20.11.1957
Sameinað þing: 14. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 362 í D-deild Alþingistíðinda. (2719)

34. mál, bygging kennaraskólans

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Það var ekki ætlun mín að taka þátt í umræðum um kennaraskólann, heldur langaði mig til að fræðast um eitt atriði af hæstv. menntmrh. Hann upplýsti hér áðan, að það hefði verið ákveðið, að húsmæðrakennaraskólinn fengi húsnæði á efstu hæð kennaraskólans.

Mér sýnist nú eftir öllum upplýsingum að dæma, að það séu ekki sérlega miklar horfur á því, að í náinni framtíð verði efsta hæðin tilbúin, nema þá á henni verði byrjað. Og ég vildi þess vegna spyrjast fyrir um það hjá hæstv. ráðh., hvaða fyrirætlanir eru um starfsemi húsmæðrakennaraskólans. Hann mun ekkert hafa starfað s.l. vetur. Hins vegar var bæði skólastjóri og kennarar, einn eða fleiri, á föstum launum. Mér er ekki kunnugt um, að skólinn eigi að starfa í vetur. Það kann að vera að vísu, þó að ég viti það ekki. En það er einmitt það atriði, sem ég vildi spyrja hæstv. ráðh, um, hvort ætlunin er, að skólinn starfi nú í vetur, og þá hvar, hvort honum hafi verið séð fyrir húsrými til sinnar starfsemi og yfirleitt hvernig sé ætlað að leysa mál þessa skóla, þangað til hann fær húsnæði sitt í kennaraskólanum.