12.02.1958
Sameinað þing: 26. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 366 í D-deild Alþingistíðinda. (2746)

43. mál, Ungverjalandsmálið

Flm. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég hygg, að þeirri till., sem hér er nú til umr., hafi verið útbýtt á Alþ. eitthvað um það bil, þegar vika var af nóvember, en nú fyrst kemur hún til umr. í Sþ. Mér kemur ekki til hugar og hef enga ástæðu til þess að ætla, að hæstv. forseti Sþ. hafi af ráðnum hug sett þessa till. til hliðar, en ég vil benda á, að það eru óheppileg vinnubrögð á Alþ. að haga þeim eins og gert var fyrir jólin, þegar yfirleitt var einungis einn fundur í Sþ. í viku hverri og hann stóð oftast nær hinn ráðgerða fundartíma og fjöldi mála var óafgreiddur, en hins vegar voru fundir í deildum hina starfsdaga þingsins í viku hverri, og talið var þá, að meðaltal fundarlengdar í Nd. hefði fram undir þinglok verið 3 mínútur á dag. Það er ljóst, að ef Sþ., sem hafði miklu fleiri mál til meðferðar en deildirnar, eða a.m.k. mál, sem frekar urðu umr. um, hefði haft lengri eða oftar fundartíma, þá hefði verið hægt að afgr. bæði þessa till. og ýmsar aðrar, sem afgreiðslu bíða, en ekki svo, að líða þurfi meira en þrír mánuðir frá því að till. er útbýtt, þangað til hún kemur til 1. umr.

Þrátt fyrir þessa miklu töf tel ég, að hér sé enn um mjög tímabæra till. að ræða. Hún hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að láta þýða og prenta á íslenzku skýrslu hinnar sérstöku nefndar Sameinuðu þjóðanna um Ungverjalandsmálið og selja hana síðan með sambærilegu verði við Alþingistíðindin.“

Við vitum öll, sem á Alþ. erum, að fáir atburðir hafa orðið hörmulegri á okkar dögum en þeir, sem gerðust haustið 1956 í Ungverjalandi. Því miður er löggæzlu svo hagað í heiminum, að tvenns konar lög og siðferði gildir, eftir því með hvaða þjóðum er og hverjir yfirráð hafa á hvoru landssvæði. Um svipað leyti og þessir Ungverjalandsatburðir urðu, gerðu Bretar og Frakkar ásamt Ísraelsmönnum frumhlaup sitt inn í Egyptaland og reyndu að ná yfirráðum Súezskurðar. Þeirri lögleysuherferð var mætt, sem vera bar, af samtökum Sameinuðu þjóðanna á þann veg, að árásaraðilarnir guggnuðu, létu af herferð sinni og urðu áður en langt um leið að kveðja herskara sína til baka frá því landssvæði, sem þeir höfðu undir sig lagt.

Allt annað varð uppi í Ungverjalandi, þótt ekki sé ýkja langt þar á milli, frá Súez-svæðinu og norður til Ungverjalands. En sá er munurinn, að þótt ástandið fyrir botni Miðjarðarhafs hafi oft þótt ærið löglaust og óvíst, þá eru það fyrst og fremst lýðræðisríkin, sem þar eru ráðandi, þeirra siðferði og stjórnhættir hafa þar úrslitaráð í milliríkjaviðskiptum, hvað sem um kann að vera ástandið innan hvers einstaks ríkis. Í Ungverjalandi háttar aftur á móti þannig til, að þar ráða kommúnistar. Ungverjaland er, eins og kunnugt er, bak við járntjaldið, og það var ljóst, að ekki var hægt að hrinda hinni hroðalegu árás sem Sovétherirnir gerðu á frelsi ungversku þjóðarinnar, nema hætta af nýju heimsstríði stafaði af. Þá hættu vildu ekki ráðandi öfl innan Sameinuðu þjóðanna taka á sig, og þess vegna varð ofbeldið skefjalaust og grímulaust ofan á í Ungverjalandi, ungverska þjóðin kúguð meir og hatramlegar, en nokkru sinni fyrr. Sameinuðu þjóðirnar gerðu að vísu nokkrar ályktanir um örlög þessarar illa leiknu þjóðar og létu uppi andúð sína á aðförum ofbeldisseggjanna, en þær ályktanir höfðu engin áhrif innan Ungverjalands sjálfs eða austan járntjaldsins, ofbeldið hélt þar áfram sínum yfirráðum, og ekki varð við því gert.

Segja má, að þótt þessar ályktanir hafi því ekki náð sínum megintilgangi að verða ungversku þjóðinni að beinu liði, höfðu þær þó þann árangur, að skipuð var, áður en yfir lauk, sérstök rannsóknarnefnd til að kynna sér alla þessa atburði, — rannsóknarnefnd skipuð hlutlausum mönnum, sem höfðu það verkefni eitt að sannreyna, hvað í raun og veru hefði átt sér stað, og gefa um það hlutlausa skýrslu. Þessari n. var að vísu, eins og framkvæmdastjórn Sameinuðu þjóðanna, bannað að koma til Ungverjalands sjálfs. Bannið á forstjóra Sameinuðu þjóðanna var að vísu mörgum mánuðum síðar upphafið, en hann hafði að vonum ekki geð í sér til að þiggja heimboð þangað, eftir að búið var að laga svo til, að talið var óhætt, að hann mætti þangað koma. Sjálf rannsóknarnefndin mun hins vegar aldrei hafa fengið færi á því að fara til Ungverjalands. Engu að síður er það sannmæli allra, sem kynnt hafa sér þetta mál, að skýrsla n., sem birtist seint á s.l. sumri, sé eitthvert allra merkilegasta plagg, sem birzt hafi, ekki aðeins varðandi frelsisbaráttu ungversku þjóðarinnar og beitingu ofbeldis gegn henni, heldur einnig varðandi skýringar á því, af hverju þjóð telur sér það vænlegast að ráðast út í opinn dauðann í frelsisbaráttu, eins og ungverska þjóðin gerði.

