17.12.1957
Neðri deild: 42. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 201 í B-deild Alþingistíðinda. (270)

73. mál, kosningar til Alþingis

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Það er dálitið broslegt, þegar þingmenn eru hér að tala um, að það þurfi að koma í veg fyrir óeðlilegan áróður Sjálfstfl. á kjördegi með frv. eins og þessu, Og þessi óeðlilegi áróður á vist m.a. að felast í því, að menn mega ekki hafa auglýsingaspjöld, mega ekki hafa merki og annað slíkt, og svo loksins í því að taka ekki upp nöfn þeirra eða fylgjast með þeim, sem hafa kosið.

Ég man nú svo langt, að það mun áreiðanlega hafa verið Alþfl. hér í Rvík, sem átti frumkvæðið að þessu merkjakerfi og auglýsingum, sem nú þykir vera nauðsynlegt að nema úr lögum, og þegar svo kommúnistaflokknum óx fiskur um hrygg, fór hann fram úr þessu eins og svo mörgu öðru hjá Alþfl. Hann hefur aldrei látið standa á sér með yfirboð við þann flokk. Og ef menn skyggnast svolítið aftur í tímann, þá held ég, að ef t.d. sjálfstæðismenn hefðu á árunum 1942, þann tíma, sem þeir fóru einir með stjórn í landinu, sett löggjöf eins og þessa, blandist mönnum ekki hugur um það, sem nokkuð þekkja til, að slíkt hefði verið talin mesta firra og nálgast mest og líkjast mest nazisma eða fasisma eða einhverju slíku, — það þykist ég alveg viss um af þeim kynnum, sem ég hef einmitt haft við þessa tvo flokka hér í Rvík um þetta atriði.

Ef það á nú að vera orðið nauðsynlegt að breyta löggjöfinni vegna þess, að sjálfstæðismenn hafi farið fram úr öðrum flokkum í þessum þætti kosningastarfseminnar, þá er það atriði út af fyrir sig. Við höfum aldrei litið á það sem mikilvægt, og í þessum umræðum höfum við heldur alls ekki gert það að aðalatriði, heldur það, hvernig frv. er til komið og hvernig frv. frá upphafi vega er byggt á því að mismuna borgurunum í þjóðfélaginu, einmitt eftir því, hvar þeir eru búsettir og hvernig aðstaðan er.

Það var alveg tilgangslaust hjá hv. þm. N-Þ. að vera með nokkrar bollaleggingar um það, að þó að kjördæmin séu stór, sé ekkert meira verk að láta í té fyrirgreiðslu við kjósendurna, því að þá séu fleiri menn til aðstoðar. Það er ekki aðeins stærðin, sem margsinnis hefur komið fram í okkar umr., sem máli skiptir um fyrirgreiðslu við kjósendurna, heldur ekki síður hitt, sú aðstaða, sem Framsfl. hefur fyrr og síðar skapað sér í kjördæmum landsins með því fjárkúgunarvaldi, sem þessi flokkur hefur tileinkað sér í gegnum kaupfélagsskapinn í hinum einstöku kjördæmum landsins. Það er atriði út af fyrir sig, sem er ekki minna atriði, en í sjálfu sér hvað eru margir kjósendur í hinum einstöku kjördæmum, og hefur þetta verið margtekið fram af okkar hálfu, fulltrúa eða þingmanna Sjálfstfl., og ekki lögð á það minni áherzla en hitt, enda leiðir það af sjálfu sér, að þar sem samgöngutækin og flutningakerfið eru að verulegu leyti í höndum tiltekinna aðila, sem eru undir sterku pólitísku áhrifavaldi, þá sjá menn það, sem þekkja til í sveitum landsins, hvaða þýðingu það getur haft. En það er sem sagt, herra forseti, látið í veðri vaka af hv, stuðningsflokkum eða stuðningsmönnum núv. hæstv. ríkisstj.; að þeir meini nú allt gott með þessu frv., og skal ég ekki fara lengra út í þá sálma.

En ég vék að einu atriði í fyrri ræðu minni um það, hversu óeðlilegt væri, að kjördagur væri í skammdeginu og á miðjum vetri í kaupstöðum og þéttbýlinu, og að mínum dómi væri langeðlilegast að færa þetta yfir á aðra tíma árs, þegar kjósandinn hefði undir öllum venjulegum kringumstæðum nokkrar líkur fyrir því, að hann væri ekki hindraður í að nota þennan mikilsverða rétt sinn bara vegna veðurfars í landi okkar.

