05.03.1958
Sameinað þing: 32. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 415 í D-deild Alþingistíðinda. (2854)

145. mál, viti við Ísafjarðardjúp

Flm. (Sigurður Bjarnason):

Herra forseti. Ég hef leyft mér ásamt hv. þm. Ísaf. (KJJ) að flytja till. um vita við Ísafjarðardjúp, þar sem lagt er til, að ríkisstj. verði falið að láta hið fyrsta auka ljósmagn vitanna við Ísafjarðardjúp, þannig að þeir fullnægi betur þörfum sjósóknar og siglinga á þessum slóðum. Jafnframt er lagt til í till., að sett verði upp ratsjá á Arnarnesi eða öðrum þeim stað, þar sem sérfróðir menn telja mest gagn að slíku öryggistæki.

Síðan byrjað var að byggja vita hér á Íslandi, munu nú vera liðin um það bil 80 ár. Fyrsti vitinn, sem hér var byggður, var gamli Reykjanesvitinn, sem byggður var árið 1878. Fyrst framan af gekk bygging vitanna á strandlengju Íslands mjög hægt sökum fjárskorts, en nú eru á ströndum Íslands samtals 102 vitar, sem taldir eru á vitaskrá vitamálaskrifstofunnar. Enn fremur eru til viðbótar um 50 leiðarljós og auk þess nokkrar ljósbaujur.

Að þessu vitakerfi og leiðarljósum er að sjálfsögðu stórmikið gagn og öryggi fyrir siglingar meðfram ströndum landsins og fyrir sjósókn frá hinum mörgu verstöðvum á strönd landsins. En ýmsir þessara vita eru nú orðnir gamlir og fullnægja ekki þeim kröfum, sem gerðar eru í dag af hálfu sjófarenda til slíkra öryggistækja. Í þeirra hópi má telja þá vita, sem nefndir eru í till. okkar hv. þm. Ísaf. og enn fremur í grg. hennar.

Sjómenn vestra hafa hvað eftir annað kvart- að undan því, að þessir vitar á Arnarnesi við Skutulsfjörð og Óshólum við Bolungavik séu allt of daufir og nauðsyn beri til þess, að ljósmagn þeirra sé aukið, til þess að þeir skapi það öryggi, sem til er ætlazt. Á það má benda, að fjöldi báta stundar fiskveiðar frá þessum ver- stöðvum og mjög mikil umferð er um Ísafjarðardjúp, bæði af fiskibátum, verzlunarskipum og flutningaskipum, sem flytja vörur, farþega og afurðir til og frá þessum landshluta. Til þess ber því brýna nauðsyn, að ljósmagn þessara vita verði aukið, og með till. þessari leggjum við til, að vitamálastjórninni verði falið það og þeirri framkvæmd komið hið fyrsta í kring. Enn fremur bendum við á það í grg. till., að nauðsynlegt sé að auka ljósmagn vitans á Sléttu í Jökulfjörðum, sem fyrst og fremst hefur verið gerður vegna smávélbáta, sem stunda veiðar þar, en einnig getur orðið að gagni fyrir umferð um utanvert Ísafjarðardjúp. Á það má benda í þessu sambandi, að innlend og erlend skip leita oft skjóls inni í Jökulfjörðum í óveðrum, og þess er skemmst að minnast, að einn íslenzkur togari strandaði einmitt á þessum slóðum fyrir örfáum árum, Egill rauði, sem strandaði við Grænuhlíð, eyðilagðist og fórst þar. Einnig á þessum stað er þess vegna nauðsynlegt að sé ljósmagnsmeiri viti, en þar er nú.

Þá leggjum við til í þessari till., að jafnframt því sem ljósmagn tilgreindra vita verði aukið, verði sett upp ratsjá á Arnarnesi. Að slíku öryggistæki er mjög mikið gagn. Fáir fiskibátar hafa hins vegar fengið þessi dýru tæki enn þá. Í framtíðinni má e.t.v. gera ráð fyrir því, að fleiri vélbátar, sem stunda landróðra, fái slík tæki, en meðan þeir hafa það ekki, væri mjög gagnlegt, að við nokkrar helztu verstöðvar landsins væru settar upp ratsjár í sambandi við vitana. Að slíku tæki væri fluginu á Vestfjörðum einnig mjög mikið gagn. Enn þá verður að halda uppi flugsamgöngum við Vestfirði með tiltölulega ófullkomnari og eldri gerðum flugvéla, en við aðra landshluta. Vestfirðir og flugsamgöngurnar við þá mega því illa við því, að verr sé búið að þessum landshluta um öryggistæki, en öðrum landshlutum. Það er því ábending okkar og till., að sett verði upp ratsjá á þessum stað eða öðrum, þar sem sérfróðir menn teldu að mest gagn yrði að því.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að fara fleiri orðum um þessa till. Ég leyfi mér að óska þess, að umr. verði frestað og till. vísað til hv. fjvn.