20.11.1957
Sameinað þing: 14. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 364 í D-deild Alþingistíðinda. (2721)

34. mál, bygging kennaraskólans

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Það voru aðeins örfá orð. Hæstv. ráðh. sagði hér áðan, að það mundi stafa af þekkingarskorti hjá mér, að ég hafi sagt, að það væru greidd við húsmæðrakennaraskólann laun skólastjóra og einum eða tveimur föstum kennurum. En hins vegar upplýsti hann rétt á eftir, að það væru greidd laun skólastjóra og einum föstum kennara, Ég sagði ekkert í minni ræðu um það, hvort þetta starfslið væri látið vera aðgerðalaust eða ekki. Það virðist hins vegar liggja fyrir eftir upplýsingum hæstv. ráðh., að meðan skólinn ekki starfar, sé a.m.k. skólastjórinn, sem taki laun sín að fullu án starfs.

Þetta vildi ég aðeins láta koma fram. Það er svo önnur saga, að það skuli hafa komið á daginn, sem að vísu menn gátu séð fyrir, þegar þau lög voru sett, að svo er nú komið fyrir tilverknað hæstv. ríkisstj. sjálfrar, að hún getur hvergi fengið húsnæði fyrir skóla sem þennan, sem hefur þó starfað um langt skeið og er gert ráð fyrir eftir lögum að skuli starfa.

Það er svo að lokum eitt atriði, sem ég held að liggi nú ljóst fyrir öllum, varðandi bygginguna sjálfa, sem hæstv. ráðh. upplýsti. Hann var að minnast á það, að það væri ekki að undra, þótt það kynni að taka nokkra mánuði að fá fjárfestingarleyfi, þegar það áður hefði tekið sex ár. Ég held, að það viti nú allir, sem hafa fengizt við innflutningsskrifstofuna og þar áður fyrirrennara hennar, að aðalerfiðleikarnir eru að komast af stað og fá fyrsta leyfið, en hins vegar gengur það nokkuð af sjálfu sér eða er a.m.k. mun auðveldara að fá leyfi til framhaldsins.