17.12.1957
Neðri deild: 42. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 199 í B-deild Alþingistíðinda. (269)

73. mál, kosningar til Alþingis

Frsm. meiri hl. (Gísli Guðmundsson):

Herra forseti. Hv. þm. A-Húnv. (JPálm) hefur flutt brtt. við þetta frv. Ég geri ekki ráð fyrir, að ég muni greiða henni atkvæði, enda held ég, að hún fái ekki staðizt sem brtt. við þetta frv. eða lögin, eins og hún er, og skal ég ekki fjölyrða um það.

Hv. 5. þm. Reykv. (JóhH) mælti hér nokkur orð fyrir skömmu, og skal ég heldur ekki fjölyrða um það, sem hann sagði. Ég vil þó vekja athygli á því, að hann lét orð falla um það í þessari ræðu, að það mætti til sanns vegar færa, að þetta frv. væri ekki neitt stórmál. Ég held, að ég hafi það rétt eftir honum, og má segja, að þeir séu nokkuð farnir að draga í land, sjálfstæðismennirnir, frá því, sem upphaflega var. En þetta mun nú nærri lagi, sem hv. þm. nú sagði.

Þá upplýsti hv, 5. þm. Reykv., að eftir því sem honum væri bezt kunnugt, væru þeir kjósendur ekki sérlega margir í Reykjavík, sem kosið hefðu eftir miðnætti, og styður það þá enn það mál, að með 3. gr. frv, séu ekki sérlega mikið takmarkaðir möguleikarnir til að kjósa og þá því minni ástæða til þeirra ræðuhalda, sem út af því atriði hafa átt sér stað, og blaðaskrifa.

Þá minntist hv, þm. nokkuð á orðin „næsta nágrenni“, sem standa í gildandi lögum og eru tekin upp í brtt. hæstv. fjmrh., og var að velta því fyrir sér enn, hvernig þessi orð mundu verða skilin. Ég vil aðeins endurtaka það, sem ég áður sagði, að ég geri ráð fyrir, að þau verði skilin á sama hátt og þau hafa verið skilin í núgildandi lögum.

Í sambandi við þessa breytingu held ég, að ég verði að minnast á það, sem hv. 1. þm. Reykv. (BBen) sagði í dag, að þessi till. mundi vera fram komin vegna þess, að upplýst hefði verið í nál. minni hl., sem hann stendur að, að það orðalag, sem í frv, er, mundi taka til ákveðins húss hér í Reykjavík á vegum Framsfl. Ég held, að hv. þm. gerist nú nokkuð gleyminn, þar sem hann virðist vera farinn að gleyma sínum eigin ræðum. En við 2. umr. þessa máls, eða a.m.k. við fyrri umr. þessa máls, einmitt gerði hv. þm. sjálfur þetta að umræðuefni, sem síðar kom fram í nál. varðandi þetta hús, þannig að það var ekki um neina opinberun að ræða, þegar nál. minni hl. kom fyrir sjónir manna hér í dag,

Annars virtist mér, þegar hv. 1. þm. Reykv. flutti sína ræðu áðan, að honum væri nokkuð runnið í skap, og hafði hann þar ýmis ummæli, sem bentu til þess. Veit ég þó ekki til, að við nm. í meiri hl., hv. 6. landsk. (GJóh) eða ég, höfum gefið neitt tilefni til þess, að skapsmunir hans þyrftu að komast í neina ókyrrð.

Ég mun ekki svara þeim svigurmælum, sem hann hafði um Framsfl. og ýmsa menn, sem þar koma við kosningar, eða þeim öðrum svigurmælum, sem flokksmenn hans hafa haft í þessum umr. um það efni. Hv. þm. stæði ef til vill nær að lýsa öðrum hlutum, en framgöngu framsóknarmanna í kosningum. En ýmislegt hefur verið sagt á undanförnum árum um framgöngu hv. sjálfstæðismanna í kosningum, bæði hér í Reykjavík og annars staðar, sem okkur er báðum kunnugt og öðrum.

Hv. 1. þm. Reykv. var nú að tala um það, að ekki væri langt gengið í þessu frv. í því að draga úr kosningaáróðri, og get ég fallizt á það. Mætti ef til vill ganga lengra, en það hefur ekki verið gert í þessu frv. og ekki komið fram um það tillögur.

