05.02.1958
Sameinað þing: 25. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 379 í D-deild Alþingistíðinda. (2775)

53. mál, olíueinkasala ríkisins

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Það er ekkert undarlegt, þótt hv. 1. Landsk. þm. flytji till. eins og þessa hér í hv. Alþingi. Hann hefur eins og ýmsir fleiri af stuðningsmönnum núv. hæstv. ríkisstj. orðið fyrir vonbrigðum, því að hann minnist þess eins og fleiri, að núv. ráðherrar Alþýðubandalagsins höfðu stór orð um það, að þeir mundu, ef þeir kæmust til áhrifa, lagfæra ýmislegt í olíuverzluninni, eins og svo mörgu öðru, og þeir mundu fyrirbyggja allt olíuokur og brask. Þá mundi olíuverðið lækka, og þá mundu komast á heilbrigðir viðskiptahættir í olíuverzluninni eins og í annarri verzlun. Sanngjarn maður eins og hv. 1. landsk. hefur vitanlega orðið fyrir vonbrigðum, og hann á erfitt með að skilja, hvernig á því stendur, að hæstv. ráðh. Alþýðubandalagsins, sem hafa ráðin í sinni hendi, skuli ekki hafa gert tilraun til þess að koma í veg fyrir þetta svokallaða olíuokur, að þeir skuli ekki hafa gert allt, sem þeir gátu, til þess að tryggja landsmönnum olíuna með hagstæðu verði, því að það er sannleikur, sem hv. þm. sagði hér áðan, að það er þýðingarmikill þáttur nú í öllu þjóðlífinu, olíunotkunin, og það hefur ákaflega mikið að segja fyrir lífsafkomu alls almennings, hvort verðlagið á olíunni er lágt eða hátt.

Hv. 1. Landsk. þm. fékk engar þakkir fyrir það, þegar hann flutti till. í bæjarstjórn Reykjavíkur í fyrra út af olíuokrinu. Hann fékk engar þakkir fyrir það frá ýmsum sínum flokksmönnum, að hann skyldi vera svo sanngjarn að viðurkenna, að þessir forustumenn flokksins hefðu algerlega brugðizt, hefðu algerlega gleymt því, sem þeir höfðu lofað fyrir kosningarnar, að þeir hefðu lofað því að koma olíuverzluninni í gott horf, fyrirbyggja allt okur o.s.frv. En það er leiðinlegt, að hv. þm. skuli láta það koma fram í grg. þessarar till. þrátt fyrir þessar staðreyndir, láta að því liggja, að verðlagseftirlitið hafi verið aukið í sambandi við olíuverzlunina og olíuverzlunin sé nú í eitthvað betri farvegi, eftir að núv. hæstv. ríkisstj. var mynduð, heldur en áður, — ef hv. 1. flm. till. hefur skrifað þetta, sem hér stendur, með leyfi hæstv. forseta, eins og þessa setningu hér:

„Nú um skeið hefur að vísu allríkt eftirlit verið með verðlagi olíunnar og borið verulegan árangur til bóta, en þó eru enn um það mjög skiptar skoðanir, hvort hagsmunir þeirra, sem olíuna nota, en það eru fyrst og fremst höfuðatvinnuvegirnir, verði að fullu tryggðir með verðlagseftirliti einu saman.“

