12.02.1958
Sameinað þing: 26. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 390 í D-deild Alþingistíðinda. (2788)

57. mál, ferðamannagjaldeyrir

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Máli því, sem hreyft er í þessari tillögu, er fyllsta ástæða til þess að veita athygli.

Það ríkir, eins og báðir hv. ræðumenn hafa tekið fram, ófremdarástand hér að því er varðar skipti við erlenda ferðamenn. Þetta mál hefur verið hér á döfinni áður, og ég hef einnig við það tækifæri látið í ljós þá skoðun mína, að fyllsta ástæða sé til þess að sinna þessu máli og veita því meiri athygli, en hingað til hefur átt sér stað.

Um það, er hv. síðasti ræðumaður vék að skiptum ákveðins ferðamanns við banka, sem selt hefði bankanum gjaldeyri og síðan keypt af honum gjaldeyri aftur, er að sjálfsögðu ekki við hlutaðeigandi banka að sakast, heldur eðli þeirra reglna, sem um þessi viðskipti gilda. Hér er um að ræða, að þegar ferðamaðurinn hefur keypt gjaldeyrinn aftur, hefur honum verið gert að greiða yfirfærslugjald, svo sem lögboðið er, eins og um íslenzkan kaupanda erlends gjaldeyris væri að ræða. En hér er vissulega um visst vandamál að ræða, undantekningartilfelli, sem mjög sjaldan mun eiga sér stað, að sami maður með tiltölulega stuttu millibili selji gjaldeyri og kaupi svipaða upphæð aftur. Er hér atriði til athugunar, ekki fyrir bankann, sem að sjálfsögðu getur ekki annað, en farið eftir gildandi lögum um þetta efni, heldur fyrir löggjafann eða framkvæmdarvaldið, ef hér væri hægt að ráða bót á með reglugerðarákvæðum, sem ég skal ekki fullyrða um.

Ég tel sem sagt, að þetta mál sé allrar athygli vert, og vildi taka undir það, að sú nefnd, sem fær málið til meðferðar, ræði það ýtarlega.

Til upplýsingar fyrir nefndina, sem málið fær væntanlega til meðferðar, vildi ég gjarnan óska þess, að hv. flm., sem auðsjáanlega hefur hugsað talsvert um þetta mál, gerði stuttlega grein fyrir eigin hugmyndum sínum um það, hvernig hann teldi koma til greina að greiða kostnaðinn af því viðbótargjaldi, sem erlendum ferðamönnum yrði gert að greiða, og svo hvað hann teldi þetta viðbótargjald hlutfallslega þurfa að vera hátt. Skoðanir hans um þetta efni mundu án efa geta verið nefndinni til nokkurrar leiðbeiningar um það, hvers konar vandi hér er á ferðum, þ.e. skoðanir hans um það tvennt, hvernig hann teldi koma til greina að afla fjár til þess að greiða hinum útlendu ferðamönnum hið nauðsynlega viðbótarfé og hversu hann teldi þetta gjald þurfa að vera hlutfallslega hátt.