til þess, að þau fái vegi sem fyrst. Það er tilgangur þessarar till., og ég treysti því einnig, þó að mér þætti gæta nokkurs misskilnings hjá hv. 1. þm, Eyf. í þessu máli, að góð samvinna geti tekizt milli allra þeirra hv. þm., sem þekkja aðstæðurnar í þessum efnum og vilja vel.