Hv. þm. A-Húnv. hefur gert tilraun til þess að bæta hér nokkuð úr með þeirri tillögu, sem hann flytur á þskj. 182, þar sem hann gerir ráð fyrir því að bæta inn í kosningalöggjöfina, að þegar kosningar fara fram að vetri til, skuli kjördagar vera tveir. Hv. þm. N-Þ. lét uppi, að hann mundi ekki fylgja þessari till., taldi hana ekki geta staðizt. Ekki sýndi hann fram á í einu eða neinu, að hvaða leyti hún gæti ekki staðizt. Ég fæ ekki séð annað en till. sé algerlega með formlega réttum hætti fram borin og fái að því leyti alveg fullkomlega staðizt, og mennirnir, sem hafa svo mikinn áhuga fyrir kjósendunum og vilja allt fyrir kjósendurna gera á kjördegi, — því skyldu þeir ekki vilja forða kjósendunum frá því, ýmist að glata þessum mikilvæga kosningarrétti af óviðráðanlegum ástæðum eða kannske að stofna sjálfum sér og skyldmennum sínum í stórkostlega hættu, beina lífshættu, eins og oft hefur þurft að ske hér á landi voru, þegar kosningar eru látnar fara fram á þessum tíma árs? Og ég tel það bara ábyrgðarleysi, ef þingmenn vilja ekki fallast á að viðurkenna það annað hvort, að kjördagur almennt fari fram á öðrum tíma, til þess að menn þurfi ekki að tefla á tæpasta vað í þessum efnum, hvorki um það að missa kosningarréttinn né jafnvel að tefla heilsu og lífi sjálfra sín í hættu.

Þar sem það liggur nú fyrir frá hv. frsm. allshn., að hann telji sig ekki geta fylgt þessari till., mundi ég vilja leyfa mér að freista þess að flytja við hana varatill. og verð að óska eftir því við hæstv. forseta, að hún megi fram koma bæði skriflega og einnig á síðustu stundu. En till. er á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta, að aftan við till. hv. þm. A-Húnv. á þskj. 182 bætist sem varatillaga eftirfarandi:

„Ef yfirkjörstjórn í kaupstöðum telur, að óveður hafi verulega hindrað kjörsókn, getur hún, áður en kjörfundi er slitið, ákveðið, að kjördagar skuli vera tveir. Sama rétt hafa undirkjörstjórnir í einstökum kjördeildum utan kaupstaða til að ákveða, að kjördagar skuli vera tveir.“

Munurinn, sem í þessum till. felst, er sá, að hv, þm. Á-Húnv. leggur til, að kjördagar skuli vera tveir, en mín till. gengur að því leyti skemmra, að hún gerir aðeins ráð fyrir því, að yfirkjörstjórnir og kjörstjórnir hafi heimild til þess að ákveða tvo kjördaga, áður en kjörfundi er slitið, þegar sýnt þykir, að óveður hafi verulega haft áhrif á kjörsóknina eða verulega hindrað kjörsókn í einhverri kjördeild eða kjördæmi. Þetta gæti leitt til þess í fyrra tilfellinu, ef till. hv. þm. Á-Húnv. yrði samþykkt, að kjördagarnir yrðu skilyrðislaust tveir og alls staðar, en í síðara tilfellinu gæti svo farið, að sums staðar á landinu, þar sem engin hindrun af veðurfarsástæðum hefur átt sér stað, er kjörfundi lokið eins og lögin gera ráð fyrir væntanlega eftir þá breytingu, sem lagi er til og meiri hlutinn hér á þingi mun fylgja, en hins vegar gætu þá áfram haldið kosningar annars staðar á landinu í einstökum kjördeildum og einstökum kjördæmum, þar sem óveður hefur hindrað kjörsóknina að dómi yfirkjörstjórnarinnar, og mundi þá um tíma og framkvæmd þessa annars kjördags fara eins og ella segir um hinn fyrri kjördag. Við höfum í kosningalögunum í dag ákvæði um það, ef kosningum er frestað. Í 134. gr. eru bein ákvæði um það, að nú ferst kosning fyrir í einhverri kjördeild á hinum ákveðna degi, sökum óveðurs eða af öðrum óviðráðanlegum orsökum, og kveður þá undirkjörstjórn innan viku til kjörfundar að nýju. Þetta ákvæði tekur til þess, ef beinlínis kjörfundurinn hefur hindrazt af óviðráðanlegum ástæðum sökum óveðurs og kosningin farizt fyrir.

Að mínum dómi er hér engan veginn nægjanlega langt gengið til að tryggja rétt kjósandans, því að vel getur svo farið, að kosning hafi verið hafin, kjörfundur settur, en síðan er orðið það óveður, að kosningin getur ekki haldið áfram, Þá er ekki hægt að hafa annan kjördag eða gera aðra tilraun með kjörfund eftir 134. gr., því að kosningin hefur þá ekki, eins og sú grein er orðuð, farizt fyrir, heldur hefur hún verið stofnuð, kjörfundurinn hefur verið byrjaður, en síðan hindrast hann af óviðráðanlegum ástæðum.

Ég skal ekki hafa um þetta fleiri orð. Ég endurtek það, sem ég hef áður sagt, að ef til vill væri æskilegra að hafa annan hátt á þessu og hafa kjördagana á heppilegri tíma árs, en a.m.k. er hægt að skapa borgaranum öryggi og tryggja rétt hans með því að samþykkja þá till., sem hér er fram borin, og reyndar einnig till. hv, þm. A-Húnv. Og eftir allar þær miklu umræður, sem um þetta mál hafa farið fram, og þann vilja, sem fram hefur komið í máli stjórnarsinna um það að friða kjördaginn og auka rétt borgaranna og kjósendanna, þá vildi ég mega vænta þess, að við skildum þó aldrei svo við þetta mál, að slík till. sem þessi næði ekki fram að ganga.