Skýrslan er löng og ýtarleg. Hún er að vísu um sumt ekki skemmtilestur. En ég hygg, að enginn hafi lesið þessa skýrslu svo, að hann hafi ekki orðið fyrir djúpum áhrifum, að upp hafi fyrir honum lokizt nýr heimur skilnings á þeim hörmulegu örlögum, sem yfir þetta sögufræga land höfðu gengið, — skilningur á því, að þrátt fyrir það þótt baráttan virtist vonlaus, átti þjóðin ekki um annan kost að velja, en taka upp baráttuna með þeim hætti, sem hún gerði. Skýrslan er að þessu leyti óbrotgjarn minnisvarði um hetjudáðir og hetjulund ungversku þjóðarinnar, um leið og hún er einhver kröftugasta fordæming á stjórnarfari og aðferðum kommúnista, sem enn hefur sézt.

En hún er einnig til mikils lærdóms í þjóðfélagi, sem þrátt fyrir það þótt margt misfari hér hjá okkur, er þó enn jafnfjarlægt því, sem í eiginlegum kommúnistaþjóðfélögum tíðkast. En við sjáum engu að siður, að margt af því, sem um of ber á í okkar þjóðfélagi, er sama eðlis og það, sem fært var út í öfgar í Ungverjalandi, — margt af því er þó nú þegar um of áberandi í okkar tiltölulega friðsæla, litla þjóðfélagi.

Við könnumst t.d. öll við það, að stjórnarvöld reyna að dylja mikilsverðar staðreyndir og leggja þannig eins konar fjötur ósanninda á þjóðina. Við höfum öll séð, hvernig einstakir ævintýramenn breyta verkalýðsfélögunum úr því að verða eiginlegir málsvarar verkalýðsins í valdabaráttutæki fyrir sjálfa sig og gera þau að handbendi ríkisstj., sem þeir sjálfir eiga sæti í, Við höfum einnig séð, hvernig sumir hafa áhuga fyrir því að hafa hömlur á frjálsum fréttaflutningi, fyrst til útlanda, og þá kemur skjótlega á eftir að ráða einnig, hvernig frá er sagt atburðum innanlands, hvernig menn vilja láta skrifa upp söguna eftir því, sem þeim sjálfum hentar, og hvernig þeir iðka það að saka aðra um það, sem þeir sjálfir ýmist hafa framið eða ætla sér skjótlega að ráðast í.

Öll þessi atriði eru mjög áberandi í Ungverjalandsskýrslunni og eru meðal hinna helztu, sem skýrðu hina hörmulegu atburði, sem þar urðu. Sá vísir þeirra, sem við höfum nú þegar í okkar landi, ætti að gera það þjóðfélagslega skyldu, að menn kynntu sér þetta merka sögulega plagg, sem skýrsla Sameinuðu þjóðanna um þessi mál er.

Segja mætti, að skýrslan væri nokkuð löng til þess, að líklegt væri, að allur almenningur læsi hana, jafnvel þó að hún væri þýdd á íslenzku, og sama mætti segja t.d. um útgáfu Alþingistíðinda og margra annarra heimildarrita, að ekki er við því að búast, að hver einasti landsmaður lesi þetta. Engu að síður er það þjóðfélagsleg og lýðræðisleg nauðsyn, að allir þeir, sem hug hafa á, eigi kost á að kynna sér þessar skýrslur með auðveldu móti. Með sama hætti hygg ég, að það sé eðlilegt og nauðsynlegt, að menn eigi kost á því að kynna sér Ungverjalandsskýrsluna. En þá er þess einnig að gæta, að í sumum löndum, eins og t.d. Bretlandi, hefur verið hafður sá háttur á, að auk þess sem sjálf aðalskýrslan hefur verið gefin út í handhægri ódýrri útgáfu af hálfu ríkisstj. þar í landi, hefur verið saminn miklu styttri úrdráttur, ég hygg á milli 20 og 30 síður, sem seldur er mjög vægu verði. Ég hef einnig lesið þann úrdrátt, og þar eru öll meginatriði saman tekin, svo að víst væri mikill fengur að því að fá þótt ekki væri annað en hann út gefinn á íslenzku og seldan við vægu verði. En þó er þar sá galli á, að það vantar hin einstöku atriði, sögu einstaklinganna, sem gerir sjálfa atburðina miklu meir lifandi, en ella og lætur mönnum skiljast betur en með öðrum kosti, hvílíkur harmleikur átti sér hér stað fyrir lifandi menn.

Ég mundi telja, að það væri mun betra en ekki, þótt einungis slíkur stuttur úrdráttur yrði gefinn hér út, en legg engu að síður megináherzlu á, að samkomulag gæti orðið um það að gefa út sjálfa heildarskýrsluna, sem íslenzkum stjórnvöldum ætti að vera þeim mun ljúfara, þar sem mér skilst, að fulltrúar ríkisstj. hafi á þingum Sameinuðu þjóðanna átt þátt í þeim aðgerðum, sem ákveðnar hafa verið á grundvelli þessarar skýrslu, og hún því einnig af þeirra hálfu hlotið þá viðurkenningu, sem verðugt er.

Ég leyfi mér að leggja til að, að þessari umr. lokinni verði málinu vísað til hv. utanríkismálanefndar.