23.04.1958
Sameinað þing: 40. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 419 í D-deild Alþingistíðinda. (2863)

161. mál, gjaldeyrisafkoma

Flm. (Ólafur Björnsson):

Herra forseti. Það hefur oft verið um það kvartað af hálfu stjórnarvalda landsins, að umr. um efnahagsmál á almennum vettvangi, í blöðum, á mannfundum o.s.frv. væru ekki svo málefnalegar sem skyldi og torveldi slíkt skynsamlega lausn þessara mála. Án efa má þetta oft til sanns vegar færa. En hitt ber að hafa hugfast í þessu efni, að grundvöllur þess, að almenningur geti áttað sig á þessum málefnum, hlýtur alltaf að vera sá, að sem víðtækastar upplýsingar um hina einstöku þætti þessara mála séu fyrir hendi hverju sinni, en því hefur mjög verið ábótavant hér hjá okkur, að svo sé.

Á þessu þingi hafa af okkur sjálfstæðismönnum verið fluttar nokkrar till., sem miðað hafa að því að bæta nokkuð úr sumum verstu annmörkunum, sem hér er um að ræða. Má þar nefna till., sem flutt var af hv. 1. þm, Reykv. um skýrslugerð um niðurgreiðslur úr ríkissjóði. Sú till. hefur nú fengið fullnægjandi afgreiðslu. Fyrr á þessu þingi hef ég einnig flutt till. um athugun á vísitöluútreikningi og vísitölufyrirkomulagi, en sú till. hefur ekki enn þá verið afgreidd frá þeirri hv. þn., sem hana fékk til meðferðar, hvað sem því veldur. Þriðja till. af þessu tagi er svo sú, sem hér liggur fyrir um skýrslusöfnun um gjaldeyris- afkomu.

Í þáltill. er gert ráð fyrir, að þessi skýrslusöfnun verði þríþætt: í fyrsta lagi skýrslur um gjaldeyrisaðstöðu bankanna á hverjum tíma, sundurliðaða eftir helztu tegundum gjaldeyris, í öðru lagi skýrslusöfnun um erlendar skuldir og breytingar, sem á þeim hafa orðið, og svo í þriðja lagi skýrslusöfnun um birgðir útflutningsafurða annars vegar og innfluttrar vöru.

Hvað fyrsta atriðið snertir, skýrslur um gjaldeyrisaðstöðu bankanna, þá er þar aðeins um að ræða þá einu breytingu frá því, sem nú er, að gert er ráð fyrir því, að skýrslurnar séu oftar birtar, en nú er gert. Landsbanki Íslands hefur birt skýrslur um þetta efni eftir hver áramót að undanförnu, en hér er lagt til, að þessar skýrslur verði birtar ársfjórðungslega. Þar er aðeins um það að ræða að birta skýrslur, sem þegar mun vera safnað.

Hvað snertir upplýsingar um erlendar skuldir og breytingar á þeim, hafa slíkar skýrslur að undanförnu verið birtar árlega af Landsbanka Íslands, þannig að þar er ekki um að ræða neina breytingu frá því, sem nú er.

En helzta nýmælið í þessu efni, sem till. gerir ráð fyrir, er það, að safnað sé upplýsingum um birgðir útflutningsafurða og birgðir innfluttrar vöru. Á þessu eru nokkrir tækni- legir örðugleikar, það er mér fyllilega ljóst, en hins vegar ber að hafa það hugfast, að allar skýrslur um gjaldeyrisafkomuna hljóta að verða mjög ófullnægjandi, ef ekki er safnað skýrslum um þetta atriði. Þó að t.d. gjaldeyrisaðstaða bankanna kunni á einhverju tímabili að hafa batnað, mundi það gefa villandi mynd, ef það lægi eingöngu í því, að birgðir innfluttrar vöru eða útflutningsafurða hefðu minnkað að sama skapi eða jafnvel meira á því tímabili, sem um er að ræða, og auðvitað á það á sama hátt við, að þó að um versnandi gjaldeyrisaðstöðu sé að ræða hjá bönkunum, mundi það ekki út af fyrir sig gefa rétta mynd af þróuninni, ef birgðir af útflutningsafurðum og innfluttri vöru hefðu aukizt tilsvarandi eða meira á sama tíma, svo að um það ætti ekki að vera neinn ágreiningur, að fullnaðarmynd af gjaldeyrisafkomunni og breytingum, sem á henni verða, fæst ekki, nema um þetta sé safnað skýrslum.

Hvað snertir birgðir útflutningsafurða, mun Fiskifélag Íslands nú þegar hafa með höndum söfnun skýrslna um það atriði, svo að á því ættu ekki að vera svo ákaflega miklir örðugleikar að fá upplýsingar um það. Hitt verður öllu torveldara, það er mér ljóst, að safna fullnægjandi skýrslum um breytingu á birgðum innfluttrar vöru. Þess má þó geta, að það er gert ráð fyrir því í þáltill., að þessum skýrslum verði safnað eftir hver áramót, en birgðatalning fer einmitt fram hjá öllum fyrirtækjum um það leyti. Ef ekki þætti tiltækilegt að safna skýrslum um birgðir allrar innfluttrar vöru, gæti það þó gefið rétta mynd af þróuninni — og það er það, sem er aðalatriðið í þessum efnum — að taka nokkra þýðingarmestu vöruflokkana, sem væru þess eðlis, að tiltölulega auðvelt væri að fá um það upplýsingar.

Að öðru leyti tel ég að þáltill. þessi þurfi ekki nánari skýringar við. En einu atriði vildi ég þó aðeins vekja athygli á til leiðbeiningar og skýringar fyrir þá hv. þn., sem má] þetta fær til meðferðar. Í till. er gert ráð fyrir því, að gjaldeyrisskuldir bankanna og innstæður bankanna í erlendum gjaldeyri séu sundurliðaðar eftir tegundum gjaldeyris, eins og það er orðað. Einn af starfsmönnum hagdeildar Landsbankans, sem ég ræddi þetta mál nokkuð við, áður en ég lagði till. mína fram, vakti athygli mína á því, að bankanum kynni, ef til vill að þykja varhugavert að gefa nánari sundurliðun á þessu, en nú væri gert. Því vil ég taka það fram til að fyrirbyggja hugsanlegan misskilning, að ég hafði ekki hugsað mér, að þessi sundurliðun yrði nánari, en nú er. Nú gera bankarnir gjaldeyrisaðstöðuna upp á þann hátt, að skipt er í EPU-gjaldeyri, clearinggjaldeyri og dollaragjaldeyri, en ég hafði ekki hugsað mér, að á þessu yrði gerð nein breyting frá því, sem nú er. Finnst mér rétt að taka þetta fram til skýringar.

Að öðru leyti legg ég til, að þessari umr. verði frestað og málinu vísað til hv. allshn.