20.11.1957
Sameinað þing: 14. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 359 í D-deild Alþingistíðinda. (2715)

34. mál, bygging kennaraskólans

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. Hæstv. menntmrh. er auðsjáanlega mjög annt um að gera sinn hlut sem allra verstan í þessu máli. Ég vildi finna það honum til afsökunar, að málið hefði dregizt í hans höndum vegna þess, að hann ætlaði að taka upp annan hátt um bygginguna, en áður hafði verið ráðgerður. Nú segir hann, að það hafi aldrei staðið til, að slíkt kæmi til greina. Ég verð þó mjög að efa, að það sé hægt eða það hefði verið mikið ráðslag í því að leggja stórfé í byggingu húss, sem enn var verið að teikna. Það kann að vera, að hæstv. menntmrh. telji það hyggileg vinnubrögð, en ég tel, að það hefði verið mjög óráðlegt að halda áfram, meðan svo stóð. En hæstv. ráðh. segir, að hann hafi ekki viljað láta bygginguna dragast af þessum sökum. Ja, þá verður enn að spyrja: Af hverju hefur hún dregizt allan þennan tíma? Af hverju er ekki lengra komið eftir 16 mánaða valdatíma svo athafnasams afburðamanns sem hæstv. ráðh. er en að einn hans helzti stuðningsmaður leggur til, að það verði farið að byrja á byggingunni, að vísu fyrir austan, norðan eða vestan, en alls ekki í Reykjavík? Hvað kemur til, hver er skýringin? Hæstv. menntmrh. á alveg þessari meginspurningu ósvarað. Hann er að reyna að færa að okkur um, að við höfum dregið málið, við, sem höfum gert allt í málinu, sem enn þá hefur verið gert, en hann sjálfur hefur látið það líðast, að eftir að við höfðum mælt fyrir um, að byggingin skyldi hafin, skuli ekki meira í því hafa verið gert ,en hann nú neyðist smám saman til að upplýsa. Það skaut því að mér einn þm, áðan, að eftir lýsingum hæstv. menntmrh, væri svo að skilja sem á síðasta ári mundi sennilega ekki hafa verið grafið fyrir öðru, en grunni undir efstu hæðina. Þannig virðist þessu byggingarmáli hafa verið hagað hjá hæstv. ráðh., það hefur allt staðið á öfugum enda. Hann hefur sannarlega ekki ástæðu til þess að láta mikið yfir sinni frammistöðu í málinu og enn þá minni ástæðu til þess að ávíta þá fyrir framgöngu í málinu, sem þó hafa gert það, sem gert hefur verið í því hingað til, eða stuðlað að því. Og eftirtektarvert er það, að hæstv. menntmrh. gaf ekkert yfirlit um það í sinni grg. áðan, hvernig gengið hefði um öflun fjárveitinga til þessarar byggingar, og er það þó ekki óverulegt atriði varðandi það, á hvaða tíma skynsamlegt og hæfilegt hefði verið að byrja bygginguna.