26.02.1958
Sameinað þing: 30. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 408 í D-deild Alþingistíðinda. (2836)

123. mál, réttindi vélstjóra á fiskiskipum

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Hinn 7. maí 1956 skipaði menntmrn. nefnd manna til þess að endurskoða gildandi lög og reglugerðir um vélfræðikennslu. Í þess- ari n. eiga sæti Þórður Runólfsson, formaður nefndarinnar, Davíð Ólafsson fiskimálastjóri og Steingrímur Jónsson rafmagnsstjóri.

5. júlí 1956 skipaði atvmrn. þriggja manna n. til þess að fjalla um eða til þess að endurskoða ákvæði laga um atvinnu við siglingar, nr.66 frá 1946, að því er snertir réttindi skipstjórnarmanna, þ.e.a.s. skipstjóra og stýrimanna. Í þeirri n. eiga sæti Friðrik Ólafsson skólastjóri, Einar Thoroddsen stýrimaður og Magnús Torfason prófessor. Það var þessi n., sem hv. flm. vék að í ræðu sinni áðan og skilaði bráðabirgðaáliti í fyrra. Á grundvelli þess bráðabirgðaálits afgreiddi Alþ. síðan ný lög eða breytingar á lögum um atvinnu við siglingar frá 1946, og voru þau staðfest 17. maí 1957. Á grundvelli þeirra hafa síðan verið haldin nokkur námskeið, ein þrjú námskeið, til þess að gera skipstjórnarmönnum kleift að afla sér nýrra réttinda, viðbótarréttinda til skipstjórnar. Hin n., sem þeir eiga sæti í Þórður Runólfsson, Davíð Ólafsson og Steingrímur Jónsson, starfar enn. Ég hef nýlega, af því að hún var skipuð af því rn., sem ég veiti forstöðu. gert ákveðnar ráðstafanir til þess, að starfi þeirrar n. ljúki alveg á næstunni. Hún fjallar einmitt um það mál, sem þessi till. fjallar um. Þess vegna er óþarfi að skora á ríkisstj. að láta hið fyrsta fara fram endurskoðun á lögum þeim um atvinnu við siglingar, er sérstaklega snerta réttindi vélstjóra, og undirbúa og leggja fyrir Alþingi frv. til laga um breytingar á þessu sviði til aukinna réttinda vélstjóranna, því að þessi n. er þegar búin að starfa í hátt á annað ár. Það er rétt, að það er of langur tími í máli, sem er jafnbrýnt og hér er um að ræða. Það hefur mér einmitt verið ljóst og hef því sem sagt alveg nýlega gert eindregnar ráðstafanir til þess, að n. ljúki störfum og skili tillögum.

Ég skal raunar einnig geta þess, að gert hefur verið ráð fyrir því, að þegar vélfræðinefndin hafi lokið störfum, beri þessar tvær nefndir saman bækur sínar að því er varðar menntun skipstjórnarmannanna og vélstjóranna og fari síðan aftur sameiginlega yfir störf sín og taki lögin um atvinnu við siglingar sem heild til endurskoðunar.

Ég skal geta þess, að sökum fjarvistar Davíðs Ólafssonar fiskimálastjóra nú um nokkurt skeið á næstunni hafa verið gerðar ráðstafanir til þess, að Þorsteinn Loftsson vélaeftirlitsmaður taki við störfum hans í nefndinni, þannig að engin töf þurfi að verða á því, að nefndin ljúki störfum vegna fjarvistar Davíðs Ólafssonar.

Ég vildi láta þetta koma fram til athugunar fyrir þá hv. n., sem fær málið til meðferðar. Samþykkt till. sem þessarar mundi ekki geta flýtt fyrir því, að þetta mál fái þann enda, sem það á að fá, þar eð málið er þegar í endurskoðun eða í athugun og hafa þegar verið gerðar þær ráðstafanir, sem unnt er, til þess að tryggja, að þeirri athugun verði lokið svo fljótt sem unnt er.