20.11.1957
Sameinað þing: 14. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 344 í D-deild Alþingistíðinda. (2708)

34. mál, bygging kennaraskólans

Flm. (Sigurður Bjarnason):

Herra forseti. Það er alkunna, að Kennaraskóli Íslands hefur um langt skeið búið við verri aðstæður um húsnæði, en flestar aðrar menntastofnanir landsins. Háir þetta mjög verulega starfsemi þessarar þýðingarmiklu stofnunar. Það sætti því engri furðu, þegar barátta var tekin upp fyrir nokkrum árum fyrir bættum húsakynnum skólans. Bar hún þann árangur, að allmikið fjármagn var veitt til nýrrar kennaraskólabyggingar, samtals á árunum 1953–57 3.1 millj. kr. Á árinu 1956 gaf þáverandi menntmrh. byggingarnefnd stofnunarinnar fyrirskipun um að hefja byggingarframkvæmdir. Reykjavíkurbær hafði úthlutað stofnuninni hentugri lóð, og samkvæmt fyrirskipun ráðherra var hafizt handa um að grafa grunn nýs kennaraskóla. Á árinu 1956 var veitt fjárfestingarleyfi fyrir rúml. 1 millj. kr. framkvæmdum við hina nýju byggingu, og á yfirstandandi ári mun liggja einnig fyrir fjárfestingarleyfi fyrir rúml. einnar millj. kr. framkvæmdum við skólann.

Raunin hefur hins vegar orðið sú, að á þessu ári hafa byggingarframkvæmdir við hinn nýja kennaraskóla legið gersamlega niðri, og af fjárfestingarleyfi ársins 1956 voru aðeins notaðar um 200 þús. kr.

Till. sú, sem hér liggur fyrir um byggingu kennaraskóla, felur í sér fyrirmæli til ríkisstj. um að halda áfram byggingu hins nýja kennaraskólahúss, sem undirbúin hefur verið undanfarin ár. Ég þarf ekki að flytja mörg rök fyrir nauðsyn þess, að þessari framkvæmd verði haldið áfram. Það er vitað, eins og ég sagði í upphafi, að kennaraskólinn býr við gersamlega ófullnægjandi aðstæður í húsnæðismálum sínum og að það bitnar á ýmsa lund á hinu fjölþætta fræðslustarfi, sem unnið er í landinu, að höfuðmenntastofnun kennarastéttarinnár býr við slíkar aðstæður.

Ég vil vænta þess, að þar sem það hvort tveggja er fyrir hendi, að allmikið fé, um 3 millj. kr., er til í byggingarsjóði kennaraskólans og að fjárfestingarleyfi fyrir um 2 millj. kr. framkvæmdum einnig er fyrir hendi, þá beiti hæstv. núv. menntmrh. sér fyrir því, að þessum byggingarframkvæmdum verði haldið áfram, og sýni þar með skilning sinn á nauðsyn þessarar framkvæmdar.

Þessi þáltill. er sem sagt flutt til þess að ýta við hæstv. ríkisstj. og láta það koma fram, hvaða möguleikar eru fyrir hendi til þess að leysa byggingarvandamál kennaraskólans. En eins og ég sagði, þá eru þar um 3 millj. kr. óeyddar og byggingarleyfi frá fjárfestingaryfirvöldum.

Ég vil að lokum leyfa mér að láta í ljós þá von, að hæstv. menntmrh., sem þetta mál heyrir undir, taki þessari till. vel og bregðist myndarlega við um framhald á byggingarframkvæmdum kennaraskólans,

Ég leyfi mér svo að óska þess, að umr. verði frestað og till. vísað til fjvn.