18.12.1957
Efri deild: 45. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 210 í B-deild Alþingistíðinda. (286)

73. mál, kosningar til Alþingis

Jóhann Jósefsson:

Ég hef nú í seinni tíð og raunar fyrr, oft heyrt á það minnzt, hvað á vetrardag getur verið slæmt að vera bundið við að ljúka kosningum á einum degi, enda eru alþingiskosningarnar á betri árstíma, þegar hægara er að koma því við að ljúka kosningum á einum degi.

Ef tilgangur löggjafans er sá, sem hann á að vera, sem sé að greiða fyrir því, að menn geti notað kosningarrétt sinn, þá held ég a.m.k. hvað kosningar til sveitarstjórna og bæjarstjórna áhrærir, að það væri réttara að hafa það fastákveðið, að það skyldi gerast á tveim dögum, eins og mér skilst að önnur brtt. fari fram á. Nú er, að mér skilst, lagaskylda, að kosningar til bæjarstjórna og hreppsnefnda í kauptúnum fari fram að vetrinum til, í janúarmánuði. Og þá hefði ég búizt við því, að meðal þeirra breytinga, sem nefndin fræga, sem oft hefur verið nefnd, mþn., kæmi með á sínum tíma, yrði það eitt atriðið að leyfa eða lögbjóða, að til slíkrar kosningar að vetri til, í bæjum og kauptúnum, skyldu notaðir tveir dagar, og væri náttúrlega réttara, að slík breyting kæmi frá nefndinni, eins og það hefði verið réttara, að frv. þetta, sem hér liggur fyrir, yfir höfuð breytingar á þessum lögum um kosningar til Alþ. hefðu komið vel undirbúnar frá þeirri hv. nefnd, heldur en hæstv. ríkisstj, hlypi í það á þann hátt, sem margsinnis hefur verið lýst, á þann flausturslega hátt, sem hefur verið lýst hér, að koma með einstök atriði í þessum málum til breytinga, eins og frv. ber með sér.

Það vita nú allir, hvernig það var hér í þessari hv. deild, þar sem þetta frv. var lagt fyrst fram, að það var ákaflega illa í garðinn búið, og meðferð hv. nefndar á því hér og deildarinnar sýndi, að það var illframbærilegt, eins og það var fyrst lagt fram. Síðan fer það til hv. Nd., og í upphafi þessara umr. hér lýsti hæstv. fjmrh. því yfir, að enn hefði verið gerð breyting í Nd. til þess, eins og mér skildist hann ætla okkur að skilja, að gera visst ákvæði, þ.e. ákvæði 6. gr. um auðkenni á húsum, sem væru nálægt kjörstað eða eitthvað því um líkt, svo að enn þá þurfti umbóta við að hans dómi, og hefur sú umbót, sem hann vildi þar að koma, þegar komizt inn í þetta frv.

Ég álít, að úr því að farið er að hafa þennan hátt á, sem kannske verður í fleiri áföngum, þó að þetta sé sá fyrsti, að hlaupa fram fyrir hv. mþn. og koma með breytingar á kosningalögunum, eins og hér liggur fyrir, þá eigi sú brtt., sem hv. þm, V-Sk. (JK) var að leggja hér fram um að hafa kjördagana tvo, fullan rétt á sér, og ættu sérstaklega þeir, sem búa í fjölbýli, að skilja, að í örðugustu vetrarmánuðum er það skynsamleg tilhögun að ætla tvo daga til þessara kosninga.