Það er eitt atriði í þessu máli, sem þeir hv. sjálfstæðismenn virðast eiga mjög erfitt með að skilja. Þeir eru að ræða um það í hvert sinn, sem þeir taka til máls, að ákvæði þessa frv., þau sem torvelda flokkum nokkuð að fylgjast með því, hverjir kosið hafa, og ákvæðið um, hvenær kjörfundi skuli slíta, sennilega líka komi misjafnt niður og Sjálfstfl. í óhag, vegna þess að það séu svo misjafnlega margir kjósendur í kjördæmum, hvort sem um er að ræða alþingiskosningar eða bæjarstjórnarkosningar. Þeir segja: Það er ekki sambærilegt að fylgjast með kosningu í 1.000 manna kjördæmi og í 40 þús. manna kjördæmi. Þetta er svo mikið verk, að fylgjast með öllum þessum 40 þúsund kjósendum, og það er alveg sérstaklega mikið verk fyrir Sjálfstfl., þar sem tiltölulega margir af þessum 40 þús. kjósendum í Reykjavík fylgja honum að málum. — Eitthvað á þessa leið er þeirra röksemdafærsla.

Nú kann það að vísu rétt að vera, að þarna sé um misjafnlega stór verk að ræða. En það, hve auðvelt er að vinna verk, fer auðvitað ekki eingöngu eftir því, hve verkið er stórt, heldur líka eftir því, hve margir eru til að vinna það. Og ætli það sé þá ekki á þá leið, að eftir því sem kjósendurnir eru fleiri og eftir því sem flokkurinn er stærri, sem um er að ræða, séu fleiri menn til að hafa með höndum þessa eftirlitsstarfsemi með kjörsókn, sem þessir hv. þm. telja svo nauðsynlega?

Mér er tjáð það og hefur reyndar verið sagt það af sjálfstæðismönnum, að hér í Reykjavík væri það fyrirkomulag hjá flokknum, að hann hefði í þjónustu sinni fjölda af starfsmönnum, — ég veit ekki, hvort það eru launaðir starfsmenn, það eru kannske að miklu leyti sjálfboðaliðar, það skiptir ekki máli, en hann hefði í sinni þjónustu mikinn fjölda af slíkum mönnum til þess að fylgjast með kosningunum og bænum væri skipt niður í mörg lítil hverfi, þannig að í hverju hverfi væru ekki nema fá hús. Og ef hver útsendari frá Sjálfstfl. eða hvaða flokki sem er á að sjá um örfá hús og líta eftir því, að kjósendur þar kjósi, þeir sem flokkurinn vill láta kjósa, þá sé ég ekki, að það sé neitt erfiðara verk fyrir þann eftirlitsmann að sækja kjósendur, heldur en það kynni að vera fyrir mann, sem ætlað er að líta eftir kjörsókn í fámennri sveit. Ég sé ekki, að þar sé neinn munur á. Þetta held ég að hv. 1. þm. Reykv. hljóti að skilja, ef hann íhugar málið, þá hljóti hann að átta sig á því, að hann hefur ekki hugsað þarna alveg rétt, þótt skýr sé. En um þetta eru hv, sjálfstæðismenn búnir að ræða langt mál og hafa gert sér þar mikla fyrirhöfn og öðrum, sem hafa orðið að hlusta á það, að óþörfu.

Ég held, að það sé ekki fleira, sem ég sé ástæðu til að taka fram.

Ég endurtek það, sem ég hef áður sagt og einnig kom glögglega fram í prýðilegri ræðu, sem hv. 6. landsk. þm. (GJóh) flutti hér áðan, að ákvæði þessa frv. ná vitanlega jafnt til allra kjósenda og allra flokka án tillits til þess, hverjir þar eiga í hlut, og mér er það næstum óskiljanlegt, hvernig á því stendur, að sjálfstæðismenn skuli hafa gert sér svo mikla fyrirhöfn við að mæla gegn þessum ákvæðum, nema þá það sé svo, að það, sem kalla mætti óeðlilegan áróður, — ég segi ekki ólöglegan, heldur óeðlilegan áróður, — að sú starfsemi hefði undanfarið verið meira stunduð af Sjálfstfl. en öðrum flokkum og að hann sjái þess vegna, að hann muni einhvers í missa af þeim ástæðum. En það get ég nú ekki verið að harma, því þó að ég óski þess á engan hátt, að hlutur Sjálfstfl. verði gerður minni, en hann með eðlilegum hætti á að vera, þá finnst mér ekki ástæða til þess, að hann hafi einhverja sérstöðu til þess að halda uppi óeðlilegum kosningaáróðri, sérstöðu vegna ýmissa hluta, sem hann kann að hafa umfram aðra flokka. — Ég skal svo ekki hafa um þetta fleiri orð.