Það er víst ætlazt til, að menn skilji þetta þannig, að það sé bót á ráðin, eftir að núv. hæstv. ríkisstj. hefur verið mynduð. En ég segi: Ef hv. 1. flm. hefur skrifað þetta, þá ætla ég, að það hafi gerzt í ógáti eða vanhugsað, því að hann hefur svo eftirminnilega áður viðurkennt, að hæstv. ríkisstj. hafi að öllu verið mislagðar hendur um þetta. Hvenær hefur olíufélögunum liðizt að okra eins og nú, eftir að hæstv. ríkisstj. var mynduð? Og það hefur þessi hv. þm. sjálfur staðfest. Og ég vil til leiðbeiningar fyrir þennan hv. þingmann, ef það skyldi svo vera, að hann þrátt fyrir þetta vildi trúa því, að það hefði eitthvað verið lagfært af núv. hæstv. ríkisstj. í olíumálunum, — þá vil ég honum til leiðbeiningar minna á, hvernig sá grundvöllur var fundinn, sem gildir í sambandi við verðlagningu á olíu og benzíni. Sá grundvöllur var byggður fyrst 1938 af gömlu verðlagsnefndinni, sem var undir eftirliti hins opinbera, og síðan, 1941, var settur gerðardómur í verðlagsmálum. Þar á eftir kom viðskiptamálanefndin, sem var skipuð fimm mönnum, en þegar um verðlagsmál var að ræða, viku tveir nefndarmenn sæti og aðrir komu inn, og annar þeirra var núv. hæstv. menntmrh., sem lagði grundvöllinn að því, sem gildir enn í dag í sambandi við verðlagningu á olíu og benzíni. Til þess að tryggja, að þessi grundvöllur væri eðlilegur og réttmætur, var til áréttingar skipaður endurskoðandi, Ragnar Ólafsson, til þess að setja stimpil á grundvöllinn, stimpil, sem átti að nægja til þess að tryggja neytendur fyrir því, að það væri ekki á þeim okrað. Vera má, að hv. flm. þessarar till. viti ekki þessa sögu, og þá er honum vorkunn, þótt hann tali hér öðruvísi, en eðlilegt er og öðruvísi en innræti hans er.

Fjárhagsráð byggði stöðugt á þessum grundvelli, hann var ekki hreyfður, og löggiltur endurskoðandi var fenginn árlega til þess að endurnýja stimpilinn, og hæstv. menntmrh. átti öðru hvoru erindi á skrifstofu verðlagsnefndar til þess að sjá svo um, að það væri sami stimpillinn, sem væri notaður ár frá ári. Fyrrverandi hæstv. ríkisstj. leyfði aldrei hækkanir á olíu og benzíni, nema sem stöfuðu af hækkun á frögtum. Grundvellinum var ekki raskað í tíð hennar. Olíufélögin kvörtuðu, og þau fengu ekki viðurkennda alla hækkunina á frögtunum. Þannig var það allt árið 1955, að olíufélögin fengu enga leiðréttingu á verðIaginu, enda þótt fragtirnar hefðu hækkað, og þannig var það fram yfir stjórnarskiptin árið 1956, að olíufélögin fengu enga leiðréttingu þrátt fyrir hækkaðar fragtir.

En olíufélögin báru sig illa á þessum tímum. Þau kvörtuðu við stjórnarvöldin, en ríkisstj. vildi gera það, sem í hennar valdi stæði, til þess að neytendur í landinu fengju olíuna með sannvirði, vegna þess að þeirri ríkisstj. var ljóst, að olían var mikill þáttur, mikill útgjaldaliður hjá hverju heimili. Þetta breyttist eftir stjórnarskiptin, en alveg öfugt við það, sem kemur fram í grg. fyrir till. Þá fyrst fengu olíufélögin leiðréttingu sinna mála, — og hver heyrir nú olíufélögin kvarta um slæma meðferð á sér? Hver heyrir olíufélögin nú stynja undan vondri meðferð stjórnarvaldanna? Nei, það er allt önnur og betri meðferð á olíufélögunum nú, en var áður, og skal ég færa rök að því, áður en ég lýk máli mínu.

Ég skal sleppa 15 milljónunum, sem einu olíufélaganna var gefið að ástæðulausu og hv. 1. landsk. vítti á bæjarstjórnarfundi og öll bæjarstjórnin vítti að einum fulltrúa undanteknum. Ég hygg, að það sé ekki þörf á því að ræða öllu meira um þessar 15 millj., en gert hefur verið. Það er öllum ljóst, hvernig var í pottinn búið, þótt fleirum en hv. 1. landsk. hafi veitzt erfitt að skilja ástæðuna fyrir því, hvers vegna þeir menn, sem áður töluðu um olíuokur, létu til leiðast að gefa þessar 15 milljónir króna og taka þær af fátækum almenningi, fátækum fjölskyldum, sem urðu að kaupa olíuna til þess að elda við matinn og til þess að hita upp íbúðirnar.

