05.02.1958
Sameinað þing: 25. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 378 í D-deild Alþingistíðinda. (2774)

53. mál, olíueinkasala ríkisins

Flm. (Alfreð Gíslason):

Herra forseti. Umræður um fyrirkomulag á sölu olíu og benzíns hafa þráfaldlega farið fram á Alþingi. Árið 1952 flutti Steingrímur Aðalsteinsson frv. til laga um innflutning og sölu ríkisins á olíu og benzíni. Benti hann á, að olían væri orðinn einn allra stærsti liðurinn í innflutningsverzluninni og því varðaði landsmenn það miklu, að sú grein verzlunarinnar væri örugglega rekin neytendum í hag. Í því frv. var gert ráð fyrir, að ríkið annaðist innflutning olíunnar og seldi hana hér innanlands í heildsölu, en hefði ekki dreifingu hennar í smásölu með höndum. Á þinginu 1953 fluttu þeir Hannibal Valdimarsson, Gylfi Þ. Gíslason, Emil Jónsson og Eggert Þorsteinsson frv. til laga um olíueinkasölu, og samhljóða frv. lögðu þeir aftur fram 1954 og 1955. Á síðastnefndu þingi birtist einnig annað frv. til laga um olíuverzlun ríkisins, frá þeim Bergi Sigurbjörnssyni og Gils Guðmundssyni. Öll gerðu þessi frv. ráð fyrir algerri einkasölu ríkisins á olíum og benzíni, bæði heildsölu og smásölu.

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að um langt skeið hefur olíuverzlun verið einn allra ábatasamasti atvinnuvegur, sem um getur. Einstaklingar og félög, sem hana reka, græða of fjár, enda eru olíuhringarnir alkunnu einhver auðugustu og voldugustu fyrirtæki veraldar. Þessi öruggi og mikli gróði olíusalanna á sér þá skýringu, að notendur olíunnar eru látnir greiða fyrir hana langtum hærra verð, en vera þyrfti. Seljandinn græðir að sama skapi sem kaupandinn tapar.

Sala áfengis og tóbaks er ríkisrekin og arðinum varið til þarfa alþjóðar. Sama ætti að gilda um sölu olíunnar, og hníga mörg rök að því. Síðan 1953 hefur ríkisstj. gert innkaup á meginmagni þeirrar olíu og benzíns, sem landsmenn nota. Samninga sína um þessi kaup framselur hún til olíufélaganna, sem síðan hirða gróðann.

Stundum getur ríkið átt kost á hagkvæmari innkaupum, en aðrir. Þannig var það á árunum 1943 og 1944. Þá átti ríkisstj. þátt í að útvega lægra verð á olíur, en verið hefði, ef olíufélögin ein hefðu ráðið. Þessum afskiptum ríkisstj. lauk í árslok 1944 með þeim afleiðingum, að olíuverðið stórhækkaði.

Olíuinnflutningurinn vex með ótrúlegum hraða. Árið 1945 var hann rétt 40 þús. tonn, en 1956 nam hann samtals 293.620 tonnum, og var verðmæti hans þá rúmlega 185 millj. kr. Þessi ört vaxandi notkun ómissandi vörutegundar og þær miklu fjárhæðir, sem fyrir hana eru greiddar, ættu að vera stjórnarvöldum hvatning til að hafa fulla aðgæzlu og stjórn á sölu olíunnar, en láta ekki óvalin einkafyrirtæki hafa þar svo að segja öll ráð.

Þótt olíuverzlunin hafi skilað miklum hagnaði á umliðnum árum, hefur það ekki verið fyrir neina hagsýni í rekstri. Hin einstöku olíufélög hafa borizt mikið á og ekkert til sparað í innbyrðis kapphlaupi um hylli viðskiptamanna. Nokkuð dró að vísu úr þessu nú, eftir að verðlagseftirliti var komið á. Þá var eitthvað farið að huga að rekstrarkostnaði, en enn þá stendur hið sígilda þrefalda dreifingarkerfi olíufélaganna sem órækur vottur þarflausrar sóunar verðmæta.

Ekki eru mörg ár síðan upp komust fjársvik olíufélaga í sambandi við farmgjöld. Þau mál skulu þó ekki rifjuð upp hér, en vel mættu þau hvetja til nánari afskipta ríkisins af innflutningi og sölu olíunnar. Atvinnuvegi þjóðarinnar skiptir það miklu máli, að olíuverði sé að staðaldri haldið eins lágu og mögulegt er. Þetta á ekki hvað sízt við nú, þegar sjávarútvegurinn berst í bökkum þrátt fyrir háar uppbætur. Er honum ekki hvað sízt bráð nauðsyn á að fá olíuvörur sínar á sannvirði, og fyrir þeirri nauðsyn eiga óþarfir milliliðir að víkja. Það verður einnig að tryggja hagkvæmari flutning olíunnar til landsins, en verið hefur og einfaldara dreifingarkerfi innanlands. Fyrir þessu öllu yrði bezt séð með olíuverzlun ríkisins.

Á þskj. 85 leggjum við hv. 8. landsk. þm. til, að ríkisstj. verði falinn undirbúningur löggjafar um olíueinkasölu ríkisins. Við tökum ekki á þessu stigi afstöðu til, hvort hafa beri þennan ríkisrekstur algeran frá byrjun eða ekki. Ef hagkvæmara þykir eða líklegra til samkomulags, er vel viðunandi til að byrja með, að ríkið hafi aðeins innflutning olíunnar og heildsölu með höndum og taki þá ekki alla verzlunina að sér fyrr en síðar. Hitt drögum við flm, ekki dul á, að við teljum algera olíueinkasölu eiga að vera takmarkið.

Í till. er gert ráð fyrir, að ríkisstj. hraði svo undirbúningi málsins, að unnt verði að leggja fram frv. til laga um einkasölu og fá því af- greiðslu þegar á þessu þingi.

Herra forseti. Ég Legg svo til, að umr. verði frestað og till. vísað til hv. fjvn.