30.10.1957
Sameinað þing: 7. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 334 í D-deild Alþingistíðinda. (2681)

21. mál, vegagerð

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Mér fannst hv. þm. N-Ísf. tala töluvert út í hött, þegar hann var að svara mér, því að ég hafði alls ekki haldið því fram, sem hann taldi að ég hefði gert. Það, sem ég var að segja og halda fram í minni fyrri ræðu, var það, að mér þótti till. of einhliða. Tillagan er svona:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að láta gera í samráði við vegamálastjóra samræmda framkvæmdaáætlun um vegagerð til þess að koma þeim landshlutum og héruðum sem fyrst í akvegasamband, sem enn eru ýmist veglaus eða án sambands við meginakvegakerfi landsins.“

M.ö.o. tillagan er eingöngu til þess að koma þessum héruðum í akvegasamband. Það stendur beint í henni. En ég vildi benda á það með því, sem ég sagði, að það væri fleira, sem þyrfti að athuga í vegamálunum, og það þyrfti einmitt að gera heildaráætlun um þær framkvæmdir, sem ríkið ætlar sér að gera í þeim efnum, þó að það miðaði ekki eingöngu að því að koma veglausum héruðum í akvegasamband, og nefndi sérstaklega í því sambandi, að það væri ekki siður ástæða til þess að gera ráðstafanir til, að akvegir héldust færir, þar sem búið er að leggja þá, heldur en að leggja nýja vegi, sem dygðu kannske nokkur ár og yrðu svo ófærir líka. Ég held, að þetta í raun og veru nægi. Ég hygg, að flestir hafi skilið, hvað ég átti við með því, sem ég sagði.

Ég sný ekki aftur með það, sem ég sagði, að ég held, að það sé ekki hægt að segja, að nokkur landshluti sé akvegalaus eða ekki í sambandi við akvegakerfi landsins. Eftir málvenju er landshluti nokkuð stórt svæði, og að því er Vestfirði snertir, þá hélt ég, að það væri ekki hægt að kalla einhverja einstaka sveit á Vestfjörðum landshluta, heldur Vestfirði alla, og það er vegasamband til Vestfjarða. Og langt er frá því, að ég sé á móti því, að lagður sé vegur, sem kemur þeim landshluta í vegasamband við vegakerfi landsins að því leyti, sem á skortir enn. En áður en tekið er í þjóðvegatölu, — ja, við skulum segja aðeins allir þeir vegir, sem stungið er upp á nú í þinginu að taka í þjóðvegatölu, bæði af mér og öðrum, þá ber að rannsaka þetta mál og gera heildaráætlun um þetta, því að með því áframhaldi, sem verið hefur, er fyrst og fremst ekki til neins að vera að halda nokkurri skiptingu vega, því að endirinn verður auðvitað sá innan fárra ára, að hver vegarspotti er kominn í þjóðvegatölu. (Gripið fram í: Er nokkuð við það að athuga?) Er nokkuð við það að athuga? Ja, mér finnst nú í sjálfu sér, ef á annað borð á að vera nokkur skipting, að þá ættu það nú að vera helzt þeir vegir, sem almenna þýðingu hafa, sem teknir eru í þjóðvegatölu. En það er kannske ekkert við það að athuga að hætta þessari skiptingu, en bara með suma vegi að áskilja samvinnu um lagningu þeirra, að allir vegir verði þjóðvegir og svo leggi hreppar til í lagningu sumra veganna og sýslur í aðra o.s.frv., en ríkið hafi algerlega með aðra að gera. En ég held, að það geti ekki komið til mála, að ríkið sé fært um að leggja vegi á sinn kostnað um allar byggðir þessa lands og halda þeim vel við líka, því að eins og við vitum, er nú þegar orðið miklu meira fé veitt til viðhalds vega, en til nýlagninga og hrekkur hvergi nærri til. Það er mesta ólag á mörgum vegum þrátt fyrir þessar mörgu milljónir, sem lagðar eru til viðhalds vega.

Úr því að hv. þm. N-Ísf. (SB) lagði þennan skilning í það, sem ég sagði áðan, þá endurtek ég það, að mín athugasemd gilti um það, að ég vil láta taka fleira til athugunar en aðeins það, sem virtist vera tilgangurinn með þessari þáltill.