21.02.1958
Sameinað þing: 29. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 402 í D-deild Alþingistíðinda. (2822)

74. mál, útvarpsrekstur ríkisins

Flm. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Till. þessi er á þá leið, að Alþ. feli ríkisstj. að láta endurskoða lög um útvarpsrekstur ríkisins, þannig að þau svari kröfum tímans um skipulags- og fjárhagsgrundvöll bæði fyrir hljóðvarp og sjónvarp, og leggja frv. að nýjum lögum fyrir næsta reglulegt þing.

Lög þau, sem útvarpsstarfsemi fer nú fram eftir hér í landinu, eru að verulegu leyti eða að nokkrum breytingum undanskildum frá árinu 1934. Mun ég vart þurfa að rökstyðja það, að svo gömul lög um nútíma tæknilegt fyrirbrigði, sem þróazt hefur ört með árunum, eru orðin um margt mjög úrelt. Gæti ég auðveldlega rennt augum í gegnum þessi gömlu lög og bent þar á fjöldamarga hluti, bæði tæknilegs eðlis og skipulagslegs eðlis, sem rökstyðja það, en vænti þess, að þess gerist ekki þörf.

Seinna atriðið í þessari till. er á þá lund, að þegar þessi löggjöf verði endurskoðuð nú, verði að setja í ný lög ákvæði varðandi sjónvarp á Íslandi. Ég er, eins og hér hefur komið fram áður, sannfærður um, að þessi nýja tækni, sjónvarpið, hljóti að koma hér og að Íslendingar muni hagnýta sér það eins og flestar aðrar þjóðir hafa gert. Munu allir vera sammála um, að það sé þá rétt að skipa þeim málum í einhverju samræmi eða samhengi við ríkisútvarpið, að sjálfsögðu í höfuðdráttum eins hvað það snertir, að þetta verði opinber rekstur. En margt er þó að athuga, sem gjarnan mætti hugsa fyrir strax. Sjónvarpstækninni fer það mikið fram, að kostnaður við þá hluti hefur farið ört lækkandi. Og að því er ég hef síðast frétt, mun nú vera hægt að kaupa minnstu sjónvarpsstöðvar, sem til eru, en þó fullkomna sjónvarpsstöð, fyrir um 15 þús. dollara, sem er eitthvað í kringum 250–200 þús. kr. Að sjálfsögðu mundi heilli þjóð ekki duga slík tæki til lengdar, en ástæðan fyrir því, að ég hef haldið því mjög fram, að við ættum að byrja snemma á þessari nýju tækni, er sú, að það mun taka þjóð eins og okkur tíma að þjálfa menn til slíkrar starfsemi. Við þurfum að ætla okkur hóflegan tíma til þess að byggja upp tækjakost okkar, þ.e.a.s. móttökutæki einstaklinganna, og við þurfum að fá reynslu í uppbyggingu dagskrár.

Ég held, að það væri hyggilegra að byrja þetta í mjög smáum stíl, öðlast þessa reynslu og byggja síðan á framtíðarskipun sjónvarps hér, heldur en bíða, eins og við ákaflega oft gerum í þessu landi, þangað til við uppgötvum allt í einu, að við erum orðin á eftir öðrum, og það er ráðizt í stórkostlegar og miklar framkvæmdir, sem við ef til vill ráðum ekki fullkomlega við. Þeir eru orðnir býsna margir Hæringarnir í okkar lífi, og ég legg til, að á þessu sviði, sem ég er sannfærður um að verði þáttur af okkar þjóðar- og menningarlífi í framtíðinni, ætti að fara hóflega og rólega af stað, en byrja fljótlega.

Ég gæti nefnt það, að við gætum hér á Íslandi notað sjónvarpið til kennslu og menningar meira, en aðrar þjóðir hafa gert. Þetta er að sannast erlendis í mjög vaxandi mæli. Nú fyrir nokkru gekk hópur manna vestur í New York undir próf í bókmenntafræðum. Þessir nemendur höfðu aldrei sézt, þeir höfðu aldrei séð kennara sinn, fyrr en þeir komu á prófbekkinn. Það hafði verið kennt fullkomlega gegnum sjónvarp, og tilraunin gafst ágæt- lega. Slíka hluti ættum við að hugsa um, sem höfum okkar dreifbýli og viljum af menning- arlegum ástæðum viðhalda því að vissu marki, og hér er vissulega um nýtt tæki að ræða, sem við gætum notað til margvíslegs gagns.

Ég skal svo ekki hafa þessa framsögu lengri, nema tilefni gefist til, en legg til, að umr. verði frestað og till. vísað til allshn.