17.12.1957
Neðri deild: 42. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 205 í B-deild Alþingistíðinda. (273)

73. mál, kosningar til Alþingis

Frsm. minni hl. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég vil vekja athygli á því, að ég féllst á það að falla frá ræðu við 2. umr., vegna þess að nál. yrði ekki úthlutað, fyrr en við þá 3., og tel, að í því samkomulagi, sem varð á milli okkar forseta, hafi falizt, að ég hefði fullan framsögumannsrétt við þessa umr. Annars geri ég ráð fyrir, að á því þurfi ekki að halda, vegna þess að þessum umr. er langt komið að efni til, og það voru aðeins örstuttar aths., sem ég hafði nú að gera.

Ég hef fært að því við þessar umr. mörg rök, að meginhættan, sem stafar af misnotkun áhrifa í sambandi við kosningar, er í þeim kjördæmum, sérstaklega litlum, þar sem lítill hópur manna hefur náð tökum á miklum hluta verzlunar, fjármála, samgangna og hefur því óeðlilega mikil áhrif á líf og hátterni samborgara sinna í þessu kjördæmi. Ég benti á, að þarna væri um að ræða raunverulega hættu, og ef menn vildu í alvöru snúa sér að því að koma lagfæringum á óhæfilegan áróður í sambandi við kosningar og valdbeitingu, bæri fyrst og fremst að snúa sér að þeirri hættu, sem í þessu er fólgin.

Af einhverjum ástæðum varð einn hv. þm. til þess að telja þessum ummælum alveg sérstaklega beint gegn sér. Það var hv. þm. V-Húnv. (SkG). Hann stóð hér upp og fór að gera grein fyrir því, að það væri alls ekki af þessum sökum, að hann hefði hlotið fleiri atkvæði við síðustu þingkosningar heldur en áður, heldur hefði það verið vegna þess, að Bjarni Benediktsson hefði komið í kjördæmið og haldið þar fund. Í mörgu kemur nú fram, að ég er meira metinn af framsóknarmönnum heldur en flestir aðrir, þó að sú virðing komi raunar stundum fram með nokkuð einkennilegum hætti. En hv. þm. V-Húnv. telur það undur, sem hann sjálfur skoðar fylgisaukningu sína, ekki verða skýrt nema í beinu framhaldi af minni dvöl þar fyrir norðan eina kvöldstund, og hefur sjaldan verið gert meira úr áhrifum mínum, en með þessum ummælum hv. þm.

Ég er honum sammála um það, að óvenjulegra skýringa þarf á því, að hann skyldi auka kjörfylgi sitt. Það voru hvorki persónulegir verðleikar hans við síðustu kosningar umfram það, sem áður hafði verið, né heldur var málstaðurinn slíkur, að það væri eðlilegt, að kjósendur kysu hann frekar við þessar kosningar heldur en áður. Þvert á móti hefði mátt ætla, að eftir því sem málstaðurinn reyndist lakari, yrði kjörfylgið minna. Hv. þm, finnur bersýnilega til þess arna sjálfur og þarf því að leita mjög óvenjulegrar skýringar á þessu furðulega fyrirbæri, sem honum finnst vera, að honum skyldi sjálfum vaxa fylgi. Nú, hann um það, hvort hann vill heimfæra það til einhverra yfirnáttúrlegra áhrifa minna. Ég hygg, að hitt sé sannara, sem kom fram, að hann tók til sín sem talað var, þegar rætt var um óhæfileg áhrif og misbeitingu þeirra fjármálavalda, sem sumir menn hafa öðlazt úti um byggðir landsins. Fyrir honum fór líkt og karlinum, sem heyrði prestinn nefna þjóf í ræðunni og sagði síðan á eftir: Hann nefndi þjóf og leit á mig, — gætti þess ekki, að það var hans eigin samvizka, sem kippti við honum. Eins reyndist það hér, að það var eigin samvizka hv. þm., sem rak hann upp í ræðustólinn, eftir að búið var að benda á það, að þau undur ske, að sumir, sem til þess hafa mjög ólíklega verðleika, fá skyndilega mikla fylgisaukningu, að á því þarf mjög grandgæfilega skoðun, hvernig á því undri stendur, og hv. þm. skildi það glögglega, að hann er einn af þeim, sem fleiri en honum sjálfum flýgur í hug, þegar að þessu máli er vikið.

Aðalefni þess, að ég stóð upp og hafði kvatt mér hljóðs eða kvaddi mér hljóðs, voru þó ekki þessi ummæli hv. þm., heldur hin, að hann, svo glöggur þm. sem hann óneitanlega er og skarpgreindur maður, sneri alveg við því, sem ég og hv, 5. þm. Reykv, höfðum sagt um áhrif þau, sem þessi hópur manna gæti haft með þeim miklu áhrifum í nær öllum efnum, sem þeir hafa sölsað undir sig, verzlun, fjármálum, samgöngum og öðru slíku. Hann virtist skilja það svo sem við beindum því að honum sérstaklega og hans líkum, að þeir væru til þess líklegir að hindra menn með yfirráðum sínum yfir samgöngutæki að komast á kjörstað. Því fer fjarri, að við höfum mælt nokkuð í þá átt. Við nefndum einmitt og sérstaklega ég yfirráð þessara manna yfir samgöngutækjunum og raunar samtök flokkanna um að kanna, með hverjum hætti hver og einn einasti kjósandi í stórum byggðarlögum ætli að fara á kjörstað, þar sem flokkarnir sjá þeim fyrir flutningi, — við nefndum það sem dæmi þess, að úti um land er hægt og er fylgzt með, hverjir fara á kjörstað, á annan veg en merkt sé inni á kjörstaðnum. Sú athugun á sér stað, og það er ekki ætlunin að breyta henni. Það er einungis athugunin inni á kjörstað, sem fyrst og fremst hefur þýðingu í Reykjavík og þéttbýlinu, sem ætlað er að breyta, en ekki hin raunhæfa rannsókn, sem á sér stað t.d. í sambandi við flutning fólks á kjörstað, sem ætlað er að hagga. Og það er einmitt það, sem við höfum gert að meginatriði okkar máls, að með þessu er skapað raunverulegt misrétti og tvenns konar lög látin ganga yfir fólkið í landinu, og það er það, sem við vörum við að gert sé.

Þá hef ég svarað þeim aths., sem fram hafa komið við mitt mál, og hef ekki meira að segja að svo komnu.