12.02.1958
Sameinað þing: 26. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 399 í D-deild Alþingistíðinda. (2805)

61. mál, menntaskólasetur í Skálholti

Flm. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti, Ég og hv. 1. þm. N-M. erum sammála um það, að við höfum ekki séð búnaðarskólahúsið í Skálholti, svo að við þurfum í raun og veru ekki að spyrja, hvar það sé, en ég vil vona, að við þurfum ekki að spyrja um það, hvar peningarnir séu. Er nokkur hætta á því, að hæstv. fjmrh. hafi stungið af með þá? (Grip ið fram í?) Ég veit það ekki, ég játa það, en það er ekki mín aðdróttun. Að öðru leyti tek ég undir það, að áður en málið er tekið til lokaákvörðunar, þarf að athuga öll þau atriði, sem hv. 1. þm. N-M. sagði. Það er alveg rétt athugað hjá honum, að það er ekki hægt að ákveða það eitt að flytja menntaskólann að Skálholti, heldur þarf að taka ákvörðun um það, hvað við Skálholt eigi að gera. Mín till. fer ekki í þá átt að gera till. um að flytja menntaskólann að Skálholti, — ég vil vekja athygli á því aftur, — heldur einungis að athuga kostnaðinn við það, vegna þess að áður en menn fara að koma sér niður á endanlega ráðstöfun Skálholtsstaðar, þarf að gera sér grein fyrir, hvort ef til vill nú þegar sé búið að binda svo mikið fé í ráðstöfunum á Laugarvatni í sambandi við menntaskólann, að það sé fráleitt að gera till. um að flytja hann til Skálholts. Þetta er undirbúningsathugun, sem hér er gerð till. um að eigi sér stað. Ef menn vilja nú þegar taka upp rækilega athugun á öllu málinu, þá er ég sízt á móti því.

Ég vil að öðru leyti þakka hæstv. menntmrh. fyrir hans undirtektir. Það var ekkert í hans orðum, sem hné á móti minni till., enda mælti hann beinlínis með því, að hún yrði efnislega samþykkt, og vonast ég þá til, eftir að hún hefur fengið svo göfugan stuðning, að framgangur hennar eigi að vera tryggur. En ég vil til frekari skýringar einungis taka fram, að það er rétt, sem hæstv. ráðh, sagði, að allt hringi í þessum efnum er varhuga vert, og einmitt þess vegna geri ég ekki fortakslaust eða við flm. tillögu um það að flytja skólann. En þegar gerð er grein fyrir kostnaðinum við að flytja skólann, verður auðvitað jafnframt að gera sér grein fyrir, til hvers sé hægt að nota húsið, sem nú er búið að reisa á Laugarvatni í sambandi við menntaskóla eða hressa upp á það, sem áður var fyrir. Það verður auðvitað að gera áætlun um það, það er hluti af þessu, og hyggja mín er sú, að enn þá hafi sáralítið verið gert á Laugarvatni, sem ekki megi jafnvel eða betur nota til annarra þarfa, en til menntaskólans. Ég skal játa það hreinlega, að ég fékk á þessu máli aðra hugmynd, en ég hafði áður við að kynnast þessu máli þann tíma, sem málið heyrði undir mig sem ráðherra, og var það þó ekki fyrr en ég var búinn að starfa að því nokkuð lengi, að ég var orðinn sannfærður um það, að húsin, sem á Laugarvatni eru ætluð til mennta skóla núna, henta alls ekki til þeirra hluta. Þess vegna er það skoðun mín, en ekki byggð á ákveðnum tölum, að það muni í raun og veru verða ef til vill ódýrasta leiðin að breyta alveg til og byggja upp frá grunni í Skálholti.