20.11.1957
Sameinað þing: 14. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 360 í D-deild Alþingistíðinda. (2717)

34. mál, bygging kennaraskólans

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti, Í fyrstu ræðu hæstv. menntmrh. minntist hann lítillega á lóðamál kennaraskólans, sagði, að sótt hefði verið um lóð á árinu 1951. Það hefði verið gefið fyrirheit, eins og hann orðaði það, á árinu 1952, en bæjarstjórn Reykjavíkur ekki úthlutað lóð undir kennaraskóla fyrr en árið 1956, eða fimm árum eftir að sótt var um hana.

Þessar upplýsingar eru rangar, og vildi ég skýra hv. alþm., hvernig þessi mál hafa gengið fyrir sig. Ég skal ekki rekja eldri sögu þessa máls, en það var strax á árunum 1944 og 1945 rætt um byggingu nýs kennaraskóla, og skólastjóri kennaraskólans fór þá fram á við bæjarstjórn Reykjavíkur, að hún léti lóð undir kennaraskólann. Þá var strax á árinu 1945 ákveðið, að nýr kennaraskóli skyldi byggður í Skólavörðuholti. Úr þeim framkvæmdum varð ekkert. Síðan er málið tekið upp að nýju árið 1951, og þá ákveður bæjarráð að óska tillagna skipulagsnefndar um nýja staðsetningu á kennaraskóla. Það er svo rætt um tvo staði, annar er við Stakkahlíð, þar sem endanlega hefur nú verið ákveðin staðsetning kennaraskólans, en hin nokkuð sunnan Miklubrautar, eða á þeim stað, þar sem menntaskólinn verður reistur og hafin er bygging hans.

Í marzmánuði 1952 eftir umr. við byggingarnefnd skólans og skólastjóra um það, hvor staðurinn þætti betur henta, og umræður um mörg önnur atriði í sambandi við þetta, m.a. tengingu æfinga- eða barnaskóla við kennaraskólann, er ákveðið í bæjarstjórn að gefa kost á annarri hvorri þessara lóða, annaðhvort norðan Miklubrautar við Stakkahlíð, nálægt Vatnsgeymi, eða sunnan Miklubrautar, og rétt eftir mánaðamót, eða 3. apríl 1952, ákveður þáver. menntmrh. að velja fyrir kennaraskóla nyrðri lóðina. Þetta er sem sagt endanlega ákveðið, að kennaraskólinn verði byggður á þeirri lóð og þeirri lóð úthlutað af bæjarstjórninni strax í marz–apríl 1952. Það, sem gerðist svo 1956 og hæstv. ráðh. hefur misskilið, er það, að þá er ákveðin eftir ósk húsameistara ríkisins nánari niðurröðun húsa á þessari lóð, sem fjórum árum áður hafði verið úthlutað. En eins og kunnugt er, á að vera á þessu svæði bygging fyrir kennaraskóla, enn fremur fyrir barnaskóla, sem jafnframt er æfingaskóli kennaraskólans, og jafnframt eiga fleiri byggingar að vera á þessu svæði. Og það, sem þá gerist, er sem sagt þetta, að nánari niðurröðun og staðsetning húsanna á þessu svæði er ákveðin.

Ég tel rétt, að þessar upplýsingar komi fram til þess að fyrirbyggja misskilning, að það er strax fyrri hluta ársins 1952, sem bæjarstjórnin úthlutar lóð undir kennaraskólann, þeirri sem bygging er hafin á.