Ég hef aldrei getað skilið þetta, af því að ég hef viljað halda, að þessir menn væru ekki vísivitandi illgjarnir og þeir væru í meðallagi gefnir. Og ég hygg, að hv. 1. landsk. þm. hafi alls ekki, þrátt fyrir ítrekaða leit, komizt til botns í því, hvernig á því stendur, að hans flokksbræður höguðu sér á þennan hátt.

Það var þannig, áður en núv. ríkisstj. kom til valda, að olíufélögin voru látin bera þungan bagga, sem þau stundu undir, en það var dreifingin á olíunni og benzíninu út um land. Þeim þótti, að það væri illa borgað fyrir þann kostnað, og það var, og oft var leitað eftir lagfæringu á þessu, en olíufélögin fengu þau svör, að álagningin væri það rífleg, að þau gætu borið þennan bagga og þau yrðu að taka þennan kostnað af álagningunni. Þannig var greitt fyrir dreifinguna á olíu og benzíni, að fyrir hverja 15 km var greiddur einn eyrir fyrir hvern lítra, þannig að ef ekið var 90 km leið, voru borgaðir 6 aurar í flutningsgjald. Það segir sig sjálft, að það var ómögulegt að reka bíl fyrir það, það kostaði miklu meira, enda stóð ekki á núv. ríkisstj. að taka þennan kross af olíufélögunum, og nú er borgað fyrir olíuflutninginn, ekki einn eyrir fyrir hverja 15 km. heldur 3. Nú eru ekki borgaðir 6 aurar í flutningsgjald fyrir hverja 90 km, heldur 18 fyrir olíuna, en ef um benzín er að ræða, þá eru ekki borgaðir 6 aurar fyrir hverja 90 km, heldur 41/2 sinnum meira eða 27 aurar. Ég er ekkert að segja, að þetta sé of mikið til þess að borga útgerðarkostnað á bíl, en ég er sannfærður um, að þetta borgar útgerðarkostnaðinn á bílunum, og það var vel gert við olíufélögin að taka þennan bagga af þeim, sem þau þó svo lengi höfðu reynt að losna við.

Ég veit ekki með vissu, hversu margir olíubílarnir eru í landinu, sem olíufélögin munu eiga yfirleitt og gera út, en það liggur í augum uppi, að það skiptir jafnvel hundruðum þúsunda á hvern bíl, sem út er gerður, þessi uppbót, sem ríkisstj. réttir olíufélögunum í hækkuðum flutningsgjöldum á olíum og benzíni. Við skulum gera ráð fyrir, að stór olíubíll geti flutt 1 millj. til 11/2 millj. lítra yfir árið. Sé um eina millj. að ræða, þá eru það 120 þús. kr. á bíl, — sé um 11/2 millj. að ræða, sem ég hygg að sé nær, þá eru það 180 þús. á bíl, uppbótin, sem ríkisstj. réttir olíufélögunum fyrir að dreifa olíu til neytenda. En sé um benzín að ræða, er það miklu meira. Þá eru það ekki 120 þús. kr. fyrir milljón lítra, heldur 180 þús. kr., og ef það eru 11/2 millj. lítrar, eru það vitanlega 270 þús. kr. á hvern bíl.

