26.02.1958
Sameinað þing: 30. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 410 í D-deild Alþingistíðinda. (2844)

124. mál, kafbátur til landhelgisgæslu

Flm. (Pétur Ottesen):

Ég hef leyft mér að flytja hér þáltill. um aukna landhelgis- gæzlu og að í því sambandi sé ríkisstj. falið að athuga í samráði við forstöðumann landhelgisgæzlunnar, hvort hagkvæmt mundi aðnota kafbát til landhelgisgæzlu hér við land, og ef sú rannsókn leiddi í ljós, að þetta teldist vera hagkvæm endurbót og efling á landhelgisgæzlunni, yrði ríkisstj. heimilað að festa kaup á kafbát í þessu skyni og verja til þess fé úr landhelgissjóði.

Íslendingum er að sjálfsögðu mikil nauðsyn, að landhelgin hér við land sé vel varin, þetta arðgæfa tún þjóðar vorrar, ef svo mætti að orði kveða. Og nú liggur fyrir dyrum, að framkvæmd verði á þessu ári allmikil rýmkun eða útfærsla á því svæði, sem tekið verður undir íslenzka löggæzlu og Íslendingar einir mega stunda veiðar á, en þetta felur að sjálfsögðu í sér, að það verður að taka til nýrrar athugunar um tilsvarandi varnir í þessari stóru landhelgi, sem mörkuð verður hér við land.

Það er skoðun kunnugra manna, að sá skipafloti, sem landhelgisgæzlan hefur yfir að ráða hér, sé orðinn harla úreltur, þannig að það sé í raun og veru aðeins eitt skip af sex skipum landhelgisgæzlunnar, sem teljast megi þeim vanda vaxið að verjast ágangi togara, eins og þeir eru nú orðnir úr garði gerðir, þ.e. varðskipið Þór. Um næststærsta skip landhelgisgæzlunnar, Ægi, er það að segja, að hann hefur allt of lítinn ganghraða. Hann gengur ekki nema 12 sjómílur, en það er vitanlega hvergi nærri fullnægjandi ganghraði fyrir slíkt gæzluskip. Auk þess er þetta skip nú bundið við önnur mikilsverð störf og hefur verið nú um nokkur ár, fiskirannsóknir og leit að nýjum miðum. Meðan ekki er fengið annað betra og hentugra skip, sem þó er mikil þörf á, til þessara fiskirannsókna, verður Ægir að sjálfsögðu við þetta bundinn. Hin minni fjögur skipin, sem nú eru notuð til landhelgisgæzlu, koma hvergi nærri til neinnar hlítar að gagni við landhelgisgæzluna, eins og nú er komið. Hins vegar er mikilsvert starfssvið fyrir þau í sambandi við fiskibátana, sérstaklega á vetrarvertíðinni, því að það ber oft við, að vélar bila, og þarf þá að hafa tiltæk skip til þess að geta dregið þessa báta að landi, og hlutverk þessara fjögurra minnstu skipa landhelgisgæzlunnar er því, eins og nú er komið, fyrst og fremst að sinna þessu að sjálfsögðu mikilsverða starfi. Auk þess er á það bent hér í grg., að það mundi ef til vill þurfa að grípa til þessara minni skipa, þegar farið verði að skipuleggja fiskveiðasvæðin hér, eins og nú er allmikið talað um, þannig að viss veiðarfæranotkun verði bundin við viss svæði. Þá kemur náttúrlega þar til eftirlit, sem þessi skip mundu vel geta innt af hendi.

Eftir þeim upplýsingum, sem ég hef getað aflað mér um kafbáta eða hugsanlegan möguleika til nota á kafbátum í þessu skyni, hef ég fengið þær upplýsingar, að hvorki kaupverð þessara skipa né rekstrarkostnaður þeirra þyrfti neitt að vaxa okkur sérstaklega í augum, að hann yrði nokkuð meiri eða þungbærari, en tilsvarandi annarra skipa, sem inntu líkt starf af höndum, og mér er einnig sagt, að það mundi ekki verða neinum sérstökum erfiðleikum bundið að geta fengið kafbát, sem mundi þéna til þessarar starfsemi. En ég hef ekki í þessari till. gengið lengra en það, eins og líka sjálfsagt er, að mjög nákvæm athugun fari fram um þessa hluti. En hitt er óhjákvæmilegt, eins og nú er, að það verður að auka skipastól landhelgisgæzlunnar, bæði með tilliti til þeirrar landhelgi, sem nú er, og það þarf náttúrlega því fremur, þegar landhelgin stækkar, eins og gengið er yfirleitt út frá að gert verði á þessu ári, fyrr eða síðar.

Kafbátur mundi þéna vel til þessara starfa. Kafbátar geta siglt bæði ofan- og neðansjávar, og þegar þeir sigla ofansjávar, ber lítið á þessum skipum, en togararnir hafa nú, eins og kunnugt er, orðið góð tæki til þess að fylgjast með öllum skipaferðum, og á venjulegum skip- um er orðið mjög erfitt að komast að þessum skipum við ólöglegar veiðar eða getur verið svo í mörgum tilfellum. Hins vegar er það vitað, að sú flugvél, sem nú um skeið hefur verið notuð við landhelgisgæzluna, hefur komið að ákaflega miklu liði, og það eru að sjálfsögðu miklar vonir bundnar í sambandi við landhelgisgæzluna við fluggæzluna.

Flugvélin hefur gefið þá raun, að við vitum, að hún verður ávallt sterkur þáttur í landhelgisgæzlunni. Hins vegar eru henni takmörk sett, þannig að með henni þurfa að vera í starfinu öflug landhelgisgæzluskip, sem hafa mikinn ganghraða og geta boðið skipum, sem brotin eru á landhelgislögin, byrginn og náð þeim, til þess að fram verði komið sektum fyrir brotin.

Það er þess vegna ekki neinn vafi á því, að með nauðsynlegri aukningu á skipastól landhelgisgæzlunnar getur tekizt mjög mikið og gott samstarf á milli gæzluskipanna og flugvélarinnar, og við það samstarf getum við bundið miklar vonir um, að landhelgin geti orðið vel varin í framtíðinni, svo sem okkur líka ber mikil nauðsyn til.

Ég vænti þess, að það verði greidd gata þessarar tillögu hér og sú rannsókn, sem þar er bent til að fram fari, verði framkvæmd, og ef hún svo leiðir í ljós jákvæðan árangur, þá verði horfið að því ráði að kaupa kafbát til gæzlunnar.

Ég vildi svo leyfa mér að lokinni þessari umr. að leggja til, að þessari till. verði vísað til fjvn.