18.12.1957
Efri deild: 45. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 209 í B-deild Alþingistíðinda. (283)

73. mál, kosningar til Alþingis

Frsm. minni hl. (Jón Kjartansson):

Herra forseti. Þetta þokkalega frv. er komið til okkar aftur, eftir að Nd. hafði gert á því lítils háttar breytingu. Breytingin, sem hæstv. fjmrh., sem lagði þetta frv. fram, beitti sér fyrir í Nd., er við 6. gr., að í stað orðanna „á næstu húsum og aðliggjandi götum“ komi: í næsta nágrenni. — Það er varðandi það, hvað megi framkvæma nálægt kjörstað, eða hafast að.

Ég hygg að ástæðan til þess, að hæstv. ráðh. flutti þessa brtt., hafi verið sú, að hann vildi koma í veg fyrir, að ákvæðið, eins og það var í frv., næði til hins nýja, væntanlega samkomuhúss Framsfl., sem er við sömu götu og aðalkjörstaðurinn í Reykjavík í miðbænum, barnaskólinn. En þetta kom við hjarta hæstv. ráðh., því að ekki má framkvæma neitt, sem skerðir rétt Framsfl. Hann má beita öllum þeim aðferðum, sem honum sýnist í kosningum. Það eru aðrir flokkar, er mega þola hömlur, en ekki hann.

Ég mun ekki fara að ræða þetta mál mikið úr þessu. Ég ætla að leyfa mér, hæstv. forseti, að leggja fram tvær brtt. Önnur brtt. er svo hljóðandi:

„Aftan við 2. gr. bætist ný málsgr., svo hljóðandi:

Aftan við 76. gr. laganna komi ný málsgr., þannig:

Þegar kosningar fara fram að vetri til, skulu kjördagar vera tveir.“

Til vara leyfi ég mér að flytja aðra till., svo hljóðandi:

„Ef yfirkjörstjórn í kaupstöðum telur, að óveður hafi verulega hindrað kjörsókn, getur hún, áður en kjörfundi er slitið, ákveðið, að kjördagar skuli vera tveir. Sama rétt hafa undirkjörstjórnir í einstökum kjördeildum utan kaupstaða til að ákveða, að kjördagar skuli vera tveir.“

Þetta er varatill.

Þetta er ekkert nýtt ákvæði í raun og veru. Við síðari alþingiskosningar 1942, haustkosningar, sem fóru fram í október, voru kjördagar ákveðnir tveir. Og við lýðveldiskosningarnar voru þeir ekki ákveðnir 2, heldur 4, kjördagarnir. Hvers vegna skyldi þetta hafa verið gert? Var ekki ætlunin sú að gera kjósendum auðveldara fyrir með að neita kosningarréttar síns? Hví í ósköpunum var Alþ. að gera þetta, að hafa kjördagana tvo við síðari kosningar 1942, því dugði ekki að hafa einn kjördag? Eftir stefnunni, sem nú er, hefði það verið vilji Framsfl. a.m.k., að sem fæstir kjósendur gætu neytt atkvæðisréttar síns, og þess vegna hefðu þeir mótmælt því að hafa kjördagana tvo. Vetrarveður eru þannig hér á landi, að það getur komið fyrir, að það hindri menn að sækja kjörfundi. Það vita þeir, sem nokkuð þekkja til í sveitum landsins. Og þetta hefur líka komið fyrir, að yfirkjörstjórnir hafa neyðzt til að fresta kosningum vegna illviðris.

Ég skal ekki hafa þessi orð fleiri, en leyfi mér að afhenda hæstv. forseta þessar brtt.