Það er nú búið að ræða mikið um þetta mál í báðum hv. deildum Alþ., að mönnum kannske leiðist, að það sé farið að orðlengja um það meir. En þó ætla ég, að það hafi ekki verið rætt um skör fram. Ég var t.d. í gær staddur í hv. Nd. sem áheyrandi og heyrði hæstv. fjmrh., sem aðallega hefur tekið að sér forustu í þessu máli og virðist leggja mikið kapp á að knýja það fram núna fyrir hátíðirnar, halda þar langa ræðu, þar sem hann virtist alltaf rugla hugtökunum kjörklefi og kjörfundur saman, því að hann margendurtók það í sinni ræðu, að sjálfstæðismenn vildu hafa leyfi til að hafa mann til uppskrifta eða til minnisskriftar í kjörklefum. Ég veit ekki, við hvaða málvenju hæstv, ráðh. er upp alinn í því efni, en ég hef frá því fyrsta, að kosningar fóru fram á þennan hátt, alltaf heyrt og skilið, að kjörklefi væri það afþiljaða horn eða herbergi innan kjörfundarstofunnar, sem kjósandanum er ætlað að vera einum í, og nokkurs konar helgur staður kjósandans, til þess að enginn geti að því komizt, hvernig hann krossar eða ritar á sinn kjörseðil. Og mér þótti undarlegt að heyra það, að hæstv. ráðh. skyldi alltaf tala um kjörklefa, þegar hann eftir eðli málsins, hlaut að eiga við kjörfundarstofu.

Svo sé ég það nú hér á þessu frv., að þar er komið orðalag, sem skýrir þetta. En sé því haldið fram gagnvart almenningi, að sjálfstæðismenn eða einhverjir aðrir flokkar vilji hafa uppskrift á kjósendum af sendimönnum eða trúnaðarmönnum í kjörklefa, þá er það náttúrlega mesti misskilningur.

Nú hljóðar 6. gr. þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„3. töluliður 139. gr. l. orðist svo: Að reyna að hafa áhrif á atkvgr., hvort heldur er með ræðuhöldum, prentuðum eða skriflegum ávörpum eða auglýsingum, með því að bera eða hafa uppi flokksmerki, merki lista eða önnur slík auðkenni á sjálfum kjörstaðnum, þ.e. í kjörfundarstofu, kjörklefa eða annars staðar í eða á þeim húsakynnum, þar sem kosning fer fram, svo og í næsta nágrenni.“

Þetta orðalag er miklu skiljanlegra og nær viti og síður hætt við, að af því skapist misskilningur eða ágreiningur þeirra, sem við þessi lög eiga að búa.

Ég veit ekki, hvort hv. Nd. hefur gert nokkuð við básúnuna, sem ég leyfði mér að nefna svo. Það var, held ég, um hávaða í hornum. Bíðum nú við. Það var eitthvað bannað að hafa hátalara, og ég talaði um það við meðferð málsins þá hérna í deildinni, hvort það bann við hátalara ætti að ná yfir allan bæinn, meðan á þessari athöfn stæði. Jú, ég sé nú raunar, að þetta gjallarhorn er enn þá í huga hæstv. ríkisstj., því að 7. gr. hljóðar svo enn, þ.e.a.s. síðari liður hennar, með leyfi hæstv. forseta: „Að hafa flokksmerki, merki lista eða önnur slík auðkenni á bifreiðum, meðan kjörfundur stendur yfir, svo og að nota gjallarhorn til áróðurs á sama tíma.“ Þarna eru því engin takmörk sett, hvar það gjallarhorn má í veröldinni vera, og er þó talsvert einkennilegt, ef ekki mætti, jafnvel þótt það væri kjörfundardagur, hafa hátalara á húsi eða jafnvel skulum við segja bíl, sem væri fjarri kjörstað. En eins og gr. er enn, þá er ekki að sjá annað, en þetta gildi í hvaða fjarlægð sem um er að ræða frá kjörstaðnum.

Ég vil fyrir mitt leyti nota tækifærið til þess að koma fram með brtt. við þetta orðalag, til þess að því væru þá einhver takmörk sett með gjallarhornið. Nú eru menn t.d. oft og tíðum með verzlunarauglýsingar, þar sem gjallarhorn eru notuð, og kalla saman fundi og samkomur líka með gjallarhorni, og ég vildi þess vegna, að hæstv. forseti leyfði mér litla stund til þess að skrifa stutta breytingartillögu við þessa grein, og ég skal taka það fram, að hún er eingöngu flutt til þess að gera þetta ákvæði skýrara.

Ég skal þess vegna yfirgefa ræðustólinn í því trausti, að hæstv. forseti leyfi mér tvær eða þrjár mínútur til þess að semja brtt. við þessa 7. gr. í því skyni, sem ég nú lýsti.