05.03.1958
Sameinað þing: 32. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 415 í D-deild Alþingistíðinda. (2850)

132. mál, skipaferðir milli Austfjarða og útlanda

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Þessi till. á mikinn rétt á sér, og ég vildi sízt verða til þess að mæla á nokkurn hátt á móti henni.

Hv. flm. þessarar till, minntist á það, að það, sem hér væri farið fram á, væri ekkert nýtt, því að það hefði verið áður svo, að millilandaskip hefðu komið upp að Austfjörðum. En þau komu víðar við, t.d. Bergenska gufuskipafélagið, þegar það var í förum hér, og jafnvel Eimskipafélag Íslands. Ég man vel eftir því, að skip Bergenska félagsins komu upp til Austurlandsins, ég hygg á Seyðisfjörð, síðan komu þau til Akureyrar, Siglufjarðar og Ísafjarðar. Þetta voru þeirra viðkomustaðir á leiðinni til Reykjavíkur. Og svo mun oft hafa verið með önnur þau skip, sem hér gengu. Ég vildi því aðeins beina því til þeirrar hv. n., sem fær þetta mál til meðferðar, hvort ekki væri rétt að gera till. víðtækari, en hún er hér flutt og hún yrði á þá leið, að viðkomustaðir skipa, sem koma frá útlöndum, yrðu á Austfjörðum; þar sem það þætti hentugast þar, kæmu þau að landi, og síðan kæmu þau við t.d. á sömu stöðum og áður tíðkaðist um mörg ár og ég hygg áratugi. Ég hygg, að það megi benda á, að tveimur öðrum landsfjórðungum væru sömu hagsmunir að því, að þetta mætti verða, eins og Austurlandi yrði að framkvæmd þeirrar hugmyndar, sem í till. felst.