12.02.1958
Sameinað þing: 26. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 387 í D-deild Alþingistíðinda. (2786)

57. mál, ferðamannagjaldeyrir

Flm. (Ólafur Björnsson):

Herra forseti. Till. samhljóða þessari var flutt af mér í fyrra, og hef ég í rauninni litlu við að bæta þá grg., sem till. fylgir á þskj. 90. Það er vitað mál, að aðstæður í þessum efnum eru óbreyttar frá því, sem þá var, en öllum hv. þm. hlýtur að vera ljóst það ófremdarástand, sem ríkir í þessum efnum og nánari grein er gerð fyrir í grg. Ég tel, að fullyrða megi, að það muni ekki þekkjast í neinu landi vestan járntjalds, að slík meðferð sé á erlendum ferðamönnum sem hér hvað snertir það, hvað þeir fá fyrir sinn gjaldeyri, — og þarf ekki að halda sér í því efni algerlega vestan járntjaldsins, því að ég hef séð þess getið að undanförnu í blöðum, að jafnvel sum af Austur-Evrópuríkjunum, eins og Sovétríkin og Tékkóslóvakía, hafa komið á ferðamannagjaldeyri hjá sér, en í þeim löndum eru aðstæður svipaðar og hér að því leyti, að þau búa við ofmetið gengi. Það má enn fremur benda á það mikla ósamræmi, sem í því er, að það er varið til þess allmiklu fé, bæði af hálfu opinberra aðila og raunar einstaklinga líka, að auglýsa Ísland sem ferðamannaland, að hvetja erlenda menn til þess að ferðast hingað, en jafnhliða eru þeir látnir búa við svo óhagstæða gjaldeyrisverzlun, að þess er mjög lítil von, að hingað ferðist nema mjög auðugir menn.

Hér er í rauninni ekki um stórmál að ræða með tilliti til þess, að samkvæmt upplýsingum hagstofunnar mun keyptur ferðamannagjaldeyrir ekki nema nema um það bíl 20/00 af gjaldeyristekjunum í heild, þannig að hvað sem með hann skeður, þá hefur það sáralítil áhrif á gjaldeyrisjöfnuðinn í heild. En allir þeir, sem eitthvað þekkja til ferðamannamála, hvar í flokki sem þeir eru, hafa stutt þá hugmynd, sem hér er borin fram. Það er aðeins eitt atriði, sem ég aðeins vildi víkja að, áður en ég lýk máli mínu, og það er þetta, að sá misskilningur virðist hafa komið fram, að ef gerðar yrðu ráðstafanir í þessa átt, mundi það verða spor í áttina til gengislækkunar og með þessu væru lagðar einhverjar byrðar á almenning.

Ég tel, að þetta sé algerlega á misskilningi byggt. Í því sambandi má fyrst og fremst nefna það, að mikið af þessum gjaldeyri mun þegar vera á svörtum markaði og gengur því kaupum og sölum á miklu hærra verði, en um mundi vera að ræða, jafnvel þó að komið yrði á ferðamannagjaldeyri. Í öðru lagi má benda á það, að áhrif þess, að komið yrði á ferðamannagjaldeyri, hlytu að verða þau, að gjaldeyrisframboðið mundi aukast frá því, sem nú er. Að vísu vantar mikið á það, að Íslendingar geti tekið á móti ferðamönnum í stórum stíl, og þarf ekki nánar að skýra það, Á hinu er ekki vafi, að fái ferðamenn hagstæðara gengi fyrir sinn gjaldeyri, hlyti það að hvetja menn til þess að ferðast hingað meira, en nú er gert, þannig að gjaldeyrisframboðið í heild hlyti að aukast frá því, sem nú er. Þar sem ekki er nein ástæða til þess að ætla, að það, að komið yrði á fót ferðamannagjaldeyri, yrði til þess að auka gjaldeyriseftirspurnina, þá getur ekki hér verið um að ræða spor í átt til gengislækkunar. Annað mál er það, að leysa þarf ákveðin tæknileg vandamál í sambandi við það, að þessu fyrirkomulagi verði komið á. Og einmitt þess vegna er lagt til, að nefnd verði í þetta skipuð með þeim hætti, sem nánar er til tekið í þáltill. Það kemur náttúrlega ekki til mála, að þessi gjaldeyrir verði notaður til kaupa á almennum nauðsynjavörum, sem sérstaka þýðingu hafa fyrir verðlagsvísitöluna. Slíkan gjaldeyri yrði að nota til einhvers annars, og það ætti að vera tiltölulega auðvelt, án þess að það leiddi til verðhækkana, því að eins og við vitum, þá er það þegar þannig, að það er ekki nema tiltölulega lítill hluti af gjaldeyrisverzluninni, sem fer fram á skráðu gengi. Annars tel ég það í sjálfu sér aukaatriði, hvaða ráðstafanir mundu verða gerðar í þessum efnum, hvort í því efni væri farin sú leið, sem hér er bent á, eða einhver önnur. Aðalatriðið er það frá mínu sjónarmiði, að eitthvað verði gert til þess að ráða bót á því ófremdarástandi, sem nú ríkir í þessum málum.

Með tilliti til þess, að sá dráttur hefur orðið á því, sem raun er á, að hægt hafi verið að afgreiða þetta mál til nefndar, mundi það auðvitað ekki vera óeðlilegt, þar sem á næstunni eru væntanlegar till. hæstv. ríkisstj. í efnahagsmálum, að endanlegri afgreiðslu málsins verði frestað til þess tíma. Eftir sem áður sé ég ekki neitt því til fyrirstöðu, að það verði að svo stöddu afgreitt til n. og athugað þar, og vil leyfa mér að leggja til að þessari umr. lokinni, að málinu verði vísað til hv. allshn.