Mér þykir ekkert óeðlilegt, þó að olíufélögin hvert fyrir sig eigi og reki 30 bíla a.m.k., kannske 40, og þá geta menn séð, að hér er um allstórar upphæðir að ræða, og það má þess vegna segja, að olíufélögunum hafi tekizt vel í samningum við hæstv. ríkisstj. Vera má, að hæstv. ríkisstj. hafi fengið samvizkubit af því, að hún gerði svo illa upp á milli olíufélaganna áður, þegar hún rétti aðeins einu félagi 15 millj. kr., en hin fengu ekkert, og hafi þess vegna orðið samkomulag um, að næst skyldi nú skipt að nokkru að jöfnu á milli þeirra allra. Ég veit ekki um það. En það er ljóst, að enda þótt nú sé ef til vill aðeins greiddur flutningskostnaðurinn á olíunni, enda þótt nú sé ef til vill ekki beinn gróði af því að dreifa olíunni, þá fullyrði ég, að það er ekki lengur tap. Það tap, sem olíufélögin höfðu af því áður að dreifa olíunni, hafa þau nú losnað við og hagur þeirra bættur, og ef olíufélögin hefðu verið látin bera þetta tap áfram, hefði vitanlega olían til neytendanna getað verið þeim mun lægri.

Ég gæti bezt trúað því, að hv. 1. landsk. þm. viti ekki um þetta. Ég trúi því, að hann sé svo sanngjarn, að ef hann hefði vitað um þetta, þá hefði hann ekki látið að því liggja, að fyrirkomulag olíuverzlunar og olíudreifingar hefði batnað, síðan núv. hæstv. ríkisstj. tók við. Og það virðist svo sem hæstv. ríkisstj. haldi áfram að gefa, og þeir hafa bara deilt um það, hversu gjafirnar hafa verið stórar. Í fyrsta lagi voru gefnar 15 millj. kr. einu olíufélaganna. Í öðru lagi, líklega í aprílmánuði s.l., var bagganum, sem á dreifingunni hafði verið áður, létt af olíufélögunum, og ef hvert olíufélag ætti um 30–40 bíla, mætti áætla, að sá baggi næmi 5–6 millj. kr. á hvert félag eða samtals 15–18 millj. kr. En svo gerðist nokkuð 30. júní s.l. til viðbótar þessu, og það er það, sem Þjóðviljinn segir frá 1. ágúst. Þjóðviljinn segir 1. Ágúst:

„Olíufélögunum voru gefnar 13 millj. kr. með verðlagsákvæðunum, sem samþykkt voru 30. júní.“

Það getur verið, að hv. 1. flm. þessarar till. hafi ekki verið á landinu, þegar þetta var, og hann viti ekki um þetta og það sé skýringin á því, að hann flytur till. eins og þessa með grg., sem hljóðar svo, eins og hv. þm. hafa lesið. En hafi hann verið á landinu og lesið Þjóðviljann 1. ágúst, ætti honum a.m.k. að vera ljóst, að hæstv. ríkisstj. hefur í þriðja sinn gefið olíufélögunum gjafir, að því er Þjóðviljinn segir 13 millj. kr., en Tíminn 2. ágúst lætur að því liggja, að það hafi ekki verið 13 millj. kr., heldur aðeins 10 millj. kr. En það vitanlega geta þeir nú bitizt um, Þjóðviljinn og Tíminn, hvort um 10 millj. kr. hafi verið að ræða eða 13. En það er alveg víst, að almenningur í landinu, sem kaupir olíuna og vantar peninga fyrir þörfum heimilanna, verður jafnóánægður, hvort sem hér er um að ræða 10 millj. eða 13 millj. kr.

Um það, hvort koma skuli á olíueinkasölu eða ekki, skal ég ekki fjölyrða að þessu sinni, en ég hygg, að það sé vafasamt, hvort það tryggi hagsmuni neytendanna eitt út af fyrir sig að koma á olíueinkasölu ríkisins. Ég hygg, að það megi tryggja hagsmuni neytendanna með því að hafa olíuverzlunina í höndum einkafélaga, ef ríkisstj. hefur skynsamlega hönd í bagga með því, eins og hefur verið gert, allt þangað til núv. ríkisstj. fór að skipta sér af þessum málum.